Samvinnan - 01.06.1969, Page 52

Samvinnan - 01.06.1969, Page 52
Sverrir Kristjánsson: VERSALASAMNINGARNIR UNNIÐ STRÍÐ- GLATAÐUR FRIÐUR Oftai’ en ekki mega mennirnir sanna það í sögu sinni, að bilið er breitt milli orða þeirra og athafna. Þegar litið er um öxl eftir hálfa öld til Versalasamninganna verð- ur þessi sögulega staðreynd bæði skýr og átakanleg. Lloyd George, síðasta stórmenn- ið í foringjaliði Frjálslynda flokksins brezka, hefur í endurminningabók sinni um Ver- salasamningana, The Truth About the Peace Treaties — Sannleikurinn um friðarsamn- ingana — borið þessari staðreynd ljósast vitni. Og þó skorti ekki á viðleitni með þeim mönnum, er stóðu að Versalafriðnum, til að brúa þetta bil. Hinn brezki stjórnmálamað- ur segir um þetta efni skemmtilega smá- sögu frá þeim dögum, er sigurvegararnir ræddu vandamál friðarins á ráðstefnunni í París á öndverðu ári 1919. Það var á einum fundi, að talið barst að Þjóðabandalagi því, sem stofna skyldi. Wilson Bandaríkjafor- seti, maðurinn með geistlega andlitsdrætti guðspjallamannsins, tók að útskýra það fyrir hinum svalköldu evrópsku stjórnmálamönn- um, hvers vegna kristindómnum hefði mis- tekizt að gera sínar háleitu hugsjónir að veruleika. Forsetinn sagði: „Hvers vegna hefur Jesú Kristi ekki tekizt til þessa að fá heiminn til að fylgja kenningum sínum í þessum efnum? Það er vegna þess, að hann boðaði hugsjónina án þess að bera fram neinar raunhæfar aðferðir til að framkvæma hana. Það er fyrir þá sök, að ég legg fram raunhæfa áætlun til að framkvæma mark- mið hans.“ Clemenceau opnaði augun, stór og dökk, og leit á þá sem viðstaddir voru rétt eins og hann vildi sjá hvernig þessum kristnu mönnum fundarins yrði við, er þeim var sagt, hve lítils megandi Meistari þeirra var. Hið pólitíska Messíasarhlutverk Wilsons hófst, er hann birti hin frægu „Fjórtán stefnuatriði“ sín 8. janúar 1918. Þessi stefnu- yfirlýsing Bandaríkjaforseta vakti heimsat- hygli, bæði vegna hinna einstöku ákvæða um nýja skipan ríkja, landshluta og þjóða í Evrópu að loknu stríði, og þá ekki síður vegna hinna hugmyndafræðilegu atriða um nýjan og betri heim. En það var í þeim síðartöldu stefnuatriðum, að mönnum hefur þótt skjóta skökku við milli orða hins bandaríska forseta og raunverulegra athafna friðarfundarins í París. Wilson hefur jafn- vel verið brugðið um helbera hræsni af sumum sagnfræðingum — þó að ástæðu- lausu: persónulega var hann sannfærður um gildi boðskapar síns, þótt veruleikinn yrði í mörgu á allan annan veg en hann hafði ætlað. Um eitt var friðarfundurinn í París 1919 með öllu ólíkur fyrri ráðstefnum sömu teg- undar: við samningaborðið sátu sigurvegar- arnir einir, hinir sigruðu voru þar ekki staddir. Hinir sigruðu sömdu ekki. Þeirra hlutverk var ekki annað en skrifa undir þann sáttmála, er sigurvegararnir höfðu komið sér saman um. Fyrir þá sök var þessi fundur einstæður í diplomatískri sögu Evrópu. Þó voru það ekki færri en 27 þjóð- ir, er áttu fulltrúa á Parísarfundinum — flestar ef ekki allar þær þjóðir, sem sagt höfðu Miðveldunum stríð á hendur fyrr eða síðar á ófriðarárunum. En meðal þess- ara þjóða voi’u það stórveldin ein, sem stjórnuðu umræðunum í Æðsta ráðinu, sem svo var kallað. Þau voru fimm talsins: Bandaríkin, Stóra-Bretland, Frakkland, íta- lía og Japan. Hið síðasttalda stórveldi hafði sig raunar lítt í frammi, svo að allar merk- ustu ákvarðanir Parísarfundarins voru tekn- ar í hópi fjögurra stjórnmálamanna, en þeir voru Wilson Bandaríkjaforseti, Lloyd George forsætisráðherra Bretlands, Clem- enceau, forsætisráðherra Frakklands og Or- lando forsætisráðherra Ítalíu. í maímánuði 1919 höfðu sigurvegararnir lokið við friðargerðina við Þýzkaland. Full- trúum Þjóðverja var sýndur samningurinn þá þegar, en öll mótmæli þeirra voru að engu höfð og þeir áttu ekki annarra kosta völ en skrifa undir hann. Sú athöfn fór fram 28. júní 1919, á ártíðardegi þeim, er skotin riðu af í Sarajevó 1914. En staðsett var athöfnin í Speglasalnum í Versölum, höll Loðvíks XIV. Clemenceau sat þar í for- sæti, Wilson honum til hægri handar, Lloyd George til vinstri. En þar sat einnig hin gríska gyðja hefndar og endurgjalds; Ne- mesis. í þessum sama sal höfðu þýzkir furstar árið 1871 hyllt Vilhjálm I keisara Þýzkalands. Nú á þessum degi reiðinnar urðu fulltrúar Þjóðverja að skrifa undir dauðadóm þýzka keisararíkisins. Versalasamningurinn við Þýzkaland var fyrstur þeirra friðarsáttmála, er gerðir voru við Miðveldin. Samningurinn við Austurríki var undirskrifaður í St. Germain (nálægt París) 10. sept. 1919, við Búlgaríu var sátt- máli gerður í Neuilly (útborg Parísar) 27. nóv. 1919, Ungverjar undirrituðu sinn frið- arsamning í Trianonhöllinni í Versölum 4. júní 1920, og loks var dauðadómurinn yfir Tyrkjaveldi undirskrifaður í Sévres 20. ág- úst 1920. Hinn síðastnefndi sáttmáli varð þó aldrei annað en blekið og pappírinn. Friðargerð og friðarkostir, hin nýja Evrópa. í pólitískum stefnuyfirlýsingum sínum hafði Wilson Bandaríkjaforseti boðað að afnema skyldi ailt leynimakk og alla laun- ung svo vel við friðargerðina sem í öllum samskiptum þjóða á milli, að þjóðir og þjóðabrot skyldu hafa fullan sjálfsákvörð- unarrétt til að ráða pólitískri tilveru sinni og að stofna skyldi Bandalag með öllum þjóðum, er tæki að sér að vernda sjálfstæði og helgi ríkja, hvort sem þau væru stór eða smá. í reynd fór þó svo, að Parísarfundur- inn varð í flestum efnum æði líkur Vínar- þinginu, sem setið hafði á rökstólum og skipt upp Evrópu einni öld áður: það var makkað og braskað á bak við tjöldin um lönd og landamæri og þjóðernisminnihluta og raunverulegum sjálfsákvörðunarrétti ekki beitt nema með undantekningum. Þótt Wilson væri sagnfræðingur að mennt virð- ist hann hafa verið undarlega fáfróður um hin flóknu sögulegu vandamál Evrópu. Hann kom til Parísarfundarins með fáar aðrar hugmyndir um friðargerðina en stofnun Þjóðabandalagsins og raunar hafði hann ekki heldur gert sér grein fyrir því nema í einföldustu útlínum. Hann var því alls ekki vel fallinn til að ráða fram úr þeim vandamálum, sem honum bárust nú á hend- ur. Þessi vandamál urðu því flóknari fyrir Evrópa árið 1914. Strikuðu svœðin eru Miðveldin þrjú. 52

x

Samvinnan

Direct Links

If you want to link to this newspaper/magazine, please use these links:

Link to this newspaper/magazine: Samvinnan
https://timarit.is/publication/340

Link to this issue:

Link to this page:

Link to this article:

Please do not link directly to images or PDFs on Timarit.is as such URLs may change without warning. Please use the URLs provided above for linking to the website.