Dagblaðið Vísir - DV - 16.09.1996, Qupperneq 12
12
MANUDAGUR 16. SEPTEMBER 1996
menning
Sjálfsmynd
Venusar
Þegar við skoðum málverk í
fyrsta sinn er ekki óeðlilegt að spurt
sé: Hvað á verkið að fyrirstilla? Við
horfum á myndflötinn, litina, form-
in og línumar, kíkjum svo á text-
ann sem fylgir (ef hann er til stað-
ar) og reynum síðan að heimfæra
þetta allt í samhengi upp á eigin
reynsluheim. Slík „heimfærsla" á
verkinu er vinna og reynsla sem
getur verið bæði gefandi og lær-
dómsrík og hún skapar þegar best
lætur samkennd, skilning eða til-
finningu er getur búið með okkur
ævilangt og haldið áfram að þróast
og dafna með árunum. En spurning-
in getur stundum vafist fyrir okkur,
og reyndar eru öll áhugaverð lista-
verk með einum eða öðrum hætti
ráðgáta sem ekki á sér einhlítt svar.
Tökum sem dæmi splunkunýtt ol-
íumálverk eftir chileska málarann
Roberto Matta (f. 1911) sem er á sýn-
ingu hans á Kjarvalsstöðum: Sjálfs-
mynd Venus frá Willendorf, frá ár-
inu 1996. Ekki síst vegna nafnsins
sjáum við strax vissa líkingu í form-
um myndarinnar við hina frægu
Venusarmynd frá Willendorf, sem
mun vera 25-30 þúsund ára gömul
og eitt elsta forsögulega listaverkið
sem varðveitt er. Nafn myndarinn-
ar verður okkur leiðarvísir að verk-
inu og við spyrjum: Á þetta að vera
sjálfsmynd málarans í líki þessarar
frummóður með opið skaut, eða er
þetta ímynduð sjálfsmynd Venusar
eins og málarinn sér hana fyrir sér?
Spurningin leiðir okkur strax að
annarri spumingu um tengsl
„sjálfsins“ og myndmálsins. Og þeg-
ar betur er að gáð þá sjáum við að
formin i þessari „sjálfsmynd" Matta
- eða öllu heldur stíllinn - minna
ekki síður á önnur verk hans sjálfs
en umrædda Venusarmynd. Er
myndmálið sem slíkt - eða stíllinn -
Myndlist
Úlafur Gíslason
kannski viðfangsefni myndarinnar
ekki síður en hin ævaforna Venus-
armynd, og sér málarinn kannski
líkingu með stílnum og eigin sjálfi?
Með öðrum orðum: Er hann að
mála eigin stíl i form Venusar og
kallar myndina þess vegna „sjálfs-
mynd“?
Myndin vekur þannig með okkur
spurningu um tengsl myndmálsins
bæði við uppruna sinn og viðfang,
og svarið liggur ekki í augum uppi,
jafnvel þótt við höfum léreftið beint
fyrir augunum. Myndin er ekki öll
þar sem hún er séð og upphaf henn-
ar og endir eru ráðgáta.
Að sjá og hugsa
Okkur er tamt að líta á það sem
viö sjáum sem flatt yfirborð eða
gefna staðreynd en sannleikurinn
er sá að við sjáum fyrst og fremst
það sem við hugsum. Við veljum
ákveðna þætti úr þeim upplýsing-
um sem ljósið miðlar okkur á sjón-
himnu augans er duga okkur í þá
heildarmynd sem við viljum sjá.
Val okkar er bundið venjum og
hefð, innri og ytri aðstæðum. Þetta
á jafnt við um málarann og aðrá sjá-
andi einstaklinga.
í tilfelli málarans er þetta val og
þessi vilji augljóslega meðvitaður
og birtist í stílnum. Stíllinn er að-
ferð málarans við að tjá tungumál
málaralistarinnar. Hjá Matta er
stíllinn aðferð við að mála og upp-
lifa veruleika málverksins á meðvit-
aðan hátt.
Við sjáum þetta betur í áhuga-
verðustu myndaröðinni á þessari
sýningu. Það eru grænu myndimar
frá síðasta ári. Þar dregur Matta
upp á léreftið með leiftrandi teikn-
ingu og ílæðandi gagnsærri olíu-
málningu eins konar myndasögu-
drama er sýnir greinilegan skyld-
leika við heim teiknimyndasögunn-
ar og hefur til að bera sama retor-
íska stílinn. Það er æpandi retorík
myndmálsins sem slíks. En þegar
við lítum á titla þessara mynda
kemur í ljós að málarinn vill jafn-
framt leiða athygli okkar að frum-
spekilegum hugtökum, eins og al-
heimur, vitund og kjarni: Innsti
kjarni, Fullnæging alheimsins,
Bygging meðvitundarinnar, Vín
alheimsins og Alheimslöngun.
Þessi frumspekilegu hugtök, sem
eru bústaður þagnar, kyrrstöðu og
festu, lýsa með fjarveru sinni í
myndmáli Matta. Sannleikurinn í
myndum hans er fólginn í flæði
myndmálsins þar sem Innsti kjarn-
inn leysist stöðugt upp í frumeindir
sínar og upphafið verður ekki
greint frá endinum. Við upplifum í
þessum myndum að málarinn er að
sprengja af sér höft frumspekilegs
hugsunarháttar og boða okkur
sannleika sem fólginn er í þeirri
Roberto Matta: Sjálfsmynd Venus frá Willendorf, 1996.
stundlegu upplifun er verður til í
flæði myndmálsins, í flæði hugsun-
arinnar, í flæði hins lifandi lifs.
Hver segir að þessar myndir séu
málaðar af gömlum manni?
Listasafn Reykjavíkur/Kjarvalsstaðir:
Roberto Matta
september-október 1996
Alltaf mætir aug-
anu eitthvað nýtt
Þegar Pétur Sumarliðason, kenn-
ari og rithöfundur, lést fyrir 15
árum skildi hann eftir sig ljóð sem
hann hafði sjálfur ætlað til útgáfu.
Þessi ljóð hafa sonur hans og kona
nú gefið út á bók sem nefnist í erli
dægranna. Það er ekki nóg með að
ljóðin séu bæði gjöful og grípandi
Bókmenntir
Sigríður Albertsdóttir
heldur er útlit bókarinnar sérlega
fallegt og vandað. Hvert ljóð er ram-
mað inn í einfalda umgjörð sem
ljær bókinni gamaldags og um leið
rómantískan blæ. Slíka veislu fyrir
augað er sjaldgæft að sjá í nýjum
bókum og enn fremur þann fyrir-
myndarfrágang að hafa efnisyfirlit
fremst í bók og lista yfir upphafsorð
ljóða í lok bókar.
Bókinni er skipt niður i þrjá
hluta, 1. bók sem nefnist Brot, 2.
bók sem heitir Við hvítan jökul og
3. bók, í erli dægranna. í fyrsta og
öðrum hluta er náttúran í aðalhlut-
verki en í þeim þriðja reikar hugur
höfundar vítt og breitt og staldrar
meðal annars við vatnið sem
stöðugt drýpur úr mælikeri tímans
(Við áramót, bls. 102). í þessum
hluta er höfundur angurvær, dálítið
dapur stundum: Æ, hversu var
farið/með þá daga?“ spyr hann í
ljóðinu Allir dagarnir; en þó hann
eigi engin svör og gefi engin svör
felur þessi upphrópun i sér það
þægilega æðruleysi sem einkennir
allan hans kveðskap. Manni líður
vel við lestur þessara ljóða, þau eru
hlý og ástúðleg.
Ljóðin í miðhlutanum eru hug-
leiðingar tengdar veru höfundar við
veðurathuganir undir suðvestur-
horni Vatnajökuls en þær stundaði
hann í sjö sumur. Upp úr þeim hug-
leiðingum verða til ljóð um kynleg
og stórkostleg fyrirbæri náttúrunn-
ar:
Frostnótt og heitur dagur
I streng árinnar glitruðu
stálbláir steinar í botni.
Sólin var enn bak við jökulinn.
Frostnepja næturinnar
enn í kulinu.
— Og sólin hellti geislum sínum
yfir jökulinn,
bláhvítur ísinn
varð aö kolgráu vatni,
æðandi, beljandi vatni
er bruddi ís og grjót
með urgandi hljóöi. (35)
Þetta ljóð er aðeins eitt dæmi af
mörgum um það hvernig höfundi
tekst á sinn látlausa hátt að koma
sterkri og lýsandi mynd til skila:
hinum heillandi samruna dags og
nætur, hita og kulda svo og litadýrð
hinnar ósnertu náttúru. Þannig eru
ljóðin í miðhlutanum hvert öðru
myndrænna, og svo vitnað sé í orð
höfundar, þar mætir auganu alltaf
eitthvað nýtt (39).
í erli dægranna
Pétur Sumarliðason
Útgefandi: Gísli Ólafur Pétursson
Gulur, rauður,
grænn og blár
Um helgina voru upphafstón-
leikar Sinfóníuhljómsveitar ís-
lands í Háskólabíói, og einnig er
komin út tónleikaskrá starfsárs-
ins 1996-1997. Áskriftartónleikun-
um er skipt í fjórar raðir, sem
nefndar eru eftir litum regnbog-
ans, - tii að minna á að hljóm-
sveitin „leitast við að flytja
áheyrendum sinum allt litasvið
tónbókmenntanna", eins og segir
í skránni.
í gulu röðinni eru viðamikil
hljómsveitarverk og einleiksverk,
þar sem íslenskir einleikarar eru
í aðalhlutverki. Á fyrstu gulu tón-
leikunum 3. október leikur Anna
Guðný Guðmundsdóttir pianó-
konsert nr. 2 eftir Beethoven, og
auk þess verða flutt Helios for-
leikurinn eftir Carl Nielsen og
Svo mælti Zaraþústra eftir Ric-
hard Strauss.
í rauðu röðinni koma fram
frægir erlendir einleikarar.
Fyrstu áskriftartónleikar starfs-
ársins, 19. september, eru einmitt
úr þeirri röð; þá leikur Erling
Blöndal Bengtsson Cellokonsert
eftir Jón Nordal. Auk hans verð-
ur forleikurinn að Meistara-
söngvurunum frá Núrnberg eftir
Wagner og Sinfónía nr. 8 eftir
Dvorak.
I grænu röðinni eru vinsæl og
sígild verk; fyrstu tónleikarnir í
þeirri röð heita Boðið upp í dans
og verða 10. og 12. október. Þar
verða leikin verk meðal annars
eftir Brahms, Gade, Offenbach og
sinfónískir dansar úr Sögu úr
Vesturbænum eftir Leonard
Bernstein. Dansarar úr Listdans-
skóla íslands dansa á tónleikun-
um.
Umsjón
Silja ASalsteinsdóttir
í bláu röðinni eru kynningar-
tónleikar í víðum skilningi þar
sem tónverk, tónskáld og hljóm-
sveitin sjálf verða kynnt. Þeir
fyrstu verða 14. nóvember, og
kynnir á öllum bláum tónleikum
ársins er Jónas Ingimundarson.
Tónskáld starfsársins er Jón
Nordal og verða leikin þrjú verk
eftir hann í vetur, CeUokonsert-
inn áðurnefndi, Bjarkamál, 13.
mars, og Leiðsla, 3. aprU. Tvö
önnur íslensk verk eru á dagskrá
áskriftartónleikanna; Einar Jó-
hannesson leikur Klarinettkon-
sert eftir Karólínu Eiríksdóttur 7.
nóvember og Snorri Sigfús Birg-
isson leikur eiginn píanókonsert
30. janúar. Ef einhverjum finnst
þetta naumt, þá má geta þess að á
Norrænum músíkdögum, sem
hljómsveitin tekur þátt í 25. og 28.
september, verða leikin verk eftir
Hauk Tómasson, John Speight og
Þorstein Hauksson. Þeir tónleik-
ar eru meðal nokkurra aukatón-
leika hljómsveitarinnar í vetur;
meðal annarra slíkra má nefna
Tónvakann í samvinnu við Ríkis-
útvarpið, en þá kemur fram með
hljómsveitinni sigurvegarinn i
tónlistarkeppni RÚV sem fer
fram þessar vikurnar, jólatón-
leika í Langholtskirkju, kirkju-
listahátíðir á Akureyri og í
Reykjavík og tónleika með út-
skriftarnemendum tónlistarskóla.
Petri Sakari hefur verið ráðinn
aðalhljómsveitarstjóri Sí til
næstu tveggja ára, en hann stýrði
hljómsveitinni sem kunnugt er
frá 1988 til 1993. Auk hans koma
fram margir gestastjórnendur á
starfsárinu.
Áskrifendur geta keypt sér viss
sæti á eins marga tónleika og
þeir vilja. Mestan afslátt fá þeir
sem kaupa fyrirfram miða á þrjár
eða fleiri tónleikaraðir.