Tíminn - 24.12.1956, Blaðsíða 7

Tíminn - 24.12.1956, Blaðsíða 7
★ JOLABLAÐ TÍMANS 1956 ★ 7 um morguninn, enda gekk erfið- lega að koma hestum af stað að heiman. Sóttu þeir mjög á að snúa við. En allir lestamenn voru vel ríð- andi, og var eina ráðið að sækja fast á eftir, og gefa hestunum ekk- ert færi. Leiðin í Hólssel, sem er neðsti bær á Hólsfjöllum, var fyrsti áfang- inn, þaj: var aldrei farið framhjá nema þiggja góðgerðir, enda mis- líkaði húsbændum það mjög, ef út af var brugðið. Hólssels-heimilið hefir verið mjög rómað fyrir gest- risni, þar brugðust aldrei hlýjar móttökur, og framúrskarandi veit- ingar. Sigurður Þorsteinsson bóndi þar er nýlátinn á tíræðisaldri. Var hann mörgum kunnur. Frá Hólsseli er lagt á Hólssand og er leiðin milli bæ;a eða í Aust- ara-Land í Axarfirði rúmir 40 km. Fyrsti áningarstaður eru Gatna- mót. Þaðan liggja götur á útbæi Fjallabyggðar. Þar er góður hagi fyrir hesta, valllendisdokk vel grös- ug. Næsti áningastaður eru Stóra- steinstorfur, og er þar síðasta gras- lendið ofan við sjálfan sandinn. Var venja að nema þar staðar um stund og fá sér hressingu, áður en lagt var á auðnina, því að hvergi var gróður að hafa fyrir hesta næstu 20 km. Á miðjum Hólssandi er sæluhús byggt 1925, hlaðnir veggir úr grjóti með torfþaki, og var notað bæði fyrir menn og hesta, en þrem árum síðar var byggð viðbót úr steinsteypu. Mikill munur var að fara yfir Hólssand eftir að sæluhúsið kom. Vetrarferð- irnar voru oft erfiðar. Þótti þá gott að hita kaffi þar. Einnig var sælu- húsið oft notað til gistinga. Var þá gott að hafa húsaskjól fyrir hesta sína líka. Af ferðinni yfir sandinn er fátt að segja. Hestarnir rákust vel. Það var heitt í veðri, fórum við því hægt, til að svita hestana ekki, því að langur dagur var framundan. Aurbleyta var nkkur, því að ekki voru allar fannir leystar. Seitlaði úr þeim vatn, svo að hestar gátu fengið að drekka. Annars var hvergi vatn fyrr en í Tjaldstæði. Þar var síðasti áningastaðurinn. Tjaldstæði var ákjósanlegur staður bæði fyrir menn og hesta. Þar var bæði vatn og mjög grösugt, enda engjar frá Austara-Landi. En nú er uppblást- urinn búinn að hertaka það, svo að ekkert sést þar nema sandur einn. Leiðin frá Tjaldstæði liggur norður Beitivallaháls. Blas- ir þá við Öxarfjörður, ein fegursta sveit landsins. Einmitt þennan dag var óvenju heillandi að líta norður yfir sveitina, og finna skógarilm- inn. En yst úti við sjóndeildar- hringinn teygðu sig þokubólstrar. Ferðin gekk nú greitt norður Beiti- vallamó, því að nú var Austara- Land að nálgast og þangað var ferðinni heitið. Á Austara-Landi bjó þá móður- afi minn, Páll Jóhannesson hrepps- stjóri Öxfirðinga, en hann lézt árið 1937. Margrét dóttir hans stóð þá fyrir búinu. Bjó hún mörg ár á Austara-Landi, en er nú búsett hjá fósturdóttir sinni og manni hennar á Akureyri. Á Austara-Lands heim- ili hvíldi mikill átroðningur af Fjallamönnum, bæði vetur og sum- ar. Eigum við ógleymanlegar minn- ingar um hina miklu gestrisni þar og hlýju til okkar. Alltaf stóðu húsbændur með útrétta hendi til hjálpar. Mun oft hafa verið þröngt, er bændur gistu þar, bæði í sleða- ferðum á vetrum og sláturferðum á haustum. Mér er sérstaklega minnisstætt úr fyrstu sleðaferðinni, sem ég fór, þá unglingur, atvik frá Austara-Landi, sem sýndi nær- gætni Margrétar, bæði við menn og skepnur. Afi var vanur að bjóða mönnum sjálfum í hlöðuna og segja þeim að gefa hestum sínum eftir vild. Ég heyrði að samferða- menn mínir töluðu um það um kvöldið, að Bubba-Rauðka, því svo var hún kölluð (það var mitt sleða- hross), stæði aftan við hina hest- ana. Margrét heyrði á tal þeirra og lagði þá svo fyrir, að Rauðka yrði sótt, og sett í hlóðaeldhúsið, þar fékk hún að vera í næði yfir grænni töðu. Er þetta lítið dæmi um hina miklu hugulsemi Margrétar við málleysingjana. Við hestaréttina var sprett af hestum, og þeim hleypt í haga. Gengið síðan til bæja, veit- ingar þegnar í ríkum mæli, eins og venja var. Fórum við síðan að at- huga flutning og binda klyfjar í þessum flutningi var fyrsti tilbúni áburðurinn, Noregs-saltpétur, sem fluttur var á Hólsfjöll. Gekk greið- lega að binda. Við vorum því allir vanir, enda hjálpuðu Austara- Landsmenn til. En þá var nú eftir að athuga bátinn. Leist okkur strax mjög illa á hann. Bæði var hann þungur og illa lagaður. Fannst mönnum hann ekki vera nothæfur á straumvatn. Ekki var þó um ann- að talað en flytja hann. En nú urð- um við að búa um bátinn á kvik- trjám. Hafði faðir minn beðið um tvö tré af Kópaskeri, sem ætluð voru til þessa. Gengið var þannig frá, að tveir hestar bera trén, og var bátnum hvolft þvert yfir þau. Var gengið eins vel frá og hægt var. Tókum við okkur því næst hvíld, til að borða, áður en lagt yrði af stað uppyfir. Eins og áður er sagt ætluðum við heim um nóttina. En nú brá svo við, að ört tók að kólna, norðan þoku kembdi upp á loftið. Auðséð var, að mikil veður- breyting var í aðsigi, en hvað var að óttast, komið fram í júní? Snjó- komu var varla að vænta eftir allri þeirri blíðu, sem á undan var gengin. Þegar búið var að smala hestun- um í rétt, þurfti afi minn að líta á hópinn, því að hestamaður var hann með afbrigðum og alla hesta á Fjöllum þekkti hann með nöfn- um. Var nú gengið að því að búa upp á hesta, en afi minn taldi veðrið ískyggilegt og vildi kyrsetja okkur, en við vildum ekki breyta áætlun okkar, og það réði. Síðast var báturinn settur upp á kviktrén og voru valdir undir hann traustustu hestarnir, en alveg ó- vanir svona flutningi. Rétt áður en við lögðum af stað, kom Margrét með kaffi upp að rétt. Var það gamall og góður sið- ur hjá henni. Það kom í minn hlut að teyma hestana með kviktrjánum. Lagði ég því fyrstur af stað. Við höfðum sett kassa með blómum úr garð- inum á Austara-Landi ofan á bát- inn, og vorum við mjög hrifnir af lestinni, er lagt var af stað, með blóm í broddi fylkingar. Var lukk- an þá farin að ganga tólf um kvöld- ið. Hver hefði getað trúað því þá, að aldrei hefði komið ljótari lest í hlað á Grímsstöðum? Lestin seig fram holtin. Hest- arnir með bátinn voru ekki samstilltir, svo að brátt fóru lestar- hestarnir að tínast fram fyrir. Þeg- ar komið var fram að beitarhúsa- tóftum, skammt sunnan við Aust- ara-Land, var ég kominn aftur fyr- ir lestina með minn flutning. En þá náði fyrsta rigningargusan okk- Austaraland. (Ljósm.: E. Sigurgeirsson). Grímestaðabæirnir. (Ljósmynd: E. Sigurgeirsson). Lestarferð. Myndin tekin 1906. (Ljósmynd: Bárður Sigurðsson).

x

Tíminn

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Tíminn
https://timarit.is/publication/50

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.