Læknablaðið : fylgirit - 01.06.1999, Blaðsíða 24

Læknablaðið : fylgirit - 01.06.1999, Blaðsíða 24
24 LÆKNABLAÐIÐ 1999; 85/FYLGIRIT 38 Orsakir aukinnar notkunar geðdeyfðarlyfja Tíðni geðraskana hefur ekki breyst hér á landi á árabilinu 1928-1987 ef frá eru taldar vímuefnaraskanir og hugsanlega kvíðaraskanir (46) og ekki er ástæða til ætla að hún hafi snar- aukist síðan. Hins vegar hafa meðferðarmögu- leikar stóraukist og batnað, sérstaklega eftir 1954 þegar byrjað var að nota nútíma geðlyf hér á landi og síðan með auknum fjölda fag- manna á sviðinu sem kunnað hafa að beita lyfj- um og öðrum meðferðarformum, samtalsmeð- ferð ýmiss konar, þjálfun og endurhæfingu. Framfarir í geðlækningum hafa verið að minnsta kosti jafnmiklar og framfarir í öðrum lækningum, þó að kostnaður við geðlækning- arnar hafi aukist mun minna en kostnaður við aðrar lækningar. Vitneskja lækna og annarra um tilvist mikils fjölda lyfja sem tiltölulega auðvelt er að taka í réttum skömmtum hefur skipt miklu. Fyrstu geðdeyfðarlyfin, sem enn eru notuð næstum jafnmikið og þau voru notuð fyrir tilkomu hinna nýrri og dýrari lyfja, höfðu aukaverkanir, sérstaklega á ósjálfráða taugakerfið og hjarta- og æðakerfið í formi munnþurrks og svita, hjartsláttartruflana og blóðþrýstingsfalls í upp- réttri stöðu. Þessar aukaverkanir kunna að hafa leitt til þess að lyfin hafa verið og eru oftast enn gefin í alltof litlum skömmtum, sem ekki gera gagn. Ennfremur skipti máli að venjulega þurfti að smáauka skammtinn sem gefinn var og bíða í tvær til fjórar vikur eftir að full verk- un kæmi fram. Vegna aukaverkananna var oft nauðsynlegt að gefa dagskammtinn í tveimur til þremur hlutum, oft tvær til þrjár töflur í hvert skipti. Það var því mikil framför að fá ný lyf sem hægt er að gefa í einni töflu einu sinni á dag. Þetta hefur leitt til þess að hin nýju lyf eru oftast notuð í fullum skilgreindum dagskammti. Ann- að mál er að stundum þarf að gefa meira til að ná árangri. Þessu nýju lyf hafa annars konar auka- verkanir en hin eldri, sérstaklega í meltingarfær- um, sem gera það að verkum að meðferðarheldni er lítið betri en við notkun hinna eldri lyfja. Nauðsynlegt er að hafa í huga að öll geð- deyfðarlyf hafa verið þróuð til að draga úr ein- kennum geðlægða og duga nokkurn veginn jafnvel til þess, ef þau eru notuð í réttum skömmtum. En oft þarf að prófa sig fram til að finna það lyf sem verkar og þolist best, líkt og við ýmsar aðrar raskanir eins og til dæmis hækkaðan blóðþrýsting, meltingarkvilla og gigtsjúkdóma. Þegar komið hefur í ljós að lyfin verka vel á geðlægð er farið að reyna þau við aðra kvilla sem hafa að einhverju leyti svipuð einkenni, svo sem óyndi, ýmsar kvíðaraskanir og depurð eða leiða sem fylgir öðrum sjúkdóm- um. Þó að ýmislegt bendi til að lyfin geti verk- að á óyndi, sérstaklega ef við bætist geðlægð, og kvíðaraskanir eins og felmtursröskun og árátta/þráhyggja er enn órannsakað hver verka best og að hve miklu leyti eða hvort aðrar að- ferðir dugi jafnvel eða betur til dæmis við óyndi. Óvíst er hvort lyfin gera gagn í blönduð- um kvíða- og þunglyndisröskunum, sem eru al- gengar hjá fólki sem leitar heilsugæslulækna. Lítill vafi leikur á að hið mikla kynningar- starf sem fram hefur farið í kringum hin nýju lyf hefur orðið til þess að fólk leitar sér frekar læknishjálpar vegna þunglyndisraskana og að læknar eru opnari fyrir slíkum greiningum en áður var. Nýju lyfin eru einfaldari í skömmtun og því handhægari, þrátt fyrir að þau séu miklu dýrari en eldri lyf. Loks ber að hafa í hug að nú er kynningarstarfið í vaxandi mæli farið að beinast að því hversu gagnleg hin nýju lyf séu við ýmiss konar kvíðaröskunum og einkennum eins og gömlu lyfin eru raunar líka. Þetta kynn- ingarstarf leiðir væntanlega með sama hætti og kynningarstarfið um meðferð þunglyndisrask- ana til enn aukinnar sölu lyfjanna.

x

Læknablaðið : fylgirit

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Læknablaðið : fylgirit
https://timarit.is/publication/991

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.