Morgunblaðið - 01.05.1992, Síða 47
'MORGUNBLAÐIÐ FÖSTUDAGUR 1. MAÍ 1992
--------- -------;—r—-------: ....11 ;-------------—:----1 r
þakkláta starfi, hann lenti oft í
kröppum sjó þegar hann var að
verja gerðir stjómarinnar. Var
hann þá rökfastur, kíminn og stríð-
inn. Þannig að þó hátt væri reitt
til höggs tókst honum að lægja
öldurnar.
I um tuttugu ár keyrði Einar
út vörur fyrir sömu heildsöluna,
John Lindsay hf., þar sem hann
lagði leið sína um flestar matvöru-
verslanir á stór-Reykjavíkursvæð-
inu í hverri viku. Hann var alls
staðar aufúsgestur, kom léttur í
skapi með birtu í skammdegisbar-
áttu kaupmannsins. Verðugur full-
trúi heildsölunnar sem hann vann
fyrir sem ég er viss um að hefur
notið góðs af þessum fulltrúa sín-
úm.
Einar var ekki hár í lofti eða
kraftalega vaxinn, en að vinnu lok-
inni hjá Lindsay snéri hann sér að
þungaflutningum. Hann var með
flokk bílstjóra sem fluttu ýmsa
þunga hluti eins og píanó, peninga-
skápa og fleira þess háttar. Þar
þurfti bæði útsjónarsemi og krafta.
Jafnvel eftir að hann lenti í bíl-
slysi, þar sem hann mölbraut á sér
fótinn, hélt hann áfram þessum
flutningum og dró ekki af sér.
Starf sendibílastjóra er tilbreyt-
ingaríkt og skemmtilegt þegar nóg
er að gera. Einar naut sín vel í
þessu starfi, svo vel að það er ekki
hægt að segja að hann hafi nokk-
urn tíma tekið sér frí. Það var
ekki peninganna vegna heldur það
að' honum leið vel í vinnunni og
hafði gaman af. Hann var ósérhlíf-
inn og reiðubúinn til hjálpar
ættingjum og vinum hvenær sem
var.
Einar var kominn yfir fertugt
þegar hann loksins festi ráð sitt.
Hann giftist Magneu Hallmundar-
dóttur, ekkju með þrú börn, tvær
systur uppkomnar og son um ferm-
ingu. Hann féll vel inn í þessa fjöl-
skyldu og komu þau sér upp fal-
legu heimili við Háaleitisbraut.
Fyrir nokkrum árum keyptu þau
sér einbýlishús við Heiðargerði,
sem þau hafa gert upp og byggt
við. Þar skyldi notið erfiðisins, en
það fer ekki alltaf eins og ætlað er.
Magnea og Einar áttu ánægju-
lega daga saman og voru samrýmd
hjón. Hann var bamagæla mikil
og dáðu barnabörnin hann. Eitt
barnabarn, Alda Berglind, fæddist
á fimmtugsafmælisdegi Einars.
Hann hafði heitið því að mæta við
fermingu hennar á pálmasunnudag
sem hann og gerði. Rúmri viku
seinna var Einar Guðmundsson
allur. Það er eins og dauðinn komi
okkur alltaf á óvart, jafnvel þótt
mann gruni hvers er að vænta eft-
ir langvarandi veikindi.
Starfsfólk Sendibílastöðvarinn-
ar, bílstjórar og við gönilu félag-
arnir af stöðinni þökkum Einari
samfylgdina.
Magneu og fjölskyldu vöttum
við samúð okkar.
Kristinn Arason.
Látinn er í Reykjavík stjúpi minn
og vinur, Einar Guðmundsson,
sendibílstjóri. Hann fæddist í
Geirakoti í Sandvíkurhreppi 15.
ágúst 1928, sonur hjónanna
Guðmundar Einarssonar og Guð-
rúnar Pálsdóttur. Uppeldi hans í
Flóanum var við almenn sveita-
störf eins og þau voru á þeim tíma
en einnig stundaði hann um tíma
róður á trillu frá Þorlákshöfn. Það
var svo árið 1952 sem hann, ásamt
móður sinni og systrum, flutti til
Reykjavíkur í kjölfar láts föðurins.
Þar hóf hann akstur sendibifreiða
hjá Sanitas og einnig hjá Ölgerð-
inni, en fljótlega fór hann ásamt
félaga sínum, Hallgrími, að gera
út gamlan bíl til sendiaksturs.
Þetta framtak þeirra vatt svo
smám saman upp á sig og var
komið út í útgerð á fjórum stórum
bílum þegar mest var.
Þegar ég fyrst kynntist Einari
á mínum unglingsárum voru móðir
mín og hann að hefja sín kynni.
Þá var hann við akstur á sendibíla-
stöðinni hf. þar sem hann vann
einnig mikið að félagsstörfum og
var meðal annars stjórnarformaður
um margra ára skeið. Ég uppgöt-
vaði fljótlega hversu hlýtt mér var
til þessa manns. Hann umgekkst
mig sem sinn eigin son, ráðlagði
mér allt það besta er hann gat.
hjálpsemi hans átti sér engin tak-
mörk. Að vera samvistum við Ein-
ar var alltaf ánægjulegt. Ávallt
léttur í lund, grallari gat hann
verið hinn mesti og fátt vissu afa-
börnin skemmtilegra en að hasast
í afa, enda komu þau ekki að kof-
unum tómum hjá honum í þeim
efnum.
Árið 1988 keyptu þau hjónin
húseignina Heiðargerði 18 hér í
Reykjavík. Með þeirri feikilegu
eljusemi og þeim dugnaði sem
þeirra kynslóð einkenna tókst þeim
að búa sér þar notalegan bústað
til ævikvöldsins, ekkert var til
sparað til að allt mætti vera sem
best út garði gert. En eins og svo
oft áður í henni veröld gripu örlög-
in í taumana. Einar greindist með
sjúkleika þann sem átti eftir að
stytta veru hans hér á jörðu. Þeir
tímar sem í hönd fóru áttu eftir
að reynast honum erfiðir. Samt
kvartaði hann aldrei, það var hlut-
ur sem hann lærði aldrei í þessu
lífi. Hann hélt áfram að stunda
vinnu sína af sömu samviskusemi
og hann hafði gert alla sína daga
fram að því. Undraðist ég styrk
hans og æðruleysi á þessum erfíðu
tímum því oft sá ég að hann var
mjög kvalinn þótt hann léti ekki á
neinu bera. Áfram skyldi haldið.
Það var svo upp úr síðustu ára-
mótum að ástand hans var á þann
veg að ekki varð umflúið að slá
af. Það var honum erfitt að þurfa
að hætta að vinna, kannski var
það erfiðara ok að bera en þær
byrðar sem sjúkdómurinn sjálfur
lagði á herðar honum. Hann and-
aðist síðan hægu andláti á heimili
sínu 22. apríl síðastliðinn. Ættingj-
um hans og vinum er missirinn
mikill því farinn er góður drengur,
allar góðar óskir og bænir fylgja
honum. Fari stjúpi minn og vinur
vel.
Logi Már Einarsson
og fjölskylda.
Það er einhver sérkennileg regla
sem ræður því hvað það er sem
festist í barnsminninu. Oft eru það
atvik sem virðast smávægileg,
enda verða börnum aðrir hlutir
eftirminnilegir en fullorðnum. Mat
þeirra á tilverunni er annað. Alveg
frá því ég man fyrst eftir mér
hefur Einar frændi Guðmundsson
verið óaðskiljanlegur hluti af minni
tilveru. Ekki af því að leiðir okkar
lægju svo oft saman, heldur trú-
lega vegna þess að honum fylgdi
sérstök kátína og gleði sem er mér
minnisstæð. Það kviknaði jafnan
líf um leið og þessi lágvaxni en
sterklegi. maður gekk inn með sín
spaugsyrði á vör og allt andlitið
undirlagt þessu skemmtilega og
laundijúga brosi sem var hans
kennimerki fremur en nokkuð ann-
að. Það var aldrei leiðinlegt í kring-
um Einar og fyrirhafnarlaust smit-
aði hann okkur og allt andrúms-
loftið í kringum sig af þessu fjöri.
Einar Guðmundsson fæddist í
Geirakoti í Flóa, og við uppnefnd-
um hann eftir sveit sinni, kölluðum
hann alltaf Flóa frænda. Hann
gekkst alveg við því, enda Flóa-
maður í húð og hár, og hafði gam-
an af því síðar, eftir að ég hafði
verið á þessum sama bæ í sveit,
að snúa þessu uppnefni upp á mig.
Eitt það skemmtilegasta við Einar
var nefnilega að það var alltaf
hægt að stríða honum á móti, þótt
stundum sé sagt um stríðna menn
að þeir þoli illa stríðni sjálfir. Það
átti aldeilis ekki við um Einar.
Gamansöm og góðlátleg stríðni var
honum einfaldlega í blóð borin,
eins og okkur fleirum af þessari
ætt. En það gefur dálitla mynd af
Einari, að honum varð jafnan að
orði að hann vissi ekki hvaðan ég
og við bræður hefðu þessa stríðni,
hún væri ekki til í föðurættinni.
Það vita flestir að helsta raun
hvers unglings er fjölskylduboð. Á
erfiðu skeiði uppreisnar og mót-
þróa verða þau birtingarform leiði-
gjarnra venja og skyldukvaða sem
unglingurinn upplifir sem eina
samfellda yfirheyrslu. Og ofan á
erfiðar spurningar er hann oft
neyddur til þess að taka þátt í ein-
hveiju ættfræðitali þar sem hann
missir þráðinn við fyrsta ættlið.
En ég segi fyrir mig, að ekki síst
vegna Einars frænda voru þessi
skyldusamkvæmi bærileg. Það var
kannski fyrst og fremst hans
vegna sem maður lét dragast, eft-
-------------------47
—
ir að hafa fengið sæmilega trygg-
ingu fyrir því að Flói yrði á staðn-
um. Hann kunni lagið á að gant-
ast við mann, stríða manni að sjálf-
sögðu en alltaf góðlátlega og á
þann veg að hann gaf manni tæki-
færi á að svara fyrir sig og þannig
urðu skemmtileg orðaskipti til þess
að gera manni lífið ekki bara bæri-
legra heldur urðu þau manni minn-
isstæð. Ég get óhikað notað þann
frasa um unglingsárin að þegar
ég heyrði skemmtilegs manns get-
ið þá varð mér hugsað til Einars.
Hann var á þessum tíma holdtekja
hugmynda minna um skemmtileg-
an mann.
En Einar var ekki bara einstak-
ur húmoristi heldur líka greiðvik-
inn með afbrigðum og alltaf boðinn
og búinn að hjálpa. Ósérhlífinn er
orð sem lýsir honum ákaflega vel
enda má kannski segja að hann
hafi slitið sér út fyrir aldur fram
á þessari botnlausu vinnusemi.
Hann keyrði sendibíl mestan hluta
ævinnar og sérhæfði sig m.a. í því
að flytja flygla og geta allir gert
sér í hugarlund átökin sem því
starfi fylgja. Hann var ótrúlegt
hörkutól, gaf sig allan í það sem
hann var að gera hveiju sinni og
hlífði sér hvergi.
Við hittumst ekki oft hin síðari
ár, enda sérstök frændrækni ekki
sterkasta einkenni okkar fólks.
Alltaf var samt jafn gaman að hitta
Einar og aldrei leið langur tími þar
til þetta skemmtilega bros lék um
andlit hans. Síðast var hann orðinn
fársjúkur en þótti verst að geta
ekki hjálpað mér að flytja og þótt
hann vissi vel að alvara væri á
ferðum var hann sístur manna til
þess að vera með einhvern barlóm
yfir því. Ekkert var Ijær Einari
Guðmundssyni en kvartanir og væl
yfir orðnum hlutum og staðreynd-
um lífsins. Hann setti bara aðeins
í axlirnar og harkaði af sér.
Um leið og ég kveð þennan
uppáhaldsfrænda minn og þakka
honum fyrir ævikynnin, sem voru
mér mjög mikilvæg, votta ég
Magneu, Siggu og öðrum nánustu
aðstandendum innilegustu samúð
mína og fjölskyldu minnar.
Páll Valsson.
Verödæmi: Nissan
Primera 2000cc
stallbakur SLX 4ra
dyra, sjálfskiptur, samlæsingar
rafdrifnar rúöur og speglar,
vökva-og veltistyri,
upphituö sæti, 16 ventla,
fjölarma fjöörun bein innspyting.
Staögreiösluverö er kr. 1.422.000
Yfirburði