Helgarpósturinn - 12.01.1984, Síða 18

Helgarpósturinn - 12.01.1984, Síða 18
MYNDLISTARÁRIÐ '83 Samskiptin Holland — ísland Hvað getur maður sagt um kollegana þeg- ar maður lítur til baka til ársins 1983? Þá lendir maður í þeim ósköpum að verða kjaft stopp. Og maður hugsar sem svo að það séu margar viðkvæmar sálir sem tækju það óstinnt upp ef maður segði það sem manni býr í brjósti. Þar af leiðandi tek ég þann pól í hæðina að segja helst ekki neitt og vera eins ópersónulegur og ég get. Arið 1983 hefur, eins og öll önnur ár, verið því marki brennt að vera ár sýningaflóðs. Árið byrjaði þó nokkuð vel með sýningu tveggja góðra listamanna í Nýlistasafninu 8. janúar, Jörgen Bruun Hansen múrara og Dagmar Rhodius og þetta virtist lofa góðu. Á sama tíma var opnaður á Kjarvalstöð- um stóri textíltríenallinn (vefnaðarsýning) sem kannski verður sá síðasti ef marka má blaðaskrif. í byrjun febrúar var opnuð mjög athyglis- verð sýning að Hringbraut 119 sem kallaðist Gullströndin andar og setti af stað „víbra- sjónir“ hjá mörgum þeim sem hugsað höfðu sér lífið átakalaust. Viku seinna var opnuð á Kjarvalsstöðum sýning sem undirstrikaði þessar víbrasjónir og kölluð var Ungir myndlistamenn og síðar UM. Juku sýningar þessar gildi hvor annarrar. Hér tekur við Magnús Kjartansson í List- munahúsinu, snoðrakaður með vindil í kjaft- inum og sýnir myndir unnar með tækni ljós- næmi og hans eigin sálar, og tekst nokkuð vel. f mars er sýning á Kjarvalsstöðum kennd við kirkju og væntanlega trúarbrögð en ég á von á að hún hafi farið framhjá stór- um hluta starfandi myndlistarmanna vegna þunglamalegs skipulags, því miður. Bar hún þess merki að vera það sem kallað er yfir- skipulögð og gleyma því að það er kúnstner- inn í nútíð og fortíð sem skiptir máli. I mars sýna sjö nýlistamenn svokallaðir í Listmunahúsinu. Má ætla það beint fram- hald af Gullströndinni og UM? Upp úr miðjum apríl opnar gamall súmari á Kjarvalsstöðum og er það Vilhjálmur Bergsson og sýnir þar viddir sem honum ein- um er lagið. í maí er Brynhildur Þorgeirsd. með sterka sýningu á Nyló og sýnir þar skúlptúr unninn í gler og steinsteypu. Sumarið var fremur rólegt en í byrjun september er Hagsmunafélag myndlista- manna með stóra samsýningu á Kjarvals- stöðum — nokkuð misjöfn sýning en þó margir góðir sprettir. Þegar líða tekur á haustið og fólk búið að jafna sig eftir sumarfríið opnar Ragnar Kjartansson í Listmunahúsinu sýningu á keramikskúiptúr og lágmyndum, stórgóða og skemmtilega og var þetta fyrsta einka- Frá sýningu Hollendinganna I Nýlistasafninu —• sýningaskiptin risu hæst á árinu. eftir Ólaf Lárusson sýning kappans í mörg ár; svo sannarlega tími til kominn. Listasafn íslands heldur stóra yfirlitssýn- ingu á hinum frábæra myndlistamanni og myndlista-pedagog Herði Ágústssyni. Því miður vantaði margt inn í sýninguna til að gera hana eins góða og efni standa til, t.d. hlut Harðar í útlitshönnun og þátt hans í Birtingi. Nú eru ótaldar þær tvær mikilvægustu á árinu; er það annarsvegar samsýning Hollendinga hér og íslendinga í Fodorsafn- inu í Amsterdam. Eg held að öðru ólöstuðu séu sýningaskipti þessara þjóða það sem hæst rís árið 1983. Og vonandi verður fram- hald þar á í framtíðinni. Myndlist á íslandi hefur undanfarið orðið fyrir dóminerandi áhrifum frá Evrópu og þá helst Þýskalandi, þar sem expressjónismi virðist vera einhverskonar einkenni, en á hinn bóginn fara ítalir hina ljóðrænu leið; hvorttveggja virðist henta okkur vel og ekki er að sjá annað en að útkoman af þeirri blöndu hafi orðið þokkaleg. Mörgum finnst þetta kannski skrítið og fulldjúpt í árinni tek- ið að bera okkur, þessa sjálfstæðu söguþjóð, saman við eitthvað sem á sér stað úti í heimi, en nú er stællinn sá að sért þú góður kúnstn- er þá áttu ekkert eitt föðurland: þú ert international. POPPÁRIÐ '83 eftir Gunnlaug Sigfússon Það þykir jafnan hæfa í lok hvers árs að gera upp alla mögulega og ómögulega hluti. Gagnrýnendur hafa þá gjarnan sett upp ein- hverslags lista yfir það besta sem að þeim hefur snúið, hverjum og einum. Hér á eftir er úttekt mín á þeim tíu plötum sem mér þóttu hvað merkastar á því ári sem nú er nýliðið. Listi sem þessi er nú kannski meira til gam- ans gerður, heldur en að það eigi að taka hann of hátíðlega. 1. The Undertones — The Sin Of Pride Það var nokkuð áberandi með árið 1983 að hljómsveitir voru að gefa út góðar plötur en hættu svo skömmu eftir útkomu þeirra. Þannig var þessu farið með Fun Boy Three, Soft Cell, Yazoo og Undertones. Plata þeirra síðastnefndu, The Sin Of Pride, var að mínu mati það langbesta sem þessir norður-írsku strákar sendu nokkru sinni frá sér. Á henni er að finna popptónlist í hæsta gæðaflokki. Áhrifin eru víða að, en þó eru áhrif soul tón- listar sjöunda áratugarins einna mest áber- andi, og svipaðra áhrifa gætti einnig á mörg- um öðrum góðum plötum sem út komu á ár- inu. Það er mér með öllu óskiljanlegt að The Sin Of Pride skyldi ekki seljast betur en hún gerði og það er almennt álitið að dræm sala á henni hafi átt stóran þátt í þvi að hljóm- sveitin hætti. Það var leitt að svo fór því þeir höfðu lagt sig alla fram við að gera góða plötu og tekist það. 2. Elvis Costello — Punch The Clock Það hafa fáir eða engir sent frá sér jafn margar góðar plötur og Elvis Costello hefur gert á síðustu sex árum og á nýliðnu ári bætt- ist enn einn góður gripur í safnið, sem er platan Punch The Clock. Costello hefur nær allt til að bera. Hann er góður lagasmiður, textahöfundur og söngvari. Hann hefur góða yfirsýn yfir hvað hefur verið að gerast í poppheiminum undanfarna áratugi og hef- ur haft lag á að notfæra sér þá þekkingu í tónlistarflutningi sínum. Á Punch The Clock eru áhrif gamallar soul tónlistar áberandi en þó ekki meir en svo að Costello glatar ekki sínum sérkennum. 3. Tom Waits-Swordfishtrombones Tom Waits er annað nafn sem kemur upp í hugann ef ég ætti að nefna einhverja sem ekki hafa sent frá sér annað en góðar plötur hingað til. Swordfishtrombones er plata sem Asylum hljómplötufyrirtækið, sem gefið hef- ur út Tom Waits fram að þessu, neitaði að gefa út. Þess vegna hefur hann nú fært sig yfir á annað merki. Hvers vegna Asylum neitaði útgáfu get ég engan veginn skilið, því þessi plata er ein sú besta sem Waits hefur sent frá sér fram að þessu. Hún er nú ekkert sérlega aðlaðandi í fyrstu en venst óhemju- vel. Waits semur sérlega ljúfar laglínur en þær eru oft faldar undir hrjúfu yfirborðinu. Text- ar hans eru góðir og söngurinn einstakur. 4. Soft Cell — The Art Of Falling Apart The Art Of Falling Apart var ein af fyrstu plötum ársins 1983 og raunin varð sú að það sem eftir lifði árs komu ekki út margar betri. Tónlist þeirra flokkast víst undir tölvupopp, en tónlist þeirra er þó öllu þyngri en flestra slíkra sveita sem trónað hafa á vinsældalist- um. Soft Cell var eitt af þessum ágætu nöfnum sem ég minntist á hér að framan, sem hættu starfsemi á árinu. Þetta var dúett og var það Dave Bell, sem sá um nær allan hljóðfæra- leik og hefur hann góð tök á þessum ýmsu hljóðgervlum. Söngvarinn var Marc Almond sem um margt er sérstæður náungi og ágæt- ur söngvari. 5. Miles Davis — Star People Það voru áreiðanlega margir búnir að af- skrifa Miles Davis. Gamli maðurinn lætur þó ekki að sér hæða, því platan Star People er sú besta sem hann hefur sent frá sér í árarað- ir. Bestu lögin á henni lt Gets Better og Star People eru mjög blúskennd. Miles fer sjálfur víða á kostum á plötunni en stjarna hennar er þó, að öðrum ólöstuðum, gítarleikarinn John Scofield. Með Star People kom Miles Davis sér aftur í fremstu röð — á því er enginn vafi. I 6. The The — Soul Mining The The er nafn á hljómsveit, sem er eigin- lega engin hljómsveit lengur. Þetta er eigin- lega bara náungi sem heitir Matt Johnson og hvort sem það verður undir því nafni eða nafni The The, þá er ég viss um að hann er maðúr sem á eftir að gera góða hluti í fram- tíðinni. Soul Mining er plata sem kom mér sérlega á óvart. Áhrifin i tónlistinni eru víða komin að og eiginlega má segja að helsti galli henn- ar sé að það er nánast vaðið úr einu í annað og heildarútkoman verður því frekar sund- urleit. En þarna skýtur sem sagt upp mörg- um hugmyndum og það flestum góðum. 7. Depeche Mode — Construction Time Again Ég var nú satt að segja búinn að afskrifa Depehce Mode eftir plötuna A Broken Frame. Það kom mér því mjög á óvart þegar ég heyrði Construction Time Again, hversu góð hún var. Depeche Mode flytur tölvupopp og er tón- list þeirra mun léttari en t.d. Soft Cell. Const- ruction Time Again er með öðrum orðum létt og góð poppplata en textarnir innihalda flestir hverjir pólitískan boðskap. 8. Stevie Ray Vaughan — Texas Flood Stevie Ray Waughan náði alþjóðaathygli í vor sem leið, fyrir gítarleik sinn á plötu Davids Bowie, Let’s Dance. Hann gaf svo sjálfur út plötu í haust og segja má að sú tónlist sem hann þar flytur, sé ekki í neinu sambandi við annað sem er að gerast í rokkinu í dag. Texas Flood er nefni- lega besta blúsplata sem ég hef heyrt lengi. Vaughan hefur ágæta blúsrödd og gítarleik- ari er hann mjög góður. Ef ætti að líkja hon- um við einhvern, þá væri nóg að benda á að hann hefur greinilega einhverntíma hlustað á Jimi Hendrix. 9. Richard Thompson — Hand Of Kindness Richard Thompson er einn af bestu gítar- leikurum undangenginna fimmtán ára, eða svo, en hann hefur þó aldrei verið settur á stall með öðrum gítarhetjum. Á undanförn- um árum hefur hann einkum komið við sögu á plötum með Lindu fyrrverandi eiginkonu sinni. Hann hefur einnig leikið töluvert sem session maður og komið víða við sögu sem slíkur. Richard og Linda eru nú sem sé skilin og er Hand Of Kindness hans fyrsta sólóplata eftir skilnaðinn. Thompson svíkur ekki frek- ar en fyrri daginn, en auk gítarspilsins gefur að heyra frískan harmónikku- og saxófón- leik. Raunar er hljóðfæraleikurinn allur pott- þéttur en þar koma aðallega við sögu gamlir jálkar, sem flestir hafa mest haldið sig við að spila folk-rokk. 10. The Jam-Snap Ég veit að það er vafasamt að vera að setja samsafnsplötu sem þessa á lista yfir bestu plötur ársins. Ég tala nú ekki um þar sem hljómsveitin var hætt þegar árið byrjaði. En hún er höfð hér með vegna þess að hún er að mínu mati lang besta samsafnsplata ársins, auk þess að vera veglegur minnis- varði um einhverja merkustu hljómsveit Breta á árunum 1977-1982. Af innlendum plötum tel ég að plötu Baraflokksins, Gas, beri hæst. Hún stendur jafnfætis því besta af erlendri framleiðslu ársins. 18 HELGARPÓSTURINN

x

Helgarpósturinn

Beinleiðis leinki

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Helgarpósturinn
https://timarit.is/publication/47

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.