Morgunblaðið - 14.12.1979, Qupperneq 9
MORGUNBLAÐIÐ, FOSTUDAGUR 14. DESEMBER 1979
41
Ljósm. Mbl. ÖI.K.M.
verulega á piltinn. Þetta sumar
var eins og menntaskóli fyrir mig.
Það var ekki einasta, að ég fengi
að spreyta mig á erfiðu verki,
heldur sá dr. Einar ólafur Sveinsson
um útgáfuna. Hann vann þessa
bók upp úr skissubókum séra
Jónasar. Það var hrein unun að
láta hann mennta sig því hann
fræddi mig um svo margt varð-
andi íslenzkuna og ritað mál. Satt
að segja veit ég ekki, hvort ég hef
nokkurn tímann upplifað annað
eins sumar og sumarið 1934.“ Og
Hafsteinn flettir bókinni hugsi.
Og það svo, að ég er farinn að
óttast, að ég hafi misst hann allan
inn í þessa tímavél.
— Hvenær gafstu út fyrstu
bókina? Ég þarf að endurtaka
spurninguna. Hvenær gafstu út
fyrstu bókina, Hafsteinn?
„Fyrstu bókina? Það var vorið
áður en ég fór til Kaupmanna-
hafnar." Ekki orð meir. Ætlar
Einar Ólafur Sveinsson að eyði-
leggja þetta samtal, eða hvað?
— Til Kaupmannahafnar?
Hvað varstu að gera til Kaup-
mannahafnar?
„Til Kaupmannahafnar? Ég fór
þangað vorið 1939 á danska bók-
iðnskólann."
— Hvers vegna?
„Mig langaði að leita mér fjöl-
þættari menntunar í iðn minni."
Og nú fer Hafsteinn, Guði sé lof,
aftur í gang. „Það fór að brjótast í
mér strax í iðnskólanum að láta
prentverkið lönd og leið og fara
alfarið í myndlist. Ég var í
teiknitímum hjá Tryggva Magn-
ússyni og Birni Björnssyni og
þetta varð ákaflega sterkur þáttur
í mér.
En ég átti konu og mér hraus
hugur við hungrinu, sem ég vissi
að væri á næsta leiti, ef ég færi að
sækja á brattann sem myndlistar-
maður. Þó var ég síður en svo
smeykur við það persónulega. En
ég tók þá ákvörðun að nota
myndlistina til að fullkomnæmitt
prentverk og mér finnst satt að
segja, að það hafi kannske heppn-
ast að einhverju leyti.
Ég átti enga peninga til að hafa
til Hafnar. Þá datt mér í hug að
gefa út bók og reyna að græða á
henni. Eftir nokkra leit ákvað ég
að stela hugmyndinni bak við
danska heimilisdagbók. Þetta var
svona bók, sem fólk færði inn í
allan sinn heimiliskostnað. Ég
bætti svo um betur og setti
auglýsingu á hverja síðu. Veiztu
hver safnaði auglýsingunum? Al-
freð Andrésson, gamanleikari. Og
hann var svo duglegur, að við
höfðum nokkurn pening út úr
þessu. Upp úr þessu urðum við
Alfreð góðir vinir. Enda var hann
fágætur maður. Ég kallaði útgáf-
una Njál. í höfuðið á bóndanum á
Bergþórshvoli. Það er margt sem
sá maður hefur mátt þola eftir
brennuna."
Slegið saman
í eina ölflösku
„Nú, en ég fór til Kaupmanna-
hafnar og í skólann. Þegar til kom,
átti ég mjög auðvelt með að
tileinka mér formkenningar skól-
ans; þetta formskyn í hinni nýju
prentlist, eins og formið var þá
nefnt af forystumönnum hennar.
Mér fannst það liggja mér í
augum uppi. Það var eins og
innbyggt í mig.“
— Hvaðan hafðirðu það?
„Þetta bara bjó í mér. Annars
held ég að myndlistin í mér sé frá
langömmu minni, Guðbjörgu Eyj-
ólfsdóttur. Hún kenndi heimasæt-
um meðal annars hannyrðir,
teiknaði sjálf öll munstur og týndi
blóm og grös. Hún bjó til sín
kennslugögn sjálf. Það má segja
að svipað gerði ég í skólanum. Ég
notaði nær ekkert af þeim
kennslugögnum, sem lögð voru til,
heldur bjó til mitt efni sjálfur,
teiknaði, skar í dúk myndir og
skreytigögn. Og meira en það. Þeir
voru með bréfaskóla líka, tólf
verkefni. A kvöldin dundaði ég við
að leysa þau og um haustið lagði
ég fyrir þá úrlausnir mínar, ekki
bara tólf, heldur þrjár af hverri,
samtals 36 úrlausnir. Ég man,
hvað augun í þeim urðu stór,
þegar ég skákaði þessari kvöld-
vinnu fram á borðið. Allar úr-
lausnirnar voru dæmdar ágætar.
Og sumarvinnan mín í skólanum
birtist svo öll eins og hún lagði sig
í fagtímaritinu Det grafiske fag.
Þetta gaf mér faglegt traust á
sjálfan mig. Ég hef oft hugsað um
það síðar, að þessi skóli hafi verið
mér eins konar stökkpallur. Ég
Hafsteinn Guð-
mundsson flettir Þjóð-
vinafélagsalmanakinu,
sem heillaði hann ung-
an í Gularási í Landeyj-
um.
fékk vissu um það að ég var á
réttri braut og að mér var óhætt
að miðla öðrum.“
— Þú hefur ekki gefið þér
mikinn tíma til „hins ljúfa lífs“ í
Kaupmannahöfn?
„Blessaður vertu. Það var eng-
inn peningur til. Ég man til dæmis
eftir því, að við Stefán Jónsson
arkitekt hittumst stundum. Og oft
áttum við ekki meiri pening en
það, að við urðum að slá saman í
eina ölflösku."
— Hvað tók svo við, þegar
skólanum lauk?
„Kennarar mínir réðu mig í
Gutenberg hús án þess að ég
minntist á það við þá. Það er svo
merkilegt, að ég byrjaði þar sama
mánaðardaginn og ég byrjaði í
ísafold áður; 2. september.
Nákvæmlega tíu árum síðar.
En 2. september 1939 var líka
dagurinn, sem Þjóðverjar réðust
inn í Pólland. Innrásin olli mikl-
um kvíða í Danmörku og þeir fóru
strax að segja upp fólki í prentiðn-
aðinum. Fjögur hundruð prentur-
um sögðu þeir upp á einu bretti að
kalla; fyrstu vikuna minnir mig.
Ég fann það líka strax, að ég var
litinn hornauga. Ég var útlending-
ur og hafði vinnu meðan innlendir
voru látnir hætta. Eftir mánuðinn
var mér sagt upp.
Þegar ég kom út úr Gutenberg
hus að loknum síðasta vinnudegi,
standa þá ekki tveir menn á
tröppunum og svífa á mig. Þeir
voru frá skólanum og sögðust vera
búnir að útvega mér vinnu hjá
F.E. Bording sem er stórt og
gamalt prentverk í Kaupmanna-
höfn. En nú ætlaði ég heim. Ég
átti konu heima og allt í einu
fannst mér einhvern veginn ekki
ráðlegt að vera lengur að heiman
eins og á stóð. Ég fór upp til F.E.
Bording og þakkaði þeim elsku-
legheitin. Mætti ég eiga ykkur að,
ef ég kem aftur?, spurði ég. Þó það
nú væri. Vertu velkominn, hvenær
sem er, sögðu þeir.
Ég náði svo í síðustu ferð
Drottningarinnar til Islands. Það
er svo ef til vill önnur saga, en
varla hefði ég komið heim fyrst
um sinn, ef stríðið hefði ekki
brotizt út. Ég hafði í hyggju að
vinna við prentverkið á daginn, en
stunda skóla á kvöldin. En forlög-
in hafa ætlað mér heim.“
— Hvað tók svo við hér heima?
„Ég hélt áfram í ísafold og
menntaði mig sem ég gat í mynd-
listinni hjá þeim Jóhanni Briem,
Finni Jónssyni og Þorvaldi Skúla-
syni.
Strax um haustið stofnaði ég til
tilraunanámskeiðs fyrir setjara og
fékk til þess húsnæði í Iðnskólan-
um. Eftir þann vetur fékk skóla-
stjórinn, Helgi H. Eiríksson, mig
til þess að kenna fagteikningu í
minni iðn. Það gerði ég svo í 20
ár.“
— Varstu lengi í ísafold?
„Til 1942. Þá stofnaði ég
prentsmiðjuna Hóla. Kristinn
Andrésson hafði mikinn áhuga á
stofnun prentverks fyrir Mál og
menningu. Ég hygg að hann hafi
talað við mig eftir ábendingu
Stefáns Ögmundssonar prentara."
— Af hverju? Varstu kommi?
„Ég hef alla t.íð viljað styðja
þann, sem mér i'innst þurfa hjálp-
ar við eða vera hornreka í lífinu.
Ef það er kommúnismi, hef ég
vafalaust verið kommi. Hinn
hrjáði á enn alla mína samúð.
Annars vorum við Stefán góðir
vinir á þessum árum. Nú, en ég sló
til og tók tilboði Kristins. Ég var
þó allkrumpinn, því mér fannst
þetta í stórt ráðist og mig vantaði
viðskiptalega kunnáttu.
Mig langar að sýna þér tvennt,
sem ég gerði á þessum Hólaárum
mínum. Prentverk er í mínum
augum list, mundu það. Hér sérðu
nokkur titilblöð, sem ég téiknaði á
einn bókaflokkinn og lét síðan
setja upp í hendi. Þá voru rammar
í tízku á titilblöðum, ef mikið þótti
við þurfa, en voru að mínu áliti oft
skelfing ósmekklega notaðir.
Þetta varð 70 bóka flokkur og kom
út í 7 ár og ég einsetti mér að hafa
mismunandi ramma á öllum titil-
blöðunum, svona til að sýna,
hvernig væri þó hægt að nota
ramma á smekklegri og marg-
víslegri hátt. Sjálfur hafði ég
annars ekkert dálæti á ramma-
setningu og hef aldrei haft. En
sjáðu þetta“.
„Svo er hérna annar bókaflokk-
ur, sem ég sá alveg um eins og
hinn. Það er 25 ára afmælisútgáfa
Máls og menningar.
Hjá Hólum rissaði ég upp allar
þær bækur, sem mér þótti akkur í.
Þær skipta mörgum hundruðum.
Og í prentsmiðjunni hafði ég
ágætá starfsmenn, er lögðu sig
fram um það að fara eftir tillögum
mínum."
Það er.út af fyrir sig merkilegt
að fletta þessum bókum og heyra
Hafstein Guðmundsson fjalla um
útlit þeirra. Frómt frá sagt, þótt
blaðamaður sé og þekki af eigin
raun, hvað góð útlitsteikning hef-
ur að segja, þá verð ég að
viðurkenna að bækur hef ég fyrst
og fremst lesið, en ekki skoðað.
Hafsteinn hlær svolítið, þegar ég
hef orð á þessu og segir mér
eftirfarandi sögu:
„Utgefandi nokkur, sem þótti
hafa yfir meðallagi gott vit á
texta, hafði neitað að gefa út ljóð
eftir mann nokkurn. Ég sleppi
nöfnunum af ásettu ráði. Þau hafa
ekkert með söguna í þessu sam-
hengi að gera. Ég tók mig svo til
og gaf þessi ljóð út. Teiknaði
bókina sjálfur. Skömmu síðar
mætti ég hinum útgefandanum á
götu og þá segir hann: Það er
einkennilegt, Hafsteinn, að þetta
eru allt önnur ljóð, sem þú gefur
út, heldur en þau, sem ég las.
Þakka þér fyrir góði, sagði ég. Af
þessu má draga þann lærdóm, að
það er nauðsynlegt að gera eitt-
hvað fyrir texta með góðri útlits-
teikningu. Það er listin að geta
með prentlistinni lyft undir með
tjáningu skáldsins. Þá hefur vel
tekizt."
Núllið
er mitt tákn
Ég tek eftir því, að mörg þeirra
tölusettu eintaka, sem Hafsteinn á
eru númer 0. Hvers vegna?
„Núllið er symból fyrir mig. Þú
veizt að ef ekkert stendur með því,
þá þýðir það ekki neitt. Það fær
gildi sitt af því sem með því
stendur.
Ég get ekki fengið betra tákn
fyrir mig persónulega en núllið.
Það er mjög algengt að bókasafn-
arar bindi sig við ákveðna tölu.
Sigurður Nordal safnaði sjöum og
ég veit, að Tala Torfa Hjartarson-
ar er ellefu. Þorsteinn heitinn
Jósefsson og Magnús Kjaran söfn-
uðu tölunni einn. Þeir bitust hart
um það númer og hafði hvorugur
betur."
— Hvað varstu lengi með Hóla?
„Til 1963. Þá fer ég að byggja
mitt eigið prentverk; Prenthús
Hafsteins Guðmundssonar. En ég
var áfram hluthafi í Hólum og er
enn. Svo seldi ég Hólum prenthús-
ið í þeirri von að þeir fullkláruðu
húsnæðið, en þar vantar tvo þriðju
á ennþá. Hólar fluttu svo í prent-
húsið og seldu húsnæði sitt í
Þingholtinu. Af tilviljun keypti ég
svo síðar það húsnæði."
— Af hverju seldirðu prenthús-
ið? Fórstu á hausinn?
„Ekki vil ég viðurkenna það,
nema það sé að fara á hausinn að
selja sitt fyrirtæki. En það gekk
ekki að vera sjálfur útgefandi og
prenta um leið fyrir aðra, því ég
lét sjálfan mig ævinlega sitja á
hakanum.
Ég snéri mér svo alveg að
útgáfu, en hef jafnan ríslað mér
við að sjá um útlit bóka fvrir aðra
líka."
SJÁ NÆSTU SÍÐU