Morgunblaðið - 18.12.1983, Qupperneq 47
MORGUNBLAÐIÐ, SUNNUDAGUR 18. DESEMBER 1983
47
í kringum mat, leiðist svolítið sæl-
kerastúss og snobb.“
Að treysta á sjálfan sig
Þriðja bókin þín, sem kom út 1982,
heitir Brjóstagjöf og barnamatur.
Hver voru tildrög hennar?
„Ég á tvo stráka, og áður en ég
eignaðist þá vissi ég afskaplega lítið
um börn. Eg á ekki yngri systkini, og
það hafði aldrei hvarflað að mér að
næring ungbarna væri sérstakt
vandamál. Eg var með báða strák-
ana á brjósti í tæpt ár, og það var
ekki fyrr en ég fór að kynnast fleiri
mæðrum og tala um þessi efni við
þær, að ég komst að því að í augum
margra væri þetta ekki alveg eins
einfalt og það hafði reynst mér.“
Hver er boðskapur bókarinnar?
„Að konur eigi að treysta á sjálfa
sig. Um uppeldi og umönnun ung-
barna eru á lofti ýmsar kenningar,
ekki satt! Einn daginn er það predik-
að að það sé óhollt og sálarskemm-
andi að taka barnið upp og kjassa
það, annan daginn þykir þetta svo
sjálfsagður þáttur, til allrar ham-
ingju, og svo framvegis, og margir
foreldrar eru ringlaðir á þessu, og
vita ekki í hvorn fótinn þeir eiga að
stíga. Mín ráðlegging er að fólk yfir-
vegi málin sjálft, og finni sinn takt í
sjálfu sér. I því sambandi held ég að
gott sé að vita svolítið um það hvern-
ig líkaminn starfar; af þeirri þekk-
ingu ættum við að geta dregið álykt-
anir um hvað börnum er fyrir bestu.
Bókinni var ætlað að efla sjálfs-
traust kvenna. Ég reyndi að hafa
hana hlýlega og eins skýra og ein-
falda og frekast var unnt.“
Ég hef heyrt sérfróða menn ljúka
miklu lofsyrði á þessa bók. Þú hefur
væntanlega þurft að lesa þér mikið
til á meðan hún var í smíðum?
„Já, auðvitað er ekki hægt að
byggja svona bók á brjóstvitinu einu.
Ég reyndi að lesa mér til eins og ég
gat, og reyndi jafnframt að rifja það
upp hvað það var sem ég hafði heyrt
konur tala um, og hvaða spurningar
um brjóstagjöf og barnamat höfðu
einkum leitað á þær. Svo las gott
fólk hana yfir í handriti, bæði lærðir
og leikir í þessum fræðum."
Allir boðnir og
búnir að hjálpa
Sigrún lauk cand. mag.-prófi í ís-
lensku frá Háskólanum fyrir tveim-
ur árum, og hefur kennt íslensku í
öldungadeild Menntaskólans við
Hamrahlíð og fornbókmenntir við
heimspekideild Háskólans. Ég lét f
ljós undrun á því hvernig hún hefði
farið að því að sinna öllum þessum
störfum.
„Nú er auðvitað freistandi að
segja að þetta sé sökum óbilandi elju
og af einskærum dugnaði“, segir Sig-
rún, „en það er nú ekki svo glæsi-
llegt. Ég gæti þetta ekki nema vegna
þess að allir í kringum mig eru boðn-
ir og búnir að hjálpa mér. Ég reyni
svo að nota tímann eftir bestu getu,
hef unnið á kvöldin og líka á daginn
þegar tími hefur verið til. Annars
hefur vinnudagurinn undanfarin ár
farið mikið eftir dagstakti strák-
anna minna. Þegar þeir sváfu úti
síðdegis lengi vel þá fékk ég góðan
vinnufrið á meðan, en núna þegar
þeir eru orðnir stærri og krefjast
meiri athygli er tíminn naumari.
Eða eins og mamma segir: lítil börn,
litlar áhyggjur; stór börn, stórar
áhyggjur. Núna hef ég lagt kennslu
og önnur störf á hilluna, og reyni að
sinna svo til eingöngu rannsóknum á
íslendingasögum. Nú tek ég mér
vinnutíma á morgnana, meðan
strákarnir eru í leikskóla og barna-
skóla, pabbi þeirra sér um þá í há-
deginu en ég er svo heima við eftir
hádegi. Ég er mjög heimakær, get
eiginlega hvergi hugsað mér að vera
nema heima, og öll störf sem ég hef
tekið að mér hafa miðast við að ég
gæti unnið þau heima að mestu. Ég
vil ráða mínum tíma sjálf eftir því
sem ég mögulega get. Og svo vil ég
vera sem mest með strákunum, get
ekki hugsað mér að vera burt frá
þeim meirihluta þeirra dags upp á
hvern dag.
Við foreldrar höfum börnin okkar
aðeins að láni í stuttan tíma, svo það
er eins gott að nota þann tíma vel,
koma því á framfæri við þau sem við
viljum helst að þau læri. Þetta er,
held ég, aðeins hægt að gera meðan
þau eru lítil. Við getum ekki tekið til
við uppeldið þegar þau komast á
unglingsárin. Ef einhver efast um
mikilvægi fyrstu áranna, t.d. frá
fæðingu fram um 12—13 ára aldur,
þá þarf ekki annað en að benda á
gamalt fólk og hvað þvi er hugleikn-
ast. Það er æska þeirra. Það sem við
höfum fyrir börnum okkar, það er
það sem fyrr eða seinna slær í gegn
hjá þeim.
Börnin lifa í allsnægtum eins og
við, a.m.k. miðað við þjóðartekjur á
mann. Flest þeirra kippa sér lítið
upp við hluti og gjafir. Það eina sem
við getum gefið þeim, sem skiptir
þau einhverju máli, er tími okkar,
tími til að vera með þeim, tala við
þau, svara þeim, lesa fyrir þau, og
síðast en ekki síst bara tími til að
vera til staðar og að þau viti af því.
Við þurfum nefnilega alls ekki alltaf
að vera að vesenast í þeim, auðvitað
vilja þau leika sér við félagana
ótrufluð. Hvað foreldrana varðar, þá
get ég ekki ímyndað mér neitt sem
dýpkar skynjun og tilfinningu eins
og það að umgangast börn og deila
þeirri ánægju með öðrum.
Þegar ég segi að „við“ eigum að
vera til staðar, þá á ég að sjálfsögðu
við báða foreldrana. En ósköp eigum
við langt í land með slíkt drauma-
fyrirkomulag. Ég hef hreint enga
„patentlausn", en ef hver hugsar
fyrir sig, er þá öll þessi vinna alveg
bráð-, lífsnauðsynleg?"
Hvernig hefur Pottarím orðið til?
„Yfirleitt hef ég reynt að skipu-
leggja fram í tímann hvað ég ætla að
taka fyrir. Síðan prófa ég mig áfram
í eldhúsinu, og velti þessu svona
fyrir mér, meira og minna ómeðvit-
að, fram eftir vikunni. Þegar ég svo
tek mig til að skrifa þáttinn, þá
ganga skriftirnar hratt fyrir sig. Én
ég veit að umbrotsmennirnir á
Mogganum hafa ekki alltaf verið í
sjöunda himni, því ég hef verið svo-
lítið sein að skila."
Hefur þú bragðað bragðað á öllum
réttunum, sem þú skrifar um?
„Ég er oft spurð að þessu. Já, mér
finnst það nú algjört lágmark að
maður hafi reynt uppskriftirnar,
varla hægt að ganga frá þeim af viti
ef svo er ekki. Én þetta er alveg eðli-
legur hlutur fyrir mér. Ég hef mjög
gaman af þessu, er sýknt og heilagt
að prófa eitthvað nýtt. Það er sem-
sagt alls engin pottarímskvöð á mér.
Ég segi stundum að það sé kannski
ekkert gaman að vera í fæði hjá mér,
fyrst kemur sami rétturinn nokkuð
ótt og títt meðan ég er að ná tökum á
honum, svo mér líki, og svo sést
hann kannski ekki vikum og mánuð-
um saman.
Ég held reyndar að það sé ekkert
tómstundagaman jafn þakklátt og
matargerð. Það njóta hennar allir
sem eru í kringum mann. Hugsið
ykkur bara muninn eða t.d. að safna
frímerkjum ..."
Rannsóknir á
fslendingasögum
Þú lagðir stund á íslensku í há-
skólanum, og hefur síðan verið að
hugsa mikið um íslendingasögurnar.
Segðu mér svolítið frá þvi.
„Ég var fljótt alveg klár á því hvað
ég ætlaði að læra, það voru íslenskar
fornbókmenntir. í náminu reyndi ég
að velja eins mikið af slíku og ég gat.
Ég hef síðan birt tvær smágreinar
um þessi efni, aðra í Griplu, tímariti
Árnastofnunar, og hina í Afmælis-
riti Halldórs Halldórssonar.
Það er ekki síst þessi áhugi sem
veldur því að ég ætla að hætta með
Pottarím. Þetta matarstúss var
aldrei hugsað nema sem hliðargrein,
og átti ekki að verða mitt aðalstarf.
Ég hef tvívegis fengið styrk úr
Vísindasjóði til að stunda rannsókn-
ir á fslendingasögum, en ekki haft
tíma og aðstöðu til að gefa mig
óskipta að því verki. Styrkirnir eru
því miður fremur hvatning en raun-
verulegur fjárstuðningur. Það lifir
enginn á slíku, deyr kannski ekki
heldur. Nú ætla ég að leggja sem
flest annað til hliðar, og stíla upp á
rannsóknirnar. Það er reyndar dálít-
ið harkalegt gagnvart fjölskyldunni
að hætta kennslu og skrifum um
matargerð því það kemur ekkert
launað starf í staðinn. En á hitt er
líka að líta að það er ekki hollt að
vera of lengi í því sem maður ræður
vel við eftir að maður bætir ekki
lengur við sig. Mér finnst hluti að
lífshamingjunni fólginn í því að gera
það sem manni finnst skemmtilegt
og hæfilega erfitt, eitthvað sen tekur
á mann, það er óhollt að líða áfram
fyrirhafnarlaust í einhverju olíubaði
gegnum lífið. Ég hef haft ómælda
ánægju af matarskrifunum, en þau
reyna ekki eins mikið á mig og í
upphafi. Ég vil ekki að þau verði mér
svo auðveld að ég fari að gera þetta
allt of illa.“
Nú er hægt að nálgast íslend-
ingasögurnar á ólíka vegu. Hver er
þín leið?
„Ég hef mestan áhuga á að reyna
að átta mig á því hvernig menn fóru
að því að semja þessar sögur, hvers
vegna þeir gerðu það og hvaða hug-
myndir þeir gerðu sér um það tíma-
bil sem þeir voru að skrifa um. Mín
aðferð hefur einkum verið fólgin í
því að athuga hvað menn hafa verið
að gera á svipuðum tíma í Evrópu,
hvers konar sögur voru samdar þar,
og reyndar annars staðar við svip-
aðar kringumstæður og hér.“
Hvernig er að hrærast í hug-
myndaheimi miðalda?
„Það er stundum sagt að svona
fornbókmenntastúss sé einhvers
konar lífsflótti, þeir sem stundi það
reyni að forðast að horfast i augu við
staðreyndir samtímans. Ég held að
þetta sé firra. Með því að athuga
þennan tíma sér maður margt í nú-
tímanum skarpar en ella, saman-
burðurinn er mjög forvitnilegur.
Sumir sjá fornöldina í hillingum,
gylla hana fyrir sér sem tima hins
einfalda og náttúrulega lífs í ómeng-
uðu umhverfi. Að minni hyggju er
þetta hrapallegur misskilningur á
fortíðinni. Líf fornmanna, eða ís-
lenskra miðaldamanna, var alls ekki
einfalt, og menn gleyma því stund-
um hve siðferðisviðhorf voru með
allt öðrum hætti í þá daga. Grimmd-
in var margfalt meiri, sbr. viðburði
Sturlungaaldar, svo ég tali nú ekki
um það sem var að gerast í Evrópu á
14. öld. Þetta er ekki sagt svo við
fyllumst makindalegri sjálfumgleði,
heldur til að minna á yfir hvað við
erum sett, hvers er að gæta.“
Á þessari vargöld urðu til miklar
bókmenntir.
„Já, það er skrýtið til þess að
hugsa að það voru stundum sömu
mennirnir sem skipulögðu mannvíg
og skrifuðu dýrðlegan prósa. En góð-
ar bókmenntir verða gjarnan til á
erfiðum tímum að því er virðist..."
Lítill áhugi á
fornbókmcnntum
Áttu þér uppáhaldssögu?
„Já, Njála er númer eitt, tvö og
þrjú. Það er rétt sama hvar er gripið
niður, Njála ber alls staðar af.
Uppáhaldspersónan?
„Já, Hallgerður er heillandi per-
sóna. Hún hefur ekki átt upp á pall-
borðið hjá mörgum, þótt ímynd
kvenlegrar grimmdar, en mér finnst
hún mjög spennandi, enda er bak-
grunnur hennar sérkennilegur. Hún
er nefnilega alin upp af karl-
mönnum, og ég hef verið að láta mér
detta i hug að það sé skýringin á því
hvernig fyrir henni fer. Hún er
beygð niður og hennar hluti í sög-
unni gerður allur hinn harkalegasti.
Þarna er kona sem hegðar sér eins
og karlmaður og fyrir það er henni
líka grimmilega refsað. Ekki svo að
skilja að ég sjái alls staðar glitta í
horn og klaufir karlrembusvína þeg-
ar sögurnar eru annarsvegar.“
Heldurðu ekki að fólk sem les Is-
lendingasögurnar, ég tala nú ekki
um þá sem stunda rannsóknir á
þeim, sé að verða raritet í þessu
þjóðfélagi?
„Jú, ég er ekki frá því. Það er
kúnstugt hvað þessar bækur eru að
þoka miðað við þau orð sem um þær
eru höfð. Þegar ég kenndi í öldunga-
deild MH spurði ég nemendur mína
yfirleitt hvort þeir læsu fornsögurn-
ar. Það heyrði til algjörra undan-
tekninga að fólk læsi þær. Það hafði
kannski lesið eina sögu og mundi
óljóst eftir efnisþræðinum, en slíkur
lestur var alls ekki hluti af lestrar-
venjum þess. Það er líka áberandi að
tilvitnanir í þessar bókmenntir eru
sjaldgæfar í fjölmiðlum. Það er ekki
að sjá að blaða- og fréttamenn hafi
þessar bókmenntir á takteinum
frekar en aðrir. Ég veit ekki hvort
hægt er að segja að danskir starfs-
bræður þeirra séu liprari í þeim, en
fyrir nokkrum árum rennndi ég aug-
unum yfir íþróttasíðuna í Politiken.
Þar var klausa um viðureign Björns
Borg og McEnroys. Björn Borg var
sagður hafa hegðað sér eins og höfð-
inginn Njáll. Ég efast um að það sé
algengt að rekast á svona góss á
íþróttasíðum íslensku dagblaðanna,
hlýt þó að játa að ég er ekki áhuga-
samasti lesandi íþróttasíðnanna!
Annars er gjarnan sagt við hátíð-
leg tækifæri að allir íslendingar geti
lesið þessar sögur og þessar bók-
menntir. En það verður að segjast
eins og er að þetta eru draumórar.
Fyrir fullorðnu fólki, sem aldrei hef-
ur lesið slíkar bækur, eru þær mjög
framandlegar. Þeir sem eru vanir að
lesa að konur gráti með ekkasogum
og karlmenn bregði sér hvorki við
sár né bana, skilja ekkert í fólki sem
springur af harmi, að því hrjóti högl
af hvarmi eða að fötin springi utan
af þvi af sorg. Og enn síður botnar
það í konum sem hlæja þegar þær
frétta lát manna sinna eða matreiða
börn sín og bera á borð fyrir eigin-
manninn, til að hefna sín á honum.
Með öðrum orðum, þegar fólk er orð-
ið fast í nútíma bókmenntahefðum,
þar sem einhvers konar yfirborðs-
raunsæi, skinraunsæi, er helst uppi,
þá eru íslendingasögurnar í besta
falli framandlegar, í versta falli
hallærislegar og óskiljanlegar.
Eina ráðið til að kenna fólki að
Ljósmyadir. Ólafur K. Magnússon.
Sigrún og synir hennar: Ingvar sem er i fjórða iri og Daríð sem er sex íra. „Við höfum börnin okkar aðeins að lini
í stuttan tíma, svo það er eins gott að nota þann tíma vel, koma því í framfæri rið þau sem við riljum belst að þau
læri.“
meta þessar bókmenntir er að það
byrji nógu ungt að lesa þær, áður en
það fær fyrirfram mótaðar hug-
myndir um hvernig bókmenntir eigi
að vera. En af þvt að börn lesa ekki
svona efni í skólanum, fyrr en það er
of seint, verðum við að gera þetta
með þeim heima. Margir sem hafa
pappír upp á uppeldisfræði vara við
því að nokkuð sé haft fyrir börnum
sem þau skilji ekki, geti tengt við
sinn raunveruleika eins og það heitir
víst. Við, sem göngum með þær bá-
biljur í kollinum að krakkar séu allt-
af heldur glúrnari en við höldum og
að þau eigi einmitt að fá heldur
meira en þau skilji, verðum því að
taka það upp hjá okkur sjálfum að
lesa þessar og aðrar góðar og
óvenjulegar bókmenntir fyrir börnin
okkar.“
Eigum við að hafa áhyggjur af
þessu?
„Ég á bágt með að sjá mig ganga
með böggum hildar yfir hirðuleysi
og skilningsleysi okkar á þessum
bókmenntum. En þetta er óneitan-
lega sorglegt, því fornbókmenntirn-
ar eru jú tindur íslenskrar menning-
ar. Og það er grátbroslegt að heyra
vitnað í þessar bókmenntir á tylli-
dögum á sama tíma og fáir hafa
nokkra innsýn í þær og lítill áhugi
virðist vera á því að efla áhuga al-
mennings og styrkja rannsóknir
fræðimanna.
Og svo er annað. Það er, held ég,
hollt fyrir allar þjóðir að hafa
eitthvað sameiginlegt til að standa
á, eitthvað sem er hægt að vitna í
svo allir skilji. Einu sinni var það
biblían og fornbókmenntirnar, öllu
heldur hluti þeirra, sem tengdu ís-
lendinga saman. Það er ein af mín-
um uppáhaldshugmyndum, að nú sé
ekkert sem tengi okkur saman sem
þjóð nema í hæsta lagi símaskráin.
Eitthvað er það nú harðla rýr grunn-
ur að standa á.
Jú, mér finnst þetta svolítið kvíð-
vænlegt, þetta með sameiginlega
gjörð um þjóðina. Hver þjóðmenning
þarf eitthvert akkeri, einhverja rót.
Er ekki búið að höggva þessa
kannski feysknu rót af, sem forn-
bókmenntirnar eru? Henda okkur
sem litlum steini langt út í myrkur
og tóm. Okkar akkeri er svo miklu
léttvægara en ýmissa nágranna-
landa. Þeir hafa byggingar, lista-
verk, tónlist, svona hluti sem eru yf-
ir og allt um kring. Við höfum bara
nokkrar bækur og þær lítið fyrir
augað.“
Matur og fornsögur
Svo ég tengi saman í lokin þessi
tvö aðaláhugamál þín, matargerð og
íslendingasögurnar, þá virðist við
hæfi að spyrja: Getum við sótt fyrir-
myndir um matargerð í fornritin?
„Nei, það er sáralítið fjallað um
mat og matargerð í þessum bókum,
við höfum greinilega lengi verið
fremur áhugalitil um þau efni. Upp-
áhalds tilvitnun mín er úr Laxdælu.
Þegar Guðrún Ósvífursdóttir ætlar
að fara að hvetja syni sina til hefnda
eftir víg Bolla þá kallar hún þá í
laukagarð sinn, og það væri sannar-
lega gaman að vita hvað hún hefur
ræktað þar.
Fólk spyr mig stundum hvað þetta
tvennt, matargerð og fornsögur, eigi
sameiginle^t. Það er svo sem ekkert,
en á hitt er að líta að nám mitt í
háskólanum hefur hjálpað mér mik-
ið við matarskrifin. Þegar maður
hlýtur einhverja háskólamenntun þá
á hún ekki bara að vera í því fagi
sem maður leggur stund á heldur er
þetta almenn menntun í vinnbrögð-
um. Þau vinnubrögð sem ég lærði í
náminu hafa komið mér að miklu
gagni, ég hef lært að fletta upp í
bókum og hvernig eigi að afla upp-
lýsinga um tiltekin efni. Þetta hefur
verið mér mikils virði. Svo hefur
auðvitað komið fyrir að ég hef fiskað
upp frásagnir af matargerð og mat-
arsöguþætti úr ritum um evrópska
miðaldasögu, og það efni hef ég iðu-
lega notað í Pottarími.
Matur og menning er svo samofið,
ekki satt ... Mín hugmynd er sú að
þetta tvennt eigi að fara saman í
matarskrifum. Ég vil ekki aðeins
vita hvað einstakir réttir heita og
hvað fer í þá, heldur hvaðan þeir eru
sprottnir og sem allra mest um sögu
þeirra. Ég vil menningarleg mat-
arskrif, má kannski segja metanleg
menningarskrif! Þess vegna skrifá
ég eins og ég geri. En hvort sem les-
endur mínir lásu aðeins fyrirsögn-
ina, uppskriftirnar, inngangana eða
allt þetta, þá vona ég að þeir hafi
haft innblástur af, en þó einkum —
góða skemmtun!