Morgunblaðið - 29.01.1984, Blaðsíða 24
24
MORGUNBLAÐIÐ, SUNNUDAGUR 29. JANÚAR 1984
Útgefandi hf. Árvakur, Reykjavík.
Framkvæmdastjóri Haraldur Sveinsson.
Ritstjórar Matthias Johannessen, Styrmir Gunnarsson.
Fulltrúar ritstjóra Þorbjörn Guömundsson, Björn Jóhannsson.
Fréttastjórar Freysteinn Jóhannsson, Magnús Finnsson, Sigtryggur Sigtryggsson, Ágúst Ingi Jónsson.
Auglýsingastjóri Baldvin Jónsson.
Ritstjórn og skrifstofur: Aöalstræti 6, sími 10100. Auglýsingar: Aö- alstræti 6, sími 22480. Afgreiösla: Skeifunni 19, sími 83033. Áskrift- argjald 250 kr. á mánuöi innanlands. I lausasölu 20 kr. eintakið.
Enginn vafi er á því að við
höfum lifað um efni fram
undanfarin ár. Stjórnmála-
mennirnir deila ekki heldur
um þá staðreynd. Enginn vafi
er á því að niðurskurður á
sjávarafla mun þrengja
lífskjör þjóðarinnar. Ljóst er
að undir fimmm ára rangri
stjórn Alþýðubandalagsins á
orkumálum hefur orðið stöðn-
un á sviði stóriðjufram-
kvæmda. Jafnframt hefur
áliti þjóðarinnar út á við ver-
ið spillt meðal stóriðjufyrir-
tækja. Allir eru á einu máli
um að ekki megi ganga lengra
í skuldasöfnun erlendis. Við
blasir að atvinnutækifæri
verða færri á næstu mánuð-
um. í útgerð og fiskvinnslu
standa menn frammi fyrir
óþekktum stærðum og vanda-
málum við framkvæmd
kvótakerfisins. Hér er lýst
bláköldum staðreyndum.
Fram hjá því verður ekki
heldur gengið að fjárhagur
ríkisins er bágborinn og mik-
ill vandi óleystur eigi að
standa við allt það sem i fjár-
lögum stendur.
Við þessar alvarlegu að-
stæður er mikilvægt að at-
hygli landsstjórnarmanna og
almennings beinist að þeim
atriðum sem máli skipta og
allir leggist á eitt til þess að
ekki verði stigin röng skref af
aðgæsluleysi. Með því að ráð-
ast á vístölukerfið og festa
gengið hefur ríkisstjórninni á
skömmum tíma tekist að
þrýsta verðbólgunni ótrúlega
langt niður. Auðveldasta leið-
in til að spilla þeim árangri
sem náðst hefur á þessu sviði
er að sprengja þann launa-
ramma sem allir viðurkenna
að setja verði eigi að rjúfa
vítahring verðbólgunnar til
langframa.
Þegar Morgunblaðið benti á
það í forystugrein fyrir
nokkru að lækkun verðbólg-
unnar ein dygði ekki til að
leysa efnahagsvandann ruku
ýmsir upp til handa og fóta
bæði meðal stjórnarsinna og
stjórnarandstæðinga og töldu
blaðið vera að gera aðför að
ríkisstjórninni og stefnu
hennar. Um þær mundir var
talað um 30% verðbólgu en
nú er sagt að hún sé komin
niður í 15%, engu að síður er
vandinn ekki leystur og ætti
það í sjálfu sér ekki að koma
neinum á óvart. Verðbólgan
er að verulegu leyti sjúk-
dómseinkenni lélegra stjórn-
arhátta, nú hefur tekist að
minnka þessi einkenni veru-
lega en lækningin sjálf er að
mestu eftir.
Ríkisstjórnin markaði rétta
stefnu með bráðabirgðalögun-
um í mai 1983. Afnám vísi-
tölubótanna hefur borið þann
árangur sem að var stefnt.
Áhrifin af föstu gengi hafa
orðið þau sem við var að bú-
ast. Morgunblaðið gagnrýndi
ráðherrana fyrir það á sínum
tíma að þeir væru ekki nægi-
lega áhugasamir um að halda
stefnu sinni fram og kynna
hana fyrir almenningi. Hvað
sem þeirri gagnrýni leið sýndi
fólkið ríkisstjórninni traust
og skoðanakannanir hafa
staðfest að menn vilja mikið á
sig leggja til að losna við
verðbólguófétið. Stefna
Sjálfstæðisflokksins hefur
um árabil verið sú að þetta
ætti að gera með snöggu
átaki, sú stefna hefur reynst
bera þann árangur sem flokk-
urinn spáði.
Nú er um að gera að koma í
veg fyrir að mál þróist að
nýju í verðbólguátt. Enginn
dregur í efa að það er þröngt í
búi hjá mörgum um þessar
mundir og víst er að síst af
öllu ættu stjórnmálamenn-
irnir að hafa hag af því að
þrengja að afkomu háttvirtra
kjósenda, en ætla mætti að
það væri æðsta markmið
stjórnarsinna ef marka má
orð stjórnarandstæðinga.
Ýmislegt bendir til þess að
það dragi brátt til þáttaskila í
samskiptum þeirra aðila sem
bera ríkustu ábyrgð á því að
erfiðið sem menn hafa lagt á
sig í verðbólguslagnum sé
ekki til einskis.
Hættuboðarnir eru þeir
helstir að af of lítilli fyrir-
hyggju sé blásið til átaka á
vinnumarkaðnum. Raunar er
það tímanna tákn og í sam-
ræmi við óvissuna sem ríkir á
hinum almenna vinnumark-
aði að þeir sem eru í örugg-
ustum störfum, opinberir
starfsmenn og starfsmenn ál-
versins í Straumsvík, skuli
vera háværastir í kröfum um
hærri laun. Það yrði sorgleg
niðurstaða ef svo færi að gef-
ið yrði enn einu sinni eftir
vegna krafna sem ekki er
unnt að réttlæta með vísan til
þjóðarhagsmuna. Reynslan af
verðbólguáratugnum og óráð-
síunni undir forystu þeirra
vinstrisinnuðu stjórnmála-
manna sem lofa öllum mestu
þegar þeir hafa síst efni á því
ætti að hafa kennt forystu-
mönnum launþega eins og öll-
um öðrum að þjóðarfram-
leiðslan eykst ekki við það eitt
að semja um hærra kaup.
Þegar ríkisstjórnin var
mynduð hafði hún byr og af-
staðan til hennar sýnir að
hún nýtur enn mikils trausts,
en nú reynir fyrst verulega á
það, hvort forystumönnum
stjórnarflokkanna tekst að
sannfæra almenning um að
ótímabært sé að rjúfa þann
launaramma sem skynsam-
legur er talinn og settur var
fram af ríkisstjórninnl við af-
greiðslu fjárlaga. Þetta er síð-
ur en svo auðvelt verk við nú-
verandi aðstæður. En framtíð
ríkisstjórnarinnar er undir
því komin að þetta verk sé
unnið af festu og ábyrgð,
órökstudd eftirgjöf eða
ótímabært fráhvarf frá sett-
um markmiðum yrði til þess
að mynda skarð í þann varn-
arvegg sem nauðsynlegt er að
við öll myndum. Aðeins með
sameiginlegu átaki er unnt að
standa þannig að málum að
raunveruleg verðmæti standi
að baki helst hverri krónu í
launaumslaginu. í þessu efni
er ábyrgð þeirra sem nú
standa fyrir því að blása til
verkfalla mest.
HÆTTUBOÐAR
MORGUNBLAÐIÐ, SUNNUDAGUR 29. JANÚAR 1984 25
Uppveðraður af aðdáendabréf-
um frá útlöndum um áramótin
stillir Gáruhöfundur sig ekki um
að flagga tilskrifunum. Ekki síst
þegar þau flytja jafn ágæta
hugmynd og hvatningu sem bréf
Áskels Löve, erfðafræðings frá
San José í Kaliforníu. Nú meðan
hríðar næða og ekki sést í jörðu
fyrir snjó, er líka einmitt rétti
tíminn til að lyfta sálinni og
hugsa til ávaxta- og berjarækt-
unar. Ekki hyggst undirrituð þó
láta frýjuorð Askels um að verða
ein þeirra fyrstu á voru iandi til
að rækta og njóta ávaxta þeirra
er vel bragðast síðsumars nyrst
á Norðurlöndum verða til að ýta
sér út í ræktunarævintýri. Enda
hlyti illa að fara sakir hæfileika-
skorts. En lætur góð ráð áfram
ganga til þessa töfrafólks með
„græna fingur", sem getur allt
látið gróa, í frómri von um að fá
að njóta þegar kemur að því að
borða afraksturinn.
Áskell, sem nú býr í Kali-
forníu, vann á sínum tíma mikið
að rannsóknum á íslenskum
plöntum og gaf m.a. út bókina
Islenskar jurtir. Áskell og Doris
Löve unnu líka mikið að skil-
greiningu tegunda og afbrigða
og gáfu út stórt rit um íslenska
flóru með yfirliti um íslenskar
háplöntur, útbreiðslu tegunda,
sögu þeirra í landinu, ísaldar-
stöðu og síðari innflutning og
einnig unnu þau annað stórvirki
með skrá um litningatölu
plantna í norðvestur Evrópu, þar
sem allflestra íslenskra há-
plantna var getið. Svo hann er
ekki aldeilis ókunngur því sem
grær og getur gróið á íslandi.
Áskell kveðst fyrir mörgum
árum hafa reynt að vekja at-
hygli fólks á nauðsyn þess að
flyja inn tré, sem bera ljúffenga
ávexti, og skrifað nokkrar grein-
ar um slíkt. Reyndi að fá gott
fólk til að veita lið tilraunum
með epli, perur og eins berja-
runna og berjajurtir. En ribsber
og sólber og jafnvel hindber hafa
vaxið í íslenskum görðum síðan
Schierbeck landlæknir flutti þau
inn frá Danmörku fyrir öld, þótt
jafnan hafi gleymst síðan að
betri stofnar uxu jafnvel þá
norðar á Norðurlöndum og hafi
síðan verið mikið kynbættir á
þessari öld. Með þessum og öðr-
um garðyrkjudáðum gerði þessi
danski heiðursmaður þjóðinni
kannski engu minna gagn en
með lækningum þann rúma ára-
tug, sem hann var á landinu,
segir Áskell. Tilraunir hans á
sínum tíma kveður hann hafa
sýnt sér að ávaxtatré frá Norð-
urlöndum sunnanverðum séu
varla ræktanleg svo vel sé nema
í sérstöku skjóli í Reykjavík og á
Akureyri. En enginn hafi siðan
reynt við harðgerðari stofna,
sem eru a.m.k. til bæði norðar í
Evrópu og eins í Kanada og Síb-
eríu, enda engin stofnun til sem
stundar slíkar tilraunir og fáir
garðyrkumenn hér heima sem
kunna að fara með slík tré. Til-
raunir sem ég gerði með jarð-
arber, af því að ég mundi að
Simson ljósmyndari á ísafirði
ræktaði þau. við sumarbústaðinn
sinn í Tunguskógi, tókust svo vel
að atvinnudeild háskólans
dreifði þeim um landið eftir
1947, segir Áskell. Síðan hafi
jarðarber verið kynbætt töluvert
austan hafs og vestan, svo að
betri og harðgerðari stofnar
hefðu átt að leysa brautryðjend-
urna af hólmi. Úr því verði þó
eflaust bætt þegar Grasagarður
Reykjavíkur verði fluttur ásamt
Garðyrkjuskólanum, grasasafni
ríkisins og háskólakennslu í
grasafræði og garðyrkju, sem sé
draumur ókomna tímans fyrir
framtakssama stjórnmálamenn
með nýjum hugsunarhætti. Sú
bylting gæti orðið til þess að
garðyrkjumenn og grasafræð-
ingar ynnu saman að beinum
kynbótum á ávaxtatrjám og
berjarunnum frá fjarlægum
löndum fyrir ókomnar kynslóðir.
í framhaldi af þessu bendir
Áskell Löve áhugafólki hér
heima á íslandi á þá staðreynd,
að undanfarna þrjá áratugi hafa
sænskir jurtakynbætarar skap-
að nýja berjajurt, sem á uppruna
sinn á freraslóðum og hlýtur því
að vera jafnvel betur fallin en
jarðarber til ræktunar í íslensk-
um görðum. Þessi jurt er eins-
konar hindber, Segir hann, en
ljúffengari og er náskyld hrúta-
berinu, sem vex villt víða á ís-
landi. Hún vex ósáin á freraslóð-
um á meginlöndunum beggja
vegna fslands, en virðist kæra
sig mest um svæði miðnætursól-
arinnar. Nú hefur þessi jurt
semsagt verið kynbætt og er orð-
in að garðajurt, sem gefur af sér
ríka uppskeru af bragðgóðum,
stórum, dökkrauðum berjum.
Tegundin heitir Rubus arcticus
L, sem Áskell þýðir sem frera-
ber, en er kölluð akurber í Nor-
egi og Sviþjóð, svo að kannski
væri hentugast að nota það nafn
líka á íslandi. Tegundin fjölgar
sér með rótarsprotum, svo að ein
jurt getur þakið töluvert stórt
svæði í görðum eftir nokkur ár.
Vegna þess að víxlfrjóvgun er
nauðsynleg þarf að rækta tvo
eða fleiri stofna saman. Þess-
vegna hafa verið kynbættir fjór-
ir stofnar, sem kallaðir eru
Anna, Beata, Linda og Sofia.
Jurtirnar þarf að setja niður
með 30—40 sm millibili í léttan
myldinn jarðveg, en þær þola
illa sand og leir. Og fyrstu árin
þarf að reyta burt gras og annað
illgresi svo að jurtirnar geti vax-
ið vel og myndað þéttar breiður,
sem geta komið í stað grasbletta
í garðinum. Og helst ekki í
skugga en gjarnan í nokkrum
raka, segir Askell loks í þessum
ágætu leiðbeiningum. Og nú er
bara að hefjast handa. Góða
skemmtun.
En Áskell lét fylgja meiri
fróðleik um akurberin. Akurber-
in í norðurhluta Skandinavíu
þroskast í júlí og ágúst, svo að
sennilega má búast við að þau
þroskist á íslandi í meðalári í
ágúst og september. Þau eru les-
in, þegar þau eru orðin dökkrauð
og mjúk. Þá eru þau einhver
ljúffengustu ber, sem hægt er að
fá nokkurstaðar, næringarrík og
full af bætiefnum og hentug til
matar fersk eða fryst. Eða þá
soðin í mauk eða saft.
Akurberin voru kynbætt við
garðadeild sænska Landbúnað-
arháskólans í Röbacksdalen við
Umeá, en er dreift þar í landi af
garðyrkjustöðvum og garðabúð-
um, sem tilheyra hinum svokall-
aða Græna hring. Þau virðast
ekki dreifa neinum jurtasjúk-
dómum, svo að óhætt virðist að
flytja þau inn í stórum stíl frek-
ar en taka fáar jurtir fyrst og
fjölga þeim hér, eins og gert var
við jarðarberin, segir Áskell.
Þessvegna gæti kannski Grasa-
garður Reykjavíkur eða Sölufé-
lag garðyrkjumanna náð sam-
bandi við garðadeildina í Umeá
strax í vetur og samið um sendi-
ngu af nógu magni af öllum fjór-
um stofnunum til dreifingar til
íslenskra garðeigenda, þegar
klakinn fer úr jarðveginum með
vorinu, svo að fyrstu berin geti
þroskast síðari hluta sumars
sama ár? Síðan er hægt að fjölga
þeim hér eða fá nýjar sendingar,
þangað til íslenskri eftirspurn
hefir verið fullnægt. Svo mætti
kannski bæta við öðrum nýkyn-
bættum berjategundum víðar að
og fá sömu sænsku stofnun til að
auka fjölbreytni á hinu fátæka
sviði íslenskra ávaxta?
Hérmeð er öllum hinum góðu
ræktunarráðum Áskels Löve vís-
að áfram til hæfra ræktenda.
Gáruhöfundur hlakkar til að
bragða á berjunum í fyllingu
tímans og njóta úr görðum ná-
granna ilmsins af blómunum,
þegar þau opnast fyrri hluta
sumars.
►♦♦♦♦♦♦♦♦♦♦♦♦♦♦♦♦♦♦♦♦♦♦♦♦♦♦♦♦♦♦♦♦♦♦♦♦♦♦♦♦♦♦♦♦♦♦♦♦♦♦♦♦♦♦♦♦♦♦♦♦♦♦♦♦♦♦<
Rey kj avíkurbréf
>♦♦♦♦♦♦♦♦♦♦♦♦♦♦
Laugardagur 28. januar
♦♦♦♦♦♦♦♦♦♦♦♦♦♦<
Árangur sem
máli skiptir
Nýlega birtust tvær litlar frétt-
ir í virtasta fjármálablaði heims,
Wall Street Journal. Önnur var sú,
að verðbólgan í ísrael væri komin
upp í 200%, en hin, að verðbólgan
á lslandi hefði lækkað úr 159% í
maí sl. í 13% nú. Þessar fréttir
voru eftirtektarverðar af mörgum
ástæðum, en m.a. þeim að ísland
og ísrael hafa fylgzt að í fréttum
heimsblaðanna á undanförnum
árum í verðbólgustigi, þótt ísra-
elsmenn hafi jafnan verið örlítið á
undan okkur. Nú hefur bilið
breikkað svo um munar.
Frá því að núverandi ríkisstjórn
var mynduð í lok maímánaðar á sl.
ári hefur Morgunblaðið haft fyrir-
vara á stuðningi við hana og hefur
enn. En hvort sem menn eru
stuðningsmenn ríkisstjórnarinn-
ar, andstæðingar hennar eða
takmarkaðir „aðdáendur" er nú
orðið alveg ljóst, að ríkisstjórnin
hefur náð árangri í verðbólgubar-
áttunni, sem verulegu máli skipt-
ir. Sl. haust, þegar ráðherrar voru
að hampa tölum um minnkandi
verðbólgu var of fljótt að fagna
sigri að mati Morgunblaðsins eins
og fram kom í forystugreinum
blaðsins. Og enn er grundvallar-
vandi atvinnu- og efnahagslífs
óleystur. Hins vegar hefur verð-
bólgan minnkað jafnt og þétt á
undanförnum mánuðum í þeim
mæli, að ríkisstjórnin getur með
sanni sagt, að hún hafi sýnt fólki
fram á kosti stöðugs verðlags og
kaupgjalds og nú sé það almenn-
ings að velja, hvort haldið verði
áfram á sömu braut eða fyrri siðir
teknir upp á ný. Þessi árangur
hefur ekki náðst fyrir sérstaka
snilli ríkisstjórnarinnar. Hins
vegar hefur hún haft kjark til þess
að fylgja fram þeirri stefnu, sem
mörkuð var sl. vor. Úrslitum hefur
ráðið, að hljómgrunnur reyndist
vera ótrúlega sterkur fyrir þess-
um stefnumálum meðal fólks. Sá
almanna stuðningur er forsendan
fyrir þeim árangri, sem náðst hef-
ur. En hverju hefur verið fórnað?
Versnandi
lífskjör
Lífskjörin hafa versnað. Það
finnur hver einstaklingur á sinni
eigin buddu. Þau „lífskjör", sem
við höfum búið við undanfarin ár,
hafa ekki byggzt á styrk atvinnu-
vega okkar heldur hafa þau verið
fjármögnuð með erlendum lántök-
um. M.ö.o. lífsmáti þjóðarinnar
hefur verið sá sami og þess ein-
staklings, sem lætur sér ekki
nægja þau lífskjör, sem laun hans
bjóða honum, heldur lifir hátt um
skeið á því að safna skuldum. Allir
vita, að það getur aðeins gengið
um takmarkaðan tíma. Svo er
einnig um þjóðina í heild. Þess
vegna er álitamál hvað við á að
miða, þegar talað er um versnandi
lífskjör.
Hitt er alveg ljóst, að minnk-
andi verðbólgan hefur orðið til
þess að við sjáum efnahag okkar í
skýrara ljósi. Það fer t.d. ekki á
milli mála, að hinir lægstlaunuðu
búa við bágan hag. Sumir segja, að
það sé erfitt að finna þá. Það er
misskilningur. Hér er um að ræða
fólkið, sem Iifir á tekjutryggingu
einni, sem nemur 12—13 þúsund
krónum á mánuði, og fólkið, sem
vinnur fyrir lægsta kaupið, sem er
á bilinu 11—13 þúsund krónur á
mánuði án þess að hafa tækifæri
til að vinna yfirvinnu. Einnig
barnmargar fjölskyldur, þar sem
einungis annar aðili vinnur úti
vegna þess að kostnaður við
barnagæzlu er svo mikill, að það
hreinlega borgar sig ekki fyrir
bæði hjónin að vinna utan heimil-
is. Við búum í þjóðfélagi, þar sem
lífskjörin byggjast á vinnu beggja
utan heimilis og svo er orðið um
vestræn þjóðfélög yfirleitt.
Verðbólgustefna ríkisstjórnar-
innar hefur ekki leikið þessa þjóð-
félagshópa grátt. Það er þvert á
móti óðaverðbólga undanfarinna
10 ára, sem hefur farið verst með
þetta fólk. Hins vegar hefur
stórminnkandi verðbólga orðið til
þess að menn sjá þennan vanda
skýrar nú en áður.
Líklega er það svo, að efnamun-
ur hefur aukizt verulega á íslandi
á þessum verðbólguárum. Það eru
ömurleg eftirmæli þess vinstri
stjórnar tímabils, sem við höfum
búið við um skeið. Vinstri flokk-
arnir hafa aldrei frá lýðveldis-
stofnun haft jafn mikil áhrif og á
síðustu 10 árum. Og það er einmitt
á því tímabili, sem efnamunurinn
eykst, hinir ríku verða rikari og
hinir fátæku fátækari. Efnamun-
ur verður alltaf einhver en í fá-
mennu samfélagi má hann ekki
verða of mikill. En sennilega er
það ein helzta niðurstaða þessa
valdaskeiðs vinstri flokkanna, að
efnamunur er orðinn of mikill.
f þá tvo áratugi, sem höfundur
þessa Reykjavíkurbréfs hefur
fylgzt með umræðum um kjara-
mál að ráði, hefur alltaf verið um
það rætt að gera þurfi ráðstafanir
til þess í nýjum kjarasamningum
að bæta kjör hinna lægstlaunuðu.
Það hefur alltaf mistekizt nema
gripið hafi verið til sérstakra
ráðstafana eins og byggingu
Breiðholtsíbúðanna á sínum tíma.
Aðrar tilraunir til þess að bæta
kjör lægstlaunaða fólksins um-
fram aðra hafa alltaf strandað á
verkalýðshreyfingunni sjálfri,
sem hefur aldrei verið tilbúin til
þess sem heild að fallast á slíkt.
Þetta er auðvitað ástæðan fyrir
því, að Bjarni Jakobsson og Aðal-
heiður Bjarnfreðsdóttir hvetja til
þess að vandinn verði leystur með
skatta- og tryggingakerfi en ekki
með launahækkunum. Þau þekkja
innviði verkalýðshreyfingarinnar
og vita, að það er engin ástæða til
að ætla, að hún sé fremur tilbúin
til þess nú en fyrr að bæta kjör
lægstlaunaða fólksins umfram
aðra.
Á að slaka á?
í þessum umræðum um kjara-
mál verða menn hins vegar að átta
sig á því, að ekki er verið að ræða
um bætt „kjör“, sem byggjast á
bata í þjóðarbúskapnum. Hann er
ekki fyrir hendi. Þvert á móti
stöndum við frammi fyrir vaxandi
kreppu. Það er enginn grundvöllur
fyrir hendi til almennra kjarabóta
í landinu. Kjör hinna lægstlaun-
uðu er einungis hægt að bæta með
því að skera niður kostnað og
þjónustu annars staðar eða slaka
á í verðbólgubaráttunni.
Yrði síðari kosturinn valinn að
slaka á í verðbólgubaráttunni,
mundi kjarabót lægstlaunaða
fólksins verða skammvinn. Eng-
inn á meira undir því en einmitt
þetta fólk, að verðlag haldist stöð-
ugt og verðbólgan aukist ekki á
ný. Einn af þingmönnum Sjálf-
stæðisflokksins, Eyjólfur Konráð
Jónsson, hefur verið talsmaður
þess, að það hafi verið gengið svo
nærri kjörum þeirra, sem verst
eru settir, að eitthvað verði að
koma á móti. Hann hefur barizt
fyrir því innan Sjálfstæðisflokks-
ins, að þessum vanda verði mætt
með því að lækka tolla og önnur
aðflutningsgjöld og lækka þar
með vöruverð í landinu. Þegar
hann er spurður, hvernig eigi að
mæta þeim tekjumissi ríkissjóðs,
svarar hann því til að reka eigi
ríkissjóð með halla í nokkur ár og
fjármagna þann hallarekstur með
því að selja ríkisskuldabréf á al-
mennum markaði. Þannig taki
ríkissjóður það fé, sem til þurfi,
með lánum hjá fólkinu í landinu í
stað þess að taka það með skött-
um. Innan Sjálfstæðisflokksins
hefur engin samstaða náðst um
þessa stefnu Eyjólfs Konráðs
Jónssonar. Þar hefur meirihlutinn
áreiðanlega verið á þeirri skoðun,
að hallarekstur ríkissjóðs væri
stórhættulegur og að lántaka rík-
issjóðs hjá almenningi mundi ein-
ungis þrengja enn fjármagns-
markað atvinnuveganna og valda
enn meiri erfiðleikum í atvinnulíf-
inu. Hins vegar er það skaði, að
um þennan skoðanamun manna
innan Sjálfstæðisflokksins hafa
ekki farið fram nægilega víðtækar
opinberar umræður, en slíkar um-
ræður þjóna þeim tilgangi að
skýra mál mjög í huga fólks.
Sennilega eru nokkuð skiptar
skoðanir í hópi vinnuveitenda um
það, hvernig þeir eigi að bregðast
við þessari stöðu. Þar er meðal
sumra uppi það sjónarmið, að ekki
megi stofna í hættu þeim árangri,
sem náðst hefur í efnahagsmálum,
með því að halda of fast um hlut-
ina. Áfleiðingin af því yrði einung-
is sú, að einhvers konar launa-
sprenging yrði síðar á árinu með
svipuðum hætti og varð sumarið
1977. Þess vegna sé skynsamlegt
að halda þannig á kjarasamning-
um nú, að friður haldist, árangur-
inn í verðbólgubaráttunni verði
varðveittur að mestu leyti og
menn geti snúið sér að mikilvæg-
ari verkefnum, sem sé uppbygging
atvinnulífsins.
Á hinn veginn eru þar líka
talsmenn þeirra sjónarmiða að
taka verði mið af raunveruleikan-
um í undirstöðuatvinnuvegum
þjóðarinnar. Allt annað muni
leiða til ófarnaðar og nýrrar óða-
verðbólgu.
Eins og hér hefur verið rakið,
má telja víst, að engin samstaða
náist í verkalýðshreyfingunni um
að bæta einungis kjör þeirra, sem
verst eru settir, mismunandi skoð-
anir eru uppi í hópi vinnuveitenda
og óuppgerður skoðanamunur inn-
an Sjálfstæðisflokksins. Sú spurn-
ing verður óneitanlega áleitin,
hvort unnt sé að ná fram meiri
niðurskurði á kostnaði hins opin-
bera og losa þannig fé til þess að
standa undir kjarabótum til
þeirra sem verst eru settir. M.ö.o.
hvort stjórnmálamennirnir hafi
verið of góðir við sjálfa sig við
fjáriagaafgreiðslu í desember og
ekki gengið nægilega langt í
niðurskurði til þess að forðast
reiði kjósenda og einstakra hags-
munahópa.
Umbætur
Um langt árabil hafa umræður í
þessu landi um flest önnur mál
drukknað í umtali um verðbólgu
og efnahagsmál. Svo er einnig að
verulegu leyti nú. Þess vegna taka
menn kannski ekki eftir því sem
skyldi, að á undanförnum mánuð-
um hefur verið að hefjast umbóta-
skeið í fjármála- og bankakerfi
landsins. Morgunblaðið hefur
fjallað ítarlega um þann nýja fjár-
magnsmarkað, sem er að ryðja sér
til rúms hér fyrir frumkvæði
nokkurra einkafyrirtækja, sem
um leið eru komin í alvarlega
samkeppni við hið hefðbundna
bankakerfi um sparifé almenn-
ings. Þessi samkeppni er af hinu
góða, enda löngu orðið tímabært
að koma hér upp fjölbreyttari
fjármagnsmarkaði. Jafnframt er
ljóst, að eðlilegt er að setja ein-
hvers konar rammalöggjöf um
starfsemi þessa fjármagnsmark-
aðar eins og alls staðar tíðkast
erlendis.
í annan stað hafa orðið veru-
legar breytingar í bankakerfinu
eftir að Matthías Á. Mathiesen
tók við viðskiptaráðuneytinu.
Þannig hefur nú verið höggvið á
þann hnút, sem árum saman hefur
valdið mikilli óánægju bæði banka
og sparisjóða og viðskiptamanna
þeirra og öllum innlánsstofnunum
veitt heimild til gjaldeyrisverzlun-
ar. Þetta er mikilsvert spor í rétta
átt.
í þriðja lagi hefur verið gefin
vísbending um það, að bankar og
sparisjóðir þurfi að búa sig undir
nýja starfshætti með því að örlítil
glufa hefur verið opnuð til þess að
gefa þessum aðilum frelsi til eigin
ákvarðana um hvaða innláns- og
væntanlega útlánskjör þeir vilja
bjóða viðskiptavinum sínum. Að
vísu er alltof skammt gengið að
mati Morgunblaðsins, en vel má
vera, að það sé skynsamlegt frá
sálfræðilegu sjónarmiði til þess að
gefa þessum aðilum tækifæri til
að undirbúa nýja viðskiptahætti.
í fjórða lagi hafa vextir verið
lækkaðir eins og eðlilegt er miðað
við minnkandi verðbólgu.
Loks hefur verið starfandi
nefnd undir forystu Þorsteins
Pálssonar, formanns Sjálfstæðis-
flokksins, sem mun leggja til víð-
tækar umbætur í bankakerfinu og
verulega aukið frelsi í viðskl^tum
á þeim vettvangi. Til viðbótar við
þetta má svo nefna, að fslendingar
mega nú nota greiðslukort eins og
aðrar þjóðir í hinum vestræna
heimi. Athyglisvert er, að einnig
þar var það einkafyrirtæki, sem
ruddi brautina, og er hlutur einka-
framtaksins í umbótum og nýj-
ungum á l'jármagnsmarkaðnum
orðinn ótrúlega mikill.
Hreingerning
i „kerfinu“
Önnur umbótastarfsemi, sem
ástæða er til að vekja athygli á, er
sú hreingerning í „kerfinu", sem
bersýnilega er hafin á vegum
Sverris Hermannssonar iðnaðar-
ráðherra með þeirri endurskipu-
lagningu á starfsemi Rafmagns-
veitna ríkisins, sem fyrir dyrum
stendur. Þegar Morgunblaðið birti
frétt í desember um þessi áform,
höfðu forsvarsmenn RARIK stór
orð um þennan fréttaflutning
blaðsins. Nú hefur hins vegar
komið í ljós, að upplýsingar Morg-
unblaðsins voru réttar og meira að
segja hafði blaðið nákvæmari upp-
lýsingar um bifreiðaeign þessa
ríkisfyrirtækis en forsvarsmenn
þess.
Auðvitað veldur hreingerning af
þessu tagi sársauka og kemur illa
við marga. En menn verða að gera
sér ljóst, að það er krafa skatt-
greiðenda í landinu, að tekið verði
til hendi. Framtak Sverris Her-
mannssonar í þessum efnum er
lofsvert en það er auðvitað ljóst,
að það mun storma um þá ráð-
herra, sem þora að takast á við
slíkt hreinsunarstarf.
Einkafyrirtæki, sem hafa ekki
sín mál á hreinu, fara á hausinn.
Það er hins vegar mun auðveldara
að láta vaða á súðum í opinberum
rekstri. Enn er það svo, að al-
menningur hneigist til að taka
talsmenn opinberra fyrirtækja
trúanlega, þótt þeir séu raunveru-
lega að fela lélega stjórn á opin-
berum fyrirtækjum með alls kyns
yfirlýsingum. Vonandi verður
RARIK ekki eina ríkisfyrirtækið,
sem tekið verður til endurskipu-
lagningar. Þar er af fleiru að taka.