Morgunblaðið - 09.01.1994, Blaðsíða 11

Morgunblaðið - 09.01.1994, Blaðsíða 11
MORGUNBLAÐIÐ SUNNUDAGUR 9. JANUAR 1994 B 11 Frá sýningu Borgarleikhússins á Evu Lúnu. Úr kvikmynd Billie August Hús Andanna sem verður frumsýnd hér hjá Sambíóunum' innan skamms. — Gastu eitthvað skrifað á þessum tíma? Ég punktaði hjá mér í gula stílabókt- Ég skrifaði mörg bréf til mömmu. Ég skrifaði henni á hveijum degi. Oft á dag. Þangað til Paula dó. 6. desember klukkan 4 um nótt- ina. Þá missti ég alveg fótanna. Mér var sagt að ég yrði að fara í meðferð, taka ró- andi lyf eða fara í frí. En þá kom mamma frá Chile með einu lækninguna sem til var. Hún færði mér pakka með öllum bréfunum sem ég hafði skrifað henni og sagði: Þetta eru göng sem þú verður að fara inn í og ganga á enda, Isabel, til þess að komast út hinum megin. Það er ekkert sem getur tekið í burtu sársaukann, engar pillur, engin með- ferð, ekkert frí. Þú verður að fara inn í sárs- aukann til þess að komast út úr honum aft- ur. Þú verður að lifa aftur, skref fyrir skref, allan þennan sársauka og gangast við hon- um. Og gera þér grein fyrir því að þú losnar aldrei við hann, að héðan í frá verður hann hluti af lífi þínu og tilveru um alla framtíð. Og þú verður að sætta þig við það. — Og hún afhenti þér bréfin? Já. Hún sagði mér að þessi bréf myndu hjálpa mér að muna, frá degi til dags, frá mínútu til mínútu, allt sem gerðist. Og hún bað mig um að lesa þau í réttri röð. Hún var búin að raða þeim upp í rétta tímaröð og hafði bundið um þau gult band. Þau eru þarna, á skrifborðinu mínu. — Og þú last þau? Ég las öll bréfin, með hana hérna hjá mér, og endurupplifði allt sem hafði gerst, skref fyrir skref. Og þegar ég hafði lokið við að lesa þau sætti ég mig loksins við að Paula skyldi hafa dáið. Það var það besta sem gat gerst úr því sem komið var. Ég áttaði mig á því að ég hafði gert allt sem í mínu valdi stóð til að reyna að bjarga henni. En það var annað sem rann upp fyrir mér, kannski það mikilvægasta í allri þessari lífreynslu. Ég sá að ég hafði ýtt öllu til hliðar, vinn- unni minni, fjölskyldunni, öllu því sem ég hingað til hafði verið viss um að ég gæti ekki verið án. Það var sem allt yrði að engu, nema hún og ég, í þessu herbergi. Hún með galopin augun, án þess að sjá mig, hún með heilann sem hættur var að starfa, og ég gegnt henni. Og skyndilega samþykkti ég það, að svona hefði það verið og að dauði Paulu væri óumflýjanlegur. Og þá sagði ég við sjálfa mig: Jæja, Paula, fallega stúlkan mín, nú er það búið. — Hvað gerðirðu? Leyfðirðu henni að deyja? Ég lokaði mig inni í herberginu með henni og sagði: Paula, nú skaltu deyja, nú er það búið. Ég dái þig. Ég mun alltaf elska þig og verð hjá þér, alltaf, en nú skaltu deyja róleg. Ég ætla ekki að halda áfram að betj- ast. Ég mun ekki halda í þig lengur. — Og hún dó? Já. Það mikilvægasta sem ég lærði af allri þessari þjáningu var, að það eina sem situr eftir á endanum er ástin sem þú gefur. Ekki sú sem þér er veitt, vegna þess að Paula gat ekki gefið mér neitt. Hún gat aðeins þegið. En sú óendanlega ást sem ég bar til hennar og um leið vitneskjan um að ég er þess megnug að elska og gefa á þennan hátt er mér sem fjársjóður í dag. Ástin og andarnir — Hafðirðu aldrei upplifað þetta áður? Nei, aldrei. Öll mín ástarsambönd í gegnum tíðina, og þar með talið samband mitt við bömin mín, hafa verið eins og tvístefnugöt- ur. Ef þú ert góður drengur þá mun ég dá þig. Ef þú ert góð móðir þá verður samband okkar gott. Ef þú ert góður elskhugi þá ska! ég giftast þér. Það er aðeins ein tilfinning sem er hafin yfir allar þessar skilyrtu tilfinn- ingar um ást, aðeins ein tilfinning sem situr eftir og þurrkast aldrei út og það er sú ást sem bara er og væntir einskis í staðinn. — Hefur þetta orðið til þess að þú hefur aðhyllst einhver trúarbrögð? Nei. En ef ég gerði það þá yrði það kannski helst búddismi. Ég trúi á andann, sem að mínu mati er ekki einvörðungu bundinn við mannskepnuna, hann er alls staðar í náttúr- unnif Ég lifí andlegu lffi. Ég er alltaf að skrifa um anda. Ég trúi því að þeir dauðu leiði okkur hin sem eftir lifum. Én ég held ekki að það sé til einhver guð þarna uppi sem refsar okkur og verðlaunar á víxl og fylgist með gjörðum okkar. A.m.k. ef ég þyrfti að biðja til einhvers guðs myndi ég biðja til góðrar og líknsamrar gyðju með bijóstin full af mjólk en ekki til einhvers refsandi guðs sem mismunar þjóðflokkum og þrífst á að- dáun mannanna, hvílík firra! — Ertu mjög bitur? Það er ekki biturleiki. En ég hef elst um 10 ár. Veri þau velkomin. Ég vil ekki gleyma sársaukanum. Ég vil ekki hætta að gráta. — Ertu að tala í alvöru? Já. Ég vil taka það fram að þetta er ekki masókismi. Ég hlæ og leik mér við barnabörn- in mín. En ég vil ekki skilja þennan sársauka við mig. Hann gerir mig að betri manneskju. — Heldurðu að þú komir einhvern tímann til með að gefa út þessi bréf? Ég get ímynd- að mér að þau séu mjög áhrifamikil. Það myndi enginn hafa áhuga á þeim. Bréf móður minnar, þau sem hún skrifaði mér, eru vissulega áhrifamikil. Enda er það hún en ekki ég sem er skáldið í fjölskyld- unni. En við gerðum með okkur samning, ef önnur deyr, brennir hin öll bréfín. — Tölum um velgengni þína. Velgengni? Hvaða velgengni? Hvað er vel- gengni? — Á bókmenntasviðinu, á ég við. Ég er hissa á því að bækurnar mínar skuli seljast svona vel og á öllum þessum tungu- málum. En hér hefur ekkert breyst. Vel- gengnin á sér stað utan þess hrings sem ég lifi og hrærist í. Ég held áfram að vera sú sem ég var. Barnabörnin halda áfram að vaxa, það þarf að skipta um bleiur, fara á markaðinn, og skrifa í átta tíma á dag með sama lítillætinu og þegar þegar ég skrifaði fyrstu setninguna í fyrstu bókinni minni. Og með sömu vissu um að ég viti ekkert í minn haus. Og að í hvert skipti þurfi ég að búa allt til upp á nýtt, skrifa nýja bók af því að ég hef ekkert lært á þeim fyrri. — Áttu við að þú verðir ekkert vör við þessa miklu velgengni hér í Bandaríkjunum? Mjög lítið. Bækurnar mínar eru vinsælli í Evrópu en í Bandaríkjunum. — Hvaða augum líturðu á bókmenntir al- mennt? Hvaða tilgangi þjóna þær? Ég lít ekki á bókmenntir sem takmark í sjálfu sér. Ég trúi ekki á að listin sé til listar- innar vegna. Ég ber enga virðingu fyrir bók- menntum og reyni að forðast allan hátíðleika í sambandi við þær. Fyrir mér eru bókmennt- ir ekkert annað en mögnuð aðferð til þess að koma aftan að einhverjum og hvísla: Sjáðu, svona erum við, þetta er til. — Þú tekur sem sagt bókmenntirnar ekki of alvarlega? Hlærðu kannski að þeim? Ég vinn af alvöru en ég tek þær ekki alvar- lega. Ég elda af alvöru, ég er mjög góð í að saxa niður lauk og grænmeti, en ég tek eldamennskuna ekki alvarlega. Ojg það sama er að segja um bókmenntirnar. Eg skrifa af mikilli nákvæmni og þolinmæði, en ég held ekki að bókmenntirnar séu lífsspursmál fyrir nokkurn mann. Hér áður fyrr fór ég á rithöf- undaþing og hlustaði á rithöfunda tala um sjálfa sig og verk sín og á einhvern undarleg- an hátt þá skammaðist ég mín. Það fór í mínar fínustu. Þetta að þykjast vera eitt- hvað, að tala um sjálfan sig eins og einhvern skapara og um vinnuna sína sem verk... ég skammaðist mín. Og ég þoldi ekki þegar þeir voru að greina verkin og skjalla hver annan, mér fannst það skammarlegt. — Hvað með bókmenntakennslu í háskól- um, ertu sáttari við hana en rithöfundaþingin? Stundum heimsæki ég háskóla og hitti þar fyrir 30 manna hóp af krökkum sem hafa verið píndir í heila önn til að leita að táknum og líkingum í einhverri af bókunum mínum, táknum og líkingum sem ég kannast alls ekki við, á stöðum þar sem sagan er það eina sem skiptir máli. Þá reyni ég að segja þeim að njóta þess frekar að lesa bókina eins og ég nýt þess að skrifa hana í stað þess að vera að greina hana og leita að hliðstæð- um eða áhrifum... — Ég las einhverntímann í viðtali við þig að þú hafir verið með bækur eftir Marquis de Sade í skólatöskunni þinni þegar þú varst tólf ára... í þá daga las ég allt. Allt sem ég komst yfir. — Og hvað fannst þér um Sade á þessum árum. Hvað finnst þér um hann í dag? Mér finnst ekkert varið í hann. Og hann hefur engin áhrif haft á líf mitt. Ég hef hvorki orðið sadisti né masókisti af því að hafa les- ið hann. Konur og skáldsagan — Hvaða höfunda heldurðu upp á? Mjög marga. Núna er ég að lesa bækur eftir konur sem tilheyra minnihlutahópum í þessu landi, svartar, kínversk-amerískar, jap- anskar og suður-amerískar. Þær eru allar miklir skáldsagnahöfundar og bækurnar þeirra eru frábærar. Og það sem meira er, þær eru að hasla sér völl á bókmenntamark- aðinum í New York, sem hefur til skamms tíma verið einokaður af hvítum karlmönnum. Minimalisminn í bókmenntum er að renna sitt skeið á enda. Enda tími til kominn. Það hefur orðið ákveðið afturhvarf til epískrar frásagnar, menn hafa meiri áhuga en áður á áhrifamættinum í sögunni. Þetta heillar mig mjög mikið. — Hvað finnst þér um verk nýjasta nóbels- verðlaunaskáldsins Toni Morrison? Hún er einmitt gott dæmi um það sem ég var að segja. Hún er svört skáldkona og sagan eða frásögnin í bókunum hennar er alltaf mjög áhugaverð en á sama tíma er hún að tala um hluti sem verður að segja frá eins og þrælahaldið. Hún fjallar um eymdina og stöðu kvenna. Toni Morrison er fremst í flokki þessara kvenna. — Þú ert dökk og lágvaxin, fyrir nokkrum árum sagðirðu í viðtali að þú vildir gjarnan skipta á sjálfri þér og hávaxinni, tvítugri ljósku með stór bijóst. Ertu enn á sömu skoð- un? Nei. í dag myndi ég vilja skipta á sjálfri mér og hávaxinni fimmtugri ljósku með stór brjóst. — Ekki yngri? Nei. Það væri hræðilegt að þurfa að fara aftur í gegnum þessi síðustu þijátíu ár ævinn- ar. Nei. Ekki einn dag í viðbót! Nú er ég komin með 50 ára lífsreynslu og finnst ég samt ekki hafa aflað mér nema örlítillar vitn- eskju. Það væri hræðilegt að þurfa að endur- upplifa allar ástarsorgirnar, gráta aftur yfir fyrstu hrukkunum, missa allt sem ég hef misst... Nei, nei. Ekki dag í viðbót. — Þú sagðir við annað tækifæri að áður en þú varðst fertug hefði þig alltaf langað til þess að vera karlmaður. Er það liðin tíð? Já, það er liðin tíð vegna þess að mér hefur tekist að gera allt það sem karlmenn geta gert, auk annars sem aðeins er á færi kvenna, eins og að eignast börn. En ég fer ekki ofan af þeirri skoðun minni að líf karl- mannsins er miklu auðveldara en líf konunn- ar. Alls staðar í heiminum. Þó það sé sagt að sá hópur sem verði fyrir hvað mestu að- kasti í Bandaríkjunum í dag sé hvíti karlmað- urinn. Femínistar ráðast á hann, svertingjar ráðast á hann, allir ráðast á hvíta karlmann- inn. — Einhvern veginn hef ég það á tilfinning- unni að þú sért kona sem dreymir mikið. Er það rétt? Já. Mig dreymir mikið. Og draumarnir mínir eru forspáir. Þeir eru mjög nákvæmir. Til dæmis hefur mig dreymt fyrir um kyn- ferði barnanna minna og bamabama. Og ég sé þau fyrir mér eins og þau eiga eftir að verða á ólíkum skeiðum ævinnar. — Þú hefur sannreynt það á börnunum þínum? Já, það hef ég svo sannarlega. Ég punkta meira að segja draumana hjá mér til þess að sjá samhengið í þeim og til að geta ráðið í þá. Draumarnir mínir endurtaka sig í sí- fellu. Þeir hjálpa mér oft við að leysa ýmis vandamál þegar ég er að skrifa. — Þetta er afar forvitnilegt. Svona draum- ar hljóta að vera mjög gagnlegir. Já. Þegar ég sest fyrir framan tölvuna morguninn eftir get ég leiðrétt það sem ég hafði skrifað daginn áður. Ég geri mér grein fyrir villunni og leiðrétti hana um leið. — Hvað ertu að skrifa núna? Ég ætla ekki að ræða það. — Hvers vegna ekki? Boðar það ógæfu eða viltu koma á óvart? Bæði og. — Skrifarðu á hveijum degi? Já. Og ég lifi eins og hver dagur sé sá síðasti. Ég er ekki með nein framtíðarplön. — Veitir þessi lífsmáti þér innri frið? Já, fullkominn. Sá sem ekki er með nein framtíðarplön hræðist ekki framtíðina. Ég einskorða hugsun mína við daginn í dag og reyni að gera það besta úr honum. Mér finnst eins og ég sé búin að standa_ skil á öllu. Á morgun gæti ég dáið róleg. Ég myndi ekki skilja neinn eftir í örvæntingu. Og það er mjög gott að vera á þeim aldri sem ég er núna. Hvort maður er karlmaður eða kven- maður skiptir ekki eins miklu máli, tíðirnar, getnaðarvarnirnar, elskhugarnir, ástríðurnar, allt þetta skiptir mig ekki nokkru einasta máli lengur. Engu. Það er liðin tíð. Það eina sem ég finn er eitthvert eftirbragð, ef það er þá nokkuð. — Þú talar eins og dæmigerður öldungur. Ertu að segja að þú sért búin að snúa baki við kynlífi og öðru slíku sem áhugavert er? Ég er á nýju skeiði í lífi mínu. Nú er ég orðin amma, gæslukona, seiðkerling. Ég er hér til að vaka yfir börnunum svo lengi sem kraftar mínir endast, vaka yfir fjölskyldunni, jörðinni. Ég er ekki lengur kynvera sem geng- ur kaupum og sölum. Ég er ekki að reyna að draga neinn á tálar. — Ekki einu sinni William Gordon? Nei, nei. Ekki einu sinni hann. Við erum mjög ástfangin en ég hef enga þörf fyrir að draga hann á tálar. Nú er það ekki lengur spurning um að tæla hann heldur að deila með honum lífinu.

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.