Eimreiðin - 01.05.1917, Qupperneq 58
8
heföi sett sig þá í einhýsi um hríð, og hótað sér, að hún skyldi
aldrei þaðan út fara, nema hún héti sér blíðu sinni. En vitjað
hefði hann um sig öðru hverju. í’egar nokkuð leið frá, kvaðst
hún hafa farið að hugsa sig um, hvað hún skyldi nú til bragðs
taka, til að losna úr trölla höndum. Sagðist hún þá hafa gefið
honum kost á að sofa hjá sér, ef hún mætti áður sjá son sinn
ofanjarðar, þrjá daga í beit. Hefði hann lofað sér því, en látiö
þó um sig járnspöng þessa með hlekkjafestinni úr, og hefði hann
bundið öðrum enda hlekkjafestarinnar um sig miðjan, og því
mundu hinir miklu dynkir hafa orðið, er kóngur hjó á festina, að
risinn hefði hlunkað niður allan undirganginn, er svo snögglega
slaknaði á festinni. Pví bústaður risans væri rétt undir borginni,
og því hefði ókyrleikinn orðið svo mikill, er hann hlunkaði niður;
og að öllum líkindum mundi hann hafa rotast, er hann kom niður.
og hefðu þetta víst verið fjörbrot hans, er borgin skalf. En því
kvaðst drotning hafa áskilið sér að sjá son sinn þrjá daga í röð,
að með því móti mundi sér leggjast eitthvað til líknar og lausnar,
eins og nú væri fram komið.
Nú þóttist kóngur sjá, hversu það vissi við, að kona sú, er
hann hafði búið við um stund, hefði verið svo óþýð, og lét hann
þegar draga belg á höfuð henni, og berja hana í hel með grjóti.
Síðan lét hann festa hana aftan í ótemjur, er tættu hana sundur.
Eftir það sögðu sveinar þeir, er fyr var getið, að heyrðu og sáu
til drotningar, frá því, er fyrir þá hafði borið. Pví áður þorðu
þeir það ekki fyrir ríki hennar.
Að þessu búnu sezt drotning í tign sína, og hugnast öllum
vel að henni. En það er af barnfóstrunni að segja, að kóngur
og drotning giftu hana stórhöfðingja einum, og gjörðu hana að
heiman með mikilli rausn.