Morgunblaðið - 22.01.1995, Blaðsíða 11

Morgunblaðið - 22.01.1995, Blaðsíða 11
MORGUNBLAÐIÐ SUNNUDAGUR 22. JANÚAR 1995 B 11 varð ekki langlífis auðið í árum talið, því hann lést 1969. Hann var boðberi lífsgleði af þeim toga sem bækur hans lofuðu og lýstu; frelsi ásamt hóflegri fátækt. Kerouac var kvaddur í bandaríska sjóherinn í seinni heimsstyijöld en leystur und- an skyldum sínum eftir að hafa greinst með einkenni geðklofa, og sendur til starfa í kaupskipaflotan- um sem var ekki eins kröfuharður. Þá tók við flandur um Bandaríkin og Mexíkó og blönduðust lífsnautn- ir þeirri vinnu sem til féll, hann vann meðal annars sem skógarvörð- ur og fyrir járnbrautarfélag. Árið 1950 var fyrsta ritsmíð hans gefin út, „The Town and the City,“ sem er fremur hefðbundin að allri gerð, og ekki sérlega minnistæð. Kerouac hafði ekki slegið þann tón sem átti síðar eftir að hljóma í höfundar- verki hans, tón sem sýndi að hann var ósáttur við hefðbundna mynd skáldskapar þess tíma. Kerouac fetaði sig hins vegar út á braut sjálfsprottins, óstöðvandi, ótálgaðs ritháttar þegar fram liðu stundir. „On the Road“ kom út árið 1957, eftir nær níu ára meðgöngutíma, og var fyrsta afsprengi tilrauna Kerouacs í þessa veru, og hefur ein sér haldið nafni hans á lofti. Á vegum úti Skruddan er sjálfsævisöguleg og skrifuð upphaflega nær sleitulaust á þremur vikum; hann er sagður hafa spyrt saman auðar síður í lang- an renning, þrætt í ritvélina, sest síðan niður og hamraði í belg og biðu. Kerouac veifaði miklum doðr- anti framan í útgefanda sinn og viðhafði gífuryrði um að engu yrði hnikað til eða breytt; raunin varð sú að Kerouac eyddi næstu árum í að fága þessa vegferð sína fyrir útgáfu, auk annarra skrifa. Á tíma umritunar verksins þróaði hann með sér þá aðferð sem einkenndi stílbrögð hans síðar, þ.e. að „skissa" í anda jazzspuna. Bókin greinir frá ferðum auralausra ungmenna út um hvippinn og hvappinn, borin áfram af ást á tilverunni og náung- anum, fegurð, jazztónlist, eiturlyfj- um, hraðanum og óskilgreindri dul- hyggju. Vekjaraklukkur, tímaáætl- anir, vegakort, veðskuldir, lífeyrir og bandarísk framleiðslustefna er eitur í beinum þessara persóna, sem margar hveijar áttu sér fulla stoð í veruleikanum. Söguhetjan, Dean Moriarty, fæddist á ferðalagi og leitar án afláts — og án árangurs — hins eina sanna áfangastaðar í tilverunni, sem fyrirfínnst vitaskuld hvergi. Eins og ferðalögin er text- inn rótlaus og ógnarhraður, nánast „maniskur" á stundum, og eins og ferðalangamir virðir hann boð og bönn samfélagsins að vettugi. Bókin átti í fyrstu lítt upp á pall- borðið hjá þorra heflaðri höfunda, er töldu hana fánýta og bítskáldin innantómar sápukúlur. Þessi af- staða var þó ekki algild. Rithöfund- urinn og sérvitringurinn Kenneth Rexroth átti t.d. vini í bókmennta- kreðsum á vesturströnd hins víð- feðma ríkis og lánaði Ginsberg, Gary Snyder og fleiri bítskáldum ýmsar hækjur á leið þeirra til frama. Carl Sandberg, ævisöguritari Linc- olns forseta og víðkunnur af þjóð- legum hugðarefnum sínum, kom í viðtal á CBS-sjónvarpsstöðinni árið 1959, þá 81 árs gamall, og fór hlý- legum orðum um bítnikka. Þegar hann var yngri, sprækari og óþekkt- ur með öllu, hafði Sandberg kynnst flakkinu af eigin raun og virtist fínna til skyldleika með yngri bó- hemum. Bók Kerouac seldist hins vegar afar vel þrátt fýrir misjafna gagnrýni. Að öðrum þáttum ólöstuðum, ber hún að stærstum hlut ábyrgð á því að athygli almennings beindist að neðanjarðarmenningu sem var enn formlaus og í stöðugri útþenslu: Hreyfing sem skipuð var sérvitring- um, skáldum, dulhyggjumönnum, erkibóhemum og öðrum af sama sauðahúsi. Margir þeirra skutu upp kollinum í „On the Road“ og síðari bókum Kerouac sem urðu alls ellefu talsins (þar af ein ljóðabók). Gins- berg kallast Carlo Marx í bókinni, Burroughs heitir Bull Lee og er lýsingin á honum all svakaleg, Kerouac er sjálfur meginuppistaðan í sögumanninum, Sal Paradise, og höfuðpersónan, Dean Moriarty er Neal Cassady, vinur skáldsins, drykkjubróðir og áhrifavaldur um margt á stílbrögð og þankagang. Eftir andlát Kerouac kom út bókin „Visions of Cody“ (1972) sem upp- haflega var hluti af „On the Road“. Vasabrotsskáldin Lawrence Farlinghetti gegndi herþjónustu í seinni heimsstyijöld og náði nokkrum metorðum þar. Hann varð vitni að hörmungum þeim sem sameinað bandarískt og þýskt hugvit olli í Nagasaki, en hélt að loknu stríði til Parísar með stríðshýruna og hóf nám í Svarta- skóla. Þegar hann steig fæti á ætt- jörð sína að nýju, var smekkur hans að flestu leyti smitaður evrópskum áhrifum. Bandaríkin eiga sér ekki aðra París en krummaskuðið í Tex- as, en þau áttu North Beach, ít- alska hverfið í San Francisco, sem var tvímælalaust evrópskasta hverfið í evrópskustu borg landsins á þeim árum. Þar vantaði hins veg- ar sárlega bókabúð sem byði upp á bókmenntir. Árið 1953 tók Farl- inghetti höndum saman við Peter nokkurn Martin til að bæta úr þvi. Martin þessi hafði um skeið ritstýrt listatímaritinu „City Lights“, er hét eftir samnefndri mynd Chaplins. Þeir ákváðu að bókabúðin skyldi bera sama nafn og fylltu hana af kiljum um dulhyggju, kvikmyndir, stjórnmál og listir. Martin sleit sam- starfinu árið 1955 og Farlinghetti var einn á báti. Hann breikkaði JACK Kerouac hallar sér að barnum Kettle of Fish í Greenwich Village, en honum við hlið er Joyce Johnson. starfsvið búðarinnar nokkru síðar með útgáfu fyrstu bókar sinnar, „Pictures of the Gone World", í áþekku smábroti' og margir hafa handfjatlað í Frakklandi. Fleiri skáld voru gefin út í sömu ritröð, er nefndist „Pocket Poets“ eða vasabrotsskáldin, þar á meðal eldri höfundar eins og Kenneth Rexroth og Kenneth Patchen. Ljóðabók Ginsbergs „Howl and Other Poems“ var gefín út í þessum flokki og gerði bæði „City Light“- búðina og hverfið sem hýsir hana enn, fræg að endemum. Tryllings- legir spádómar „Howl“ komu við kaunin á þjóðarsál íhaldssamra Bandaríkjamanna á róttækari hátt en dæmi eru um. Afleiðingin varð réttarhald vegna meintra brota á velsæmi. Áhugi almennings og fjöl- miðla vaknaði skjótt og ýmsir máls- metandi lærimeistarar og skáld slógu skjaldborg um kveðskap Gins- bergs. Tollgæslan bandaríska og lögreglan í San Francisco gerðu „City Lights“ ýmsar glettur, mis- fagrar, auk þess óafvitandi að varpa kastljósi á þessa miðstöð bítnikka. Búðin og útgáfan blómstraði sem aldrei fyrr og hélt hlut sínum óskertum fram á 7. áratuginn, þeg- ar t.d. Bob Dylan tróð þar uppi árið 1965 með Ginsberg og Michael McClure. Dylan naut ómældrar hylli og var sigrihrósandi, ekki síst vegna þess að nokkrum árum áður hafði Farlinghetti neitað að gefa út ljóða- handrit sem piltur að nafni Robert Zimmermann átti í fórum sínum. Sendiherra og spámaður Allen Ginsberg var fjórum árum yngri en Jack skáldbróðir sinn, og ólst að miklu leyti upp undir hand- aijaðri föður síns, sem orti sjálfur ásamt því að kenna ensku í bænum Paterson í New Jersey. Móðir hans var um langa hríð vistuð á geð- sjúkrahúsi og átti Ginsberg síðar eftir að yrkja henni eftirmæli í löngu ljóði sem nefnist „Kaddish" og kom á prent 1961, fimm árum eftir að epíska ljóðið „Howl“ birtist sjónum almennings. Eins og í „Kaddish" má finna áhrif frá gamla testamentinu í „Howl“. Hið áleitna og hæðnisfulla ljóð „America" er eldra en „Howl“ og af nokkuð öðr- um toga, en tókst að snerta vonar- streng í bijóstum allra þeirra sem höfðu af eigin ósk eða annarra hrökklast frá „heimkynnum hinna hugrökku". Ekki má gleyma þriðja áhrifavaldinum á æskuárum Gins- bergs, ljóðskáldinu fræga William LAWRENCE Farlinghetti les upp ljóð með fulltingi jazztón- listar í Jazz Cellar í North Beach-liverfinu. „HIPSTERAR“ voru á með- al áhrifavalda „bítnikka" og má nefna skemmtikraftinn Richard M. „Lord“ Buckley (1907-1960) þar á meðal. Carlos Williams, sem bjó í Paterson og blés ungskáldinu anda í bijóst, m.a. í sambandi við notkun talmáls- hrynjandi. Ginsberg gekk í Colombíu- háskóla þar sem hugmyndir hans um anarkisma og útfærsla þeirra vöktu litla kátínu skólayfirvalda. Þar komst hann í kynni við Kerou- ac og Burroughs, sem studdu heils- hugar þá ákvörðun hans að loka hurðum háskólans á eftir sér árið 1948. Við tóku ferðalög vítt og breitt, ásamt því að hann vann ýmis störf tímabundið, m.a. skúraði hann gólf og gerði markaðsrann- sóknir. Af þeim höfundum bítáranna sem náðu máli, kunni Ginsberg best við sig í hlutverki talsmanns. Hann var sendiherra og sáttasemjari í senn, sem var gjöfull eiginleiki á sama tíma og þjóðfélagið leit á bítnikka sem verðandi fimmtu herdeild kom- múniskra afla. Kerouac kunni illa við sjónvarpsmyndavélar, en þegar hann lét undan þrýstingi birtist kurteis og hæglátur maður sjónum almennings, sem átti von á æsing- arsegg með krepptan hnefa. Gins- berg var líka það bítskáld sem hafði ákveðnustu skoðanir á pólitík, enda alinn upp á meðal heittrúaðra vinst- rimanna. Hann kunni að hagnýta sér trú margra á forspárgáfu skáldsins og ná eyrum fjöldans, en boðskapurinn var full berorður til að hann gæti fetað algerlega í fót- spor spámannsins. Af hveiju full- trúar vinstrifóbíunnar tóku hann ekki á beinið er óljóst, en líklegast var hann svo heppinn að hefja upp raust sína um svipað leyti og Mac- Carthy-isminn skreið í skel sína. Kannski hafði pólitíska hreintungu- stefnan bara í önnur horn að líta. í dag gengur Ginsberg hljóðum skrefum. Hann kemur þó öðru hveiju fram á sjónarsviðið, var t.d. einn 160 höfunda sem hvöttu til að dauðadómi klerkastjórnarinnar í íran yfir Salman Rushdie yrði af- létt árið 1990. Hann gaf út plötu með lestri og tónlist, „The Lion for Real“ árið 1989 og fýrir skemmstu kom út álíka „kassi“ og áður er getið með upplestri hans og tónlist. Sveppir og „vitundarlíf" Rithöfundurinn Aldous Huxley tók meskalín 1953, 12 árum áður en Bítlarnir innbyrtu LSD. Hann át „psilocybin", sem er unnið úr mexíkóskum ofskynjunarsveppi, í félagi við Timothy Leary, prófessor ATRIÐI úr kvikmyndinni „The Beat Generation" frá árinu 1959. Bófahasar var aðalatriðið en hún mjólkaði samtímis bítnikkatiskuna. í sálfræði við Harvard-háskóla, þar til sá síðarnefndi var rekinn fyrir að heimila nýnemum notkun lyfja í tilraunaskyni. Huxleys kallaði Leary „aula“, en þeir deildu um aðferðafræði vegna skynvillulyfja. Leary sá fyrir sér víðtæk not af þeim, t.d. í kynferðislegum til- gangi. Huxley taldi að eingöngu útvalinn hópur gáfumanna á sviði lista, sálfræði, heimspeki o.s.frv. ættu að fá aðgang að þessum for- boðnu ávöxtum, fyrst og fremst sem „aðstoð við íhugun“. Leary kom Ginsberg á sýrubragðið árið 1961 og þurfti ekki að beita miklum fortölum, því skáldið sannfærðist um að í eiturlyfjum fælust mögu- leikar á pólítískum breytingum. Fjórum árum síðar hittu Bítlarn- ir Ginsberg fyrir milligöngu Bob Dylans, sem varð fyrir áhrifum af skrifum hans. Ginsberg kallaði fjór- menningana frá Liverpool „fyrir- mynd tímabilsins". Þetta var á af- mælisdegi skáldsins sem var kvik- nakið að frátöldum nærbuxum sem það bar á höfðinu og skilti sem á stóð „ónáðið ekki“ og var bundið við lim þess. John Lennon átti síðar eftir að tileinka sér ýmsar aðferðir Ginsbergs við sjálfstjáningu í mót- mælaskyni, auk þess að „droppa sýru“ en við þetta tækifæri hopaði hann á hæli og stundi: „Svona ger- ir maður ekki fyrir framan píurnar!" Ársþing demókrata í Chicago 1968 var þjakað af hatrömmum átökum á þingstað og utan, er leiddu í ljós tvískinnung innan flokksins. Ginsberg birtist í stúku þegar hæst stóð: „Sköllóttur með þykk gleraugu og skeggflóka, stóð hann með útrétta handleggi eins og til að blessa þingfulltrúa, bari- tónröddin sendi langdregið humm frá sér til að ákalla rödd guðs og friðar." Vegakort og vegavísar „On the Road“ eftir Kerouac varð eins konar vegakort heillar kynslóðar bandarískra ungmenna sem lagði land undir fót. Hipparnir voru arftakar bítnikka á margan hátt og ekki fjarstæðukennt að kalla þá höfundarverk þeirra (eða framreiknaða bítnikka). Hipparnir litu sjaldnast á bít-skáldin sem sín eigin; árin á milli voru heldur of mörg. Kerouac féll undir þetta, þrátt fyrir að hipparnir hafi sýnt honum margháttaðan virðingarvott og var „On the Road“ á stundum kölluð „hippabiblían". Ginsberg var hins vegar innvígður og tekinn í hálfguðatölu. Hann var spönn á undan blómabörnunum í leit að vímu og algleymi í trúarbrögðum, dulhyggju Vesturlanda, reglukerfí Austurlanda og öðru því sem kvísl- ast hefur út í Nýaldarkuklið á sein- asta áratug. Ginsberg klæjaði aug- ljóslega ekki heldur undan messías- arlegum svipnum, sem ágerðist með árunum. í ljóðum hans mátti líka fínna dómsdagsspá sem hægt var að herma upp á stríðið í Víetnam og glímu stórveldanna er hlaut að enda með kjarnorkuhælkrók. Blómabörnin leituðu Paradísar og þóttust greina einlæga, ósnortna taug í samfélagi svartra. Kerouac vísaði eitt sinn til þeirra sem hinna „hamingjusömu, hjartahreinu, frá sér numdu bandarísku negra“, sem hefði vafalaust getað orðið fleyg gamanmál á meðal svertingja. En hipparnir voru sammála; þessi hvítu miðstéttarbörn „allsnægtanna“ sem höfnuðu sömu ríkjandi gildum og efnahagslegu gæðum þjóðfélagsins og blökkumenn streðuðu til að ná. Blómabörnin voru um margt at- orkusamari en áar sínir bítnikkarn- ir, og langlífari í skammtímaminni heimsins af einhveijum óljósum ástæðum - kannski einfaldlega vegna þess að boðskapurinn var einfaldari og nær okkur i tíma. Hvað drap bítnikka? Bítnikkar lentu snemma í muln- ingsvél dæguriðnaðarins. Fyrsta kvikmyndin sem notfærði sér bít- nikka var gerð 1959. Næstu ár var útlit þeirra, lífsstíll og önnur ein- kenni skotspónn harðsnúinna pen- ingamanna sem framleiddu kvik- myndir, plötur, afþreyingabækur, brandara, teiknimyndasögur og tískufatnað á bandarískum hraða. Þar var þeim gjarnan lýst sem glæpamönnum eða fábjánum, þungt höldnum af sjálfseyðingar- hvöt, stundum hvorutveggja, en oftast voru þeir þó eingöngu lit- skrúðugt veggfóður. Undantekn- ingar voru þó til, og segja má að þarlend „neðanjarðarkvikmynda- gerð“ geti rakið upphaf sitt til bit- kynslóðarinnar. Eftirlæti þeirra sjálfra var eflaust „Pull My Daisy", hálftíma löng mynd sem Robert Frank og Alfred Leslie gerðu árið 1959. Mulningsvélin spýtti bítnikk- unum fyrst út úr sér í kringum 1964 þegar Bítlarnir höfðu kvatt sér hljóðs. Þá voru flestir merkis- berar bítsins komnir í öruggt skjól; grafnir undir skriðunni eða á leið í gröfína af eigin völdum eða ann- arra, á einn eða annan hátt. Bítn- ikkamir bliknuðu við hlið eftirlík- inga sinna eins og aðrir utangarðs- hópar og lífsstílar hafa gert alla tíð. Bersýnilega breyttu þeir engu í heiminum, enda allt þeirra hugar- far „ósamrýmanlegt athöfnum og jafnvel viljanum til athafna“. En þeir skemmtu sér vel og öðrum einnig - og væri ekki tóm frekja að heimta eitthvað stórfenglegra?

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.