Morgunblaðið - 05.01.1984, Blaðsíða 34
34
MORGUNBLAÐIÐ, FIMMTUDAGUR 5. JANÚAR 1984
Unnur Einarsdótt
ir - Minningarorð
Fædd 25. júlí 1908.
Dáin I. janúar 1984.
Á nýársdag lést Unnur Einars-
dóttir, tengdamóður mín, 75 ára
að aldri. Hún var ein heilsteypt-
asta manneskja sem ég hef
kynnst. Hún var hispurslaus og
einlæg, gædd einstakri prúð-
mennsku og samviskusemi, sem
naut sín jafnt í störfum fyrir aðra
og á heimili hennar. Líf hennar
allt virtist snúast um að gera öðr-
um gott, hlúa að þeim sem áttu
bágt, gleðja vini og vandamenn og
starfsfélaga.
Það var lærdómsríkt fyrir ung-
an mann að koma á heimili unn-
ustu sinnar, Helgu, einkadóttur
Unnar, og kynnast þessari
fölskvalausu og óeigingjörnu
konu, sem þegar i stað umvafði
tilvonandi tengdason sömu ástúð
og um einkason væri að ræða. Og
það léttir manni lífshlaupið að
hafa sér til fyrirmyndar mann-
eskju sem góðar dyggðir og góðir
siðir var í blóð borið og kom ávallt
þannig fram að það var þeim sem
hún umgekkst til gleði og ánægju.
Ég hef heldur ekki kynnst ann-
arri manneskju sem laðaði að sér
svo stóran vinahóp, hvar sem hún
var og hvert sem hún fór. Hún
naut þess líka, þegar árin færðust
yfir, að finna þá vináttu og hlýju
sem hun var umvafin.
Unnur var dóttir Einars Þor-
steinssonar útvegsbónda og skip-
stjóra frá Eyri í Skötufirði og Sig-
rúnar Kristínar Baldvinsdóttur.
Hún fæddist að Eyri 25. júlí 1908,
ein af tíu systkinum, en dvaldist
langdvölum að Meðaldal í Dýra-
firði, þar sem hún eignaðist aðra
nána fjölskyldu til viðbótar og
aðra kærkomna átthaga.
Unnur var gift Páli Jóhannes-
syni, verslunarstjóra, í tæp 50 ár,
en hann lést 1977. Þau unnu bæði
um langt skeið í versluninni
Edinborg í Hafnarstræti og
kynntust þannig ótrúlega mörgum
Reykvíkingum. Hún vann einnig
um skeið hjá Vegagerð ríkisins.
Eitt sinn var svo ástatt á þeirri
stofnun, sem ég vann við, Rann-
sóknastofnun landbúnaðarins á
Keldnaholti, að símastúlkan hafði
veikst og enginn fékkst í starfið
með stuttum fyrirvara til að stýra
skiptiborðinu. Fékk ég þá tengda-
móður mína til að gera mér þann
greiða að vera á símanum í viku-
tíma á meðan verið væri að útvega
nýjan starfskraft. En þannig at-
vikaðist það að Unnur ílentist á
RALA og starfaði þar meðan
kraftar entust þangað til fyrir
rúmu ári.
Ég naut þess hve tengdamóðir
mín var ástsæl og virt í starfinu,
og í því naut sín hin einstaka sam-
viskusemi hennar, nákvæmni,
þrautseigja og elskulega viðmót,
enda eignaðist hún símavini um
land allt og ekki síst meðal starfs-
fólks símstöðva víða á lands-
byggðinni, sem hún þurfti oft að
leita til. Það var með ólíkindum
hvað hún var lagin við að hafa
uppi á fólki, hvar sem það var á
ferðalögum. Það gladdi okkur
Helgu hve starfsfólkið á RALA
sýndi Unni hlýju eftir að hún
hætti störfum þar, t.d. með því að
hafa hana að heiðursgest á jóla-
gleði stofnunarinnar 11. desember
sl. Það gladdi hana óumræðilega
mikið og langar okkur að færa
starfsfólkinu þakkir okkar fyrir
hlýhug þeirra.
Eftir að Unnur hætti störfum
var hún að deginum á Dalbraut-
arheimilinu fyrir aldraða. Þar
voru sannkallaðir sólskinsdagar í
lífi hennar og viljum við færa for-
stöðumanni og starfsfólki Dal-
brautar innilegar þakkir fyrir þá
frábæru umhyggju sem þau sýndu
henni.
Unnur átti eitt barnabarn, dótt-
ur okkar og nöfnu sína, sem var
augasteinn og uppáhald hennar.
Við kveðjum öll með söknuði ást-
kæra móður, tengdamóður og
ömmu, og biðjum Guð að blessa
minningu Unnar og Páls.
Björn Sigurbjörnsson.
Nýja árið gekk í garð við mikinn
fögnuð flestra, svo sem oftast er,
þegar fagnað er og glaðst yfir nýj-
um áföngum á lífsbrautinni.
„Hvað boðar nýárs blessuð sól?
Hún boðar náttúrunnar jól,
hún flytur líf og líknarráð,
hún ljómar heit af Drottins náð.“
Svo kvað Matthías Jochumsson
í tilefni nýárs og síðar í sama
sálmi, segir hann:
„í almáttugri hendi hans
er hagur þessa kalda lands,
vor vagga, braut, vor byggð og gröf,
þótt búum við hin yztu höf.“
En samt gerast þau tíðindi á
sjálfan nýársdag, sem hryggja,
þegar venzlamenn deyja, og slær
þó hryggðin þyngst ástvinina
kæru, sem næst standa. Svo var
um þessi áramót.
Nýársnóttin var tæpast liðin,
þegar öldruð heiðurskona kvaddi
þennan heim í Landakotsspítala
eftir stutta legu á 76. aldursári.
Unnur Einarsdóttir, ekkja Páls
Jóhannessonar, fyrrum verzlunar-
stjóra í Edinborg, lézt að morgni
nýársdags. Hún hafði heimt sína
nánustu aðstandendur heim frá
útlöndum aðeins tæpum tveim
dögum áður. Dóttirin og tengda-
sonurinn komu heim á föstu-
dagskvöldi, hún faðmaði þau að
sér, gladdist við endurfundina, og
sofnaði róleg; og var svo dáin að
morgni sunnudags.
Unnur Einarsdóttir fæddist á
Eyri í Skötufirði við ísafjarðar-
djúp um hásumar, hinn 25. júlí
1908, þegar allt logaði af dýrð við
Djúp, fjöll öll stóðu á haus í Vest-
fjarðalogninu, selir sátu á skerj-
um, fuglar sungu í kjarri og mó,
en fiskur vöktu í vötnum og sjó.
Foreldrar hennar voru hjónin
Sigrún Kristín Baldvinsdóttir og
Einar Þorsteinsson, útvegsbóndi
og athafnamaður á Eyri við
Skötufjörð. Baldvin afi hennar var
Jónsson bónda á Strandseljum í
Ögurhreppi og kona hans hét
Halldóra Sigurðardóttir bónda í
Hörgshlíð Hafliðasonar.
Þar ólst hún upp í stórum systk-
inahópi, en dvaldist þó löngum hjá
góðu fólki í Meðaldal f Dýrafirði.
Fjölskyldan fluttist til Hafnar-
fjarðar árið 1922 og þar stundaði
Unnur nám í Flensborgarskólan-
um. Móðurbróðir hennar var hinn
kunni stjórnmálamaður Jón Bald-
vinsson, og hún fór til starfa á
heimili þeirra Júlíönu í Miðstræti
í Reykjavík.
Síðar hóf hún afgreiðslustörf
hjá Alþýðubrauðgerðinni, og það
hafði afdrifaríkar afleiðingar
fyrir ungu stúlkuna, því að á þeim
árum kynntist hún mannsefni
sínu „á hestbaki", eins og hún
sagði sjálf, því að þangað kom
ungur bóndasonur ofan úr Borg-
arfirði til að fá brauð handa hest-
um sínum.
Og er svo ekki að orðlengja það,
að Unnur og Páll gengu í það heil-
aga hinn 19. desember 1929. Páll
var Jóhannesson, sonur Jóhannes-
ar bónda í Klettstíu í Norðurárdal.
Bærinn í Klettstíu stendur hátt í
fögru umhverfi, og frá bænum er
víð útsjón yfir fagurt hérað, en
eftir dalnum liðast Norðurá á
grænum engjum. Mörg sporin áttu
eftir að liggja til æskuheimilis
Páls, og þar undi fjölskyldan líf-
inu vel.
Jón, bróðir Páls, varð bóndi í
Klettstíu, og þegar sonur hans,
Elís, núverandi vegagerðarstjóri í
Borgarfirði, dvaldist í Reykjavík
við nám í nokkra vetur, varð
heimili hans hjá Unni og Páli, og
mátti eiginlega kalla hann fóst-
urson þeirra. Reyndist Elli þeim
jafnan forkunnarvel, ekki síst eft-
ir að aldur færðist yfir þau, reynd-
ist þeim sannarlega eins og besti
sonur, og síðar bjó svo sonur hans
í skjóli þeirra syðra.
Þau eignuðust ágæta íbúð á
Ásvallagötu 37. íbúðin var máski
ekki stór í fermetrum talin, en
þeim mun stærra var hjartarúm
húsráðenda, enda voru þau bæði
annáluð fyrir gestrisni, og var
sannarlega á stundum fullt út úr
dyrum af gestum, sem jafnan
þágu hjá þeim ríkulegar veitingar,
en Unnur var vel þekkt meðal vina
og frændfólks sem úrvals húsmóð-
ir, og sú kunni nú aldeilis til verka
í eldhúsinu, hvort sem var bakað,
soðið eða steikt. Allt lék í hendi
hennar við heimilisstörfin.
Vinagarður þeirra var stór og
traustur, en ég má til með að
nefna einn úr hópnum, sem átti
þau að vinum og þau hann, uns
yfir lauk, Kristján Sveinsson
augnlækni, en þær urðu margar
augnlæknisferðir hans út um land,
þar sem Unnur og Páll voru hans
ljúfu ferðafélagar. í æviminning-
um hans, sem út komu árið 1982,
getur hann þessa sérstaklega, og
segir m.a. svo orðrétt: „Á heim-
leiðinni gistum við venjulega í
Klettstíu í Norðurárdal hjá Jóni
bónda, bróður Páls, ferðafélaga
okkar, og konu hans, Sæunni. Þar
fengum við höfðinglegar móttök-
ur, og þar var margt gert sér til
gamans." Vinátta þeirra Kristjáns
stóð hlý og traust, meðan þau hjón
lifðu.
Alltaf var kært milli Unnar og
systkina hennar, og mér koma í
hug nöfn þeirra: Kristján Jón,
Einar, Baldvin, Karl, Karitas,
Margrét, Elín, Þorsteinn og
Jóakim. Þetta var stór fjölskylda,
og svo skapaðist einnig vinátta
milli barna þessara systkina og
Unnar og Páls.
Eina dóttur eignuðust þau hjón-
in, Helgu Ingibjörgu, sem fæddist
20. maí 1930. Hún varð síðar sam-
stúdent með manni sínum vorið
1951 frá Menntaskólanum í
Reykjavík, en hann er dr. Björn
Sigurbjörnsson, forstjóri Rann-
sóknarstofnunar landbúnaðarins,
núverandi framkvæmdastjóri
FAO og Alþjóðakjarnorkumála-
stofnunarinnar í Vínarborg, þar
sem þau hjón búa um þessar
mundir.
Helga og Björn eiga eina dóttur,
Unni Steinu, sem lýkur lækna-
prófi frá Háskóla íslands næsta
vor, en maður hennar er Ögmund-
ur Skarphéðinsson, arkitekt.
Þessi er nánasta fjölskylda
Unnar sálugu og ég veit af nánum
kynnum, að ástúð og kærleikur
ríkti í einu og öllu með þessu fólki
öllu. Unnur og Páll heimsóttu
dótturina og tengdasoninn bæði
til Ameríku, þegar þau voru þar
við nám, og eins til^usturríkis, og
voru auk þess tíðir gestir í sumar-
bústaðnum að Kiðafelli og á heim-
ili þeirra á Stýrimannastíg 12.
Söknuður Helgu og Björns,
Unnar Steinu og Ögmundar er
mestur, en það er huggun harmi
gegn, að þau vita að látinn lifir, og
gott að eiga einungis eftir góðar
minningar um kæran ástvin.
Þegar Helga og Björn héldu út í
lönd, fór Unnur að vinna í verzl-
uninni Edinborg við Hafnar-
stræti. Þar var maður hennar
verzlunarstjóri og mágur hennar,
Sigurður B. Sigurðsson, aðalræð-
ismaður, einn af aðaleigendunum.
í Edinborg vann Unnur síðan
við afgreiðslustörf, þar til sú
verzlun hætti, um langt árabil, og
í gegnum þau störf kynntist hún
aragrúa Reykvíkinga, og var ein-
staklega vinsæl og vellátin í starfi,
bæði af viðskiptavinum verzlunar-
innar og húsbændum, enda var
hún reglusöm og árvökul, hinn
ágætasti „starfskraftur" eins og
nú tíðkast að nefna það.
Þegar Edinborg hætti, réðst
hún til starfa í mötuneyti Vega-
gerðarinnar en síðustu starfsárin
var hún við símavörzlu hjá RALA
á Keldnaholti, og alls staðar vel-
látin. Hún var kona, sem óhætt
var að treysta.
Fjölskylda mín átti því láni að
fagna að eignast Unni og Pál að
vinum, eftir að Helga giftist Birni,
bróður mínum. Raunar hafði Þor-
kell bróðir minn þekkt þau miklu
lengur sem samstarfsmaður
þeirra í Edinborg. Við minnumst
vináttu þeirra með mikilli virð-
ingu og þakklæti, og öll hin fjöl-
menna fjölskylda Sigurbjörns í
Vísi sendir Helgu, Birni, Unni
Steinu og Ögmundi hjartanleg-
ustu samúðarkveðjur og biður guð
að blessa minningu Unnar Einars-
dóttur.
Örn Arnarson segir svo í einu
kvæða sinna, og vil ég gera þau
orð að lokaorðum greinar minnar:
„Stráin sölna. Stofnar falla.
Stormur dauðans næðir alla.
Ljóselskandi, langanþrungið,
lífið fyllir öll þau skörð,
sækir fram í sigurvissu.
Svo er strítt um alla jörð.“
Fari svo kær vinkona í guðs
friði.
Friðrik Sigurbjörnsson
Á nýársdag lést Unnur Einars-
dóttir. Fregnin um andlát hennar
kom á óvart enda þótt vitað væri
að hún hefði ekki gengið heil til
skógar um nokkurra ára skeið.
Fyrir um það bil þremur vikum
tók Unnur þátt í jólagleði starfs-
fólks rannsóknarstofnunarinnar
og var það hrókur alls fagnaðar og
gladdist í hópi fyrrverandi starfs-
félaga.
Unnur átti að baki langan
starfsferil er hún féll frá. Sam-
hliða heimilishaldi vann hún í
áratugi í versluninni Edinborg,
þar sem eiginmaður hennar, Páll
Jóhannesson, vann mestan sinn
starfsaldur. Þegar starfsemi
verslunarinnar var hætt hóf Unn-
ur störf hjá Vegagerð ríkisins og
var þar í fjögur ár.
Sumarið 1974, þá 66 ára að
aldri, kom hún til Rannsóknar-
stofnunar landbúnaðarins þar
sem hún starfaði óslitið í rúm átta
ár við símavörslu. Hin síðari ár
sem hún starfaði var sameiginleg
símaþjónusta með Rannsókna-
stofnun byggingariðnaðarins, en í
þessum stofnunum starfa að jafn-
aði um hundrað manns. Álag á
símanum er því oft mikið og starf-
ið erilsamt. Unnur gegndi starfi
sínu af þeirri frábærri samvisku-
semi og trúmennsku sem henni
var í blóð borin og einkenndi allt
hennar líf.
Unnur var ekki aðeins góður
starfskraftur sem hægt var að
treysta heldur var hún einstakur
starfsfélagi sem ávann sér vináttu
og traust samstarfsmanna sinna.
Enda þótt hún væri elsti starfs-
maðurinn batt hún mikla vináttu
við og umgekkst unga fólkið á
stofnuninni. Þar átti hugtakið
kynslóðabil sannarlega ekki við.
Unnur lét af störfum við stofn-
unina haustið 1982. Hún var þá 74
ára að aldri og heilsan var farin
að gefa sig bæði vegna sjúkdóms
og slysa og óvenjulega langs
starfsdags. En þrátt fyrir að hún
væri þrotin að kröftum tók hana
sárt að þurfa að láta af störfum og
setjast í helgan stein. Hún sætti
sig illa við að vera dæmd úr leik
vegna aldurs, ekki síst vegna þess
að henni féll aldrei verk úr hendi.
Aðgerðarleysi var henni framandi
og eins og er háttað um marga af
hennar kynslóð kunni hún ekki að
sitja auðum höndum. Það stytti
henni þó stundirnar að njóta um-
hyggju dóttur sinnar og tengda-
sonar og dótturdótturinnar.
Sá sem þessar Iínur ritar átti
því láni að fagna að þekkja Unni
hátt á 5. áratug, frá því að vera
nágranni hennar á Ásvallagöt-
unni. Á heimili hennar var alltaf
jafnánægjulegt að koma.
Góð kona er gengin á braut og
hennar er sárt saknað af vinum og
samstarfsmönnum. Henni eru að
leiðarlokum þökkuð vel unnin og
óeigingjörn störf í þágu Tinn-
sóknarstofnunar landbúnaðurins.
Persónulega þakka ég áralanga
vináttu og sendi Helgu, Birni og
Unni Steinu innilegar samúðar-
kveðjur.
Gunnar Ólafsson
I dag, fimmtudaginn 5. janúar,
verður gerð frá Dómkirkjunni út-
för Unnar Einarsdóttur til heimil-
is á Ásvallagötu 37 hér í borg. *
andaðist á Land ‘
ársdag eftir í •
hennar kom nánum heimilisv. am
og aðstandendum ekki á óvart, því
undanfarin ár hefur hún átt við
nokkur veikindi að stríða og segja
má með sanni að hvlldin sé jafnan
friðsæl vegmóðum langferða-
mönnum.
Unnur var fædd þann 25. júlí
árið 1908 og var því á sjötugasta
og sjötta aldursári þegar hún lést.
Hún var vestfirsk að ætt og upp-
runa, þar var hún fædd og dvaldi
þar á sínum bernskuárum. Að
henni stóðu sterkir vestfirskir
stofnar í báðar ættir. Ung að ár-
um fluttist hún ásamt fjölskyldu
sinni til höfuðstaðarins og eftir
það var hún búsett hér. Hún
stundaði nám í Flensborgarskól-
anum í Hafnarfirði og fór síðan að
vinna við verslunarstörf.
Unnur giftist Páli Jóhannes-
syni, verslunarmanni árið 1929, en
hann lést fyrir röskum sex árum.
Páll, maður Unnar, var í fjölda
ára deildarstjóri hjá versluninni
Edinborg í Hafnarstræti, þar sem
Seðlabankinn er nú til húsa.
Þau hjón eignuðust eina dóttur,
Helgu, sem er gift dr. Birni Sigur-
björnssyni, framkvæmdastjóra.
Heimili þeirra Unnar og Páls hef-
ur lengst af verið á Ásvallagötu 37
hér í borg eða allt frá árinu 1931,
og þar átti hún heima til hinstu
stundar. Ég minnist þess nú sér-
staklega að þetta var fyrsta heim-
ilið, sem ég kom á hér í borg, þeg-
ar ég kom í fyrsta sinn í heimsókn
hingað, ungur afdaladrengur,
ásamt Karli bróður mínum, fyrir
rösklega hálfri öld. Húsbóndinn á
heimilinu var föðurbróðir okkar
bræðra, og ekkert var sjálfsagðara
en að við kæmum þangað fyrst í
heimsókn, þegar gerður var stutt-
ur stans í höfuðborginni.
Heimili þeirra hjóna á Ásvalla-
götunni var sérstakt í sinni röð og
því gleyma þeir aldrei, sem þang-
að komu og nutu gistivináttu
þeirra hjóna. Ekki var það vegna
þess að húsrými væri þar svo mik-
ið, heldur miklu fremur hitt, að
hjartarúm var þar meira en geng-
ur og gerist. Þangað var ávallt
gott að koma og þar áttu bæði ég
og aðrir vinir þeirra margar
ánægjustundir. Öft var gest-
kvæmt á því heimili og nú þegar
Unnur er kvödd hinstu kveðju vil
ég fyrir hönd aldraðrar móður
minnar og annarra náinna skyld-
menna þakka af heilum hug fyrir
allar þær stundur, sem við dvöld-
um í góðu yfirlæti á heimili þeirra
hjóna á Ásvallagötunni.
í sumarleyfum sínum dvaldi
Páll föðurbróðir minn og Unnur
kona hans oft á heimili foreldra
minna í Borgarfirði. Helga dóttir
þeirra var þá ávallt í för með
þeim, en hún var litlu yngri en ég
óg bræður mínir. Þessar stundir
man ég einna glaðastar frá
bernskudögum mínum. Páll og
hans fjölskylda komu jafnan með
ferskan andblæ inn á æskuheimili
mitt.
Andblæ, sem við ungir afdala-
sveinar höfðum ekki áður kynnst,
og lífgaði upp á tilveruna í til-
breytingarleysinu.
Ég og fjölskylda mín sendum
Helgu frænku minni, Birni manni
hennar og dóttur þeirra hjóna
innilegar samúðarkveður.
Blessuð sé minning Unnar Ein-
arsdóttur.
Klemenz Jónsson