Morgunblaðið - 28.10.2010, Síða 23

Morgunblaðið - 28.10.2010, Síða 23
MINNINGAR 23 MORGUNBLAÐIÐ FIMMTUDAGUR 28. OKTÓBER 2010 Elsku amma. Við geymum minn- ingu um góða og ynd- islega ömmu í hjörtum okkar alla ævi og kveðjum þig með þessu fal- lega ljóði: Þú kvaddir þegar blómin fóru að falla og fölva haustsins sló á sumarskraut. Þú hafðir gengið götu þína alla og gæfu notið hér á lífsins braut. Það syrtir að og söknuðurinn svíður, hann svíður þó að dulin séu tár en ævin okkar eins og lækur líður til lífsins bak við jarðnesk æviár. Og tregablandin hinsta kveðjan hljómar svo hrygg við erum því við söknum þín, í hugum okkar stjarna lífs þíns ljómar, sem ljós á vegi í brjóstum okkar skín. Við biðjum að þér ljóssins englar lýsi og leiði þig hin kærleiksríka hönd í nýjum heimi æ þér vörður vísi, sem vitar inn í himnesk sólarlönd. Þér sendum bænir upp í hærri heima og hjartans þakkir öll við færum þér. Við sálu þína biðjum guð að geyma, þín göfga minning okkur heilög er (Guðrún Elísabet Vormsdóttir.) Með saknaðarkveðju, Jónína (Nína) og Ingi. Ingunn amma er fallin frá. Þau voru ansi mörg sumrin sem ég eyddi á Hofstöðum í minni æsku. Ég var sendur í sveit þar sem átti að koma manni til manns. Í sveit- inni hjá ömmu og afa var alltaf yndislegt að vera og nóg að gera. Það voru nú oft óhlýjar hugsanir sem kviknuðu í kollinum á ungum dreng þegar amma kom inní her- bergið hjá okkur Ingvari til að ræsa okkur eldsnemma á morgn- ana til að sækja beljurnar. Þarna var maður titlaður hinu virðulega starfsheiti „kúasmali“ og var það okkar ábyrgðamikla hlutverk að koma beljunum í fjósið svo að hægt væri að mjólka og svo var það okk- ar að reka þær aftur niður eftir. Þetta voru skemmtilegir tímar. Það var endalaust hægt að finna sér eitthvað til dundurs í sveitinni hjá ömmu og afa og mikill æv- intýraheimur fyrir lítinn pjakk eins og mig. Hjá ömmu var alltaf yndislegt að vera. Hún sá til þess að maður yrði ekki svangur í sveitinni … reyndar kom það nú fyrir einu sinni að það var verið að elda grásleppu, þá var okkur strákunum ekki til setunnar boðið heldur stungum við af, og lengst í burtu og létum ekki sjá okkur aftur fyrr en seint og síðar meir. Það var held ég í eina skiptið sem að maður þurfti að stelast í búrið eftir einhverju góðgæti. Í seinni tíð eftir að maður komst til manns og heimsótti ömmu á Hofstöðum þá var það alltaf fallega brosið, krúttlegi hláturinn og glað- lega viðmótið sem tók á móti manni. Ávallt var manni svo boðið í eldhúsið í eitthvert sætabrauð og með því. Ef maður spurði hana frétta af sér þá var það undantekn- ingalaust að svarið sem maður fékk var „allt ljómandi gott, þakka þér Ingunn Sigríður Ingvarsdóttir ✝ Ingunn SigríðurIngvarsdóttir fæddist í Selhaga í Stafholtstungum 19. september 1933. Hún lést á sjúkrahúsi Akraness 13. október 2010. Útför Ingunnar fór fram í Reykholts- kirkju 23. október 2010. fyrir“. Amma var þannig að hún vildi alls ekki láta hafa áhyggjur af sér, sama hvað bjátaði á. Jafnvel eftir að hún veiktist og var mikið kvalin þá mátti alls ekki hafa áhyggjur af henni. Meira að segja í síðasta skiptið sem ég heimsótti hana ömmu mína rétt áður en hún kvaddi þenn- an heim, þá sat hún á sjúkrarúminu bros- andi til okkar og vildi nú alls ekki láta hafa neitt fyrir sér. Þannig minnist ég ömmu minnar sem nú er fallin frá. Hún var sterk, glaðleg, gríðarlega um- hyggjusöm og umfram allt ynd- isleg amma. Það eru óteljandi fal- legar minningar sem koma upp í kollinn á mér þegar ég hugsa til baka. Það verður leiðinlegt að fá ekki símtal frá þér á afmælinu mínu eftir nokkra daga en það var eitt af því sem hægt var að stóla á, að þegar maður átti afmæli þá hringdi hún amma alltaf í mann. Einnig átti Rúna, konan mín, og Kristján Freyr, sonur okkar, ein- staklega góð kynni af henni ömmu. Kristjáni fannst mjög spennandi að skoða kindurnar með langömmu í sveitinni. Alltaf var tekið á móti okkur með opnum örmum á Hof- stöðum. Ég á eftir að sakna þín mikið amma mín en ég veit að nú ertu komin til nafna afa aftur. Tómas Freyr Kristjánsson, Guðrún Jóna Jósepsdóttir og Kristján Freyr Tóm- asson. Konan í sveitinni. Hún Ingunn frænka okkar er dáin. Mikið á maður nú bágt með að trúa þessu. Konan sem maður gat leitað til, sem aldrei bognaði heldur stóð í fæturna sama á hverju gekk. Nú hugga okkur allar góðu minning- arnar sem lifa í hjörtum okkar alla ævi. Til dæmis þegar við Ingunn löbbuðum saman suður að Hvítá til að reka hesta sem ekki voru á sín- um stað. Við gengum lengi og sett- umst loks niður, horfðum á ána og töluðum mikið saman. Eftir stutta stund sáum við stóran lax stökkva. Mikið fannst okkur þetta nú flott. Eða þegar við gengum út í fjárhús til að líta eftir nýfæddu lömbunum, ógleymanlegt. Það var alltaf nóg á boðstólum þegar við komum í heimsókn til þín. Góðu kleinurnar, hjónabandssælan yndislega og æðislegu terturnar. Þetta var al- veg guðdómlegt. Þessar minningar og margar aðrar hugga okkur nú þegar við kveðjum þig í hinsta sinn. Blessuð sértu sveitin mín! sumar, vetur, ár og daga. Engið, fjöllin, áin þín – yndislega sveitin mín! – heilla mig og heim til sín huga minn úr fjarlægð draga. Blessuð sértu sveitin mín! sumar, vetur, ár og daga. (Sigurður Jónsson) Elsku Ingunn okkar, við elskum þig og söknum þín. Hvíl þú í friði. Þínar frænkur, Sóldís Birta og Kolfinna Bjarney. Ingunn Ingvarsdóttir húsfreyja á Hofsstöðum í Stafholtstungum í Borgarfirði er látin eftir erfið veik- indi. Ljúft er okkur hjónunum og skylt að minnast hennar nokkrum orðum þó ekki væri nema til að þakka henni fyrir samveruna og nágrennið í næstum fjörutíu ár. Samskipti okkar við það Hofs- staðafólk, eftir komu okkar í Staf- holt rigningarsumarið 1969, urðu brátt æði mikil ekki síst eftir að við Ingvar faðir hennar hófum samvinnubúskap í Stafholti um all- mörg ár. Gekk sá búskapur ágæt- lega og höfðum báðir gaman af. Þótti Ingvari það eitt upp á vanta að ég lærði að taka í nefið. Þau Ingunn og maður hennar, Tómas Helgason, stofnuðu nýbýli á Hofsstöðum og nefndu Tómasar- haga. Það nafn festi sig raunar aldrei í sessi. Eftir lát Tómasar 1992, langt fyrir aldur fram, bjó Ingunn á Hofsstöðum með börnum sínum og tengdabörnum. Og hún var mikil búkona, bóndi af lífi og sál, land og jörð, tún og ræktun, kýr og kindur og aðrar skepnur, það var hennar heimur og hennar líf. Þó held ég að kindur hafi eink- um átt hug hennar. Sauðburður að vori, réttir að hausti, að raga í fé, það var ekki vinna, það var skemmtun. Eftir að fjölskyldan flutti frá Haukagili að Hofsstöðum árið 1950 fóru þær mæðgur Ingunn og Sig- rún móðir hennar að syngja í kirkjukórnum í Stafholti. Eftir það söng Ingunn millirödd í kórnum og gerði það ekki endasleppt því að árin urðu milli 50 og 60. Og þær urðu ekki margar messurnar eða kirkjulegar athafnir þar sem hún lét sig vanta. Kæmi það fyrir fór hún óðara að afsaka sig þegar mað- ur hitti hana næst. Það er svona fólk sem heldur uppi félagsstarfi í hinum dreifðu byggðum og gerir tilbreytingu í amstur daganna. En allt hverfur og allt fer sína leið. En minningin lifir – minningar um þessa góðu nágranna á Hofs- stöðum. Við þökkum fyrir vinátt- una og hjálpsemina öll þessi ár. Vertu svo kært kvödd og Guði falin. Áslaug og Brynjólfur. Kveðja frá kirkjukór Stafholtskirkju Með örfáum orðum vil ég, fyrir hönd kirkjukórs Stafholtskirkju, þakka Ingunni Sigríði Ingvarsdótt- ur frá Hofsstöðum fyrir hennar óeigingjarna og mikilvæga starf í þágu kórsins og kirkjunnar sinnar. Það eru rétt tíu ár síðan ég kom í fyrsta sinn á æfingu hjá kirkjukór Stafholtskirkju. Ekki kom á óvart að ég var sett í millirödd. Þar kynntist ég fyrir alvöru þeirri mætu konu sem Ingunn var. Hún hafði þá sungið millirödd í kórnum í hartnær fimmtíu ár. Það var ekki í kot vísað að lenda við hlið hennar. Engu skipti þótt nótur lægju ekki á lausu, Ingunn kunni milliröddina í öllum þeim sálmum sem sungnir höfðu verið í kirkjunni þessi ár. Nóg var að halla sér ögn nær henni og elta bara. Fyrir þann sem aldrei hafði sungið í kirkjukór áður var þetta ómetanlegt. Eins öruggt og að dagur rennur á eftir nóttu mátti treysta því að Ingunn mætti á æfingar. Ég man einungis eftir einu skipti sem hún ekki mætti. Þá var mjöðmin að stríða henni og tröppurnar erfiðar. Jafnvel eftir að veikindin voru far- in að gera vart við sig mætti Ing- unn á meðan kraftar leyfðu. Nær- vera hennar var þá sem ætíð notaleg. Aldrei var lagt illt til neins og nýliðar uppörvaðir. Tilhlýðilegt er að kveðja Ingunni Sigríði Ingvarsdóttur með hluta úr ljóði eftir Guðmund Böðvarsson frá Kirkjubóli sem hún söng oft í kirkjunni og hélt mikið upp á: Draumur um land bak við hyldýpis höf hjartanu þreyttu fær frelsunargjöf. Farfugli villtum í veglausum geim, vitinn hinn eini, er lýst’ honum heim. Út yfir höf, út yfir gröf, stormsins að strönd, stjarnlýstan geim, lífgjafans hönd megi leiða þig heim, leiða þig heim, í sín hásumarlönd. Að leiðarlokum er þakkað af al- hug fyrir einstaka tryggð. Að- standendum öllum sendar dýpstu samúðarkveðjur. Fyrir hönd kirkjukórs Stafholtskirkju, Birna G. Konráðsdóttir. Elsku pabbi, tengdapabbi og afi. Takk fyrir allar yndislegu stundirnar sem við áttum saman. Þær eru vel varðveitt- ar í okkar minni. Við kveðjum þig með þessum orðum: Hin langa þraut er liðin, nú loksins hlauztu friðinn, og allt er orðið rótt, nú sæll er sigur unninn og sólin björt upp runnin á bak við dimma dauðans nótt. Fyrst sigur sá er fenginn, fyrst sorgar þraut er gengin, hvað getur grætt oss þá? Oss þykir þungt að skilja, en það er Guðs að vilja, og gott er allt, sem Guði er frá. Nú héðan lík skal hefja, ei hér má lengur tefja í dauðans dimmum val. Úr inni harms og hryggða til helgra ljóssins byggða far vel í Guðs þíns gleðisal. (Vald. Briem.) Hvíl í friði. Magnús, Nína, Guðrún Lilja og Atli Páll. Það er gott að fá að minnast tengdapabba míns, Guðmundar Ást- ráðssonar. Mikill öðlingur var hann, traustur og heiðarlegur og hann á farsælt líf að baki. Það hefur verið ákaflega dýrmætt fyrir mig og Jó- hannes minn að fá að eiga þennan tíma með honum sem við áttum. Fyrsta skiptið sem ég sá Guðmund var árið 2004, við skáluðum í hvítvíni á pallinum í fallegu sumarveðri hjá Auði og Guðmundi og hann bauð mig velkomna í fjölskylduna. Hann var ekkert að skafa af því og yf- irleitt sagði hann hlutina eins og hann meinti þá. Hann tók mér og Jóhannesi beint inn að hjarta sínu og Jóhannes var frá fyrstu stundu eitt af hans barnabarnabörnum. Við áttum sömu afmælisdaga og héldum upp á þá saman og þá var glatt á hjalla, einnig var fastur siður að við áttum jóladaginn saman. Síðasta stundin með honum var einstök, hann var sem táningur í sál- inni, lék á als oddi fársjúkur mað- urinn þó öllum væri ljóst að nú færi að styttast í ferðalagið mikla. Hann hefur sennilega verið farinn að hlakka til, hann ætlaði að hitta hana Lilju sína sem hann saknaði mikið. Lilja var stóra ástin í hans lífi og fór það aldrei á milli mála. Það er ekki sorg þegar gamalt fólk fær að deyja en það getur verið söknuður. Sökn- uður og þakklæti er okkur efst í huga í dag. Hvíl í friði, góði maður, og blessuð er þín minning. Hrefna. Komið er að hinstu kveðju og hugurinn reikar um tímann því margs er að minnast nú þegar ég kveð ástkæran tengdaföður minn, Guðmund Ástráðsson. Fyrir 35 árum kom ég inn í fjöl- skyldu hans og tók hann mér ein- staklega vel allt frá fyrsta degi. Guðmundur var dæmigerður karlmaður síns tíma. Sótti vinnu á daginn og naut þess að láta stjana við sig þegar heim var komið. Hjónin Guðmundur og Lilja bjuggu lengst af á Ægisgötu 26 sem var dæmigert fjölskylduhús. Ragn- heiður tengdamóðir hans bjó á mið- hæðinnni ásamt Vigdísi systur sinni. Lilja og Guðmundur bjuggu í risinu ásamt sonum sínum en í kjallaran- um bjuggu ávallt einhverjir sem Guðmundur Ástráðsson ✝ Guðmundur Ást-ráðsson f. 13. nóv- ember 1922. Hann lést 7. október sl. Jarðarför Guð- mundar fór fram frá Dómkirkjunni 19. október 2010. tengdir voru fjöl- skyldunni. Guðmundur var mikill fjölskyldumað- ur og barnabörnin hans voru honum afar hugleikin. Þrátt fyrir annríki gaf hann fjöl- skyldu sinni góðan tíma. Minnisstæðar eru ferðir þeirra Lilju til okkar hjónanna þeg- ar við bjuggum í Uppsölum í Svíþjóð. Hann naut þess að fara með fjölskyldu sína niður í bæ. Þá keyrði hann tvíburakerruna stoltur þar sem sátu synir okkar hjóna og við Lilja komum á eftir með barnavagninn. Þar gekk stolt- ur afi fyrir fríðum hópi. Ég minnist þess hversu gjafmild- ur maður hann var og hve gaman hann hafði af því að velja sjálfur jólagjafir barnabarnanna sem alltaf vöktu mikla lukku. Ég minnist allra símtalanna til okkar á laugardögum þegar við bjuggum í Svíþjóð. Hann vildi bara aðeins heyra í okkur hljóðið. Einnig minnist ég allra matarsendinganna til fjölskyldunn- ar sem alltaf voru kærkomnar. Þetta lýsir honum svo vel. Guðmundur var alla tíð mikill sjálfstæðismaður og vel inni í því sem gerðist í heimi stjórnmálanna. Tengdafaðir minn og ég vorum ekki sammála um stjórnmálin og því oft heitar umræður við matarborðið. Þá var tekist á um landsmálin og það sem var efst á baugi. Guðmund- ur fylgdist vel með öllu því sem var að gerast og hafði mjög ákveðnar skoðanir. Því var alltaf gaman að sitja og spjalla við hann um menn og málefni, enda þekkti hann vel sögu Reykjavíkur. Hann átti marg- ar skemmtilegar sögur um málefni borgarinnar hér á árum áður. Sög- ur úr skátastarfinu og eins þegar hann sat í stjórn Þjóðhátíðarnefnd- ar. Hann fylgdist vel með barna- börnum sínum og var afar annt um hag þeirra sem og fjölskyldunnar allrar og stoltur af sínum hópi. Hjónin áttu ákaflega fallegt heimili við Ægisgötu og síðar við Staðarbakka. Þegar Guðmundur hætti störfum hjá Eimskipafélagi Íslands áttu þau hjónin góðar stundir saman þar til Lilja veiktist af parkinsonssjúkdómnum. Þá var það Guðmundur sem gekk í heim- ilisstörfin og annaðist Lilju sína af mikilli ástúð þar til yfir lauk. Haustið 2009 fór hann í sambýlið Skjólbrekku í Kópavogi. Starfsemin fluttist öll í Dvalar- og hjúkrunar- heimilið við Boðaþing á vegum Hrafnistu nú í vor. Þar átti hann góðan tíma og vilja aðstandendur þakka þeim í Skjólbrekku og Boða- þingi fyrir góða umönnun og hlý- hug í hans garð. Komið er að hinstu kveðju og fjölskyldan þakkar hon- um samfylgdina. Við höfum kvatt og algóður Guð tekur nú við. Bless- uð sé minning hans. Auður Inga Einarsdóttir Elsku (lang)afi Guðmundur. Nú eruð þið langamma Lilja saman aft- ur á himni. Þú varst alltaf góður við okkur og það var alltaf gaman að hitta þig, bæði þegar við kíktum í heimsókn til þín með mömmu og þegar við hittum þig þegar við vor- um í mat hjá afa Magnúsi og ömmu Nínu. Við erum þakklát að hafa fengið að kynnast þér. Við fætur Jesú ég fæ mér sess og finn í hjarta mér sælu þess. Og meiri hamingja engin er en einn að vera með Jesú hér. Og eftir dálitla ævistund fæ eg að sjá hann á lífsins grund. Ég hitti Jesú í himins borg, með honum stíg ég hin gullnu torg. (Magnús Runólfsson.) Magnús Garðar og Nína Dögg.

x

Morgunblaðið

Beinleiðis leinki

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.