Morgunblaðið - 30.07.1974, Blaðsíða 14

Morgunblaðið - 30.07.1974, Blaðsíða 14
14 MORGUNBLAÐIÐ, ÞRIÐJUDAGUR 30. JÚLl 1974 PP^ Halldór Laxness: llll Avarp í minningu bókmenntanna Á ÞEIM dögum sem Alþíngi stóð hér við öxará og eddur voru ortar og þær islendíngasögur samdar sem lyftu íslandi í hæðir heimsbók- mentanna, þó það gerðist ekki fyren 500 árum eftir þær urðu til, þá voru ekki vegir hér á Islandi og ekki brú yfir á. Þó sýna forn rit og aðrar minníngar að ferðast var um landið þvert og endilángt, sumar og vetur, yfir stjórfljót, öræfi og jafnvel jökla. Fyrri menn tóku ekki eftir því að það var hvergi vegur. Hestarnir þeirra hafa líklega verið að sínu leyti eins vel tamdir, vegvísir og öruggir og þeir sjálfir. En í íslendíngasögunum mældu þeir alt Island út, ef svo mætti segja, og gerðu af því þesskonar kort sem ekki hafa önnur komist til jafns við síðan. Við höfum heyrt um mann frá öldinni sem leið, og hefur verið líkur fornmönnum. Það var vísindamaður- inn okkar góði hann Björn Gunnlaugsson, sem mældi alt Island út á tólf árum. Einusinni sundreið hann Blöndu í vatnavöxtum á haustdegi. Þegar hann kom á bæinn hinumegin og var spurður hvort ekki hefði verið mikið í Blöndu í dag, svaraði hann: Ég sosum tók ekki eftir því. Fyrir hundrað árum, þegar við komum hér saman seinast í svipuðum tilgángi og núna, var Evrópa full af skáldskap. Þá var enn einusinni verið að breyta landamærum álfunnar og sambúðarformi þjóða. Áður fyrri táknaði föðurland aðeins sveitina þar sem maður elst upp heimahjá sér og leitar hvíldar í elli. Sæludalur sveitin best, sólin á þig geislum helli, segir Jónas Hall- grímsson um þetta mál. I skólauppsagnarsaungnum sem allir stúdentar sýngja þegar vorar segir á þessa leið: „a—a—a nú höldum við aftur heim í föðurlandið, (patriam)“, það er að segja heim í sveitina okkar, heimahagana sælu. Fyrir tvö hundruð árum var uppi séra Jón eldprestur Steingrímsson, heillastoð manna í Skaftáreldum. Hann hefur líklega skrifað bestu bók íslenzka á átjándu öld. Þó hann væri föð- urlegur sálnahirðir og bjargvættur skaftfellinga í móðuharðind- unum, þá talar hann um átthaga sína Skagafjörðinn einan sem „föðurland“ sitt. I átthagana andinn leitar þó ei sé loðið þar til beitar, segir Grimur. Um hesta sem leita í vonda haga sína forna segir máltækið: Þángað sækir klárinn sem hann er kvaldastur. Áður voru íslendíngar aðeins íslendíngar einsog hestar eru hestar. I meira en 500 ár hlýddum við á klerkinn sýngja okkur á latínu um Maríu mey og við sjálfir ortum um hana kanski bestu kvæðin sem ort voru á tslandi öldum saman; sálir okkar voru frelsaðar frá illu. Eftir siðaskifti var leitast við að efla trú okkar og hollustu við konúngshugsjónina ásamt hugmyndum Marteins Lúters, og við ortum og súngum grallarann sem er átakanlegur skáldskapur um þessar hugsjónir. Vakníng íslendínga á 19du öld var einsog annars- staðar í Evrópu falin í nýu landnámi tilfinnínganna. Þjóðernistign- un var nútímahyggja Evrópu fyrir hundrað árum. Einsog á megin- landinu var hún innrætt íslendingum af skáldsnillíngum samtím- ans. Þeir boðuðu okkur fegurð íslenskrar náttúru sem við höfðum ekki tekið eftir fyren þá. Og þeir gerðu frægð okkar í fornsögum svo áþreifanlega að við trúðum á hana. Stundum heyrist að ættjarðarkvæði, einsog hjá okkur í kríngum 1874, hafi verið stælíng á dönskum og þýskum föðurlandseldmóði sem var hástiltur um þær mundir. En þegar Steingrímur Thor- steinsson orti um lömb og hjarðsvein og um tvo svani, annan af heimi hetjulífs hinn af heimi vonarinnar, þá tók hann mið af grikkjum og latínumönnum fornum þegar þeir ortu um heimahag- ana sælu. I raun réttri feingum við háklassisku ættjörð, að gjöf frá þjóðskáldum okkar á 19du öld. Við súngum þessi kvæði i fyrstu upptendraðir, síðan af gömlum vana. Nú er einsog sumir haldi að við týnum ættjörðinni ef við fáum ekki nýtt ættjarðarljóð á hverri meiriháttar héraðsamkomu. Þetta er einsog ímynda sér að Guð hætti að vera til ef við fáum ekki nýtt faðirvor á hverjum jólum. Margar þjóðir eru laungu hættar að hafa ættjarðarljóð, nema einn þjóðsaung að sýngja við hersýníngar. Við þurfum ekki að óttast að við missum ættjörðina þó okkur tækist ekki að fá nýtt ættjarðarljóð í vor. I dag, hundrað árum eftir þúsundárahátíðina, höfum við þrátt fyrir alt hlýtt á hátíðaljóð sem túlkar af visku og andagift stöðu okkar hér og nú. ísland hættir ekki að vera það sem það er, og við hættum ekki að vera íslendíngar, þó við séum farnir að yrkja öðruvísi en við gerðum á öldinni sem leið. Afturámóti held ég að þann dag sem við hættum að yrkja fyrir fult og fast, þá megi bréfa að hér sé uppvöknuð önnur þjóð en var. Fróðir menn telja að eingin þjóð hafi, svo vitað sé, verið eins niðursokkin í orðsins list frá upphafi og íbúar þessa lands. Má segja að lærðir og leikir, án tillits til gáfnafars eða efnahags, hafi verið í því sameinaðir, öld frammaf öld, að skapa hér bókmentir. Aðrar þjóðir unnu úr gulli og marmara. I túngu landsins, mæltri skráðri og ortri, hefur líf okkar og reynsia skilið eftir nákvæmari vitnisburð um sig en lesinn verður af spjöldum sögunnar. Túngan geymir ekki aðeins minni og minjar um þjóðarævi okkar aftur f forneskju; hún geymir einnig „í tímans straumi, trú og vonir landsins sona“, einsog Matthías Jochumsson kvað. Stundum er skáldum skift í stórskáld og leirskáld. Þetta er mjög auðveld skiftíng. Menn vara sig ekki á því að það er einsog vera ber að byrja sem leirskáld. Flest stórskáld byrja sem leirskáld. Meðan við enn eigum ónafnfrægt fólk í hverju horni, og það yrkir sér eða öðrum til hugarhægðar á líðandi stund, þá er þar líf landsins og reynsla þjóðarinnar að gefa um sig vitnisburð. Þess er holt að minnast sem ég sagði áðan, að einusinni lifðum við svo líklega uppundir níu kynslóðir hér á íslandi, frá því á fjórtándu öld og þartil að áliðinni þeirri seytjándu, að við eignuðumst ekki skáld að marki, nema kanski maríuskáldin, en ortum rímur um tröll og kónga og riddara, settum saman ókynstur dansa og vikivaka til að brúka í jörfagleði sem virðist hafa staðið dag og nótt á íslandi, þá ekki síður en núna; og hræðrum vögguna með vísnasaung, sem þá var víst ekki talinn mikill skáldskapur. Og þó okkur núna finnist fátt til um mart sem þá var ort, þá býr í túngutaki bragarháttum og hugblæ þessara laungu liðnu og ókunnu alda einhver ángurvær yndisþokki sem heillar okkur. En næst þegar fram kom stórskáld hafði túngan beðið hnekki og ljóðaefnin ljókkað, þó andagift væri stór og boðaði okkur frelsun af ógurlegu straffi annars heims. Fyrir hundrað árum lifðum við á öld ættjarðarljóðsins, núna lifum við á öld bílsins. Ég er ekki að segja að bfllinn okkar núna komi í staðinn fyrir ættjarðarljóð eða aðrar bókmentir, þó kanski megi segja að skorturinn á nýum ættjarðarljóðum núna verði síður tilfinnanlegur þegar við getum séð ættjörðina gegnum bflrúðu. En mart bendir til þess að þeir sem lifa á komandi hundrað árum muni horfa uppá nokkra afturför í bifreiðum. Það eru meira að segja tölverðar horfur á að þegar næstu heimsstyrjöld lýkur verði búið að kreista svo mikla olíu útúr jarðhnettinum að lítið verði afgángs á bílana okkar. Það getur verið að á næstu hundrað árum vöknum við upp við það einn góðan veðurdag að við verðum að treysta minna á olíu en verið hefur um sinn, og meira hver á sinn innri auð í líkíngu við það sem áður tíðkaðist á íslandi. Og þá sakar ekki að minnast þess að gullöld íslenskra bókmenta stóð áður en olía var til í heiminum. Nú hefur Alþíngi samþykt áætlun um landgræðslu og gróður- vernd á Islandi til að hefta náttúruspjöll að minstakosti þau sem hér hafa orðið af mannavöldum meir en í nokkru landi Evrópu á þeim tíma sem landið hefur verið bygt. Ég fæ ekki lokið þessum orðum betur en láta í ljós þökk mína sem íslendíngur fyrir þetta framtak Alþíngis í von um að takast megi að klæða auðnir landsins aftur í grænan búníng lífsins. Og þessu næst hylli ég lífgróður skáldskapar- ins sem veitir kynslóðunum eilíft líf.

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.