Samvinnan - 01.06.1969, Page 47

Samvinnan - 01.06.1969, Page 47
ardo Paolozzi (f. 1924) og franska myndhöggvarann Cesar (f. 1921), sem báðir hafa náð mjög athyglisverðum árangri, þá vinna þeir með þeim vinnuaðferðum, sem myndhöggvarar hafa gert, en lita- vinna þeirra verður oft á tíðum eins og uppfylling fyrir formið. Þeir eru t. d. ekki það sem kallað er „kóloristar". heldur hugsa þeir fyrst og fremst um það sem er ,,skúlptúralt“ í myndinni. Liturinn er ekki aukaatriði, en hins vegar lítur út eins og honum sé stundum bætt inn í á eftir til þess að gera skúlptúrinn ríkari í formi. Og ef við athugum svo mann eins og brezka málarann Richard Smith (f. 1931), þá sést strax, að einkenni hans eru þau fyrst og fremst, að hann er mikill litamaður. R. Smith hefur gert mikið af því að gera lágmyndir, sem hann vinnur mjög vel í lit og formi, en óneitanlega er litameðferðin þó hans sterka hlið. Hann er ósvikinn ,,kóloristi“ og vinnur á feiknastórum formötum. Virðist hann vinna út form í þrívídd, fyrst og fremst til að mála þau, enda hefur hann mörg einkenni góðs málara. Eg get ekki betur séð en hér sé enn um tvær tegundir listamanna að ræða, annars vegar myndhöggvara, sem vinna með þeim vinnu- aðferðum sem skúlptúr tilheyrir og hafa allflest þau einkenni, sem góðir myndhöggvarar hafa haft, en mála skúlptúrinn seinast, einkum til þess að gera formið ríkara, og hins vegar málara, sem hafa sterk málaraeinkenni, eru t. d. miklir litamenn, og virðast þeir vinna út form í þrívídd, sem eru eingöngu unnin fyrir lit, þ. e. form sem ekki hafa rnikil eða sterk ,,skúlptúral“ einkenni, en eru góð í lit. En eins og fram er komið, hafa þessar tvær greinar verið færðar nær hvor annarri, þó að þær hafi ekki runnið saman í eina grein enn sem komið er, en ekki er hægt að segja annað en að þetta sé mjög athyglisverð viðleitni, og án efa hafa þeir myndlistarmenn, sem við þetta hafa fengizt, öðlazt mikla reynslu af því að reyna þetta. En óneitanlega væri þó æskilegt að fá fleiri myndlistarmenn svipaða að gæðum og Claes Oldenburg, ef miðað er við það, þegar honum tekst bezt upp. Það sem kemur fram hjá Jean Arp er mjög athyglisvert, en það er, að hann mun móta myndina jöfnum höndum í form, lit og efni allt frá upphafi. Athyglisvert er engu síður það sem brezki mynd- höggvarinn Phillip King (f. 1933) segir um eina af myndum sínum. Rosebud: „Notkun á lit var leidd af hugmyndinni um foi'm og áferð efnisins frekar en hugmyndinni um lit á efninu. Ég hef aldrei haft þá skoðun, að litur sé eitthvað, sem notað er eftir að búið er að gera skúlptúrinn. Ég hef aldrei litið þannig á það; ég hugsa litinn eins og hann sé í efninu, hluti af efninu.“ Ein spurning er eftir, sem vaknar óneitanlega, þegar fjallað er um málaðan skúlptúr, en hún er sú, hvort m.vndhöggvarar tapi ekki hinni gömlu góðu tilfinningu fyrir efninu, sem svo margir þeirra hafa haft í ríkum mæli, ef þeir fara að mála skúlptúr. Fyrst skal tekið fram, að ekki er sama, hvaða efni er málað; t. d. er mikill munur á því, hvort mynd er máluð, sem steypt hefur verið í gifs eða brons. Afburða listamenn eins og Picasso geta málað brons- myndir og það með góðum árangri, en þó svo sé, virðast afar fáir hafa leyft sér það, enda er það vinnuaðferð, sem ekki gefur mikla möguleika. Líka hefur það mjög lítinn tilgang að mála bronsmyndir, ef menn t. d. hafa lagt á sig mikið erfiði til þess að geta steypt myndina í brons og borgað mikinn efniskostnað, ef síðan á að hylja efnið með málningu. Sama má segja um myndir, sem höggnar eru út í tré eða stein. Einu sinni sagði málari nokkur við mig, að myndhöggvarar væru hræddir við að mála skúlptúr, eða væru haldnir „hræðslu við pens- ilinn“ eins og hann orðaði það. Hann vildi láta alla myndhöggvara fara að mála skúlptúr og hugsaði þetta að sjálfsögðu út frá sjónar- hóli málarans. En þeir sem eitthvað þekkja inn á skúlptúr vita mjög vel, að myndhöggvarar hafa fyrst og fremst áhuga á efninu og efnislitnum, og þeir reyna að draga fram einkenni hvers einstaks efnis og láta það lifa, og jafnvel setja saman ólík efni í sömu mynd, t. d. járn, tré og stein, eða tvær málmtegundir. Mörg ný efni hafa einnig verið fundin upp, sem margir myndhöggvarar eru uppteknir við að hagnýta sér, og er t. d. fíberglass (trefjaplast) orðið nokkuð algengt, einnig gúmí og meira að segja kítti (spartl). Þó þessi nýju efni bjóði mikla möguleika, er þó ennþá margt í þessum efnum, sem ekki hefur verið notað af myndhöggvurum, og t. d. er mögu- legt að blanda lit saman við gúmí og fíberglass um leið og þau eru steypt, og opnast þá myndhöggvurunum fleiri möguleikar við lit- skúlptúr (réttara er í þessu sambandi að tala um litskúlptúr, vegna þess að litnum er blandað í efnið, en ekki málaður á það á eftir). Ef til vill styrkir þessi litskúlptúr einnig samstöðu myndhöggvarans og arkítektsins, en eins og vitað er, er það eitt stærsta verksvið myndhöggvara að vinna með arkítektum. Ekki verður hér dæmt um það, hvort það sé galli eða kostur, að framangreind tilfinning fyrir efninu sé í afturför. En hins vegar er það vitað, að oft á tíðum hefur mörgu verið fórnað um tíma til þess eins að knýja fram breyt- ingu, knýja fram eitthvað sem áður var óþekkt. 4 „Borg hrings og fernings“ (1963) eftir Eduardo Paolozzi. „Gegnum" (1965) eftir Phillip King. 47

x

Samvinnan

Direct Links

If you want to link to this newspaper/magazine, please use these links:

Link to this newspaper/magazine: Samvinnan
https://timarit.is/publication/340

Link to this issue:

Link to this page:

Link to this article:

Please do not link directly to images or PDFs on Timarit.is as such URLs may change without warning. Please use the URLs provided above for linking to the website.