Morgunblaðið - 05.01.1990, Qupperneq 29

Morgunblaðið - 05.01.1990, Qupperneq 29
MORGUNBMÐIÐ FÖSTUDAGUR 5. JANÚAR 1990 29 Minning: Grímur M. Helga son deildarstjóri Fæddur 2. september 1927 Dáinn 26. desember 1989 Svili minn, Grímur M. Helgason, lést 26. desember sl. eftir stutta sjúkrahúsvist. Hann hafði einungis mánuði áður greinst með það mein, sem lagði hann að velli á svo skömmum tíma. Við Grímur kynntumst fyrir rúm- lega þremur áratugum, er ég tengd- ist sömu fjölskyldu og hann. Síðar höguðu atvikin því svo, að starfs- vettvangur okkar varð áþekkur, er hann gerðist starfsmaður Lands- bókasafns og ég skömmu síðar Háskólabókasafns. Samstarf þess- ara stofnana hefur farið vaxandi með árunum, enda er þeim ætlað að sameinast, þegar ytri skilyrði leyfa. Grímur var Austfirðingur að ætt og uppruna, fæddur í Vopnafirði og uppalinn þar og á Seyðisfirði. Foreldrar hans voru Helgi Einars- son, sem lést fyrir allmörgum árum, og Vigdís Grímsdóttir, sem nú syrg- ir son sinn í hárri elli. Átthagarnir áttu mjög sterk ítök í Grími og hann sinnti ýmsu sem þeim tengd- ist á fræðasviðinu. Eins og svo margir námsmenn á fyrri tíð, leitaði Grímur sér sumar- vinnu á Raufarhöfn og þangað sótti hann lífsförunaut sinn, Hólmfríði Sigurðardóttur, en hún á rætur á Melrakkasléttu í báðar ættir. Þau Hólmfríður gengu í hjónaband 2. febrúar 1953. Grímur bast átthog- um konu sinnar mjög sterkum böndum. Eftir að tengdaforeldrar okkar létust, höfðu þau Fríða og Grímur forystu um að dytta að gamla húsinu á Raufarhöfn, svo að nota mætti það til sumardvalar. Grími fór sem fleirum, að hin „nótt- lausa voraldar veröld“ orkaði mjög sterkt á hann, hann naut þess að reika um malirnar við nyrsta haf, og það var ein hans hinsta ósk nokkrum dögum fyrir andlát sitt, að hann mætti ná þeirri heilsu, að hann kæmist norður á Sléttu næsta sumar. Áður en Grímur réðst til Lands- bókasafns hafði hann starfað sem kennari um árabil. Meðfram þeim störfum og síðar safnvörslunni sinnti hann alla tíð margvíslegum fræðastörfum, enda var hann eftir- sóttur til slíkra starfa vegna hæfni sinnar, viðmóts og greiðvikni. Hygg ég að fleiri hafi notið hollráða hans en unnt er að gera sér grein fyrir, bæði um fræðileg viðfangsefni, en raunar einnig varðandi ýmsan per- sónulegan vanda. Grími var til að mynda einkar lagið að leiða menn til sátta, ef á þurfti að halda, og hygg ég hann hafa verið gæddan ýmsum þeim kostum, sem best mega prýða góðan sálusorgara. Þau Fríða og Grímur hafa komið upp sjö börnum, sem nú eru flest flutt úr foreldrahúsum, og barna- börnin eru orðin átta. Þau umsvif sem fylgja slíkri stórfjölskyldu áttu vel við Grím, enda lagði hann mikla alúð við að rækta fjölskyldulífið. Þess hygg ég að niðjar hans allir muni lengi njóta. Það er einnig til vitnis um samhug og samstöðu fjöl- skyldunnar, að húsfreyjunni gafst kostur á því að hefja nám í Kenn- araháskóla íslands af mikilli atorku nær fimmtug að aldri og ljúka það- an kennaraprófi eftir venjubundinn námstíma. Með Grími er genginn vammi firrður afbragðsmaður, sem hrifinn er brott nær fyrirvaralaust úr miðri önn dagsins, á ágætum starfsaldri. Hann hugði m.a. gott til þess að geta, er tímar liðu, helgað sig óskiptur fræðilegum verkefnum, sem stóðu huga hans nærri. En þótt ævin yrði ekki lengri, hefur Grímur unnið samfélagi sínu meira en mörgum öðrum auðnast á lengri ævi, þar sem annars vegar eru störf að þjóðlegum fræðum og hins vegar uppeldi stórs hóps mannvænlegra og hæfileikaríkra afkomenda. Grímur setti svo mikinn svip á umhverfið með sinni hóglátu og jafnframt glaðværu framgöngu, að það mun taka okkur venslafólk hans langan tíma að venjast þeirri tilfinningu, að hann sé ekki lengur á meðal okkar. Við þökkum Grími samfylgdina og blessum minningu hans. Hugur okkar er með Fríðu og börnunum, sem svo mikils hafa misst. Megi minningin um ástríkan fjölskyldu- föður styrkja þau á þessum erfiðu tímum. Einar Sigurðsson Það urðu okkur í Landsbókasafni mikil sorgartíðindi, er við fréttum lát Gríms M. Helgasonaf, forstöðu- manns handritadeildar safnsins. En hann lézt að kvöldi annars jóladags í Landspítalanum eftir skamma legu þar. Grímur Margeir Helgason, eins og hann hét fullu nafni, fæddist 2. september 1927 á Leifsstöðum í Vopnafirði, sonur Helga Kristins Einarssonar bónda þar og konu hans, Vigdísar Magneu Grímsdótt- ur bónda í Hvammsgerði í Vopna- firði, Grímssonar. Þau fluttust úr Vopnafirði til Seyðisfjarðar, og þar ólst Grímur upp og gekk í barna- skóla. Þegar hann hafði aldur til, hóf hann nám í Menntaskólanum á Akureyri og lauk þaðan stúdents- prófi vorið 1948. Að því loknu kenndi hann einn vetur í barna- og miðskóla Seyðisfjarðar. Hugur hans stóð þó til náms í íslenzkum fræð- um, og lauk hann cand.mag.-prófi frá Háskóla íslands 1955. Eftir það réðst hann kennari við Verzlunar- skóla Islands, fýrst stundakennari tvö ár, en síðan fastur kennari 1957-62. Naut hann mikilla vin- sælda sem kennari og hélt vináttu við suma nemendur sína alla tíð, þótt hann hyrfi frá skólanum 1962, er hann gerðist bókavörður í Lands- bókasafni um haustið það ár og þá þegar sem starfsmaður handrita- deildar safnsins. Þegar Lárus H. Blöndal lét 1. desember 1967 af starfi forstöðumanns handritadeild- ar og gerðist borgarskjalavörður, var Grímur ráðinn forstöðumaður deildarinnar og gegndi því starfi til dauðadags. Á kennaraárunum vann Grímur um hríð að útgáfu Pont- usrímna á vegum Rímnafélagsins. Verkið allt er 568 síður, þar af rækilegur formáli Gríms 82 síður og orðamunur, skýringar, athuga- semdir og nafnaskrá 75 síður. Pont- us rímur komu út sem Rit Rímnafé- lagsins X, Reykjavík 1961. í þessu verki öllu hefur Grímur komizt í þá snertingu við handrita- safn Landsbókasafns, er miklu hef- ur ráðið um það, að hann hneigðist að fullu til starfa í Landsbókasafni. Hann hafði raunar þegar haustið 1958 tekið að vinna í hlutastarfi að svokallaðri kvæðaskrá, spjald- skrá um kvæði í handritum safns- ins, „eftir upphöfum og fyrirsögn- um með nánari skilgreiningu", eins og segir í skýrslu landsbókavarðar um Landsbókasafnið í Árbók þess 1957-58. Grímur vann í ígripum að þessu verki, unz hann sem fyrr segir réðst í fullt starf við safnið haustið 1962. Verkefni starfsmanna handrita- deildar eru mörg, aðdrættir nýrra handrita, er berast jafnt og þétt, öðrum þræði fyrir frumkvæði deild- arstjórans. Síðan tekur við skráning efnisins. Grímur vann ásamt fyrir- rennara sínum, Lárusi H. Blöndal, meðan hans naut við, að þriðja aukabindi skrár um handritasafn Landsbókasafnsins, er út kom 1970. En við fráfall hans hafði hann að mestu undirbúið 4. auka- bindi um handritaauka 8. og 9. áratugarins. Stendur til, að það verði slegið inn á tölvu, þegar nauð- synlegum tækniviðbúnaði til þess lýkur. Unnið hefur verið í deildinni að skipulegri könnun handritanna með viðgerð þeirra', er einkum þurfa aðhlynningar við, fyrir augum. Hef- ur viðgerðarstofa handrita, sem aðsetur hefur í Þjóðskjalasafni, unnið mikið og gott verk, síðan hún tók til starfa 1965. Vegna þrengsla hefur starfsliði handritadeildar verið vandi á hönd- um að koma safninu sem haganleg- ast fyrir í hillum, og kom sér vel, hvert snyrtimenni og hirðumaður Grímur reyndist í því efni. Kemur eftirmaður hans í starfi þar til með að taka við öllu í beztu röð og reglu. Það var synd, að Grímur lifði það ekki að fylgja handritasafninu í Þjóðarbókhlöðu, svo vel sem hann hafði lagt á ráðin um alla tilhögun í hinum nýju húsakynnum. Eins og mönnum er kunnugt, flutti Grímur um árabil vinsæla þætti í útvarp um ýmislegt efni handritasafnsins, og hétu þættirnir Haldið til haga. Sumirþessara þátta hafa birzt á prenti í Árbók Lands- bókasafns, sá seinasti í Árbók 1986 um Jón Jónsson í Simbakoti og handrit hans, bóka- og fróðleiks- mann, er skrifaði og lét skrifa fjölda handrita, er síðar gengu milli manna. Grímur lifir sig inn í líf þessara manna og merkilegt fram- lag þeirra eða eins og hann segir í lok greinarinnar: „Það er að vísu fávíslegt að mikla fyrir sér iðju Jóns í Simbakoti og reyna að draga af henni mikla lærdóma um þann þátt, sem hann og starfsbræður hans meðal íslenzkra skrifara síðari alda kunna að hafa átt í að varð- veita samhengið í íslenzkri menn- ingu, en það er gott að vita af þeim og eftirritunum þeirra, sem gengu ótrúlega hratt manna á meðal og héldu við eða kveiktu löngun til að lesa meira, fleiri sögur, fleiri ljóð, og vita meira, um fleiri lönd, fleiri þjóðir. Því hljóma enn í eyrum orð Sigurðar Guðjónssonar skipstjóra á Eyrarbakka, er hann var inntur eftir Jóni fyrir rúmum árátug: „Hann Jón í Simbakoti? Hann var einn af þessum þegjandi fjölda, sem haldinn var óslökkvandi þrá eftir bókum“.“ Grími þótti vænt um handritin og allt þetta fólk, er að baki þeirra stóð. Og honum þótti einnig vænt um þá stofnun, er hann vann við, og hafði metnað fyrir hennar hönd, og hann var samstarfsmaður, sem öllum þótti vænt um. Menn leituðu oft til hans og fóru jafnan hressari af hans fundi. Gestir handritadeild- ar minnast hjálpsemi hans, hvort heldur var við að firma það, sem þeir leituðu að eða ráða fram úr torræðum stöðum. Ég veit, að mönnum leið vel í handritadeild safnsins í návist Gríms og hins sam- henta samstarfsfólks hans. Grímur var mjög tryggur átthög- um sínum austur á landi, fór stund- um austur og var mönnum þar til halds og trausts í ýmsum félags- og menningarmálum þeirra, auk þess sem Austfirðingar leituðu óspart til hans. En væri Grímur M. Helgason lánsmaður í störfum sínum og sam- starfi og samneyti við aðra á aðal- vinnustað sínum, var hann ekki síður lánsmaður heima fyrir. Hann kvæntist 21. febrúar 1953 Hólm- fríði Sigurðardóttur frá Raufar- höfn, hinni beztu konu og traustum lífsförunaut. Þau eignuðust sjö börn, er upp komust, fjóra syni, Sigurð, Helga, Grím og Kristján, og þijár dætur, Vigdísi, Onnu Þrúði og Hólmfríði. Barnabörnin enforðin átta. Það gladdi Grím ekki lítið, þegar Vigdís dóttir hans átti eina þeirra tíu bóka, er valdar voru ný- íega til úrslitakeppni um athyglis- verðustu bók ársins 1989. Það hefur verið mikið verk og ekki áhyggjulaust að koma hinum stóra barnahóp á legg, og Grímur vann mikið í tómstundum sínum, sá með öðrum um útgáfu íslend- ingasagna og þjóðsagna, ennfremur Blómsturvallarímna á vegum Rímnafélagsins (Rit XI). En aldrei minnist ég þess, að hann léti eitt æðruorð falla eða hann kveinkaði sér nokkurn tíma undan lífskvöð- inni. Því var það og, að maður gerði sér ekki grein fyrir því fyrr en mjög seint, hve lasinn hann í rauninni var síðustu mánuðina eða misfeirin, þegar sjúkdómur sá, er felldi hann svo snögglega, var að búa um sig í honum. Grímur var hið glaða þrek- menni, er iyfti þeim, er með honum störfuðu og nú verður sárt saknað, þegar takast skal á við verkefni hins nýja árs. Ég sendi Hólmfríði og fjölskyld- unni allri innilegar samúðarkveðjur úr Landsbókasafni, um leið og ég minnist hins góða drengs og sanna samstarfsmanns, Gríms M. Helga- sonar, með virðingu og þökk. Finnbogi Guðmundsson Þegar mæla skal kveðjuorð í minningu góðs vinar verður flestum tregt tungu að hræra. Þannig er mér einnig farið er mig langar til að minnast Gríms M. Helgasonar, fofstöðumanns handritadeildar Landsbókasafnsins, og þakka hon- um fyrir einstaklega góð kynni. Minn kæri frændi Grímur, vinur okkar allra á Landsbókasafninu, er fallinn frá langt um aldur fram. Hann var einstakur maður, svo hlýr, traustur og góður. Allra manna fróðastur var hann og gott að leita til hans. Það var því góð tilfinning að vita af honum á safninu. Glett- inn og skemmtilegur var hann í kaffistofunni eða þar sem maður rakst á hann, svo stutt í spaugið hjá honum og blessunarlega laus við alla sýndarmennsku. Ég minnist þess sérstaklega hve hlýlega Grímur tók á móti nýjum starfsmönnum Landsbókasafnsins. Framkoma hans var ávallt með þeirri fágun sem einkennir heims- manninn. Þannig umgekkst hann alla, einnig börn. Grímur heilsaði t.d. ungri dóttur minni alltaf með handabandi þegar hún kom á safn- ið og spjallaði við hana um heima og geima. Þegar við mæðgur horfð- um nýlega á sjónvarpsviðtal við Vigdísi, dóttur Gríms, og ég sagði dóttur minni, hver pabbi Vigdísar væri, þá komu viðbrögð hennar mér ekki á óvart, er hún sagði eftir smá þögn: „Er það, mikið á hún gott.“ En það voru fleiri börn sem áttu gott, því börn Gríms og konu hans, Hólmfríðar Sigurðardóttur, urðu sjö. Hann var ekki að bera sín einkamál á torg en alltaf skein í gegn hve fjölskylda hans var honum kær. En lífið er hverfult og enginn má sköpum renna. Er líða tók að jólum dró ský fyrir sólu. Grímur var orðinn veikur, banvænn sjúk- dómur var sestur að í þessum mæta manni. Einvígið við þann vágest var stutt. Hann lést eftir skamma sjúkrahúslegu á annan dag jóla. Nú er Grímur laus úr viðjum þessa illvíga sjúkdóms og horfinn þangað sem ríkir „Nóttlaus voraldar veröld þar sem víðsýnið skín.“ Eiginkonu hans, móður og börn- um sendi ég og fjölskylda mín okk- ar innilegustu samúðarkveðjur. Megi hin eilífa hvíld verða honum góð. Guðrún Eggertsdóttir Leiðir okkar Gríms M. Helgason- ar lágu saman, þó ekki óslitið, í röska hálfa öld. Á árunum 1938- 1940 vorum við embættismenn í barnastúku austur á Seyðisfirði og sátum hlið við hlið á fundum. Eftir það skildu leiðir um sinn en næst urðum við samferða í námi í Há- skóla íslands 1949-1955. Enn lágu leiðir okkar saman í Safnahúsinu við Hverfisgötu í ársbyijun 1964 þegar ég hóf starf í Þjóðskjalasafni Islands, en Grímur hafði þá unnið_ um skeið í Handritadeild Lands- bókasafns. Upp frá því unnum við undir sama þaki og varla leið sá dagur að við hittumst ekki og tækj- um upp spjall um heima og geima og oftast á léttari nótunum. Sem starfsmaður og síðar for- stöðumaður Handritadeildar naut Grímur einstakra vinsælda fyrir lip- urð og greiðvikni í' starfi. Hann var prúðmenni í framkomu og hvers manns hugljúfi, en hélt þó á málum af fullri einurð ef þess gerðist þörf enda hreinlyndur með afbrigðum og drengur góður. Á vinnustað var hann iðulega mannasættir þegar í odda skarst eða lægja þurfti öldur. Glöggskyggni hans og vandvirkni var slík að fulltreysta mátti hveiju því sem hann lét frá sér fara í útgáf- um eða rituðu máli. Grímur var skilningsríkur á mannlega kosti og bresti samferða- manna, gamansamur vel og skarp- skyggn á broslegu hliðamar á mönnum og málefnum. Það er því dauflegra en áður í gamla Safna- húsinu, þegar hann er horfinn á braut á vit hins ókunna. Við, starfsfólkið í Þjóðskjalasafni íslands, minnumst Gríms með þakklæti fyrir alla hjálpsemi hans í okkar garð í rúman aldarfjórðung. Fyrir hönd okkar allra votta ég Hólmfríði, börnunum, Vigdísi, móð- ur Gríms, systkinum hans og öðrum vandamönnum dýpstu samúð og bið þeim blessunar. Gunnar Sveinsson Þegar ég kom aftur til vinnu eftir þriggja vikna dvöl í útlöndum færði Tryggvi bókbindari mér þau sorgartíðindi að starfsbróðir okkar Grímur M. Helgason væri látinn. Andlátsfregn þessi kom mér mjög á óvart, þar sem ég vissi ekki að neitt alvarlegt hefði amað að hon- um. Mér var mjög brugðið. Nú get ég ekki lengur leitað til Gríms með greinar mínar og þýð- ingar, en hann var vanur að gera mér þann greiða að lesa þær yfir og benda mér á sitt hvað sem betur mátti fara. Betur sjá augu en auga. Leiðréttingar hans og ábendingar voru ávallt vel þegnar enda var Grímur ekki aðeins vandvirkur, vandlátur og stílvís heldur einstakur smekkmaður á íslenskt mál. Ef lýsa ætti starfi Gríms á Landsbókasafni íslands með einu orði þá hygg ég að það hafi einkennst af vandvirkni öðru fremur, já vandvirkni í hvívetna. Það sem Grímur gerði fyrir mig verður seint fullþakkað, enda á hann enn hönk upp í bakið á mér og rétt er að geta þess nú að allt sem hann gerði fyrir mig gerði hann með Ijúfasta geði. Þótt Grímur M. Helgason hefði margt, já svo ótalmargt til að vera stoltur af, þá hugsa ég að hann hafi verið meðal þeirra hæverskustu og hrokalausustu manna sem ég hef kynnst á lífsleiðinni. Hann var maður, hann var sannur maður og sá sanni tónn sem er að finna í síðasta ritverki dóttur hans er ótví- rætt sömu ættar. Saga hennar um ísbjörgu er svo blessunarlega laus við orðagjálfur, glamur og tilgerð- arlegt lfkingamál. Þann 27. desember ætlaði ég að láta það verða mitt fyrsta verk að óska Grími til hamingju með afrek dóttur hans. Auðsætt er að ham- ingjuóskir mínar verða að bíða betri tíma og betri staðar. Það er sjálfsagt rétt að maður komi í manns stað, og í stað Gríms kemur eflaust annar maður, annars konar maður, vonandi jafnágætur og Grímur var, en okkar Grímur kemur því miður aldrei aftur og á Landsbókasafni verður hans lengi sárt saknað. Ekkju hans, Hólmfríði Sigurðar- dóttur, og börnum sendi ég mínar innilegustu samúðarkveðjur. Halldór Þorsteinsson, skólastjóri, bókavörður. Fleiri minning-argreinar um Grím M. Helgason birt- ast í næstu blöðum.

x

Morgunblaðið

Direct Links

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.