Morgunblaðið - 15.12.1985, Blaðsíða 20
áo
MORGUNBLAÐIÐ, SUNNUDAGUR15. DESEMBER1985
Jólatré eina og þau voru gjarnan. Þetta er
heimasmíðað tré skreytt með sortulyngi.
Síðan var kveikt á kertum. Myndin er eins
og hinar jólatrésmyndirnar fengin að láni
frá Þjóðminjasafninu. Þessi jólatré voru þar
til sýnis um jólin 1983.
Mikið skreytt jólatré frá því eftir stríð.
Þessi jólatré voru nokkuð algeng á tfmabili.
Það er gert úr vír og gervihárum þannig að
greinarnar geta lagst upp að stofninum sem
er úr tré.
Hér hefur pappír verið vafið um kvistana og
kerti og skraut sett á.
Nú líður að jólum og margir eru
farnir að huga að kaupum á jóla-
trjám. En hver er saga þessa trés
og hefðin að baki því og þeim
skemmtunum sem því tengjast?
Arni Björnsson, þjóðháttafreðingur,
segir í bók sinni í jólaskapi, sem
kom út hjá bókaútgáfunni Bjöllunni
árið 1983, að jólatréð eins og við
þekkjum það í dag, sé ekki mjög
gamalt í heiminum. Ýmiss konar
trjádýrkun sé hins vegar ævagömul.
í helgileikjum frá miðöldum var
aldingarðurinn Eden oft látinn vera
sjónarsviðið, og stóð þá skilningstré
góðs og ills eða lífstréð á miðju svið-
inu hlaðið eplum og jafnvel öðru
skrauti.
Að sögn Árna eru elstu heimildir
um skreytt tré í heimahúsum á
jólum frá Suður-Þýskalandi á 16.
öld, en ekki eru nema tvö hundruð
ár frá því farið var að festa kerti
á þessi grenitré. Sá siður að hafa
jólatré í stofunni á jólum breiddist
síðan norður eftir Evrópu, einkum
meðal mótmælenda.
Á Norðurlöndum tók þessa að
gæta nokkru eftir 1800 og breiddist
þá fyrst í stað einkum út í borgum
og meðal heldra fólks, en síðar til
sveita. Hér á landi munu allra
fyrstu jólatrén hafa sést í kringum
1850, þá helst hjá dönskum eða
danskmenntuðum fjölskyldum.
Þau urðu svo ekki algeng fyrr en
eftir síðustu aldamót.
„Það er mjög skiljanlegt, af
hverju siðurinn festi ekki fyrr
rætur á íslandi. Hér var víðast
engin grenitré að hafa, og flestar
aðrar vörutegundir hefur þótt
nauðsynlegra að flytja inn. Auk
þess tók sigling oft svo langan
tíma, að örðugt hefði reynst að
halda þeim lifandi. Þetta gerðu þó
sum félög til að halda jólatrés-
skemmtanir fyrir börn, og milli
1890-1900 má sjá auglýst bæði
jólatré og jólatrésskraut," segir
Árni Björnsson í bók sinni.
Margir muna án efa eftir gömlu
heimasmíðuðu jólatrjánum, en
Árni segir að meira en hundrað ár
séu frá því þau fóru fyrst að sjást
hér á landi. Þau voru mörg hver
þannig búin til að tekinn var mjór
staur, sívalur eða strendur, og
festur á stöðugan fót. Á staurinn
voru svo negldar álmur eða borað-
ar voru holur og álmunum stungið
í. Þær voru lengstar neðst, en
styttust upp eftir og stóðu á mis-
víxl. Álmurnar voru hafðar flatar
í endann og á honum stóðu gjarnan
logandi kerti. Venjulega var staur-
inn málaður grænn eða hvítur og
vafið um hann sígrænu lyngi. Oft
voru mislitir pokar hengdir á tréð
og eitthvert sælgæti sett í þá.
Þetta voru þau jólatré sem mest
voru notuð hér á landi þar til fyrir
nokkrum áratugum. Þá var farið
að flytja inn grenitré í stórum stíl
og á síðustu árum hafa svo íslensk
jólatré komið á markaðinn í aukn-
um mæli. Einnig er alltaf nokkuð
um að fólk sé með innflutt gervi-
jólatré og hefur svo verið frá siðari
heimsstyrjöldinni.
Jólatrésskemmtanir fyrir börn
eru óaðskiljanlegur hluti jólahá-
tíðarinnar. Nokkuð tók að bera á
þeim á síðari hluta 19. aldar og
segir Árni Björnsson frá því að
fyrsta jólatrésskemmtunin hafi
verjð á vegum hins nýstofnaða
Thorvaldsensfélags 28. desember
1876. Þessi skemmtun var haldin
í „sjúkrahúsinu" í Reykjavík. „Það
hús stóð þar sem nú er Herkast-
alinn, og var þar svo merkilegt
sambýli, að spítalinn var á efri
hæðinni, en dansskemmtenir
haldnar á þeirri neðri," segir Árni.
Sagt er frá þessari jólatrés-
skemmtun í blaðinu Þjóðólfi 18.
janúar 1877:
„Ýmsir fátækari hér í bænum
hafa beðið oss að þakka ýmsu
höfðingsfólki bæjarins fyrir jóla-
Eftirvæntingin leynir sér ekki. Þessi mynd var tekin i jólatrésskemmtun hji Hjilpræðishernum um síðustu alda-
mót. Maðurinn sem heldur i herfina fyrir miðri mynd er Hans Christian Bojsen, dróttstjóri, og kona hans, Else,
situr hjá. Þau komu hingað til lands skömmu fyrir aldamót, en fóru síðla irs 1902. Myndina tók Magnús Ólafs-
son, en hún var fengin að lini f Ljósmyndasafninu.
UM J0LATRE
OG JÓLATRÉSSKEMMTANIR
gjafir og aðrar velgjörðir. En þar
eð vér höfum ekki rúm fyrir allt
þess konar, og þar eð vér ætlum
að slíkt fólk gefi ölmusu í ailt
öðrum tilgangi en þeim að sjá nöfn
sín í blöðunum, flytjum vér við-
komendum öllum í einu nefndar
þakkir.
Þó þykir oss sérstaklega vert að
nefna — það sem og flestir hafa
beðið oss að votta fyrir — jólagleði
þá , er fjöldi yngismeyja bæjarins
fyrir forgöngu frú Þórunnar Jón-
assen héldu rúmt 100 börnum
hinna fátækari heimila. Það var
eitt kvöldið milli jóla og nýárs.
Var skemmtun þessi haldin á
sjúkrahúsinu með tveim stórum
jólatrjám fullum ljósa og jólagjafa
handa börnunum. Þar var spilað
og sungið fyrir börnin, meðan þau
léku sér og dönsuðu, allt þar til
er „Kvöldúlfur" tók að sigra hina
smáu samsætiskappa."
í Þjóðólfi er síðan vísað til neð-
anmálsgreinar þar sem útskýring-
ar er að finna við orðið Jólatré".
Þar kemur fram að jólatré sé
grenitré, ekki hærra en svo að
húsrúm leyfi. Síðan segir: „Eru
greinarnar alsettar vaxkertum og
allt tréð alsett stássi (jólagjöfum)
og sætindum, eins og ódáins-eplum
og aldinum. Þegar börnin hafa
dansað og sungið kringum tréð, er
gjöfunum skipt upp í milli þeirra.
Jólatré má og búa til úr spýtum
og eini, ef vill.“ Árni segir að þetta
sé elsta heimild sem hann hafi
fundið fyrir jólatrésskemmtun hér
á landi og sýni hún hversu óvana-
legt fyrirbæri var hér á ferðinni.
Árni segir svo frá því að eftir
að barnastúkur Góðtemplararegl-
unnar voru stofnaðar hafi þær
brátt tekið upp þennan sið og 1897
hafi til dæmis verið auglýst jóla-
trésskemmtun þeirra í barnablað-
inu Æskunni. Hér hafi sjálfsagt
verið um innflutt grenitré að ræða,
sennilega frá Noregi. Einnig eru
til heimildir fyrir því að um líkt
leyti hafi nokkrar barnastúkur
tekið sig saman um að kaupa eitt
jólatré í félagi.
í Reykjavík og fleiri kaupstöðum
tóku síðan önnur félög smám
saman að halda jólatrésskemmt-
anir fyrir börn, svo sem kvenfélög,
en síðar starfsmannafélög og
verkalýðsfélög. Einnig tíðkaðist í
sumum sveitum, þorpum og kaup-
túnum að sett var upp jólatré í
samkomuhúsi byggðarinnar og
dansað í kringum það á barnaballi.
Jólatrén voru þá oftast skreytt
logandi kertum og var mikillar
aðgátarþörf.
Samantekt: Elísabet Jónasdóttir