Morgunblaðið - 24.08.1984, Blaðsíða 34
34
MORGUNBLAÐIÐ, FÖSTUDAGUR 24. ÁGtJST 1984
Minning:
Birgir Ásgeirs-
son lögfrœðingur
Birgir Ásgeirsson, lögfræðing-
ur, lést í Landspítalanum fyrir
skömmu eftir stutta legu. Kynni
okkar Birgis hófust fyrir rúmum
þrjátíu árum, þegar systir mín,
Sigurbjörg, giftist eldri bróður
hans, Sveini, og þau stofnuðu
heimili í húsi móður okkar á
Grettisgötunni. Birgir var stór
maður og gjörvilegur, rólegur í
fasi og yfirvegaður, en gjarnan
með glettnisglampa í augum.
Birgir átti auðvelt með að vinna
traust viðmælenda sinna.
Ég minnist fjölskyldu hans með
hlýhug. Það var gaman að koma á
Dyngjuveg 10, þar sem foreldrar
Birgis höfðu búið sér og börnum
sinum glæsilegt heimili í stóru
húsi. Faðir hans var Ásgeir Ás-
geirsson frá Fróðá, látinn fyrir
nokkrum árum, og Karólína
Sveinsdóttir, sem nú kveður kær-
an son. — Það ríkti mikil gestrisni
og innri gleði á Dyngjuvegsheimil-
inu og leyndi sér ekki stolt húsráð-
enda yfir hinum mannvænlega
barnahópi. Eftirlifandi börn Kar-
ólínu og Ásgeirs eru: Sveinn hag-
fræðingur, Ásgeir verkfræðingur,
Guðmundur skrifstofustjóri,
Bragi listamaður og kennari og
Hrefna húsmóðir.
Birgir kvæntist Margréti Sigur-
jónsdóttir, hinni mætustu konu,
sem reyndist honum traustur
lífsförunautur. Hún bjó honum
gott heimili, þar sem myndar-
skapur og umhyggja sátu í fyrir-
rúmi.
Þegar ég nú kveð Birgi, er mér
efst í huga þakklæti til hans fyrir
hlýhug og aðstoð við mig og fjöl-
skyldu mína í gegnum árin, sem
hann veitti á sinn hógværa hátt.
Ég og fjölskylda mín sendum
Margréti, Karólínu og systkinum
Birgis innilegar samúðarkveðjur.
Guð veri með þeim í sorg þeirra.
Guðmundur Snorrasson
í dag fer fram frá Dómkirkj-
unni útför Birgis Ásgeirssonar
lögfræðings, en hann andaðist í
Landspítalanum 14. þ.m.
Birgir var fæddur í Reykjavík 2.
maí 1929, sonur hjónanna Ásgeirs
Ásgeirssonar frá Fróðá, skrif-
stofustjóra í Reykjavík, en hann
lézt fyrir sex árum, og Karólínu
Sveinsdóttur, sem lifir son sinn.
Af sex börnum þeirra hjóna var
Birgir fjórði í aldursröðinni, hin
eru Ásgeir Þór verkfræðingur,
Sveinn hagfræðingur, Guðmundur
bókari, Bragi listmálari og Hrefna
húsmóðir.
Birgir lauk lagaprófi við Há-
skóla íslands árið 1954. Að námi
loknu starfaði hann í fjögur ár á
ýmsum lögfræðistofum hér í borg.
Lögfræðingur Neytendasamtak-
anna var hann 1954—1969 og Hús-
eigendafélags Reykjavíkur
1960—1961. Árið 1958 gerðist
hann starfsmaður Reykjavíkur-
borgar og var innheimtustjóri
borgarinnar 1966—1972.1 ársbyrj-
un 1973 stofnaði hann eigið fyrir-
tæki hér í borg, Aðalfasteignasöl-
una og Aðalskipasöluna, sem hann
rak til dauðadags.
Þessi störf öll fórust Birgi vel úr
hendi, enda maðurinn góðum gáf-
um gæddur, nákvæmur og sam-
vizkusamur, svo að af bar. Hann
var laginn samningamaður, og
þannig var til þess tekið, hve vel
honum tókst sem lögfræðingi
Neytendasamtakanna að leysa
þau deilumál, stór og smá, sem
upp komu á þeim vettvangi, svo að
allir þóttust mega vel við una.
Birgir var glæsilegur maður,
hár vexti og samsvaraði sér vel,
bjartur yfirlitum, rólegur í fasi og
íhugull, nokkuð dulur, en brá
gjarnan á glens, þegar svo bar
undir. Hann var ekki allra, en
þeim sem eignuðust vináttu hans,
reyndist hann hollvinur. Hann var
maður hófsamur, án þess að fara
þar út í nokkrar öfgar, hafi yndi
af gönguferðum sér til andlegrar
og líkamlegrar hressingar. Góðum
gáfum og sterkri skapgerð beitti
hann þannig, að hann ávann sér
fljótt óskorað traust þeirra, er
hann átt samskipti við, enda mátti
jafnan treysta orðum hans.
Þetta fengum að við reyna, fé-
lagar hans í Þistlum, sem undan-
farin 20 ár höfum staðið saman
um Sandá í Þistilfirði.
Birgir var formaður félagsins
okkar mörg siðustu árin. Því
starfi gengdi hann með miklum
ágætum og af einstakri ósérhlífni,
en mörgu þurfti að sinna, eins og
þeir vita, sem að slíku hafa staðið,
og annaðist Birgir það að mestu
einn. Ekki leyndi sér, að Birgi var
þetta mjög ljúft, og þurftum við
félagar hans ekki að beita eftir-
gangsmunum, enda hafði hann
fengið mikið dálæti á Sandá, og
félagsskapurinn um ána var hon-
um greinilega mikils virði.
Birgir átti sér góðan lífsföru-
naut, Margréti Sigurjónsdóttur,
hina ágætustu konu. Fyrir tveim-
ur árum fluttu þau í glæsilegt hús
að Miðbraut 38 á Seltjarnarnesi.
En því miður fékk Birgir ekki not-
ið þess lengi.
Fyrir nokkrum mánuðum kom í
Ijós, að meinsemd, sem fyrst hafði
gert vart við sig fyrir þremur ár-
um, hafði tekið sig upp. Fór heilsu
hans ört hrakandi síðustu vikurn-
ar. í þessum þungbæru veikindum
stóð Birgir sig eins og hetja og
mætti á skrifstofu sinni meðan
stætt var, milli þess sem hann
þurfti að dveljast á sjúkrahúsinu,
þar sem hann síðan andaðist eftir
viku legu.
Við félagar hans í Þistlum höf-
um misst góðan vin og röggsaman
formann, sem við söknum sárlega.
Að leiðarlokum þökkum við Birgi
fyrir allt það, sem hann lagði á
sig, til þess að ánægjustundir
okkar hinna mættu verða sem
mestar.
MikiII harmur er nú kveðinn að
konu hans, aldraðri móður og
systkinum. Þeim sendum við inni-
legar samúðarkveðjur.
Við óskum félaga okkar velfarn-
aðar á ferð hans yfir móðuna
miklu.
Blessuð sé minning Birgis Ás-
geirssonar.
Magnús Ólafsson
Bróðurkveðja
Minningarnar sækja á hugann á
hryggðarstund. Það er bjartur
vordagur fyrir þrjátíu árum. Og
þó man ég ekki, hvernig veðrið
var. En það var sól í sinni. Birgir,
bróðir minn, var að ljúka prófi í
lögfræði þennan dag og ég var
bjartsýnn á útkomuna. Eg hlakk-
aði til að samgleðjast honum siðar
um daginn. Hann ætlaði að koma
beint frá prófborðinu til mín á
skrifstofu Neytendasamtakanna í
Bankastræti 7, þar sem hún var
fyrst til húsa. Svo kom hann og
brosti á sinn hátt. Hann hafði
fengið góða fyrstu einkunn, en
fannst, að hún hefði getað verið
betri. Hann var aldrei sjálfum-
glaður. En víst var þetta gleði-
stund. Slíkar stundir að afloknu
stóru prófi eru engum öðrum lík-
ar. Ég vissi það af eigin raun.
Menn geyma þær í minningunni
ævilangt.
Það varð táknrænt, að Birgir
skyldi taka þessa stefnu þegar að
afloknu prófi, því að hann átti eft-
ir að vinna hálfa starfsævi sína
fyrir samborgarana sem lögfræð-
ingur Neytendasamtakanna. Árið
áður hafði ég gengist fyrir stofnun
samtaka, er gæta skyldu hags-
muna neytenda almennt í þjóðfé-
laginu. En það er lítill vandi að
stofna félög hjá því að halda uppi
félagsstarfsemi. Með stofnun
Neytendasamtakanna var auk
þess ráðizt 1 að efna til samtaka á
svo víðtæku sviði, að verkefnin
hlutu að vera endalaus, svo þrot-
laus, að það þurfti mikla bjartsýni
til að ætla, að almennur félags-
skapur hefði bolmagn til að koma
miklu til leiðar í þeim efnum. En
aðalatriðið hjá stofnendunum var
að vekja athygli á sjónarmiði hins
almenna neytanda, kaupanda vöru
og þjónustu. Við töldum það þjóð-
arnauðsyn, að réttur neytenda
yrði virtur í miklu ríkari mæli al-
mennt, enda væri hann orðinn
nær enginnn í mörgum tilvikum. í
þeim tilfellum, þegar neytandi
hafði aðeins til dómstóla að leita
til að ná rétti sínum, var það oft
eins og að benda honum út í hafs-
auga.
Neytandinn gat í rauninni ekki
leitað til neins aðila með fyrir-
spurn, hvað þá varðandi aðstoð, ef
hann taldi sig blekktan í kaupum
á vörum og þjónustu. Leiðin gegn-
um skrifstofu lögfræðinga til
dómstóla var of seinfarin, dýr og
torsótt til að vera fær nema í sam-
bandi við sáralítinn hluta vanda-
mála almennra neytenda. Hér var
eiginlega um að ræða gap í rétt-
arkerfinu.
Það var tilgangur Neytenda-
samtakanna meðal annars að
bæta hér úr og leitast við að veita
neytendum aðstoð og fyrir-
greiðslu, ef þeir teldu á rétt sinn
gengið í viðskiptum. Og þegar hér
var komið, í maí 1954, höfðum við
haft skrifstofu opna i hálft ár. Við
höfðum haft lögfræðing í fyrstu,
en tekjur samtakanna voru svo
litlar, að við gátum ekki borgað
nein laun að heitið gæti. Nú vant-
aði okkur því lögfræðing. Um vet-
urinn hafði borið talsvert á Neyt-
endasamtökunum af ýmsu tilefni,
og þau höfðu þegar sýnt það ótví-
rætt, að þau gátu haft áhrif til
hagsbóta fyrir neytendur í land-
inu. Menn streymdu þó ekki í sam-
tökin til að gerast félagsmenn og
styðja með því við bakið á þeim í
baráttunni fyrir sjónarmiðum og
hagsmunum neytenda almennt,
heldur til að leita aðstoðar vegna
síns eigin vanda út af viðskiptum.
Það stefndi því i óefni, ef meiri
eða minni vandamál til úrlausnar
fylgdu hverjum nýjum félags-
manni, sem greiddi hið lága ár-
gjald. En við höfðum auglýst, eftir
að skifstofan var opnuð, að þar
gætu félagsmenn fengið lögfræði-
legar upplýsingar og aðstoð vegna
kaupa á vörum eða þjónustu — án
sérstaks gjalds.
Mér var það mikið kappsmál, að
Neytendasamtökin sönnuðu til-
verurétt sinn og kæmust yfir byrj-
unarörðugleikana, sem ég taldi
vera. Birgir hafði fylgzt af áhuga
með því, hvernig eldri bróður tæk-
ist að hrinda í framkvæmd hug-
sjón sinni um neytendasamtök, og
nú kom hann til liðs við mig þegar
mikið lá við, og tók að sér upp á
von og óvon, hvað greiðslu snerti,
að freista þess fyrst um sinn að
veita hina lögfræðilegu aðstoð og
upplýsingar, sem samtökin vildu
láta í té.
Birgir varð að sjálfsögðu að fá
sér starf annars staðar, þar sem
laun voru trygg, en þetta varð
aukavinna hjá honum fyrir Neyt-
endasamtökin og viðtalstíminn
var kl. 5—7 síðdegis alla virka
daga nema laugardaga milli kl. 2
og 4. Þetta var mikil viðbót við
venjulegan vinnutíma, verkefnin
voru ávallt ærin og álagið mikið,
simhringingar og viðtöl, og allir
vildu fá skjóta úrlausn sinna
mála. Það var alltaf meira en nóg
að gera. En Birgir þjálfaðist fljótt
í starfinu, sýndi einstaka lagni,
lipurð og þolinmæði, en jafnframt
fulla festu, því að hann var maður
fastur fyrir. En aðalatriðið var
jafnan að finna sanngjarna lausn.
Og það tókst í flestum tilfellum,
en þau skiptu hundruðum á ári
hverju.
Með því að sinna á þennan hátt
málum einstaklinga voru samtök-
in í stöðugu sambandi við fólk,
neytendur og seljendur vöru og
þjónustu, gátu fylgzt með vanda-
málum neytenda á hverjum tíma
og haft áhrif á viðskiptahætti með
afskiptum sínum. Það var sök sér,
þótt neytendur almennt vissu
ekki, að til væru lög í landinu, sem
kölluðust lausafjárkaupalög og
fjölluðu um rétt og skyldur selj-
enda og kaupenda, en hitt var öllu
alvarlegra, að þeir sem fengið
höfðu verzlunarleyfi, virtust
margir ekki vita það heldur. Þeir
voru oft á tíðum í góðri trú og
þekktu ekki skyldur sínar sem
seljendur. Það tíðkaðist til dæmis,
að þeir vísuðu kaupendum á fram-
leiðendur, jafnvel þótt þeir væru í
öðrum heimsálfum, ef kvartað var
um galla á vöru. Hið beina gagn,
sem einstaklingar höfðu af þessari
aðstoð og milligöngu Neytenda-
samtakanna, sem Birgir annaðist
að mestu, og hin beinu og óbeinu
áhrif, sem hún hafði til bóta á
viðskiptaháttum almennt, má
tvímælalaust telja með hinu mik-
ilvægasta, sem Neytendasamtökin
fengu áorkað fyrstu fimmtán árin.
í grein, sem Hannibal Valdi-
marsson, þá forseti ASl, skrifaði í
Neytendablaðið í tilefni 15 ára af-
mælis Neytendasamtakanna, 1968,
sagði hann m.a.: „Hér á landi hef-
ur löggjafinn verið alltof fálátur
og afskiptalaus — að ég ekki segi
sinnulaus — um málefni neytend-
anna. ... Ekki batnar, þegar ofan
á sinnuleysi löggjafans bætist
deyfð og afskiptaleysi almennings
um þessi hagsmunamál sín. — Éf
til vill er hið fyrrnefnda afleiðing
hins síðara. Því miður verður að
játa — af því að það er sannast
mála — að verkalýðshreyfingin ís-
lenzka hefur verið skammarlega
tómlát og afskiptalaus um starf
Neytendasamtakanna."
Víst áttum við við ramman reip
að draga og oft var þungur róður-
inn, en skortur á þakklæti og
skilningi stóð okkur ekki fyrir
þrifum á þeim ungu árum, því að
við vissum, að það sem við unnum
að var gott og þarft og rétt. Og það
var alltaf eitthvað að gerast, því
að almenningur vissi vel af tilveru
Neytendasamtakanna og leitaði
þangað óspart, þótt oftast væri
það út af eigin vandamáli hvers og
eins. Og þá kom jafnan til kasta
Birgis að leysa það. Reynsla hans í
þeim efnum var orðin svo mikil, að
fjöldi mála, sem tókst að afgreiða,
var ótrúlegur. Ég hef aldrei
kynnzt neinum manni, sem ég hef
getað ímyndað mér að hefði enzt
nema skamman tíma í starfi Birg-
is fyrir Neytendasamtökin. En
honum fannst sér vera málið skylt
og fyrir það var ég honum ævin-
lega þakklátur. Enginn þekkir bet-
ur en ég umfang þeirra starfa,
sem hann vann í þagu neytenda og
samborgara sinna á þessum vett-
vangi, og því hef ég viljað, þegar
bróður minn er kvaddur hinztu
kveðju, rifja upp þennan þátt í lífi
hans i minningargrein, sem þó
segir aðeins brot af mikilli sögu.
Ég vona, að mér auðnist að skrá
hana betur síðar. Þegar ég minn-
ist þessara starfa hans, er mér
efst í huga einstök samvizkusemi
hans, dugnaður og traust. Ég var
svo oft í senn stoltur af þessum
bróður mínum og þakklátur hon-
um.
Blessuð sé hans minning.
Sveinn
Birgir Ásgeirsson lögfræðingur
er fallinn frá fyrir aldur fram. Ör-
lög mannlífsins eru slík, að þau
eru okkur venjulegu fólki spurn-
ing og leyndardómur. Ástæðan
fyrir kveðju minni til ættmenna
hans, á þessari örlagastundu, er
einföld: Feður okkar, Ásgeir frá
Fróða og Valdimar í Silla og
Valda voru bræðrasynir.
Um það bil sem ég tók stúd-
entspróf fór ég raunverulega að
átta mig á því hver Ásgeir frá
Fróðá var. Dóttir Ásgeirs hafði
verið með mér í barnaskóla, en um
öll þau systkini var mikið rætt á
mínu heimili.
Einn af þeim er Sveinn, að ég
hygg elstur, stofnandi og fyrsti
formaður Neytendasamtaka
Reykjavíkur. Einn er hinn þjóð-
kunni listamaður Bragi Ásgeirs-
son. Einn er Guðmundur, sem nú
býr á Neskaupstað og dóttirin,
sem með mér var í barnaskóla og
er gift Guðmundi B. Ólafssyni hjá
Framkvæmdastofnun Islands.
Svo einkennilega sem það virð-
ist ókunnugum, þá kynnist maður
fólki á ýmsa vegu. Birgir Ásgeirs-
son virtist mér á götu, maður sem
kom fyrirmannlega fram, svip
hans fylgdi festa, en rósemi. Af
orðræðum við hann, reyndist hann
mér hollur og góður ráðgjafi um
þau málefni er til umræðu voru.
Ég er viss um að þeir, sem leit-
uðu til Birgis Ásgeirssonar, finni
það í dag, að þeir hafa misst holl-
an og góðan ráðgjafa.
Ástvinum Birgis Ásgeirssonar
bið ég blessunar Guðs.
Þorkell Valdimarsson
t
Eiginkona mín og móöir okkar,
GUDRÚN GUOMUNDSDÓTTIR,
Langholtsvegi 46,
sem lést í Borgarspítalanum 15. þ.m., veröur jarösungin trá Aö-
ventkirkjunni í dag, föstudaginn 24. ágúst, kl. 15.00.
Friöberg Kristjónsson,
Edda Friöbergsdóttir Bakke, Guöni Gils Friöbergsson,
Geir Friöbergsson, Kristjón Friöbergsson.
t
Öllu því góöa fólki sem heiöraöi minningu,
VILBORGAR TÓMASDÓTTUR,
meö krönsum, blómum og á annan hátt þökkum við af alhug.
Systkinin.
t
Þökkum innilega auösýnda samúö viö andlát og jaröarför
GUÐNA SVAVARS KRISTJÁNSSONAR,
Hótúni 12, Reykjavík.
Júlíanna Sóley Gunnarsdóttir,
Daviö Aron Guönason,
Rakel Rós Guönadóttir.