Dagur - 07.04.1990, Blaðsíða 11

Dagur - 07.04.1990, Blaðsíða 11
10 - DAGUR - Laugardagur 7. apríl 1990 Segja má að röð tilviljana hafi að miklu leyti ráðið lífshlaupi hans. Þá er líka óhætt að fullyrða að hann hefur komið víða við og býr því að meiri reynslu en margur annar, reynslu sem hefur nýst hon- um vel í því starfi sem hann er í nú. Hér er rætt um formann eins stærsta verkalýðsfélags á landinu, Sævar Frímannsson, formann Verkalýðsfélagsins Einingar í Eyjafirði, en hann er einmitt í helg- arviðtali í dag. Eftir að Sævar tók við formennsku í Einingu sat hann í framkvæmdastjórn VMSI árin 1985-1989 og situr nú í sam- bandsstjórn sama sambands. Á þingi ASÍ 1988 var hann kosinn í miðstjórn sambandsins en auk þessa hefur hann átt sæti í fjölda nefnda á vegum VMSI. Ætlunin er að sýna hina hliðina á þessum manni sem staðið hefur í fremstu víglínu kjaradeilna fyrir sitt fólk undanfarin ár og fá hann til að rifja upp eftirminnilega atburði. Sævar er rótgróinn Akureyringur, kom- inn af verkafólki í báðar ættir, en foreldrar hans voru Gunnfríður Jóhannsdóttir sem lengst af vann hjá Útgerðarfélagi Akureyr- inga og hjá Sláturhúsi KEA og Frímann Friðriksson verkamaður sem m.a. starfaði hjá Vatnsveitu Akureyrar og hjá Eimskip. „Ég er fæddur í Strandgötu 9, húsi gamla Kaupfélags Verkamanna, á annari hæð í suðaustur-horninu, þar sem nú er félagsheim- ili Alþýðuflokksmanna," sagði Sævar að- spurður um uppruna sinn. „í þessu húsi bjó ég með fjölskyldu minni í 12 ár, er því alinn upp í fjörunni á jakahlaupi á veturna og sandinum og bátadokkinni og á fótboltavell- inum á sumrin. Úr Strandgötunni tlutti Sævar í Verkamannabústað við Grenivelli á Akureyri árið 1954 eða 1955 og hefur hann búið þar síðan. Sjórinn heillaði snemma Sævar gekk í gamla Barnaskóla Akureyrar en fór þaðan í Gagnfræðaskólann og stund- aði þar nám í þrjá vetur. Sjórinn heillaði Sævar þegar frá unga aldri. Fyrir utan að alast upp í fjörunni, fór drjúgur tími hans í Barnaskóla Akureyrar í að horfa út á Akur- eyrarpoll. „Ég var í stofu sem sneri í austur að Vaðlaheiðinni og þegar smásíldin var upp á sitt besta og mikið veidd á pollinum var ég alltaf annars hugar við að horfa á bát- ana veiða. Minn hugur var mestur við það í námstímunum að leika mér að því að teikna þessa báta, en þrátt fyrir það náði ég nú þokkalegum árangri í náminu. Á þessum tíma vorum við 3 eða 4 skóla- félagarnir sem heilluðumst af sjónum og ákváðum að hætta eftir 3. bekk og freista gæfunnar á sjónum. Við fórum allir á sjó á svipuðum tíma, fyrst og fremst á togarana til að byrja með, þó mig minni að mín fyrsta vertíð hafi verið á síldveiðibát sem hét Mánatindur og var frá Djúpavogi. Ég var 15 ára gamall þegar þetta var, en við fiskuðum heil 496 mál á þessari vertíð sem fékkst í einu kasti." Hér kváðum við og báðuni Sævar að útskýra fyrir þeim sem ekki þekkja, hvaða mælieining „mál" er. Þurfti aldrei að landa „Þessi eining var notuð í gamla daga þegar menn lönduðu síldinni í bræðslu. Við vor- um á snurpunótaveiðum, sem er veiðiskap- ur með nót á tveimur nótabátum. Venjan var þegar svona var veitt að skipta löndun á milli báta þegar landað var í bræðslu. Annar báturinn var kallaður stjórnbyrðingur en hinn bakbyrðingur. Ég lenti í því að vera í stjórnbyrðing við veiðarnar og þegar landa átti þessum afla var dregið um það hvor bát- urinn skyldi eiga fyrstu löndun. Kom það í hlut bakbyrðings. Þetta þýddi, að þar sem aflinn varð aldrei meiri allt sumarið fékk ég ásamt öðrum stjórnbyrðingum aldrei að landa allt sumarið. Þetta þótti því með ein- dæmum. léleg vertíð hjá okkur og einsdæmi að sumaraflinn, 496 mál, skyldi fást í einu kasti. Síðan stundaði ég sjóinn á ýmsum bátum og togurum og veiddi bæði á handfæri og í net. Ég var meðal annars á Orra, en þar kynntist ég einmitt Jóni Helgasyni síðar for- manni Einingar." Tók ungur þátt í félagsstörfum Fljótlega eftir að hann byrjaði að stunda sjómennsku sem ungur maður var hann kjörinn í varastjórn Sjómannafélags Eyja- fjarðar. „Ég var innan við tvítugt þegar ég var fyrst kosinn og þá sem vararitari, en síð- an fór ég í land um tíma og vann þá m.a. hjá Sana við útkeyrslu og sölustörf, hjá Útgerð- arfélagi Akureyringa við almenn verkamanna- störf í salthúsinu og frystihúsinu svo eitt- hvað sé nefnt. Þá lenti það á mér að rita flestar fundargerðir félagsins því það var auðvitað erfitt að fá sjómenn til starfa í stjórnum. Þarna hófst má segja áhugi minn á félagsstörfum.“ Á þessum tíma hafði Sævar hugsað sér að dvelja dálítið í landi, en hann var þá kom- inn með fjölskyldu og sá fram á að tekjurnar myndu ekki duga til að framfleyta henni. „Ég var eitt sinn að vorlagi að aka niður á bryggju á Sanabílnum þegar ég hitti Trausta Gestsson sem þá var að taka við skipsstjórn á gamla Snæfellinu og spurði liann af rælni hvort hann vantaði ekki menn á síldina um sumarið, en ég hafði verið með honum áður til sjós á Hafþóri NK bæði á fiskitrolli og síldveiðum. Hann svaraði mér því til að lík- lega væri hann búinn að ráða á skipið en þetta kæmi þó vel til greina og ætlaði hann að athuga málið. Daginn eftir hringdi hann og sagði að ég fengi plássið svo ég talaði við minn vinnuveitanda hjá Sana sem skildi mínar þarfir og gaf mig lausan svo til fyrir- varalaust.“ Engin framtíð á sjónum! Þar með var Sævar kominn á sjóinn aftur og var þar í nokkuð mörg ár við alls konar veiðiskap en alltaf á Snæfellinu sem var t.d. oftast hæsta skipið á síldinni. Hann datt út úr félagsmálum á meðan en síðan gerðist það undir lok þess tíma sem hann var á sjónum, að kona hans fyrrverandi eignast þeirra fyrsta barn. Um það leyti sátu þau eitthvert sinn í góðum félagsskap með vina- fólki sínu, en kunningi hans var þá við nám í járnsmíði og segir við Sævar að hann skuli hætta á sjónum því þar eigi hann sér enga framtíð. „Nú kernur þú bara í land og ferð að læra járnsmíði í Odda. Ég sagði honum að ég kynni ekki einu sinni að halda á sleggju, hvað þá borvél en síðar um kvöldið vorum við orðnir dálítið léttir og vinur minn vildi bara að við drifum okkur strax til verkstjórans sem bjó í næsta húsi og töluð- um við hann. í mátulegu kæruleysi sam- þykkti ég þetta og við fórum af stað. Þá var þetta Albert heitinn Sölvason, öndvegis maður og tók hann okkur mjög vel en segir samt að sig vanti engan mann um leið og hann spyr mig hverra manna ég sé. „Nú ertu sonur hans Frímanns, heyrðu komdu til mín á mánudaginn og við skulum ræða rnálin." Ég fór til hans og þá sagði hann að ég mætti byrja daginn eftir sem ég gerði eftir að hafa fengið mig lausan af sjónum." Enn á krossgötum Þarna hóf Sævar nám í ketil- og plötusmíði. Hann lauk því námi, varð meistari í iðninni og meira að segja prófdómari. Alls starfaði hann í Odda í 9 ár en þá varð hann að hætta að læknisráði. „í lok tímans á Odda vann ég í því að smíða nokkur mjólkurker úr áli fyr- ir gamla mjólkursamlagið. Þau þurfti að sjóða saman, einnig að innanverðu og vegna endurspeglunar var ég kominn með krón- íska rafsuðublindu svo ég varð að hætta ef ég ætlaði mér ekki að verða blindur.“ Og enn stóð hann á krossgötum og vissi ekki hvað hann ætti að gera. Nema hann átti kunningja sem var verkstjóri á trésmíða- verkstæði Akureyrarbæjar, sem bauð hon- um að koma til sín í vinnu. „Ég byrjaði þar sem verkamaður en síðan ákvað ég að leit- ast eftir að komast á samning í húsasmíði. Það gekk vel, ég fékk samning og lauk því námi. Eftir 3-4 ár í þessari vinnu sá ég fram á að þetta væri ekki framtíðarstarf fyrir húsasmið því mér fannst starfið of einhæft. Ég vildi kynnast nýbyggingum og réði mig til Aðalgeirs og Viðars hf. Þar vann ég 1-2 ár eða þar til Jón Helgason, þáverandi for- maður Einingar og Þorsteinn Jónatansson varaformaður komu til mín og buðu mér hálfs dags starf á skrifstofu Einingar sem starfsmaður. Byrjaði sem skrifstofumaður hjá Einingu Þetta kom til vegna fyrri afskipta minna af félagsmálum hjá Sjómannafélaginu en á þessum tíma hafði ég líka verið í stjórn Knattspyrnudeildar Þórs, Knattspyrnuráðs Akureyrar og í framhaldi af því gerðist ég knattspyrnudómari og vann það starf í mörg ár. Eftir umhugsun sagði ég við þá Jón og Þorstein að ég gæti ekki tekið þessu boði því ég sæi ekki framá að geta framfleytt mér á þeim launum sem þar voru í boði og þurfa auk þess að leita mér að hálfs dags vinnu í mínu fagi. Ég sagði þeim að mér þætti þetta áhugavert en þeir skoðuðu málið aftur, komu svo og buðu mér heilsdags starf.“ Þetta var árið 1977 og enn er Sævar hjá Einingu. Þá var skrifstofa Einingar til húsa í gamla verkalýðshúsinu sem var reyndar við hliðina á fæðingarstað Sævars. í fyrstu starf- aði hann sem skrifstofumaður en var fljót- lega kjörinn varaformaður félagsins eða árið 1980 og seint á árinu 1985 tók hann við formennskunni af Jóni sem ákvað að hætta áður en kjörtímabil hans rann út. Á næsta aðalfundi var hann kjörinn formaður og hefur gegnt því starfi síðan. Aðspurður um eftirminnileg verkföll eða álíka viðburði á ferli hans sem formaður Einingar kom í ljós að ekki hefur verið farið í nein verkföll sem orð er á gerandi á þess- um tíma. Hins vegar hafa komið upp ýmis ágreiningsmál, „sem við höfum reynt að leysa með því að sigla í gegn og leysa málin friðsamlega. Auðvitað hafa komið upp ákveðin átök og deilumál sem hljóta að koma upp af og til í svo stóru félagi sem Eining er, sem ég tel óþarfa að vera að tíunda hér,“ sagði Sævar. Starfíö fer stundum í skapið Þegar Sævar var spurður hvort það hafi ekki verið viðbrigði fyrir mann sem þráði sjóinn að taka að sér vinnu sem margir telja leiðin- lega og þurra pappírsvinnu, sagðist hann oft vera þreyttur að afloknum vinnudegi og viðurkenndi að starfið færi stundum í skapið á sér þegar illa gengi. „Hins vegar koma þeir tímar að maður er mjög ánægður ef vel gengur. Það eru skin og skúrir í þessu starfi eins og öðru. Á meðan ég var hér starfs- maður og varaformaður fann ég heldur ekki eins mikið fyrir því að vera kominn inn á skrifstofu því ég var mikið úti í beinum tengslum við fólkið á vinnustöðum. Eftir að ég færðist upp í formennskuna lokast’maður meira inn á skrifstofunni í embættisstörfum. Þannig fjarlægist maður, því miður þá sem maður er að vinna fyrir.“ Sævar bætti því við að þrátt fyrir erfiðu stundirnar á vinnustað væri hann oftast búinn að gleyma þeim þegar hann mætti til vinnu á ný og e.t.v. væri það fyrst og fremst vegna þess hve starfsfólk og stjórn Einingar hefur verið samtaka og samhent um að reyna að leysa vandamálin í sameiningu og hvað þar hefur ríkt góður andi. Myndir af mönnum aö tefla og spila á spil Talið vék næst að hefðbundnum kjarasamn- ingaviðræðum, sérstaklega þegar spennan er hvað mest og málin eru „á viðkæmu stigi“ eins og það er gjarnan orðað. Almenningur fær þá oft að sjá myndir í fjölmiðlum af verkalýðsforystunni þar sem menn sitja og tefla, spila á spil eða sofa í stólum í húsa- kynnum Sáttasemjara rfkisins. „Það er ekki nema von að almenningur sé undrandi yfir því að fjölmiðlar birti svona myndir. Sann- íeikurinn er sá, að þegar viðræður eru á þessu stigi er stærstur hluti samninganefnd- anna í biðstöðu og bíður þess að eitthvað gerist hjá þeim sem standa fremst í samn- ingagerðinni. Ástæðan fyrir þessu er sú, að þarna er kominn saman fjöldi fólks, víðs vegar að af landinu en af þeim eru kosnir ákveðnir fulltrúar til að ræða við vinnuveit- endur. Hinir sem eftir eru verða að vera á staðnum svo minni nefndirnar sem eru í sjálfum viðræðunum, geti rætt við og skýrt frá, hvað fram fer og bera menn sig þá sam- an um hvernig taka skuli á málum sem koma upp hverju sinni. Það má segja að stóra nefndin sé baknefnd, því það væri óeðlilegt ef þröngur hópur réði ferðinni í samningamálum.“ Sævar sagði það því oft erfiðan og leiðinlegan tíma fyrir baknefnd- ina þegar þarf að bíða eftir því hvað gerist í innstu vígstöðvum, eða á bakvið tjöldin eins og oft er sagt, en hann segir það þó nauð- synlegt að þetta fólk sé til taks til að bera saman bækur sínar og ræða framhaldið. Þrátt fyrir það sem að ofan er lýst segir Sævar oft ríkja mjög mikla spennu á þessum stundum. „Þá tekur á taugarnar og auðvitað er það oft léttir á mönnum þegar kemur í ljós að hægt er að leysa deilumál sem mjög stóð samningum fyrir þrifum." Verða að sýna sínar verstu hliðar Sævar segir að allir þeir samningar sem hann hefur tekið þátt í að skrifa undir og bera upp fyrir sitt fólk hafi verið samþykkt- ir, nema samningurinn sem felldur var með miklum meirihluta fyrir tveimur árum. „Menn voru ekki ánægðir með það sem ver- ið var að gera, en við sáum að lengra var ekki komist með okkar viðmælendur og að við yrðum að leggja samninginn fyrir dóm félagsmanna. í kjölfar þessa atburðar voru hinir frægu Akureyrarsamningar undirritað- ir og ég hef aldrei heyrt annað en ánægju- raddir með Akureyri sem samningsstað frá þeim sem að samningaviðræðunum stóðu, bæði f.h. vinnuveitenda, verkalýðsforyst- unnar og sáttasemjara. Menn voru mjög staðfastir í störfum og sammála um hvað Laugardagur 7. apríl 1990 - DAGUR - 11 Alþýðuhúsið væri hentugt til samningsgerð- ar.“ Annað kemur upp í hugann þessu tengt, en það eru þessi hörðu, grimmu forystu- menn verkalýðsarmsins, menn eins og Guð- mundur J. og Ásmundur Stefánsson, Ásjóna þeirra í fjölmiðlum er oft ógnvænleg en hvernig skildu þessir menn vera inn við beinið? „Þeir eru flestir, ef ekki allir mestu gæðablóð, en þeir verða bara að sýna sínar verstu hliðar hvað þetta snertir þegar á hólminn er komið í samningaviðræðum. Þessu utan ríkir aðeins blíða og kærleikur hjá þessum mönnum. Þeir eru mannlegir eins og við.“ Skalf illilega fyrir framan kosningasjónvarpið Sævar var fljótur til svars þegar hann var spurður hvort hann stefndi til enn hærri metorða innan verkalýðsforystunnar. „Ég hef aldrei talið mig framagjarnan mann og átti t.d. aldrei von á því þegar ég réð mig til starfa hjá Einingu að ég ætti eftir að enda í þessu starfi. Hugur minn horfir ekki lengra uppávið. Margir forystumenn verkalýðsins hafa blandað sér í stjórnmál af ýmsu tagi og eitt- hvert sinn var Sævar tengdur Alþýðuflokkn- um á Akureyri. „Jú ég tók þátt í prófkjöri Alþýðuflokksins fyrir sveitarstjórnarkosn- ingarnar á Akureyri 1978. Aðdragandi þess var nokkuð skondinn því ég var alls ekki á því að gefa kost á mér en lét til leiðast að- eins einni klukkustund áður en skila átti meðmælendalistum. Það birtist hópur stuðningsmanna til mín um kvöldið með staðfestingarlista sem ég þurfti að skrifa undir og ég hélt í raun að það myndi ekki takast að safna meðmælendum á svona skömmum tíma. En þeir voru greinilega búnir að skipuleggja þetta vegna þess að ég skrifaði undir nokkuð marga lista og með- mælendunum var bjargað á þessum skamma tíma. Á þessum tíma gátu menn gefið kost á sér í ákveðin sæti, en ég gaf kost á mér í 3. sæti og vann það. Þegar þetta var áttu Alþýðuflokksmenn einn mann í bæjarstjórn en þegar upp var staðið fengum við tvo menn og það munaði aðeins hársbreidd að ég færi inn sem þriðji maður. Ég skalf illi- lega fyrir framan kosningasjónvarpið því nánast alla nóttina var ég inni og datt ekki út fyrr en í restina. Mig óraði aldrei fyrir þessu og trúði aldrei að ég færi inn. En ég var 1. varamaður og sat nokkra bæjarstjórn- arfundi en þegar þessu kjörtímabili lauk var ég fljótur að taka ákvörðun um að gefa ekki kost á mér aftur þennan slag. Síðan hef ég nánast ekkert komið nálægt stjórnmálum þó ég eigi mínar pólitísku skoðanir fyrir mig. Það er mín skoðun að pólitískir flokkar eigi ekki að hafa mikil áhrif inn í stjórnir verka- lýðsfélaga þó það tíðkist mjög.“ Yill ekki missa af knattspyrnuleikjum Okkur lék forvitni á að vita hvað Sævar Frí- mannsson gerir að loknum vinnudegi. Grúskar hann í lögum verkalýðsfélaga og sökkvir sér oní ævisögur fallinna verkalýðs- hetja? „Ég verð að viðurkenna það að eftir langan vinnudag þar sem maður hefur verið að snúast í þessum málum, deilumálum á vinnustöðum og öðru slíku, er ég búinn að fá mig fullsaddan. Maður er ekki mikið fyrir að hræra í þeim hlutum sem að starfinu lýt- ur þegar heim kemur og oft verður maður var við að á skemmtistöðum vill fólk gjarn- an tala við þá sem sinna þessum störfum. Oft á tíðum getur verið gaman að ræða við fólk í góðu tómi, en miklu betra væri þó að eiga viðskipti við þetta fólk á vinnutíma en á slíkum stöðum sem þessum. Síðustu ár hef ég ekki tekið löng sumarfrí í einu, heldur dag og dag. Ef ég fer í frí reyni ég að fara í sannkallaðar afslöppunar- ferðir. Svo passa ég mig auðvitað á því að sleppa engum knattspyrnuleikjum eða handknattleiksleikjum ef ég hef tök á að sjá þá og er öllum stundum í nálægð við leiki ef ég get, því það er mitt líf og yndi. Beinar sendingar í sjónvarpi eru líka nokkuð sem ég læt ekki framhjá mér fara og maður lætur sig hafa það að vakna upp á nóttunni ef því er að skipta." Lítur upp í hvert sinn sem möstur koma fyrir Tangann Sævaf segist líka fara annað slagið í veiði með vini sínum þó hann vilji ekki kalla sig mikinn veiðimann, en hann segist hafa gam- an af veiðinni. Þá lék hann sér aðeins í golfi fyrir nokkrum árum en gafst upp og missti áhugann. „Mér fannst ég svo andskoti léleg- ur í þessu,“ sagði hann. Fyrir nokkrum árum ákvað Sævar að nota hluta af sumarfríinu sínu og fara túr á frysti- togara. Hann vildi með því kynnast af eigin raun breyttum starfsháttum um borð og rifja upp gamlar endurminningar. Kunningi hans var þá skipstjóri á Siglfirðingi og fór Sævar með honum í 3ja vikna túr. „Þetta var æðislega gaman og jafnframt fannst mér ótrúlegt hvað vinnubrögðin höfðu breyst til batnaðar og aðstaða öll.“ Skrifstofa Sævars í Alþýðuhúsinu vísar eins og í Barnaskólanum forðum, til austurs út að Vaðlaheiði. Kemur aldrei upp þrá eftir sjónum? „Jú, jú. í hvert skipti sem sér í möstur koma fyrir Tangann lít ég upp og fylgist með hvaða skip sé að koma inn. Hér áður fyrr þekkti maður hvert skip og þó ég geri það ekki lengur hef ég mjög gaman af að fylgjast með.“ Hér setjum við endapunktinn á viðtalið við Sævar þó eflaust hefði verið hægt að halda lengi áfram. En skyldan kallar og maður í hans stöðu hefur sjaldan tíma til að klára úr kaffibollanum sínum . . . VG

x

Dagur

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Dagur
https://timarit.is/publication/256

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.