Helgarpósturinn - 17.01.1985, Blaðsíða 10

Helgarpósturinn - 17.01.1985, Blaðsíða 10
Guðrún S. Gísladóttir leikkona i Helgarpóstsviðtali eftir Hallgrím Thorsteinsson mynd Jim Smart Hann var á leiðinni að detta í dúnalogn þegar éa bankaði upp á hjá Guðrúnu Gísladóttur. Gamla bakhúsið sem hún býr í við Skólastrætið hafði staðið af sér enn einn storminn og haldið öllum sínum jDakplötum á sama tíma og bílar höfðu verið að hendast til á bílastæðinu annars staðar á höfuðborgarsvæðinu. Húsið er 106 ára. „Ég hef verið að berjast við að kaupa þessa íbúð,“ segir Guðrún, „einu sinni farið á hausinn, en ég er ákveðin í að halda áfram, þetta er gott hús.“ Hún snarar sér upp stigann sem liggur úr holinu til að sækja kápuna sína á meðan ég litast snöggvast um niðri. Herbergjaskipan er undar- leg — tilheyrir öðrum tíma. Baðherbergið til dæmis, það snýr út að götunni og er álíka stórt og rúmgott svefnherbergi og dyrnar á því ein- kennilega þröngar, varla mikið meira en 40 sentimetra breiðar. Gamalt baðkar stendur út- skeift í einu horninu. Frammi í holinu, á teppa- hrúgu ofaná dökkbláum, gerðarlegum barna- vagni frá stríðsárunum, sefur hvítur heimilis- köttur í hring. Köttur í bóli bjarnar. Réttmætur eigandi vagnsins síðustu tvö árin er Gísli Galdur, sonur Guðrúnar, sem eyddi þessum laugardags- eftirmiðdegi hjá ömmu sinni. Guðrún smeygir sér í nýja íþróttaskó og eftir 25 sekúndur erum við sest við borð í næsta húsi, á Torfunni. Hún pantar kaffi og Drambuie. Hún er eins og heima hjá sér enda kemur á daginn að hún hefur löngum verið með annan fótinn þarna. Og haldið tryggð við staðinn. Hún segist aldrei hafa komið á Lækjarbrekku! — Aldrei? „Aldrei." — Af hverju ekki? „Hér er mitt fólk, svona er ég.“ Þetta dökka Guðrún Gísladóttir er með andlit sem maður gleymir ekki eftir að hafa séð hana í fyrsta skipti. Svipurinn er svo sterkur, andlit'sdrættirnir svo hreinir og afgerandi. Þetta andlit fer einhvern veginn sjálft fram á athygli, en hvers vegna er erfitt að segja til um. Það er eins og það sé fullt af einhverri ósýnilegri mótsögn. Það er bjart og tært en líka dökkt og dulúðugt, hörkulegt en blítt um leið, ungt en samt er eins og það hafi alltaf verið til. Augnaráðið er hvasst, augun dökk og djúp, en þó hlýleg. Þetta er mjög sérstök fegurð. „Kannski er ég hérna svo mikið vegna þess að hér er ekkert amast við því að maður sé með börn. Hér getur Gísli hagað sér eins og hann vill. Annars er ekki talið æskilegt að fara með börn út á kaffihús á þessu landi, maður finnur það. Aftur á móti, Spánverjar, Grikkir, hjá þessu fólki er yndislegt að vera með börn. Hér virðist vera meiri fjandskapur út í börn. Maður fer helst ekki með kerru niður í bæ eftir klukkan fimm, þá er bærinn hreinsaður af börnum. Gísli? Mér finnst hann vera alveg eins og ég, nema hvað hann er ljós en ég dökk. Ég hef þetta dökka úr föðurættinni. Föðurfjölskyldan mín er öll dökk. Hún er úr Rangárvallasýslu. Móðurætt- in er úr Húnavatnssýslu." María, gódkynjuö norn Tarkowskys Eins og flestum er kunnugt sem á annað borð fylgjast með listalífi þjóðarinnar, hefur Guðrún verið valin til að leika hlutverk í næstu kvik- mynd Andreis Tarkowskys, hins landflótta sov- éska leikstjóra, sem nú býr á Ítalíu. Kvikmynda- takan hefst þar í landi í maí. „Þetta var þannig að Lárus Ýmir Óskarsson, vinur minn, var úti í Svíþjóð í sumar. Hann sat og spjallaði við væntanlegan aðstoðarleikstjóra Tarkowskys, sem heitir Kerstin Eriksdotter. Talið barst að hlutverkum í mynd Tarkowskys, sem Kerstin átti að forvelja leikara í, nokkra fyrir hvert hlutverk, þannig að hann gæti svo valið úr. Og hvernig sem á því stóð datt Lárusi í hug að ég ætti að leika eitt hlutverkið. Ég var svo beðin að senda af mér myndir og þegar Tarkowsky sá þær, var ég beðin að koma til Stokkhólms og svo bað hann mig að leika þetta hlutverk. Það var auðsótt mál. Myndin heitir Fórnin og ég leik konu sem heitir María. Það mætti kannski segja að hún sé einhvers konar góðkynja norn, sem bjargar heiminum, a.m.k. þeim heimi sem myndin lýsir." Guðrún vill ekki fara mikið út í myndina, finnst snemmt að fara að ræða þessa hluti núna, mörgum mánuðum áður en þeir verða að veru- leika. En hún er spennt fyrir verkefninu. „Ég kann vel við Tarkowsky. Þetta er snaggaralegur lítill karl." — Veistu afhuerju hann valdiþig. Sagdi hann nokkuö um það? „Nei, hann sagði mér ekkert um ástæðurnar fyrir því. En seinna fékk ég þá flugu í hausinn að mamma hans hefði kannski verið freknótt, eins og ég,“ segir Guðrún og skellir uppúr. Hún segist hafa séð eina mynd eftir Tark- owsky. „Það var Stalker, og hún hafði mögnuð áhrif á mig, ég komst í einhvern allt annan og óþekktan gír.“ Ætlaði í myndlist Fórnin verður Frumraun Guðrúnar á hvíta tjaldinu, en hún hefur leikið í tveimur sjónvarps- leikritum, sjónvarpsútgáfunni af Stundarfriöi Guðmundar Steinssonar í leikstjórn Stefáns Baldurssonar, og í Stalín er ekki hér eftir Véstein Lúðvíksson í sjónvarpsgerð Lárusar Ýmis Ósk- arssonar. Seinna verkið verður páskaleikrit sjónvarpsins, sýnt 8. apríl. I leikhúsinu hefur ferill Guðrúnar sífellt stefnt upp á við. Hann hófst hjá SÁL, sjálfstæða leiklist- arskólanum sem drífandi áhugafólk rak fyrir tæpum áratug þegar ördeyða ríkti í menntunar- málum leikara. Meðal samferðafólks Guðrúnar þar voru t.d. Viðar Eggertsson og Sigurður Sig- urjónsson. SÁL gekk síðan í heild inn á 2. og 4. ár Leiklistarskóla íslands þegar hann var stofn- aður. Guðrún kom fyrst fram með Nemendaleik- húsinu, m.a. í Hlaupuídd 6 eftir Sigurð Pálsson „Ég man eftir því að sem krakki var ég búin að ákveða að verða leikkona. En þetta breyttist. Með SÁL var hugmyndin sú, að námið færi yfir á sérhæfðar brautir eftir tveggja ára undirbún- ingsnám og ég hugsaði mér að læra leiktjalda- og búningagerð. Ég ætlaði að verða myndlistar- manneskja á þessum árum. En það varð aldrei úr þessu hjá SÁL, og ég fór að leika." * Utgeislun Þegar ferill Guðrúnar er skoðaður er hins veg- ar ekki að sjá að hún hafi eytt miklum tíma í það að hafa skoðanir á búningum og leiktjöldum; um- gjörð sýninga. Þvert á móti hefur hún mjög gjarnan verið miðdepill þeirra. Eftir Nemenda- leikhúsið lék hún hjá Þjóðleikhúsinu í Stundar- friði og í Sumargestum eftir Gorkí. Síðan með Alþýðuleikhúsinu — í Konu eftir Dario Fo, Blómarósum eftir Ólaf Hauk Símonarson og Prí- hjólinu eftir Arrabal. Síðan var hún ráðin til Leik- félags Reykjavíkur og leiksigrunum hefur fjölg- að: Salka Valka, Bros úr djúpinu. Nú getum við séð hana í tveimur leikritum, Gísl og Agnesi, barni Guðs í iðnó. Túlkun hennar á Agnesi, nunnunni sem eignast barn innan klaustur- veggja, hefur hlotið hástemmt lof gagnrýnenda. Eitt blaðanna sagði t.d. að hún ein sér væri ástæða til að missa ekki af sýningunni. Annar gagnrýnandi sagði Guðrúnu leika af miklum sannfæringarkrafti og með sterkri útgeislun. Ég spyr Guðrúnu út í þennan hæfileika hennar og hvort hann nýtist henni á sama hátt í kvik- myndaleik. „Ég geri mér varla grein fyrir því. Ég á eftir að læra betur inn á þá hluti. Hingað til hef ég reynd- ar haldið að ég sé einum of sterk í útliti og hegð- un fyrir kvikmyndaleik, en þetta á eftir að koma í ljós.“ — Hvernig nálgastu hlutverk, ertu fljótlega ákveðin í því hvaða tökum þú ætlar að taka það? „Nei, það gerist miklu frekar smátt og smátt. Persónan síast inn í mig. En það getur líka komið fyrir að ég taki ákvörðun um þetta of snemma og lendi á rangri braut og ekkert annað komist að. Ég leita inná við, ég er ekki sniðug í því að taka hlutina utanfrá. Ég veit ekki hvort fólk áttar sig á því en á sviði er maður ekki að vera einhver annar. Maður er maður sjálfur og berar sig. Skákar að vísu í skjóli hlutverksins, en þú ert að horfa á mig allan tímann. Þetta er erfitt, auðvit- að misjafnlega erfitt, og ég hef oft furðað mig á því hvers vegna égstend í þessu. Kannski maður verði smátt og smátt háður spennunni og spennufallinu, líkt og eiturlyfjaneytandi. Eftir frumsýningu er eins og unaðslegur heitur vökvi streymi út um mann allan," segir hún og strýkur annarri hendinni upp handlegginn á sér og upp á axlirnar og hálsinn, „já, eins og dóp.“ — Minnkar spennan með aukinni reynslu? Eða breytist þetta kannski ekkert vegna þess að þú gerir auknar kröfur til sjálfrar þín? „Já, maður gerir meiri kröfur kannski, en ég held að nú orðið kunni ég betur en áður að not- færa mér þessa spennu, sem stundum getur þó verið manni til trafala." Einkalíf í lokudu samfélagi — Hefurðu erfitt skap? „Já, ég hef alltaf átt erfiðast með að eiga við sjálfa mig. Ég var erfiður unglingur. Nú orðið líð- ur mér miklu betur. Ég veit betur hvað ég vil gera og hvort ég er að gera eitthvað sem er þess virði að gera. Ég er ekki hrædd við það að ég sé að missa af einhverju í lífinu. Mér finnst frekar að ég hafi meiri og meiri möguleika til að gera það sem mig langar til heldur en að ég sé að missa af tækifærum. Ég sé ekki eftir neinu, ég er að gera það sem mig langar til og mig hefur sem betur fer aldrei langað til að gera neitt annað en það sem ég hef fengist við þá stundina. Ég er þrí- tug núna og líður betur og betur." — Hvað með einkalífið? „Ég hef aldrei skilið þessa forvitni um einkalíf leikara. Líf leikara er ekkert merkilegra en líf annarra," svarar Guðrún, hér um bil snúðugt, en samt í góðlátlegum alvörutón. Röddin verður al- varleg, þessi hljómmikla, dökka og þrautþjálf- aða rödd, og hún segir: „Leikarar eru viðkvæm- ar manneskjur, með þunna skurn. Þeir eru kannski stundum svolítið uppteknir af sjálfum sér, en þetta er upp til hópa gott fólk. Mér finnst fólk bara vita alveg nóg um mann. í alvöru.“ Hún segist vilja hafa sitt prívatlíf í friði og að það verði sífellt mikilvægara fyrir sig. „Það er nauðsynlegt fyrir mig, þar fyllir maður á sig, eins og bíll á bensínstöð. Mér hefur kannski ekki gengið nógu vel að taka ákveðna stefnu í einka- lífinu hingað til. . . tekur maður einhverja stefnu annars? Kannski, en einkalífið hefur oft þurft að sitja á hakanum. Því miður, því það skiptir mig meira og meira máli, ekki síst núna eftir að ég átti Gísla. Fáir en góðir vinir fara líka að skipta meira og meira máli eftir því sem árin líða. Þeir eru partur af mér og mig langar ekkert frekar til að kynnast fleira fólki. Það er eins og með þetta veitingahús. Myndi bara setja mig út af laginu að fara á hinn staðinn. Mér líður best í litlu, lokuðu samfélagi, já, svona eins og nunna. Stundum hefur mig langað til að loka mig inni í leikhúsinu, bara vera þar og hvergi annars staðar í einhvern tíma, í stað þess að vera að láta reka mig heim á kvöldin þegar ég kem þangað morguninn eftir hvort sem er.“ Viðkvæm í bíó — Hefurðu hugsað meira um trúna í sam- bandi við Agnesi, barn Guðs? „Helst vildi ég verða fyrir andlegri uppljóm- un. Sjá alla tilveruna í hendingu, skilja allt eitt augnablik og sjá það fyrir mér óskaplega ein- falt." — Fyrst talað er um sýnir, ferðu mikið í bíó? „Ég er afskaplega viðkvæm gagnvart bíó- myndum og fer ekki að sjá hvað sem er. Ef ég sé eitthvað sem mér finnst vont þá verð ég alveg eyðilögð og svo í skýjunum ef ég sé eitthvað gott. Þess vegna fer ég ekki að sjá myndir eða í leikhús nema til að sjá eitthvað gott. Ég er á því að maður þurfi ekki að gera hvað sem er. Maður á ekki að sjá eitthvað sem er lélegt. Það drepur niður alla löngun og ég fer að skammast mín. Skammast mín fyrir að vera í leiklist ef hún birt- ist í lágkúrulegum myndum. Skilurðu, það er ekki nóg að reyna sitt besta, ég geri ekki gott leikhús ein. Sem leikari gerir maður svo lítið einn.“ ✓ Ohamingjusamur leikari í sumarfríi — Þú ert í leikhúsráði Alþýðuleikhússins. Hvar stendur það núna? „Það stendur þannig að Alþýðuleikhúsið er húsnæðislaust leikhús. Við erum samt með eina sýningu í fullum gangi núna og frumsýndum fjórar í fyrra, hist og her um bæinn. Þetta kemur náttúrulega afskaplega illa út — áhorfendur eru svo lengi að átta sig á hvar leikið er í það og það skiptið. Við erum enn að sýna Petru von Kant á Kjarvalsstöðum, en það getur farið svo að við þurfum að hætta við þá sýningu fyrir fullu húsi, því við höfðum ekkert vilyrði fyrir svona löng- um tíma þar, en þetta er þó ekki alveg afráðið. Svo erum við að koma upp með aðra sýningu í lok janúar, Top Girls, sem verður sennilega í Ný- listasafninu. Við erum semsagt á höttunum eftir húsnæði en höfum ekki haft neitt upp úr krafsinu. Helst af öllu vildum við fá Sigtún við Austurvöll, sem er afskaplega lítið notað hús, nokkrir menn frá Pósti og síma borða þar í hádeginu og á því strandar. Þetta er einhver stífni, því við gætum alveg leikið þarna á kvöldin. Við erum búin að tala við hina og þessa hjá þeim í nokkur ár en það hefur ekkert gengið enn.“ — Neitarðu stundum hlutverkum? „Ég er lausráðin hjá Leikfélaginu núna og ræð þess vegna sjálf hvað ég tek og hverju ég hafna. En ef maður ræður sig í sýningu þá er maður hvort sem er búinn að missa umráðaréttinn á sjálfum sér til leikhússins. Þá verður maður oft að neita öðrum sýningum. Ég vann of mikið í fyrra. Og mér fannst það mannskemmandi. Núna mundi mér finnast al- veg nóg að vinna eitt hlutverk á ári. Mér finnst slæmt að vinna svona mikið, eins og leikarar niðri í Iðnó þurfa gjarnan að gera. Þeir vinna al- veg óskaplega, ég segi fyrir mig að ég held að til að geta lifað svoleiðis af endi það með því að maður fari ekkert lengra en að miðlínu, skil- urðu. Ég get ekki farið alla leið sex kvöld í viku til lengdar. Mér finnst gott að fá frí, en það má heldur ekki vera of langt. Það er til orðtak: Hún er eins og óhamingjusamur leikari í sumarfríi...“ — Þér er hún þá hjartans mál, þessi vinna? „Já, ég hugsa að hún verði að vera það, að minnsta kosti meðan maður er að þessu. Maður vinnur þessa vinnu með hjartanu." — Hvað finnst þér um þessa fyrirsögn á viðtal- ið: Unnið með hjartanu? Guðrún horfir smá- stund útum gluggann og segir svo, „Á hjartanu," og hlær djúpum stríðnishlátri.

x

Helgarpósturinn

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Helgarpósturinn
https://timarit.is/publication/47

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.