Morgunblaðið - 31.12.1982, Blaðsíða 14

Morgunblaðið - 31.12.1982, Blaðsíða 14
14 MORGUNBLAÐIÐ, FÖSTUDAGUR 31. DESEMBER 1982 Útgefandi Framkvæmdastjóri Ritstjórar Fulltrúar ritstjóra Fréttastjórar Auglýsingastjóri hf. Árvakur, Reykjavík. Haraldur Sveinsson. Matthías Johannessen, Styrmir Gunnarsson. Þorbjörn Guömundsson, Björn Jóhannsson. Freysteinn Jóhannsson, Magnús Finnsson, Sigtryggur Sigtryggsson. Baldvin Jónsson. Ritstjórn og skrifstofur: Aðalstræti 6, sími 10100. Auglýsingar: Aö- alstræti 6, sími 22480. Afgreiðsla: Skeifunni 19, sími 83033. Áskrift- argjald 150 kr. á mánuöi innanlands. í lausasölu 12 kr. eintakiö. Við upphaf kosningaárs Islenska þjóðin stendur nú við upphaf kosningaárs, hvort heldur þing verður rofið fyrr en seinna er ljóst að til þess verður kosið á árinu 1983. Þótt kjörtímabilinu sé ekki enn lokið og ekki heldur ferli núver- andi ríkisstjórnar er öllum landslýð fyrir löngu orðið ljóst, að þessi ríkisstjórn sem nú hef- ur setið í tæp þrjú ár er einhver hin misheppnaðasta síðan ís- lenskur maður varð fyrst ráð- herra, 1904. Hér er fast að orði kveðið en alls ekki of fast, því að vilji er allt sem þarf til að sjá hve illa hefur verið haldið á öll- um málum og þá ekki síst efna- hagsmálunum. Geir Hallgrímsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, segir í áramótagrein í Morgunblaðinu í dag: „Rétt er að knýja á um það, að ríkisstjórnin segi af sér fyrir kosningar og til þeirra sé boðað hið fyrsta. Hitt skiptir minna máli hvort einhverri bráða- birgðastjórn er komið á laggirn- ar eða núverandi stjórn sitji sem starfsstjórn fram yfir kosningar." Það er óhætt að slá því föstu, að engin bjartsýni ríkir hjá þeim Islendingum sem bera hag þjóðar sinnar fyrir brjósti og við mörgum einstaklingum blasir í raun afkomubrestur við þessi áramót. Þeir sem nú fara með ráðherravald á íslandi hafa ekki bent á neina leið út úr vandanum og þá skortir í raun bæði fylgi og dirfsku til að tak- ast á við hann. Fáir menn hafa meiri og lengri reynslu af því að takast á við hin margvíslegu viðfangs- efni sem við er að glíma í lands- stjórninni en dr. Jóhannes Nordal, seðlabankastjóri. Hann hefur í nýlegri forystugrein í Fjármálatíðindum lýst stjórn- arháttum í landinu nú með þessum orðum: „I stað þess að horfast í augu við vandann í heild sinni taka menn það gjarnan til bragðs að stýra und- an öldunni og reyna að forðast áföll með því að bregðast við vandamálunum hverju á fætur öðru. Þótt slík viðleitni sé vissu- lega betri en engin og geti nokkru bjargað í bili, er hætt við, að menn hreki fljótlega af leið, missi sjónar af megin- markmiðunum og nýtt ólag ríði yfir jafnskjótt og hinu fyrra sleppir. Öllu þessu má finna stað í efnahagsþróuninni hér á landi að undanförnu." Það er svo sannarlega ekki árennilegt að hefja nýtt og erf- itt ár undir forystu manna, sem sjá þann kost vænstan að hleypa undan öldunni þegar björgin felst í því að ná landi í gegnum brimgarðinn og til þess þarf sameinað átak, áræði og glöggskyggni. Dr. Jóhannes Nordal segir í grein sinni að hin illvíga verðbólga sé meginorsök þeirrar sjálfheldu, sem stjórn efnahagsmála er komin í hér á landi og hann varpar fram þess- ari hugmynd: „Sú spurning hlýtur því að gerast sífellt áleitnari, hvort það sé ekki að verða Islendingum lífsnauðsyn að brjótast út úr vítahring verð- bólgunnar með því m.a. að af- nema með öllu hið vélgenga verðbótakerfi launa og verðlags, sem hér hefur verið við lýði í meira eða minna mæli um ára- tuga skeið." Hugmyndir sem þessar hljóta að koma til álita í kosningabar- áttunni þó málið sé að sjálf- sögðu viðkvæmt. Síðasta af- skræmingin á stjórn efna- hagsmála eru láglaunabæturn- ar svonefndu, sem ríkisstjórnin beitti sér fyrir og áttu að vera smyrsli á sárin eftir launa- skerðinguna 1. desember. Hvað- anæva af landinu berast mót- mæli vegna þessara ráðstafana — þær eru jafn misheppnaðar og annað sem ríkisstjórnin hef- ur tekið sér fyrir hendur. Misréttið í þjóðfélaginu magnast dag frá degi. í opnu bréfi sem Þórunn Christiansen, einstæð fimm barna móðir, sendi Ragnari Arnalds, fjár- málaráðherra, og birtist hér í blaðinu á þriðjudaginn sagði meðal annars: „Á íslandi hefur það fram til þessa ekki þótt neitt til að hrósa sér af að þiggja ölmusu, en ekki hafði mig samt órað fyrir að ég með mína ómegð ætti eftir að verða einn af máttarstólpum þjóðfé- lagsins. í þeirri von að þetta framlag mitt (að fá ekki lág- launabætur) megi verða þjóðar- búinu til hjálpar og ef til vill forða skútunni frá að vera hirt upp í skuld hjá einhverju stór- veldinu, þá óska ég yður gleði- legs nýars." Þórunn segist vera svo lán- söm að vera alin upp við, að reyna að koma auga á ljósu punktana í lífinu, jafnvel þó þeir séu stundum agnarlitlir — þetta hafi fleytt sér yfir marga erfiðleika. Þetta lán hennar hefur löngum verið haldreipi ís- lensku þjóðarinnar. Ljósu punktunum hefur ekki fjölgað í landsstjórninni á því ári sem við nú kveðjum, en á því næsta gefst okkur færi á að bæta úr skák í almennum kosningum. I von um að svo verði óskar Morgunblaðið lesendum sínum og landsmönnum öllum gleði- legs nýars. Geir Hallgrímsson formaður Sjálfstæðisflokksins: ÁRAT Okkur sjálfstæðismönnum eru ofarlega í huga sveit- arstjórnarkosningarnar á liðnu ári þegar Sjálfstæðis- flokkurinn vann mikinn sigur og endurheimtur var meirihlutinn í borgarstjórn Reykjavíkur eftir eitt kjör- tímabil vinstristjórnar. Með sama hætti horfum við fram á veginn til næsta árs þegar alþingiskosningar verða og væntum þess að sagan endurtaki sig og Sjálf- stæðisflokkurinn vinni góðan sigur svo að létta megi af landsmönnum oki vinstristjórnarstefnu. Með þessum hætti tryggir lýðræðið að kjósendur geti skipt um ríkis- stjórnir og sveitarstjórnir. Á liðnu ári hafa kosningar farið fram í Svíþjóð og á Spáni og árið á undan í Frakklandi og Noregi og nú á næsta ári verða kosningar í Vestur-Þýskalandi og vænt- anlega einnig í Bretlandi. í kjölfar þessara kosninga hafa átt sér stað stjórnarskipti, ýmist með þeim hætti að hægri flokkar eða vinstri flokkar hafa tekið við völdum. Þessu er ekki þannig háttað í einræðisríkjum austan tjalds. Sá atburður sem hvað hæst bar erlendis var fráfall Brésnéfs, forseta Sovétríkjanna og aðalritara kommún- istaflokksins, þar og valdataka Andropov, fyrrverandi yfirmanns hinnar illræmdu KGB-ógnarlögreglu. Menn hugleiða nú hvort þessi valdhafaskipti hafi í för með sér breytta stefnu Sovétríkjanna. Slíkar vangaveltur hafa komið upp í hvert sinn, sem nýr valdamaður hefur komið til sögunnar austur þar eftir tíð Stalíns. Niður- staðan hefur jafnan orðið sú að Sovétríkin hafa haldið óbreyttri heimsvaldastefnu. Ekkert bendir til að stefna Sovétríkjanna gagnvart Póllandi og frjálsri verka- lýðshreyfingu þar muni breytast eða að Sovétmenn muni draga heri sína heim frá Afganistan þar sem blóðug styrjöld er háð með grimmilegri íhlutun og yfir- gangi Sovétríkjanna. Engar líkur benda heldur til þess, að Sovétríkin dragi úr vígbúnaði sínum og áformum um aukin áhrif og yfirráð í heiminum. Það er engum vafa bundið að útþensla Sovétríkjanna og aukin áhrif þeirra og leppríkja þeirra þrengir að lýðræðisríkjunum, dregur úr svigrúmi þeirra. Lýðræð- isríkin hljóta því að efla og styrkja það varnarbandalag sem stofnað var eftir heimsstyrjöldina síðari í kjölfar útþenslustefnu Sovétríkjanna þá og valdaráns komm- únista í austantjaldsríkjum. En sá er einnig munur á lýðræðisríkjum og einræð- isríkjum að einræðisherrarnir þurfa ekki að spyrja þegnana hvort þeir vilji verja fjármunum í vígbúnað, heldur er vilji einræðisherranna allsráðandi. Valdhafar í lýðræðisríkjum verða aftur á móti að bera það undir borgarana hvort þeir vilji greiða þá skatta sem nauð- synlegir eru til þess að tryggja öryggi og varnir. Það er auðvitað uggvænlegt að ógnarjafnvægi milli stórveld- anna sé e.t.v. eina trygging friðarins. Því er ekki að furða að menn leiti annarra leiða og stofni til friðar- hreyfinga. Friðarhreyfingar og barátta fyrir friði er góðra gjalda verð ef hún eyðir tortryggni milli manna og þjóða og stuðlar að gagnkvæmri afvopnun undir tryggu eftirliti. Berjist friðarhreyfingar fyrir einhliða afvopnun, þá eru þær af hinu illa og til þess vísastar að auka ófriðarhættuna og yfirgang einræðis- og ofbeldis- afla. Reynslan af Atlantshafsbandalaginu sýnir okkur Vestur-Evrópubúum, að í okkar hluta heims hefur frið- ur ríkt frá stofnun bandalagsins og því er það sann- mæli, sem ég hef áður haft á orði, að Atlantshafsbanda- lagið eru mikilvægustu friðarsamtök, sem við íslend- ingar tökum þátt í. Engum blöðum er um það að fletta að Sovétríkin hafa á síðustu árum unnið mjög á í vígbúnaði miðað við vesturveldin. Sovétríkin hafa öðlast yfirburði á ákveðn- um hernaðarsviðum. Atlantshafsbandalagið samþykkti því á fundi sínum í desember 1979 að setja upp meðal- drægar eldflaugar í Evrópu fyrir árslok 1983 til þess m.a. að fá Sovétríkin að samningaborðinu um gagn- kvæma afvopnun. Meðan Sovétríkin komu upp mörg hundruð eldflaugaoddum meðaldrægra eldflauga sem stefnt var að lýðræðisríkjum Vestur-Evrópu heyrðist lítið sem ekkert í ýmsum þeim friðarhreyfingum eða tillögumönnum sem vilja nú að vesturveldin afnemi áðurgreinda samþykkt sína um uppsetningu meðal- drægra eldflauga í Evrópu á næsta ári ef ekki semst um gagnkvæma afvopnun. Ef slíkar ráðagerðir tækjust, væri það vísasti vegurinn til þess að Sovétríkin hreyfðu sig hvergi og gæfu í engu eftir í vígbúnaðarkapphlaup- inu. Slíkar friðarhreyfingar eru ekki trúverðugir boð- berar friðar. Við vonum auðvitað að viðræður um afvopnun beri árangur og unnt verði að beina framleiðslu iðnríkja að öðru fremur en vopnum. Sú von að úr vígbúnaði Sov- étmanna dragi kann þó fremur að byggjast á því að efnahagslegur vanmáttur þeirra sé slíkur að þeir geti ekki undir meiri vígbúnaði staðið en á góðum vilja þeirra til gagnkvæmrar afvopnunar. Fréttir frá Sovét- ríkjunum eru af skornum skammti en haft er fyrir satt að efnahagsástandið þar sé víða litlu betra en í Pól- landi. Efnahagsástandinu í Póllandi er eins og kunnugt er lýst þannig að verðlag hefur hækkað um 400% á einu ári, kjötskammturinn er skorinn við nögl en þó er talið að almennir launþegar hafi ekki peninga til að nýta skammtinn nema að einum þriðja. Ef ástandið er orðið eitthvað þessu líkt í Sovétríkjunum, er e.t.v. ekki borin von að valdhafar sjái að sér eða séu þrátt fyrir einræð- isskipulagið knúnir til þess vegna óánægju íbúa Sovét- ríkjanna. En víst er um það að vestræn ríki geta ekki treyst því að valdhafar þar eystra breyti um stefnu og því verður varnarstyrkur lýðræðisríkjanna að vera slík- ur að einræðisherrar hætti ekki á átök. Vissulega legg- ur varnarviðbúnaður lýðræðisríkjanna fjármálalega byrði á borgarana og höfum við Islendingar minnst af því að segja, en sú byrði er eins og stendur það verð sem borgararnir verða að greiða fyrir það frelsi sem ríkir í vestrænum lýðræðisríkjum. - X - I baráttu austurs og vesturs, einræðis og lýðræðis, hefur og blandast sá vandi sem felst í stöðu þróunar- landa og þróaðra ríkja. Hin fjölmörgu vanþróuðu ríki hafa gert þá kröfu til þróaðra landa að jafnaður sé efnahagslegur munur þeirra á milli og iðnríkin hafa viðurkennt þá kröfu með því að greiða atkvæði með samþykkt Sameinuðu þjóðanna að verja skuli allt að 1% þjóðartekna iðnríkja til aðstoðar við þróunarlöndin. Nú er það að vísu deiluefni hvernig sú aðstoð hefur komið að notum þegar eftir samþykkt Sameinuðu þjóð- anna hefur verið farið. Margir telja, að aðstoðin hafi að engu orðið, gufað upp í miðstýrðu og spiiltu efnahags- kerfi þróunarlanda og því ekki orðið til þeirra framfara, þar sem ætlast var til. En verra er þó, að þegar einstök þróunarlönd hafa vaxið svo úr grasi, að þau taka að veita iðnþróuðu löndunum eða iðnríkjunum samkeppni, gætir þeirra tilhneiginga innan iðnríkja, að setja á verndartolla og viðskiptaþvinganir til þess að koma í veg fyrir slíka samkeppni. Skýringin er auðvitað óttinn við atvinnuleysið í iðnríkjum. Það er eðlilegt að iðnrík- in, sem berjast við atvinnuleysi, vilji forðast þann vá- gest. En það er hræsni að þykjast gefa með annarri hendinni og taka það svo aftur með hinni. Við íslendingar teljumst til þróaðra iðnríkja, en höfð- um af litlu að státa í aðstoð við þróunarlöndin. En við eigum sameiginlegra hagsmuna að gæta með þeim, að ekki sé snúist við efnahagssamdrætti og atvinnuleysi með viðskiptamúrum, millifærslum og styrkjum úr opinberum sjóðum til atvinnufyrirtækja í iðnríkjum. Með þeim hætti hefur samkeppnisaðstaða sjávarútvegs okkar og iðnaðar eins og skipasmíðaiðnaðar verið skert. Frjáls milliríkjaverslun og alþjóðleg efnahagsleg sam- vinna innan samtaka eins og EFTA, Efnahagsbanda- lagsins og OECD-ríkja og þátttaka íslands í henni á af okkar hálfu að stefna gegn slíkri hafta- og styrkja- starfsemi, sem er og verður Þrándur í Götu efnahags- legum framförum og bættum lífskjörum í heiminum. Og umfram allt skulum við ekki beita þeim aðgerðum til lausnar eigin efnahagsvanda, sem við viljum með engu móti að aðrar þjóðir noti gegn hagsmunum okkar. Okkur íslendingum er ekki síður en öðrum þjóðum brýn nauðsyn að taka þátt í alþjóðlegu samstarfi. Skýr- asta sönnun þess er hafréttarráðstefnan og hafréttar- sáttmálinn, sem nýlega var undirritaður. Ársins 1982 verður hér á landi lengi minnst af því tilefni og þakkir eru fluttar þeim mönnum, sem verið hafa forystumenn og formælendur á sviði hafréttarmála. Ástæða er til að geta þar sérstaklega þáttar Hans G. Andersen, sem verið hefur í fremstu víglínu frá byrjun og til þessa dags. Nú þurfum við að tryggja réttindi okkar samkvæmt hafréttarsáttmálanum og Hans G. Andersen kemur einmitt til viðræðna við utanríkismálanefnd alþingis í byrjun ársins til að fjalla um þingsályktunartillögur sjálfstæðismanna um réttindi okkar á Reykjanes- hryggnum, hafsbotnssvæðinu suður af landi og varð- andi laxveiðar í sjó. Baráttan gegn atvinnuleysi og verðbólgu hefur ein- kennt efnahagslíf flestra viðskiptalanda okkar síðustu árin. Verðbólgan hefur þar að vísu ekki verið mikil á okkar mælikvarða en engu að síður alvarleg í þeirra augum. Nú er svo komið að náðst hefur töluverður árangur í baráttunni gegn verðbólgu og víðast hvar er hún nú komin niður fyrir 10% og jafnvel enn lægri orðin, bæði í Bretlandi og Bandaríkjunum. En atvinnu-

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.