Tíminn - 23.12.1942, Blaðsíða 9

Tíminn - 23.12.1942, Blaðsíða 9
T f M I N N 9 Jónas Jónsson: Hallgrímskirkja í Reykjavík Fyrir nokkrum árum var ég á ferS í Noregi og kom til Þrándheims. Mér lék meðal annars hugur á að sjá hina fornu dómkirkju, og hversu unnið væri að end- urbyggingu hennar. Ein af ástæðunum til þess, að ég vildi sjá þá kirkju, var sú, að þar gat að líta fyrirmynd, sem orðið gat til eftirbreytni fyrir okkur íslendinga. Við áttum enga þjóðlega höfuðkirkju, sem telja mætti virðulegt tákn hins endur- fædda þjóðveldis. Norðmenn höfðu reist sér í Þrándheimi dýrlegt gotneskt musteri á blómaöld hins kaþólska tímabils, áður en helský danskr- ar kúgunar lagðist yfir landið. Erkibiskup- inn, sem réði yfir Noregi og íslandi, hafði þá meginsetur sitt í Þrándheimi. Hin mikla dómkirkja var reist af erkibiskup- inum og var táknræn um auð og völd kirkj- unnar. Síðan hófst hnignunaröld Noregs. Við og við kviknáði í kirkjunni, ýmist vegna ljósa eða út frá eldingum. Það var reynt að bæta þann skaða, en alltaf minnkaði vegur kirkjunnar, eftir því sem veldi Nor- egs hnignaði. Með siðabótinni hvarf erki- biskupsstóllinn með auð sínum og valdi. Danir byrjuðu að flytja fé og. skartgripi frá Noregi til Kaupmannahafnar. í styrj- öldinni við Svía var barizt um Þránd- heim. Þá voru hinar miklu hvelfingar og turnar kirkjunnar eyðilagðir af eldi og skot- hríð. Hinir miklu veggir stóðu eftir, eins og talandi tákn um forna menningu og eftirfylgjandi eyðileggingu. Svíar settu þá skúrþak á nokkurn hluta kirkjunnar og höfðu þar stríðshesta sína. Það er dýpsti öldudalurinn í sorgarsögu Þrándheims- kirkju. Síðan liðu margar dimmar aldir. En 1814 náðu Norðmenn raunverulegu sjálf- stæði og byrjuðu að rísa á legg að nýju. Landið var hvarvetna vanrækt og í nið- urlægingu eftir margra alda yfirstjórn er- lendra manna. Hálf öld leið þar til Norð- menn töldu sér fært að ráðast í að endur- reisa dómkirkjuna í Niðarósi. Það var. mikið verk og dýrt. En norska þjóðin var að endurvinna sjálfstæði sitt og endur- skapa norska menningu. Dómkirkjan í Niðarósi hafði verið mesta og fegursta byggingin í hinum forna Noregi. Metnað- ur Norðmanna krafðist, að kirkjan yrði endurreist í allri sinni fornu dýrð. Svo hófu Norðmenn verkið. Stórþingið veitti árlega fé til verksins. Þegar ég kom þar skömmu áður en yfirstandandi styrjöld skáll á, hafði ríkissjóður Norðmanna lagt fram til kirkjunnar tæplega 30 miljónir króna. Það samsvaraði því að íslendingar hefðu lagt til dómkirkju í Reykjavík nokk- uð á aðra miljón króna, eftir því, sem verðgildi peninganna var á þeim tíma. En það var ekki aðeins norska ríkið, sem lagði fram ríflegan skerf til endur- reisnar dómkirkju í Niðarósi. Þangað streymdu gjafir frá þjóðræknum Norð- mönnum hvarvetna úr landinu og frá norsku fólki í útlöndum. Þar gat að líta dýrmætustu glermálverk í hinum miklu gluggum, geisimikla silfurkransa, og fjöl- marga dýrmæta og fagra skartgripi til að prýða sem mest þetta veglega hús. Hver er ástæðan til að norskir borgarar, karlar og konur, og norska ríkið leggja fram miljón eftir miljón í hálfa öld til að endurreisa guðshús, sem erlendir her- menn höfðu um eitt skeið gert að hest- húsi? Ég hygg, að svarið sé auðfundið. Norðmenn vildu mæla stórhug sinn og metnað á svo erfiðan mælikvarða. Norska ríkið og norska þjóðin varð að eiga höfuð- kirkju, sem væri samboðin fortíð og nú- tíð norsku þjóðarinnar. Meðan ég reikaði um undir hinum fögru endurreistu steinhvelfingum Þrándheims- kirkju, hvarflaði hugurinn heim til Reykja- víkur. Á kaþólska tímanum höfðu forfeð- ur okkar reist margar fagrar kirkjur og búið þær miklu skrauti. En þjóðin átti ekkert varanlegt byggingarefni. Hinar miklu og glæsilegu fórnir kaþólska tíma- bilsins hurfu í sjó gleymskunnar. Eldur og regn eyðilagði hin haldlitlu guðshús miðaldakirkjunnar. Gamlir íslenzkir mál- dagar herma nokkuð frá þessum ríkmann- legu kirkjum. En þær eru löngu horfnar, án þess að nokkrum sé um að kenna. Fyr- ir nálega einni öld reisti danska einvalds- stjórnin allstóra, en að öðru leyti mjög fátæklega kirkju í Reykjavík. Á þeim tíma var þetta stórmannlegt átak og með nokkurri viðgerð má bæta þá kirkju svo, að hún verði um langa stund fjölsótt guðs- hús í höfuðstaðnum. En hún getur aldrei orðið íslenzk höfuðkirkja. Hún er byggð af erlendri þjóð, á niðurlægingartíma. Hún ber lítil merki um ísland eða íslenzka menningu. Þess er heldur ekki að Vænta. Engin þjóð byggir þjóðleg minnismerki nema fyrir sjálfa sig. Reykjavík hefir vaxið mikið á þessari öld. íbúatalan hefir margfaldazt. En kirkjurúmið hefir lítið aukizt. Fríkirkjan er raunverulega eina viðbótin á vegum mótmælendastefnunnar. Kaþólska kirkjan er bæjarprýði. En söfnuðurinn, sem þang- að sækir, er ekki jafn fjöilmennur og hvað kirkjan er stór og fögur. Samt varð vart tveggja hreyfinga í Reykjavík, sem stefndu að sama marki. Annars vegar þurfti að fjölga safnaðarkirkj um í Reykja- vík. Hins vegar þurfti hin unga frjálsa þjóð á íslandi að eignast sína dómkii'kju, sitt tákn um menningu og þjóðarsjálf- stæði. Þessir tveir straumar hafa nú sam- einazt í eina elfu. Þar er stefnt að því, að reisa á Skólavörðuhæðinni höfuðkirkju íslendinga, íslenzka dómkirkju, handverk og listaverk íslenzkra manna, tákn hins unga, endurreista þjóðveldis. Jafnframt yrði þessi dómkirkja stærsta og mesta guðshús hinna lútersku safnaða í höfuð- staðnum. Laust fyrir 1930 hóf safnaðarstjórnin í Reykjavík undirbúning þessa máls og fékk nokkra menn til að keppa um verðlauna- teikningu. Þrír menn tóku þátt i þessari samkepni, án þess að af því yrði nokkur varanlegur árangur. Þess var heldur ekki að vænta, því að málið var ennþá óundir- búið. Safnaðarstjórnin í Reykjavík hélt því málinu vakandi, og árið 1937 ritaði þá- verandi ríkisstjórn Guðjóni Samúelssyni bréf, þar sem honum er tjáð, að safnaðar- stjórnin í Reykjavíík hafi farið þess á leit, að honum yrði falið að teikna og standa fyrir byggingu Hallgrímskirkju á Skóla- vörðuhæð. Guðjón Samúelsson tók nú að sinna málinu, en átti þó í fyrstu nokkuð ann- strangt, meðan hann hafði háskólabygg- inguna í smíðum. En eftir að því stórvirki var lokið, tók Guðjón Samúelsson til ó- spilltra málanna með Hallgrímskirkju. Teikningum var lokið í vor sem leið. Húsa- meistari lét þá gera líkan af kirkjunni, sem var til sýnis á fjölförnum stað í bænum og vakti almenna aðdáun. Safnaðarstjórnin samþykkti fyrir sitt leyti gerð og skipulag hinnar nýju kirkju. Biskup landsins, Sig- urgeir Sigurðsson, veitti málinu mikinn stuðning. Fjölmenn nefnd var sett til að vinna að almennri fjársöfnun til kirkju- gerðarinnar. Bygginganefndin fékk leyfi til að hafa happdrætti um heilt íbúðar- arhús í Reykjavík. Safnaðist með þessum hætti allmikið fé. Hallgrímskirkja, séð frá Skólavörðustíg. (Myndina gerði Vigfús Sigurgeirsson).

x

Tíminn

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Tíminn
https://timarit.is/publication/50

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.