Dagur - 25.04.1992, Blaðsíða 10

Dagur - 25.04.1992, Blaðsíða 10
10 - DAGUR - Laugardagur 25. apríl 1992 Sveitarstjórnarmál hljóta að vera spennandi að fást við. Að minnsta kosti er það oft svo að þeir sem gefa sig að þeim eiga erfítt með að hætta. Sigurður Jóhann Sigurðsson, forseti bæjarstjórnar Akureyrar, getur ekki talist gamall maður, en er þó búinn að vera aðalmaður í bæjarstjórn í átján ár. Það leynir sér ekki að bæjar- málin eru ansi ofarlega í huga hans. Á dögunum settist blaðamað- ur niður með Sigurði á skrifstofu hans í útibúi Skeljungs á Akur- eyri og átti við hann spjall um bæjarmálin og ýmislegt er að þeim lýtur. En fyrst var „spólað“ 45 ár til baka. Sigurður er innfæddur Akureyringur, fæddur árið 1946. „Ég er fæddur í Hafnar- stræti á mörkum Inn- og Miðbæjar, en hef viljað flokka mig með Innbæingum, því á þeim tíma var ekki talað um miðbæinga. Á uppvaxtarárum mínum var atvinnustarfsemi töluvert mikið tengd miðbæjarsvæðinu. Þar var slippur og aðalhöfnin. Inni við Höepfnersbryggju var tunnuverksmiðja og starfsemi sem henni tengdist. Leiksvæði okkar pollanna var hafnarsvæðið og brekk- urnar fyrir neðan kirkjuna, þar sem menn höfðu ræktað skóg, sem náði okkur vel yfir höfuð. Þetta voru ærslafengin ár. Þá var ekki sjónvarp til þess að sitja við, þannig að við vorum lengi úti á kvöldin. Óneitanlega voru oft „stríð“ á milli hverfa, einkum þegar skyggja tók á haustin. Margir okkar krakk- anna voru í sveit á sumrin, en á haustin eftir sveitaveruna fórum við gjarnan í flokkum að hverfamörkum og leituðum að andstæð- ingum í von um að finna einhverja mót- stöðu,“ sagði Sigurður. Hann sagði þetta hafa verið skemmtileg ár, en hins vegar vildi hann ekki álíta að það hafi verið betra fyrir ungdóminn að alast upp á þessum árum en nú til dags. Úr Hafnarbúðinni í Skeljung Að barnaskólaárunum loknum lá leiðin upp í Gagnfræðaskóla þar sem Sigurður sat fjög- ur ár á skólabekk. Frá sex ára aldri og fram yfir fermingu var hann í sveit í Hörgárdal, Saurbæjarhreppi og Ljósavatnsskarði og síðar í byggingavinnu hjá Gunnari Óskars- syni, múrarameistara. Éinnig vann hann í nokkur sumur í síldarverksmiðjunni í Krossanesi. „Ég hugsa að ég hefði getað orðið bóndi,“ sagði Sigurður um sveitadvöl sína. „Með tímanum fjarlægðist maður sveitina, en satt best að segja sé ég eftir því að hafa ekki prófað búskapinn." Að afloknum „gaggó“-árunum lá leiðin vestur til Suður-Dakota í Bandaríkjunum. Sigurður hafði lengi komið að æskulýðs- starfi kirkjunnar og á vegum þess bauðst honum að sækja nám í eitt ár í „high school" vestra. „Eftir að ég kom heim átján ára gamall fór ég strax út í atvinnulífið og hef verið á vinnumarkaðnum síðan. Ég var í níu ár við verslunarstörf hjá Yngva í Hafn- arbúðinni, en árið 1974 var ég ráðinn úti- bússtjóri Skeljungs hér á svæðinu og því starfi hef ég gegnt síðan.“ Sigurður neitaði því ekki að það hafi oft verið gaman að standa á bak við búðarborð- ið í Hafnarbúðinni. „Fyrst eftir að ég flutti mig um set úr miðbænum og niður á Eyri fannst mér ég hafa misst af mörgum. Á bak við búðarborðið sá maður og kynntist mörgum, en með því að loka sig inni á skrif- stofu missti maður samband við margt af þessu fólki.“ Sigurður sagði að óneitanlega hafi miðbærinn verið lífæð bæjarins á þess- um árum, en á síðari árum hafi þjónusta og verslun dreifst út um bæinn. „En ég bind við það vonir að aftur sé að færast líf í miðbæ- inn með byggingu nýrra verslunarhúsa,“ sagði hann. Ekki „genetískur“ sjálfstæðismaður Sigurður J. Sigurðsson hefur verið áberandi í sveitarstjórnarmálum á Akureyri á undan- fömum árum, enda hefur hann setið í bæjarstjórn fyrir Sjálfstæðisflokkinn síðan á þjóðhátíðarárinu 1974. Sigurður var inntur eftir því hvort hann væri fæddur sjálfstæðis- maður? „Nei, það held ég ekki, en ég byrj- aði hins vegar snemma að starfa með Félagi ungra sjálfstæðismanna. Þó kann að vera að umhverfið hafi haft einhver áhrif þegar ég tók þá ákvörðun á sínum tíma að fylgja Sjálfstæðisflokknum að málum. Sjálfstæðis- menn er að finna í minni ætt, en ég hygg að það hafi verið jafnmikið af fylgismönnum annarra flokka í kringum mig.“ Sigurður minntist þess að á sínum pólitísku uppvaxtarárum hafi pólitíkin verið nokkuð hörð á Akureyri. Gefin hafi verið út mál- gögn allra flokka og þar hafi menn oft rifist heiftarlega. Þessari hörðu pólitísku umræðu hafi ljósvakafjölmiðlarnir breytt að veru- legu leyti. Fyrir sveitarstjórnarkosningarnar 1974 hellti Sigurður sér í slaginn fyrir alvöru. Gísli Jónsson, þáverandi menntaskólakenn- ari, skipaði fyrsta sæti á lista Sjálfstæðis- flokksins, Sigurður Hannesson annað sætið, Sigurður það þriðja, Jón G. Sólnes fjórða sætið og Bjarni Rafnar það fimmta. „Kosn- ingarnar fóru alveg skínandi vel fyrir Sjálf- stæðisflokkinn og hann náði fimm mönnum. Kannski má segja að flokkurinn hafi ekki mátt vinna svo stóran sigur, því hann var of stór að kyngja fyrir hina flokkana. Vegna þess hve stór flokkurinn varð eftir kosningar náðist ekki samstarf við neinn hinna flokk- anna. Ef til vill vorum við þá í svipaðri stöðu og Framsóknarflokkurinn fyrir tveim árum síðan, menn voru of öruggir með sig og töldu úrslitin þýða ávísun á meirihluta- samstarf. En reyndin varð önnur. Við sátum eftir og hinir þrír flokkarnir mynduðu meiri- hluta og raunar stóð Sjálfstæðisflokkurinn utan meirihlutasamstarfs næstu þrjú kjör- tímabilin. Vitanlega var sárt að lenda utan meirihluta árið 1974 og ekki síður var erfitt að kyngja kosningaúrslitunum 1978 þegar við fórum úr fimm mönnum í þrjá. Okkur tókst síðan að koma okkur aftur upp í fjóra menn árið 1982, en sami meirihluti hélt velli. Það var síðan ekki fyrr en í kosningun- um árið 1986 sem Sjálfstæðisflokkurinn myndaði meirihluta með Alþýðuflokkn- um,“ sagði Sigurður. Menn verða að hafa einhver markmið Allar götur frá 1974 hefur Sigurður verið aðalmaður í bæjarstjórn og færst æ ofar á framboðslista Sjálfstæðisflokksins. Þegar Gunnar Ragnars tók við starfi fram- kvæmdastjóra Útgerðarfélags Akureyringa hf. lét hann jafnframt af embætti forseta bæjarstjórnar og Sigurður tók við. Hann hefur síðan gegnt því áfram á yfirstandandi kjörtímabili á móti bæjarfulltrúum Alþýðu- bandalagsins. Sem forseti bæjarstjórnar Akureyrar er Sigurður vitaskuld töluvert í kastljósi fjöl- miðla og umræðu almennt. Eins og gengur fær hann bæði lof og skammir fyrir störf sín. Hvað skyldi það nú vera sem fær menn til þess að gefa sig í oft á tíðum vanþakklátt starf bæjarfulltrúa og forseta bæjarstjórnar? „Það er von að þú spyrjir,“ sagði Sigurður og brosti. „Þegar ég gaf mig í þetta í upphafi gerði ég mér satt að segja enga grein fyrir út í hvað ég væri að fara. Maður var til í að taka þátt í baráttunni, en hafði kannski ekk- ert ákveðið leiðarljós til að fylgja, annað en það að vinna með því fólki sem starfaði í Sjálfstæðisflokknum á þeim tíma. Síðan hefur reynslan kennt manni að málið er ekki svona einfalt. Menn verða að hafa einhver markmið ætli þeir sér að vinna lengi á þess- um vettvangi. Ef ætti að nefna eitthvað eitt sem heldur mér í þessu er að ég hef óbilandi trú á Akureyri og Eyjafjarðarsvæðinu og uppbyggingarmöguleikum þess til mótvægis við höfuðborgarsvæðið. En til að það geti orðið verður maður að leggja sitt að mörkum. Ég verð kannski aldrei leiður á þessu vafstri, en hins vegar vegar getur maður orðið svolítið svekktur á stundum.“ Geri greinarmun á sveitar- stjórnarmálum og stjórnmálum Til forseta bæjarstjórnar á hverjum tíma er gerð sú krafa að hann „sigli á milli skers og báru“, þ.e.a.s. hann geri öllum flokkum jafnt undir höfði. Er það ekki oft dálítið erfitt? „Nei, í þann tíma sem ég hef verið forseti bæjarstjórnar hef ég ekki fundið fyrir því að væri erfitt að gæta hlutleysis við stjórnun fundanna," svaraði Sigurður. „Éorseti misnotar ekki vald sitt til þess að hleypa mönnum fram fyrir á mælendaskrá, svo dæmi sé tekið. Hins vegar hefur hann vald til þess að taka mál fyrir í þeirri röð sem honum sýnist og jafnframt að úrskurða hvaða mál komi til ályktunar í bæjarstjórn. Ef menn hafa áhuga fyrir því að nýta sér stöðu sína sem forsetar á hverjum tíma, þá kemur það fram við önnur tækifæri en á bæjarstjórnarfundum,“ bætti hann við. Oft heyrast raddir um að það sé hrein tímaskekkja að pólitískir flokkar, sem eiga fulltrúa á Alþingi, bjóði fram lista til sveit- arstjórna. Miklu nær sé að áhugahópar um sveitarstjórnarmál taki sig saman og bjóði fram lista á hverjum tíma. Sigurður er þessu ósammála. „Ég hef alltaf gert mikinn grein- armun á sveitarstjórnarmálum og því sem ég kalla stjórnmál. Ég vil líta til stjórnmála, sem tengjast landsmálum og störfum Alþingis, með einum hætti og sveitarstjórn- armála með öðrum hætti. Það þýðir þó ekki í mínum huga að pólitísku flokkarnir eigi ekki að bjóða fram til sveitarstjórna, því þeir hafa stefnu og markmið og kjósendum á að vera ljóst að fulltrúar eins flokks eru líklegir til að taka á málum með öðrum hætti en fulltrúar annarra flokka. Fram- boðslistar áhugafólks, svokölluð óháð framboð, koma og fara, inn og út úr sveitar- stjórnun. Þeir hafa engan pólitískan bak- stuðning og ég held að ábyrgðartilfinning slíkra hópa verði alltaf önnur en þeirra sem vita að frammistaða innan sveitarstjórna kann líka að verða metin á landsvísu. Ég er ekki hrifin af slíkum skyndiframboðum vegna þess að ég tel að fólk sem að þeim stendur hafi tækifæri til að koma sjónarmið- um sínum á framfæri í gegnum flokkana,“ sagði Sigurður. Hann bætti við að hann hafi oft velt fyrir sér hvort rétt væri að kalla sveitarstjórnarmenn pólitíkusa. „Þetta er eins og hvert annað starf hjá mönnum. Það má ef til vill líkja því saman að starfa að sveitarstjórnarmálum og stjórna fyrirtæki.“ Sigurður sagðist telja það rangt ef menn gæfu sig í sveitarstjórnarmál vegna áhuga á einum ákveðnum málaflokki. „Um leið og menn fara að eiga sér einhver sérstök gælu- verkefni, er hætta á að önnur verkefni líði fyrir það. Ég segi fyrir mig að ég hef reynt að líta á sveitarstjórnarmálin sem eina heild og ég vona að mér hafi tekist það. Margt í sveitarstjórnarmálum er mjög skemmtilegt að fást við. Þau snerta nánast alla þætti dag- legs lífs og maður fær tækifæri til að fylgjast með ýmsum málum sem maður annars hefði engin tök á. Auk þess hefur maður tal af mörgum. Almennt tel ég að þátttaka í sveit- arstjórnarmálum sé mönnum mikils virði, þau víkka sjóndeildarhringinn.“ Erfitt fyrir Sjálfstæðisflokkinn að ná meirihluta Myndun núverandi meirihluta í bæjarstjórn Akureyrar vakti töluverða athygli, enda standa að honum gjörólíkir flokkar, Sjálf- stæðisflokkur og Álþýðubandalag. Hafði Sigurður sjálfur trú á því fyrirfram að þessi meirihluti yrði myndaður? „Þegar ég ákvað að gefa kost á mér fyrir síðustu kosningar setti ég mér það markmið að Sjálfstæðisflokkurinn kæmi viðunandi út úr þeim og annað hitt að hann stæði að áframhaldandi myndun meirihluta. Til þess var annars vegar sú leið að flokkurinn fengi hreinan meirihluta í kosningunum. Það tókst ekki og reyndar er það svo að það virðist vera mjög erfitt fyrir Sjálfstæðis- flokkinn að ná þeirri stöðu. Skýringin er sú að vægi Framsóknarflokksins á Akureyri er mun sterkara en atkvæði hans á landsvísu gefa til kynna. Við höfum vakið athygli fólks hér á því að rétt væri að kalla einn flokk til ábyrgðar, en kjósendur hafa enn ekki verið því sammála. Fyrsta tilraun okkar eftir kosningar var sú að mynda meirihluta sem samanstæði af tveim flokkum. Við buðum bæði Alþýðu- bandalagi og Framsóknarflokki til viðræðna um myndun meirihluta og þar sem Alþýðu- bandalag var fyrra til, þá skelltum við okkur út í þær viðræður í þeirri von að Alþýðu- bandalagsmenn ræddu við okkur af heilind- um og vilja til að ná saman. Þessar viðræður leiddu til myndunar meirihluta og það verð- ur að segjast eins og er að samstarf þessara ólíku flokka hefur gengið með miklum ágætum. Við ákváðum í upphafi að leysa þau mál sem höfðu verið ágreiningsmál þessara flokka á fyrra kjörtímabili og það tókst,“ sagði Sigurður. Erfíð staða í atvinnumálunum Hann sagði að margt hafi gengið eftir sem meirihlutinn setti sér fyrir tveim árum, en því væri ekki að neita að menn hefðu bund- ið vonir við að atvinnumálin í bænum yrðu í jákvæðari farvegi í dag en raun ber vitni. „En það sem lýtur að sjálfum sveitarstjórn- armálunum, þ.e.a.s. að rekstri bæjarsjóðs og starfsemi hans, þá tel ég að okkur hafi í mörgu tekist vel upp. Við erum á réttu róli í þeim málum sem við settum fram sem okk- ar meginviðfangsefni á kjörtímabilinu, að öðru leyti en því að atvinnumálin hafa ekki gengið eftir sem skyldi. En efling sjávar- útvegs, heilbrigðismála og menntamála hef- ur gengið eftir. Hvað sem verður á þessu ári, þá varð íbúafjölgun hér umfram lands- meðaltal á sl. ári og það voru jákvæð merki fyrir bæinn,“ sagði Sigurður. Hann sagði að menn mættu ekki gleyma því að bæjarfélag- ið hafi orðið fyrir gífurlega stórum áföllum í atvinnulífinu. Benda mætti á gjaldþrot Ála- foss, samdrátt hjá Slippstöðinni og gjald- þrot fstess. Því verður ekki á móti mælt að ákveðin stöðnun hefur verið í atvinnulegu tilliti á Akureyri undanfarin ár. Þar hafa eflaust margir þættir áhrif, en Sigurður nefndi eitt öðru fremur; hnignun iðnaðarins í landinu. „Óneitanlega hefur iðnaðurinn í bænum fallið saman, en þjónustan hefur að sama skapi vaxið mikið. Opinber þjónusta hefur fyrst og fremst verið byggð upp á höfuð- borgarsvæðinu, en þó má ekki gleyma því að Akureyri hefur náð til sín stærri hluta af þjónustu en nokkurt annað sveitarfélag utan höfuðborgarsvæðisins. Það dugar bara ekki til. Ég bind miklar vonir við að stofnun Háskólans eigi eftir að hafa mikil og jákvæð áhrif þegar fram líða stundir og nú þegar sjáum við þess merki. Það er ekkert í okkar umhverfi sem gerir það að verkum að Akur- eyri sé ekki jafn fýsilegur staður til búsetu og hver annar. Við búum að vísu við hátt verð á hita, en aftur á móti er hér lágt verð á raforku og við höfum góða heilbrigðis- þjónustu og mjög öflugt og gott skólakerfi.“ Hef ekkert á móti því að bærinn eigi minnihluta í ÚA Menn eru ekki á eitt sáttir um í hversu mikl- um mæli Akureyrarbær eigi að taka þátt í atvinnulífinu í bænum. Útgerðarfélag Laugardagur 25. apríl 1992 - DAGUR - 11 Sé eftir því að hafa ekki prófað búskapinn - Sigurður }óhann Sigurðsson, jorseti bæjarstjórnar Akureyrar í helgarspjatli Texti: Óskar Þór Halldórsson Mynd: Golli Akureyringa hf. er gjarnan nefnt til sögunn- ar í þessu sambandi. Um síðustu áramót átti Akureyrarbær um 58% í ÚA, sem aftur þýðir að bærinn hefur bundna gríðarlega mikla peninga í fyrirtækinu. Hvað segir Sigurður um þá skoðun margra að Akureyr- arbær eigi að selja hlut sinn í ÚA og nýta þá fjármuni sem við það fengjust til atvinnu- uppbyggingar á öðrum sviðum? „Ég hef ekkert á móti því að Akureyrar- bær verði minnihlutaaðili að Útgerðarfélagi Akureyringa, en áður en slík ákvörðun yrði tekin vildi ég sjá að fjármunir bæjarins í því fyrirtæki, yrðu þá ávaxtaðir með einhverj- um sambærilegum hætti. Það má auðvitað hugsa sér að nýta þessa fjármuni til að greiða niður skuldir bæjarins, en hins vegar er ávöxtun fjár í ÚA betri en sem nemur fjármagnsgjöldum af skuldum bæjarfélags- ins. Ég tel hins vegar að það séu engar hætt- ur því samfara að bærinn verði minnihluta- aðili að ÚA. Ég bendi á að eignarhald í þessu fyrirtæki er þegar orðið mjög breitt. Ég er ekki að segja að Akureyrarbær eigi að fara út úr fyrirtækinu, en hins vegar segi ég að það væri allt í lagi að hann yrði minni- hlutaaðili.“ Biðstaða með sölu á hlut Akureyrarbæjar í Landsvirkjun í málefnasamningi núvetandi meirihluta- flokka í bæjarstjórn er ákvæði þess efnis að leitað verði eftir sölu á hlut Akureyrarbæjar í Landsvirkjun, sem metinn er á hálfan ann- an milljarð króna. Hver er staða þess máls nú þegar kjörtímabilið er hálfnað? „Staða þess máls er sú að við höfum átt viðræður við sameignaraðila okkar að Landsvirkjun, Reykjavíkurborg og ríkið, og stjórnendur Landsvirkjunar um mögu- leika þess að Akureyrarbær geti losað það fé sem hann á í fyrirtækinu og nýtt það til annarra hluta. Ríicið á 50% í Landsvirkjun og Reykjavíkurborg getur ekki sætt sig við að það kaupi hlut Akureyrarbæjar og ætti þar með meirihluta í fyrirtækinu. Reykja- víkurborg hefur líka sagt að hún hafi ekki áhuga á að kaupa hlut Akureyrarbæjar vegna þess að hún hafi meira en nóg með fjármuni sína að gera. Þegar báðir aðilar sýna því ekki áhuga að kaupa hlut bæjarins er spurningin hvort til sé einhver þriðji kaupandi. Hann virðist ekki vera til staðar í augnablikinu og mun væntanlega ekki finn- ast fyrr en Landsvirkjun verður gerð að hlutafélagi og bréf í fyrirtækinu verða til sölu á almennum markaði. Þessi niðurstaða hefur valdið mér von- brigðum. Það var auðvitað ekki markmið með stofnun Landsvirkjunar á sínum tíma að menn þyrftu að vera bundnir því fyrir- tæki um aldur og ævi.“ Draumurinn er að Akureyri verði 20 þúsund manna bær Það getur oft verið gott að láta sig dreyma. Sigurður var beðinn að leggja höfuðið í bleyti og ímynda sér að hann ætti eina ósk fyrir hönd Ákureyrarbæjar. Hver yrði sú ósk? „Þetta er mjög erfið spurning," sagði hann íbygginn á svip, en svaraði síðan: „Ég vildi gjaman sjá Akureyri sem 20 þúsund íbúa bæ á næstu árum. Það var mikilsverður áfangi hjá okkur að komast yfir 10 þúsund íbúa markið og ég held að næsta markmið eigi ekki að vera minna en að komast yfir 20 þúsund íbúa markið.“ í lokin vékum við frá bæjarmálunum og Sigurður var spurður um hvort hann ætti einhver áhugamál? „Þetta er ágæt spurning," sagði hann. „Kannski er ekki þörf á neinum öðrum áhugamálum þegar maður er á fullu í bæjarmálunum. Én ég myndi nefna að ég hef gaman af veiði, úti- vist og ferðalögum,“ sagði Sigurður og bætti við að ekki mætti gleyma fjölskyldunni, en kona hans er Þórunn Birnir, deildarstjóri svæfingadeildar Fjórðungssjúkrahússins, og eiga þau eina tíu ára dóttur.

x

Dagur

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Dagur
https://timarit.is/publication/256

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.