Morgunblaðið - 09.01.1983, Blaðsíða 16

Morgunblaðið - 09.01.1983, Blaðsíða 16
16 MORGUNBLAÐIÐ, SUNNUDAGUR 9. JANÚAR 1983 plnrguj Útgefandi tiÞlaMfc hf. Árvakur, Reykjavík. Framkvæmdastjóri Flaraldur Sveinsson. Ritstjórar Matthías Johannessen, Styrmir Gunnarsson. Fulltrúar ritstjóra Þorbjörn Guömundsson-, Björn Jóhannsson. Fréttastjórar Freysteinn Jóhannsson, Auglýsingastjóri Magnús Finnsson, Sigtryggur Sigtryggsson. Baldvin Jónsson. Ritstjórn og skrifstofur: Aöalstræti 6, sími 10100. Auglýsingar: Að- alstræti 6, sími 22480. Afgreiðsla: Skeifunni 19, sími 83033. Áskrift- argjald 150 kr. á mánuöi innanlands. í lausasölu 12 kr. eintakiö. Þáttaskil í álmálinu Síðasta skeyti Hjörleifs Gutt- ormssonar til Alusuisse hefur að geyma úrslitakosti. Þar er því lýst yfir, að hverfi aðalsamninga- maður Alusuisse, dr. Paul Múller, ekki frá fyrirvara þeim sem hann hefur sett fyrir því að leggja til við stjórn Alusuisse, að hún sam- þykki upphafshækkun á raforku til álversins í Straumsvík, muni þaö „spilla sambandi milli aðila og stofna enn á ný í hættu möguleik- um á því að deilan verði leyst með samningum". Þau skilyrði sem dr. P. Múller hefur sett fyrir því að hann leggi tillögu um upphafs- hækkun á raforku fyrir stjórn Alusuisse eru þessi: 1) Ríkis- stjórnin samþykki að stækka megi álverið í Straumsvík þannig að tekið verði í notkun þriðja fram- leiðslukerfið. 2) Ríkisstjórnin samþykki að Alusuisse sé heimilt að selja allt að 50% eignarhluta sínum í ÍSAL til annarra í stað 49% eins og nú er. í síðasta skeyti sínu frá 5. janúar segir Hjörleifur Guttormsson um þessa afstöðu Alusuisse: „Ríkisstjórnin lítur þessi viðbrögð yðar alvarlegum augum." Ráðherrann krefst þess í nafni ríkisstjórnarinnar að Alu- suisse samþykki í einu og öllu þau sjónarmið sem hann hefur sett fram og þá geti viðræður haldið áfram, að öðrum kosti verði hann að leita lausna á deilunni „eftir öðrum löglegum leiðum“ eins og segir í skeytinu. Frá því að síðasta viðræðufundi aðila lauk hér í Reykjavík fyrir mánuði hafa þeir skipst á skeytum og það sem athygli vekur við lest- ur þeirra er, að iðnaðarráðherra er ávallt að tína til ný og ný þrætuatriði við Alusuisse. Fæst af þeim atriðum sem ráðherrann hefur hingað til sett fyrir sig eru annað en fyrirsláttur. Þrátt fyrir stóru orðin skortir Hjörleif Gutt- ormsson greinilega kjark til að ganga til alvöruviðræðna við Alu- suisse. Ef þetta er ekki ástæðan fyrir sifelldum fyrirslætti iðnað- arráðherra er hennar að leita í þeirri grundvallarstefnu Alþýðu- bandalagsins að spilla fyrir fullt og allt sambandi Islendinga og Alusuisse og eyðileggja önnur tækifæri sem okkur kunna að bjóðast til að nýta orku frá stór- virkjunum' í samvinnu við erlenda aðila. Málsmeðferð iðnaðarráðherra er síst til þess fallin að mynda þjóðarsamstöðu í álmálinu, enda hefur hann ekki einu sinni ríkis- stjórnina á bak við sig í hótunum sínum við Alusuisse. Engar efnis- legar umræður hafa farið fram um álmálið í ríkisstjórninni frá því fyrir jól og síðasta skeyti sitt til Alusuisse lagði iðnaðarráð- herra fyrir meðráðherra sína eftir að hann hafði sent það. Öllum er ljóst, að miðað við stöðu áliðnað- arins í heiminum er varanleg verðhækkun á raforku til álvers- ins í Straumsvík óraunhæf nema samþykkt verði að auka megi framleiðslugetu þess og það sýnist jafnframt forsenda þess að ís- lenska ríkið eða þriðji aðili gerist hluthafi í fyrirtækinu. En um bæði þessi atriði er mun víðtækari pólitísk samstaða í landinu en for- dómafulla afstöðu Hjörleifs Gutt- ormssonar og Alþýðubandalags- ins. Þetta veit iðnaðarráðherra og þess vegna hagar hann meðferð sinni á málinu með þeim hætti að láta meðráðherra sína standa um- ræðulaust fyrir orðnum hlut. Er geðleysi þeirra ekki síður ámæl- isvert en yfirgangur iðnaðarráð- herra, sé tekið mið af íslenskum hagsmunum í bráð og lengd. Það er Landsvirkjun sem selur orkuna til álversins í Straumsvík en til þessa hefur iðnaðarráðherra auðvitað ekki viljað að fulltrúar hennar ættu aðild að viðræðunum við Alusuisse. Hann hundsaði jafnvel hina svonefndu álviðræðu- nefnd þar til hann lagði hana ein- hliða niður. Nú hefur stjórn Landsvirkjunar skipað nefnd til að koma fram fyrir sína hönd og eiga aðild að endurskoðun orku- sölusamninga við Alusuisse. Ef að líkum lætur mun iðnaðarráðherra bregðast við skipun þessarar nefndar af alkunnum alþýðu- bandalagshroka, enda vilja full- trúar Landsvirkjunar að sjálf- sögðu taka mið af hag fyrirtækis- ins og þar með þjóðarhag en ekki láta stjórnast af fordómum Alþýðubandalagsins. Vonandi markar þetta frumkvæði Lands- virkjunar nauðsynleg þáttaskil í álmálinu. Abyrgð í Reykjavík Ilandsstjórninni hafa kommún- istar og framsóknarmenn haft það að leiðarljósi, að síst af öllu beri að sníða sér stakk eftir vexti. Þeim hefur verið það sérstakt kappsmál að þjóðin lifi um efni fram á erlendum lánum. Það er því engin furða þótt málgögn þess- ara flokka og fulltrúar þeirra í borgarstjórn Reykjavíkur bregðist við með illindum og úrtölum, þeg- ar meirihluti sjálfstæðismanna samþykkir fjárhagsáætlun fyrir höfuðborgina sem er í andstöðu við óráðsíu vinstrimennskunnar. Með fulltingi Ragnars Arnalds, fjármálaráðherra, og í krafti skattheimtu rikissjóðs á nú að beita rikisvaldinu til að koma í veg fyrir með málaferlum að dreg- ið verði úr hallarekstri Strætis- vagna Reykjavíkur og þannig munu vinstri menn nota hvert ein- asta tækifæri sem þeim gefst til að koma höggi á Reykvíkinga og fyrirtæki þeirra — þeim hefur meira áð segja næstum tekist að eyðileggja Hitaveitu Reykjavíkur. Reykvíkingar verða af ábyrgð að snúast til varnar gegn þessari að- för vinstri manna. Það er til marks um hróplega hræsni, þegar Ragnar Arnalds er nú allt í einu sagður málssvari þeirra sem minnst mega sín, af því að hann ætlar að leggja fram fé til mála- ferla gegn Strætisvögnum Reykja- víkur. Kæmi engum á óvart, þótt sú hugmynd fæddist hjá fjármála- ráðherra, að líklega væri skyn- samlegast að nota láglaunabóta- féð sem hann hefur dreift um landið af alkunnu jafnréttishug- arfari til að greiða niður strætis- vagnagjöld í Reykjavík — þar með væri þó komið í veg fyrir að stræt- isvagnagjöldin væru greidd beint með erlendum lánum. 1 Reykj av íkur br éf Laugardagur 8. janúan Agnar Kofoed-Hansen Agnar Kofoed-Hansen flug- málastjóri, sem lézt fyrir skömmu eftir harða baráttu við erfiðan sjúkdóm, var einn af frumherjum okkar samtíma. Einstaklingur, sem skaraði fram úr og markaði djúp spor í nútímasögu okkar. Hann var einn þeirra manna, sem með kjarki, þrautseigju, dugnaði og framsýni, kom flugsamgöngum á hér innanlands og hafði afdrifa- rík áhrif á þróun millilandaflugs, með hugmynd um að nota Lux- emburg sem áfangastað á flugi Loftleiða milli Evrópu og Banda- ríkjanna. Sú hugmynd varð að veruleika og lagði grundvöll að þessu flugi til frambúðar, eftir að þrengt hafði verið að flugi Loft- leiða í öðrum löndum, bæði í Þýzkalandi og á Norðurlöndum. Agnari Kofoed-Hansen verður kannski bezt lýst með því að vitna í frásögn hans sjálfs af göngu hans á fjallið Kilimanjaro, en frásögn þessi birtist í æviminn- ingum hans, sem út komu hjá Al- menna bókafélaginu fyrir þremur árum. Hann segir: „Um eittleytið lögðum við upp, vansvefta og í ömurlegu skapi, í rauninni sárþjáðir, veikir ... Ein- kennileg nótt. Engin leið að gleyma henni. Ég hef enga lifað eins ömurlega. Isþoka — og gekk á með éljum. Jónatan fór fremstur og hafði í hendi stormlukt með ofurlitlum steinolíukveik, svipaðri gamallri fjóslukt — og við hvert fótmál hans sveiflaðist kerið og birtufleygarnir og skuggarnir flöktu um hjarnið og uppi yfir okkur göslaði tunglið ský úr skýi með tilheyrandi risavöxnum furðuskuggum. Þetta stórskorna og smágerða flökt ljóss og skugga gerði mann hreinlega sjóveikan enda heilsufarið ekki upp á marga fiska vegna súrefnisleysisins og batnaði svo sannarlega ekki eftir því sem ofar dró. Kynjaveröld — engu lík sem ég hafði áður séð í heiminum og við Davíð ýmist á hnjánum í henni eða skríðandi, báðir með velgju. Þegar við nálguðumst Gilman- tind í 12 stiga frosti síðla nætur var Davíð orðinn svo miður sín að ég varð að hrópa þrótt í hann síð- asta spölinn, þótt ég ætti fullt í fangi með sjálfan mig. Og á Gil- man komst Davíð, en þar var hon- um öllum lokið og ákvað að fara ekki lengra. Jónatan horfði læknisaugum á Davíð og þagði, sá að vonlaust væri að hvetja hann. Þeir hurfu okkur í ísþokuna — og með þeim fór taskan með nest- inu okkar allra, ef undan er skilin súkkulaðiplata sem ég geymdi í brjóstvasanum og matarlús, sem Jónatan hafði í pússi sínu. Ég var raunar ekkert brattari en Davíð; aðeins þrjóskari, enda ættaður af hálfu úr Breiðafirðin- um. Ég var staðráðinn í að halda áfram, þótt ekki væri nema til að ná myndum, þegar ísþokunni létti. Frá Gilman á Uhuru? Það er tæpur fimm tíma gangur fram og til baka og hæðarmunurinn um þrjú hundruð og tíu metrar, ærinn munur í metrum talinn, þegar svo hátt er komið, — og leiðin auk þess torfær með afbrigðum, lang- ur gangur upp og niður mikil snjóbelti, og það eru þau sem flestir hafa sem afsökun fyrir því að snúa við á Gilman, enda ótrú- legt hvað af mönnum er dregið þegar þangað er komið. Mér varð að von minni. Veðrið skánaði eftir því sem nær dró sól- arupprás — en snjóbeltin reynd- ust mér ofviða. Mjög einkennileg í laginu, engu Iíkara en maður væri kominn á aðra jarðstjörnu. Geisl- unin frá sól á snjóinn á miðbaugi veldur því að ekki myndast venju- legir skaflar heldur píramídar, í laginu eins og skriðdrekarnir voru hugsaðir fyrir stríð — en þarna í gegn er stytzta leið til Uhuru. Eg var orðinn eins og benzín- laus bíll og nú hefði nesti og hun- ang komið í góðar þarfir — en við urðum að láta okkur nægja súkku- laðibita og brot af matarögn Jónat- ans; urðum að fara spart með; skammturinn dugði í hálftíma í senn. Brátt vorum við farnir að troða snjóinn upp í klof, ekki beint áreynsla við hæfi örmagna manns með svo til tóman maga — en Jónatan klofaði ekki lengi hann brá á það ráð að mjaka sér áfram á maganum. Ég reyndi að fara að dæmi hans — en sökk og fékk vitin full af lausamjöll. Snjórinn bar mig ekki. Ég var miklu þyngri en Jónatan. Ég hlaut því að þurfa að halda áfram að klofa snjóinn og það vissi ég, að var vonlaust fyrir mig. Allir vita hverja orku þarf til að klofa snjó til lengdar upp í mið læri og ég hafði engu að brenna nema sjálfum mér. Eg vissi líka, að ef ég örmagnaðist, hefði Jónat- an ekki burði til að bera mig til baka. Ég æpti því á hann, að nú vildi ég snúa við. Nei! öskraði hann um öxl. Ég kemst ekki lengra! Þú hefur sterkt hjarta og sterkt höfuð öskraði hann á móti og blés snjó. En snjórinn ber þig, ekki mig, þú ert svo léttur, svaraði ég. Ég kemst því ekki þessa leið. Ég verð þá að fara niður fyrir snjódyngj- urnar og svo upp fjær á harðfenn- inu. Hann samsinnti því og hélt áfram — eins og ekkert væri sjálfsagðara en ég fórnaði tæpum 100 metrum í þessari hæð, hann svamlaði bara áfram snjóhengj- urnar sínar þvert yfir gíginn stytztu leið í áttina til tindsins — en ég brölti með skíðastafinn góða til baka og niður fyrir fjárans snjóbeltið, fórnaði tæpum 100 metrum þarna í tæplega 6000 metra hæð, nærri 20 þús. fetum, matarlaus og sjóveikur. Það var mikil fórn en niður fór ég og fikr- aði mig síðan skáhallt upp skrið- urnar fjær og komst þá leið á gígbarminn þar sem Jónatan beið mín, örskammt frá og fór upp. Ég lagðist hjá honum, lá þarna hjá honum um stund eins og skotinn, brölti svo á fætur — og á Uhuru. Þar biðum við sólaruppkomu í 15 stiga frosti og sólin kom upp eins og hendi kveikti á lampa og hvílík sjón. Jökulmyndanirnar voru ólíkar öllum öðrum sem ég hafði séð, þær voru typptar — eins og risastórar rjómatertur." Ekki er fjarri lagi, að þessi frá- sögn Agnars Kofoed-Hansens af göngu hans á Kilimanjaro lýsi í hnotskurn lífsgöngu hans sjálfs og æviferli, enda heitir fyrri minn- ingabók hans, sem Jóhannes Helgi skráði: Á brattann. Menn á borð við Agnar Kofoed- Hansen verða alltaf umdeildir í svo fámennu samfélagi sem okkar. Þeir mæta oft skilningsleysi og hvorutveggja hefur Agnar Kof- oed-Hansen vafalaust reynt á sinni lífsleið, en þegar upp er stað- ið, skilja þeir meira eftir sig en flestir samferðamenn þeirra. Á síðastliðnu sumri átti höfund- ur þessa Reykjavíkurbréfs langt samtal við Agnar Kofoed-Hansen í tilefni af hörmulegu flugslysi, sem þá hafði nýlega orðið. Talið bárst að sjúkdómsbaráttu hans sjálfs. Ekki fór á milli mála, að hann ætlaði ekki að gefa sig fyrr en í fulla hnefana, en bætti því við, að hann hefði lifað svo skemmtilegu og fjölbreyttu lífi, að hann væri þess albúinn að mæta Skapara sínum. Þau fáu orð sögðu mikla sögu um sérstæðan mann. Valur Gíslason I rauninni er það nánast ótrú- legt, að enn skuli starfandi í ís- lenzku leikhúsi leikari, sem man og sá leikara aldamótaáranna á sviði. Svo er þó um Val Gíslason, sem á rúmlega hálfrar aldar leik- feril að baki og hóf að sækja sýn- ingar í Iðnó á árinu 1911, eða fyrir 72 árum. Nú fyrir jólin kom út bók um leikferil Vals Gíslasonar, sem Jóhannes Helgi tók saman. Til þess að gefa nokkra hugmynd um það tímabil íslenzkrar leiklistar- sögu, sem Valur Gíslason spannar, má geta þess að hann hefur vænt- anlega séð á sviði eina fremstu leikkonu íslendinga, Stefaníu Guömundsdóttur, en meira en hálfri öld síðar er sonardóttir Stefaníu, Sunna Borg, ein af mót- leikurum Vals Gíslasonar í sjón- varpsgerð Skálholts Guðmundar Kambans. Það er mikils virði fyrir íslenzkt leikhús og ekki sízt unga og upprennandi listamenn á þessu sviði að eiga aðgang að manni, sem hefur lifað slíkan tíma í ís- lenzku leikhúsi. Minnisstæðastur verður Valur Gíslason höfundi þessa Reykjavíkurbréfs í Fædd í gær, sem sýnt var í Þjóðleikhúsinu 1955, en þar sýndi hann á sér alveg nýja hlið sem gamanleikari. Svo og í Föðurnum eftir Strindberg 1958, þar sem hann reis hátt sem skapgerðarleikari. Það er skemmtileg tilviljun að þessi aldni leikari tók þátt í að hefja nýjan kapitula í íslenzkri leiklistarsögu,

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.