Morgunblaðið - 08.12.1994, Side 51
MORGUNBLAÐIÐ
FIMMTUDAGUR 8. DESEMBER 1994 51
MINIVIINGAR
Þegar minnast á góðs vinar sem
skyndilega hefur fallið frá,-er erfitt
að gefa skýra mynd af þeim minn-
ingum sem koma upp í hugann.
Slíkar minningar, ljúfar og sárar,
sækja á mann í bylgjum og fylgir
þeim sársauki sem gerir manni erf-
itt um vik. Svo stuttu eftir hinn
sorglega missi er erfitt að henda
reiður á þau atriði sem skiptu hvað
mestu máli.
Gummi var einn úr okkar vina-
hópi, hann var ómissandi hlekkur í
keðju sem engan grunaði að gæti
slitnað svona snemma. Einnig var
Gummi traustur vinur hvers og eins
okkar og eigum við því öll sem ein-
staklingar; persónulegar minningar
um hann. I þessum fátæklegu línum
getum við einungis minnst á nokkur
þeirra atriða og atburða sem koma
upp í hugann og tengjast minningu
Gumma, hvernig hann kom okkur
fyrir sjónir og hvað okkur þótti
vænst um í fari hans.
Saga vinskapar okkar og Gumma
hófst í Menntaskóianum við Hamra-
hlíð. Við félagarnir vorum að mörgu
leyti mjög ólíkir en eitthvað var þó
í fari hvers og eins sem dró okkur
saman. Við eyddum miklum tíma
saman og á skömmum tíma mynd-
uðust náin og sterk vinatengsl.
Strax á menntaskólaárunum tókum
við félagarnir upp á því að halda
matarboð í hvert skipti sem einhver
í hópnum átti afmæli. í þessum
veislum áttum við okkar bestu
stundir, þar sem við rifjuðum upp
liðna atburði og treystum vináttu-
tengslin. Fyrst um sinn vorum við
bara fjórir, en svo bættust kærustur
og síðar eiginkonur og börn í þenn-
an hóp.
Sumarið 1988 fórum við félag-
arnir í lestarferð um Evrópu. Sú
ferð var ævintýraleg og voru ýmsir
atburðir úr henni gjarnan rifjaðir
upp þegar við hittumst. Eitt minnis-
stætt atvik gerðist t.d. í lest á leið
út úr Ungverjalandi. Á þessum tíma
þurfti sérstaka áritun til að komast
inn og út úr landinu og vorum við
því krafðir um slíka pappíra við
landamæri Ungveijalands og Júgó-
slavíu. Allir gátum við framvísað
slíku plaggi nema Gummi sem dró
upp úr vösum sínum og farteski
ýmsa krumpaða pappírssnepla sem
ekki reyndust vera þeir réttu. Okk-
ur fór ekki að standa á sama þegar
tveir vígalegir hermenn birtust og
hugðust handtaka Gumma og flytja
hann nauðugan aftur til Búdapest.
Þegar hér var komið sögu hafði
Gummi fínkembt farangur sinn,
flíkur höfðu flogið um allt og við
félagarnir vorum allir orðnir heldur
skelkaðir. Á síðustu stundu glotti
Gummi hins vegar og dró upp úr
bakpoka sínum óásjálegan og krull-
aðan blaðsnepil sem reyndist vera
plaggið eftirsótta. Gummi reyndi
strax að sannfæra okkur um að
þetta hefði allt saman verið í gríni
gert og að skjalið hefði aldrei verið
týnt.
Þessi saga Iýsir Gumma vel. Fyr-
ir honum voru efnislegir hlutir ekki
það sem skipti höfuðmáli, „þetta
er bara pappír,“ sagði hann. Þess
í stað lagði hann þeim mun meiri
áherslu á ræktun hugans og vin-
áttubanda. Gummi var fljótur að
sjá skoplegar hliðar á málum og
tókst honum þannig á sekúndubroti
að draga úr þeirri spennu sem hafði
myndast í lestarklefanum þegar
átti að skilja okkur vinina að sökum
einhverrar skriffinnsku.
Gummi var góður vinur. Hann
var traustur og heiðarlegur, góður
hlustandi, tryggur og alltaf reiðu-
búinn til að hjálpa öðrum og gefa
ráð. Maður gat treyst því að ráð-
leggingar hans væru vel ígrundaðar
og ekki tóm orð. Þessir eiginleikar
gerðu Gumma vinsælan og vin-
margan.
Gummi átti frumkvæðið að síð-
asta fundi okkar ijórmenninganna.
Þetta var síðsumars á þessu ári,
stuttu áður en tveir úr hópnum
hugðust halda utan til náms. Við
leigðum okkur bát á Elliðaárvatni
og fórum í veiðiferð. Þarna úti á
kyrru vatninu á sólríkum degi voru
fiskarnir nánast aukaatriði, okkur
leið vel í návist hvers annars og við
töluðum um lífið, tilveruna og fram-
tíðina. Það var helst Gummi sem
sýndi veiðunum áhuga, en eins og
hann sagði við okkur, þá blundaði
alltaf í honum löngun að „fá þann
stóra“. Ekki varð það úr að þessu
sinni, en þó veiddi Gummi mest
þennan dag. Seinna lagði hann
grunninn að áætlun sem átti að
gefa honum kost á að komast í
návígi við „þann stóra“. Hann hafði
komist að þeirri skynsamlegu niður-
stöðu að einfaldast væri að prófa
sjóstangaveiði til að fá þessa ósk
uppfyllta, það skipti hann ekki
máli hvort sá stóri yrði þorskur.
Þetta var líkt Gumma. Hann setti
sér alltaf raunhæf markmið og gekk
í það af skynsamlegri rökvísi að
leitas.t við að ná þeim, oftast af
miklum ákafa og eldmóði.
Gummi var afar rökviss, hlustaði
alltaf vandlega á rök annarra og
sagði fátt sem ekki hafði áður ver-
ið vegið og metið. Hann var af-
burða vel greindur og var skólafer-
ill hans ein sigurganga frá upphafi
til enda. Gummi einskorðaði þekk-
ingarleit sína hins vegar ekki við
þær greinar sem hann tókst form-
lega á við í háskólanum (heimspeki
og læknisfræði), heldur leitaði sér
fróðleiks víðar. Þannig sótti hann
námskeið um hagfræði og eitt sum-
arið sat hann marga tíma á dag á
lesstofu háskólans og réðst skipu-
lega á tvo doðranta um mannkyns-
sögu og mannfræði. Gummi var
mikill keppnismaður og gerði mikl-
ar kröfur til sjálfs sín. Þessi eigin-
leiki birtist í flestu því sem hann
tók sér fyrir hendur, hvort sem það
var í rökræðum, íþróttum, spila-
mennsku eða námi.
Við þökkum fyrir þann tíma sem
við áttum með Gumma og okkur
er það nú ljóst hversu mikilvæg
sérhver mínúta með honum var.
Árin með Gumma hafa skilið eftir
aragrúa minninga og þótt hann sé
farinn sitja þær eftir. í dag eru
þessar minningar sársaukafullar,
en tíminn læknar öll sár, og eftir
munu standa ljúfar minningar um
einstakan vin sem var okkur svo
mikils virði. Við vottum Ólöfu Sig-
ríði, foreldrum Gumma, systkinum,
afa og ömmum, okkar dýpstu sam-
úð.
Agnar og Anna Rún,
Hjörtur og Anna Kristín,
Óðinn og Helga.
Fyrsti sunnudagur í aðventu
rennur upp. Menn safnast saman
til að minnast þess að koma jólanna
nálgast. Fæðingarhátíð frelsarans
rennur senn upp. Hátíð ljóss og
friðar.
Ég keyrði austur til Þingvalla 27.
nóvember sl. til að taka þátt í að-
ventustund á helgasta reit íslensku
þjóðarinnar, þar sem kóngurinn
svaf á kirkjuloftinu endur fyrir
löngu. Þar sem íslendingar urðu
þjóð og þar sem við ákvaðum að
verða kristin. Ég var minnt á það
í Þingvallakirkju að aðventan er
tími vonar. Við kveikjum á aðventu-
ljósunum þegar skammdegið ræður
ríkjum. Þetta gerum við til þess að
gleyma ekki að innan skamms fer
að birta á ný. Fyrsta sunnudag í
aðventu voru Þingvellir hvítir af
nýföllnum jólasnjó. Fegurð um-
hverfisins snart mig djúpt. Að
kvöldi þessa sunnudags barst mér
sú harmafregn að Guðmundur
Tómas Árnason skólabróðir minn
væri látinn.
Þeir eru margir er þekkja sumar-
nótt á Þingvöllum. Fegurð himins
og náttúru heillar menn til sín.
Þinghelgin afgirt af fögrum fjalla-
hring. Hvít Skjaldbreiður í norður.
Blámi fagra vatnsins fiskisæla er
ómótstæðilegur í suðri. Botnsúlurn-
ar gnæfa yfir í vestri og Arnarfell
seiðir menn til sín þegar gengið er
með vatninu austur í Ólafsdrátt.
Það er ekki að undra þótt Guðmund-
ur Tómas hafi rifið sig á fætur fyr-
ir allar aldir eða sleppt því að ganga
til náða til þess eins að bruna aust-
ur á Þingvöll og fylgjast með sól-
inni koma upp sólríkan sumardag
og freista þess í leiðinni að veiða
sér fisk í soðið. Stundum mætti ég
honum eldsnemma þegar ég bjó í
Gjábakka og var á leið til vinnu.
Gummi brunandi hjá Vellankötlu á
rauðum fólskbíl.
Guðmundur Tómas var ekki ein-
lyndur maður. Hann bar mikið
skynbragð á umhverfi sitt. Hann
var kappsamur bæði í námi og starfi
og lagði sig eftir því að leysa allt
það sem hann tókst á hendur vel
af hendi. Hann sinnti námi sínu af
samviskusemi og áhuga. Enda var
námsárangur hans framúrskarandi.
Við áttum líflegt samfélag í heim-
spekinni. Þar bar mikið á fríðum
hópi pilta, hver öðrum mælskari og
gleggri. Þeir rökræddu fram og til
baka um heimspekilegar spurningar
er vörðuðu námið, hvort sem það
var dygð Aristótelesar ellegar rétt-
læti Platóns. Málefni líðandi stund-
ar var tíðrætt umfjöllunarefni. Þar
bar mikið á glósum út og suður um
hversu óheimspekilega menn tækju
jafnan á málum er upp kæmu í
þjóðfélaginu. Guðmundur Tómas
hafði jafnan skoðanir á hveiju því
sem um var rætt. Þær skoðanir
viðraði hann af miklu kappi, stund-
um af heilagri hugsjón. Þær hug-
myndir sem Gummi gerði sér um
lífið og tilveruna voru eftirtektar-
verðar, einkum í ljósi þess hversu
ungur maður bar þær í bijósti.
Þessu strákasamfélagi tilheyrði
ég ekki framan af sem vonlegt var
en tókst að smygla mér þar inn
með því að baka svo mikið af pönnu-
kökum í einu skólaferðalagi í
Brekkuskóg að allir strákarnir
stóðu á blístri. Eftir ferðalagið í
Brekkuskóg var ég innvígð í samfé-
lag sem laut nokkuð öðrum lögmál-
um en þær klíkur er ég hafði til-
heyrt áður. Oft rifumst við um stúd-
entapólitík þangað til ég froðufelldi
af bræði, en piltarnir hrósuðu sigri.
Þá klappaði Gummi mér hughreyst-
andi á bakið þegar hann sá að ég
var í þann mund að ijúka á dyr.
Frægt var hversu erfitt ég átti með
að sætta mig við skilningsleysi
þessara „fordekruðu Reykjavíkur-
pilta“ á þörfum landsbyggðarinnar
ellegar ef mér þótti á átthaga mína
hallað. Þá var það Guðmundur
Tómas sem fékk menn til að draga
í land, leggja vopnin til hliðar og
koma vitinu fyrir mig. Guðmundur
hafði næmt auga fyrir umhverfi
sínu og hann lagði sig eftir því að
grennslast fyrir um líðan og tilfinn-
ingar samstúdenta sinna. Á stund-
um þótti Gumma ég eyða of miklu
púðri í stúdentapólitík á kostnað
heimspekinámsins. Hann var ólatur
við að telja mig á að snúa mér -af
meiri krafti að náminu, því hann
taldi það heillavænlegast fyrir mig.
Við Guðmundur Tómas vorum
oft samferða í okkar námi. Bæði
lásum við oft í Aðalbyggingu Há-
skólans. Við hittumst jafnan fyrir
framan hátíðasalinn og spjölluðum
saman. Stundum kom fyrir að hann
bauð mér eitthvert góðgæti úr nest-
isboxinu sínu og sagði mér hróðug-
ur að þetta hefði amma sín bakað.
Eftir að Gummi útskrifaðist úr
heimspekinni og hafði snúið sér að
læknisfræðinni hélt hann upptekn-
um hætti og vandi komur sínar í
Aðalbygginguna í þeim erinda-
gjörðum að sinna náminu á lestrar-
salnum þar. Ég sat um að draga
hann með mér í kaffi á Kapelluloft-
ið, kaffistofu guðfræðinema, en þá
hafði ég snúið mér að námi í guð-
fræðideild. Á þessum fundum okkar
ræddum við um allt milli himins og
jarðar. Stundum bar ég undir Guð-
mund eitthvað sem ég var að fást
við í guðfræðinni. Sömuleiðis var
ég heilluð af þeim töfraheimi sem
kirkjutónlist er. Þessari reynslu
minni af áhrifamætti tónlistarinnar
gat ég deilt með Guðmundi Tóm-
asi. Tónlist var Guðmundi afar hug-
leikin og honum tókst að kveikja
áhuga minn á mörgum verkum sí-
gildrar tónlistar sem ég hafði ekki
kynnst fyrr og hefði sjálfsagt seint
komist í kynni við ef hans ábend-
inga hefði ekki notið við. Nú á að-
ventu þegar hátíð ljóss og friðar
nálgast og við mannanna börn und-
irbúum komu hátíðarinnar með
helgihaldi, tónlist og söng sakna
ég þess sárt að Guðmundur Tómas
skuli ekki taka þátt í undirbúningi
jólahátíðarinnar með okkur framar,
Fráfall hans er mér áminning um
það að við eigum ekki að slá því á
frest að rækta vináttubönd, svo þau
trosni ekki. Við eigum í ríkari
mæli að gefa hvert öðru gaum.
Tala við hvert annað um líðan okk-
ar og tilfinningar af meira hrein-
skipti en tíðkast hér á landi. Ef
hreinskilni og trausti er ekki til að
dreifa verður boðskapur jólabarns-
ins um kærleika og elsku manna í
milli orðin tóm. Ég bið algóðan Guð
að hugga og styðja ástvini Guð-
mundar Tómasar í þeirra miklu
sorg.
Elínborg Sturludóttir.
Ég kynntist Guðmundi Tómasi
þegar ég fékk sumarvinnu í vínbúð-
inni á Lindargötu vorið 1989. Þetta
reyndist eftirminnilegt og skemmti-
legt sumar vegna þess að um óvenju
auðugan garð var að gresja méðal
starfsmanna. Tveir þeirra byijuðu
nám í heimspeki veturinn eftir,
Guðmundur Tómas og Guðbrandur
Örn, og héldum við hópinn upp frá
því ásamt Auðuni Arnórssyni. Fé-
lagsskapinn nefndum við Gretti og
hafði hann það að markmiði að lyfta
sjálfum okkur upp á æðri tilveru-
stig með því að hlusta á tónlist,
njóta góðs matar og drykkjar og
ræða saman um hvaðeina sem á
baugi var. Þarna voru alls kyns
mál rökrædd og ég held að yfirleitt
höfum við Guðmundur verið sam-
mála en þó ekki alltaf. Þegar það
gerðist að við vorum ósammála um
eitthvert mikilvægt mál gátu rök-
ræður um það teygst yfir marga
daga því Guðmundur stóð fast á
sínu og það var ijarri honum að
gleypa við einhverri vitleysu fyrir
kurteisis sakir. Runnum við þá sam-
an með eldglæringum hvar sem við
hittumst, á göngum háskólans, úti
á götu eða styrktum Póst og síma
því ávallt komu fram nýir fletir á
málinu og sífellt skýrðist hvað það
var sem á milli bar og hvað hvor
um sig taldi skipta máli til að útkljá
málið. Síðan þegar ekki var hægt
að komast lengra var rökræðunni
hætt. En það er ekki þar með sagt
að hætt sé að hugsa um málið og
ég held að það sé einmitt í þeirri
þögn sem menn fara að skilja hver
annan og færast nær hver öðrum
og svona á sönn menntun sér stað.
Hér er lýst kappsemi Guðmundar
sem allir nutu góðs af sem voru í
kringum hann, því húri gekk út á
það að þroskast, verða betri mann-
eskja og sjá aðra gera það sama.
Hún kom fram í öllu sem hann tók
sér fyrir hendur og gerði hann lík-
legan til afreka á sviði læknisfræð-
innar sem hann tók til við eftir að
hann lauk heimspekinni, eða hveiju
því sviði sem hann hefði kosið sem
sinn starfsvettvang. Ég fékk einnig
að kynnast því svo ekki varð um
villst hversu góður vinur Guðmund-
ur var þegar á reyndi. Þegar mann
vantaði hjálp við eitthvað var hann
boðinn og búinn og ef eitthvað bját-
aði á var hann örlátur á hlýju og
einlægni.
Það er ekki hægt að svara hvers
vegna það gerðist sem gerðist. Það
er bara hægt að syrgja og sakna
og minnast. Ég votta unnustu Guð-
mundar, foreldrum hans, systkin-
um, afa og ömmu í Kópavoginum
og öðrum vinum og vandamönnum
innilegustu samúð.
Jón Erlingur Jónsson.
+
Elskulegur eiginmaður minn, faðir okkar, tengdafaðir, afi og lang-
afi,
SIGFÚS TRYGGVI KRISTJÁNSSON
brúarsmiður,
Hjallaseli 55,
lést í Borgarspítalanum 28. nóvember sl.
Útförin hefur farið fram.
Elfn Guðbjartsdóttir,
Sigfús Örn Sigfússon, Margrét Jensdóttir,
Sigríður Sigfúsdóttir Kjaran, Björn Kjaran,
Helga Sigfúsdóttir, Hjalti Stefánsson,
Guðbjartur Sigfússon, Ragnheiður M. Ásgrímsdóttir,
barnabörn og barnabarnabörn.
Innilegar þakkir til allra þeirra, er sýndu okkur samúð og hlýhug
við andlát og útför eiginmanns míns,
BALDURS EIRÍKSSONAR
frá Dvergsstööum.
Sérstakar þakkir færum við starfsfólkinu á Seli fyrir góða umönnun.
Fyrir hönd aðstandenda,
Laufey Stefánsdóttir.
+
Hjartkær móðir okkar, tengdamóðir, amma, langamma og langa-
langamma,
GUÐRÚN JÓNÍNA ÞORFINNSDÓTTIR
frá Hnjúkum
v/Blönduós,
sem andaðist á Hrafnistu í Reykjavík 1. desember, verður jarð-
sungin frá Fossvogskirkju föstudaginn 9. desember kl. 15.00.
Jón K. Björnsson, Guðrún V. Gísladóttir,
Geir A. Björnsson, Arnheiður L. Guðmundsdóttir,
Garðar Björnsson, Elín Björnsdóttir,
Helga Svana Björnsdóttir, Vagn Kristjánsson,
Ari B. Björnsson, Hildigard Björnsson,
Ingólfur G. Björnsson, tngibjörg Jónsdóttir,
Hjördís H. Björnsdóttir,
barnabörn og barnabarnabörn.
Lokað
Skrifstofa læknadeildar Háskóla íslands verður
lokuð eftir hádegi í dag vegna jarðarfarar
GUÐMUNDAR TÓMASAR ÁRNASONAR.
Læknadeild Háskóla íslands.