Þjóðviljinn - 20.09.1987, Blaðsíða 2
FLOSI
Nliku
skammtur
af tœpri sálarheill
Ég er svona einsog soldið á tauginni þessa
dagana. Ber svosem eitt og annað til, mest
smámunir sem ekki ættu að setja nokkurn
mann uppaf standinum en það er nú einu sinni
svo, að það sem kemur einum í uppnám hreyfir
ekki við öðrum.
En auðvitað er það, einsog endranær, and-
skotans skarkalinn hvar sem komið er, sem er
að gera mig hvínandi vitlausan.
Ég bý í gömlu húsi niðurvið Tjörn, sem auðvit-
að er ekki í frásögur færandi, fremur en svo
fjölmargt annað sem skrifað er í blöð, og á þá
ósk heitasta að fá að eyða æfidögunum, sem
nú fer fækkandi, í rú og mag, einsog amma mín
kallaði það, og gæti sjálfsagt haldið dágóðu
sálarjafnvægi, ef bílar væru ekki einlægt að
keyra hver á annan hérna fyrir utan gluggann
minn.
Þetta gerist venjulega þegar ég er í djúpri
hugleiðslu. Þá kveður skyndilega við langt og
skerandi ískur í hjólbörðum, svo kemur dynkur
og brothljóð en þeim fylgja svo angistaróp, hróp
og köll. Svo líður drykklöng stund, en þá hringir
dyrabjallan og náfölur, svolítið blóðugur maður
- eða kona - stendur á tröppunum og biður um
að fá lánaðan símann til að hringja á lögregluna
og sjúkrabílinn.
Og það er einsog við manninn mælt, allt það
merkilega sem ég hafði verið að hugsa er rokið
útí veður og vind, allt í einum graut í hausnum á
mér, en fyrir utan gluggann tvö bílhræ í öðrum
graut og verið að draga lík og lemstrað fólk
uppúr hræjunum.
Og ég hugsa sem svo:
- Þetta er nú meira andskotans ónæðið.
Svo var það í gær að ég rakst á útsíðugrein í
Þjóðviljanum um málefni Kvosarinnar undir
fyrirsögninni „Keyrt í gegn með látum“ og ég
hugsaði sem svo:
Guði sé lof að blöðin eru farin að láta aksturs-
lagið í miðbænum sig einhverju skipta úr því að
lögreglan gerir það ekki. En þegar ég fór að lesa
greinina kom í Ijós að það var ekki aksturslagið
sem um var að ræða, heldur hafði Kvosarskipu-
lagið verið „keyrt í gegn með látum“ í skipulags-
nefnd borgarinnar. Megininntak þess mun vera
að setja ráðhús í Tjörnina og flytja Tjörnina uppí
Árbæ og ætti sú viturlega og þaulhugsaða ráð-
stöfun ekki að þurfa að raska ró nokkurs
manns, ef bara flugvöllurinn fær að vera áfram í
friði til að halda borgarbúum vakandi.
Satt að segja verð ég svo undur glaður, þegar
ég sé í blöðum og horfi á það í sjónvörpum
hvernig verðir laganna ganga fram í því að hafa
hendur í hári ökuníðinga, mæla fyrst hraðann á
þeim í radartækjum, síðan brennivínsmagnið
með því að taka úr þeim það litla af blóðinu, sem
þeir misstu ekki við áreksturinn, ávíta síðan þá
sem eftir lifa sekta eða jafnvel svifta þá öku-
skýrteininu um stundarsakir en setja hina í lík-
húsið, svo allir geti nú verið ánægðir.
En svo ég komi nú aftur að sjálfum mér. Það
er nú einu sinni svo að allt lífið og tilveran snýst
um mig, eða það finnst mér að minnsta kosti
sjálfum.
Já og meðan ég man, þá langar mig að biðja
einhvern sem hefur greiðan aðgang að skrif-
borði lögreglustjórans í Reykjavík, að leggja
þessi fátæklegu skrif á borðið hjá honum, nota
svona svipaða tækni og ég nota stundum, þeg-
ar ég er að gleyma helgarblaði Þjóðviljans á
almannafæri í þeirri veiku von að einhver glæp-
ist á að lesa greinarnar mínar, í þessu fáséða
blaði.
En það er nú önnur saga.
Málið er semsagt það, herra lögreglustjóri, að
uppúr miðnætti þvínær hverja nótt hefst kapp-
akstur um miðbæinn, að því er virðist eftir Frí-
kirkjuvegi, yfir Tjarnarbrúna, vestur Hringbraut
og aftur niðurí bæ.
Stundum er þessi hringur farinn réttsælis og
stundum rangsælis, en varla bregst það að
ósköpin hefjast uppúr miðnætti.
Þessi skemmtilegi bílaleikur er háður hljóð-
kútslausum ökutækjum og aksturslagið er eftir
því.
Fyrir nokkrum árum vaknaði ég við svo mik-
inn skarkala að ég hélt að húsið væri að hrynja.
Þegar ég fór útí glugga sá ég mér til skelfingar
að svonefnt tryllitæki lá á hvolfi í skrúðgarði
mínum og hafði augljóslega endasenst þangað
loftleiðina af akbrautinni sem venjulegum bílum
er ætluð.
Ökuþórinn var svo logsoðinn útúr bílhræinu
og leifarnar af honum settar á sjúkrabörur. Þar
var það sem ég heyrði amatör í fyrsta skipti
segja þessa fleygu setningu úr leikbók-
menntunum:
- Hvar er ég, hvað hefur komið fyrir.
Síðan hef ég verið skelfingu lostinn nótt eftir
nótt útaf ökulaginu hérna í kringum húsið mitt.
Auðvitað veit ég að það er brýnt að hafa auga
með ökuníðingum á Keflavíkurveginum og
austur á Rangárvöllum. Og auðvitað veit ég það
af biturri reynslu að lögreglan má helst ekki
koma í miðbæinn í Reykjavík til að skakka
leikinn.
En í guðs bænum, elsku hjartans lögreglu-
stjóri minn.
Farðu nú að láta einhvern kíkja á náttvissan
kappakstur um miðbæinn, þó ekki væri nema til
þess eins að bjarga nokkrum mannslífum og
sálarheill minni.
Bank, bank, bank..."
r
2 SÍÐA - ÞJÓÐVILJINN Sunnudagur 20. september 1987
„Ég sagði ykkur að slappa af strákar, áður en eitthvað svona
kæmi fyrir!“
„Segðu mér eitt... hversu marga grænfriðunga gætir þú hest-
húsað í einu?“