Dagblaðið - 07.02.1976, Blaðsíða 7

Dagblaðið - 07.02.1976, Blaðsíða 7
Dagblaðið. Laugardagur 7. febrúar 1976. OÐUR TIL HOLDSINS iðtal við Gunnar Örn Gunnarsson listmó /í AÐALSTEINN INGÓLFSSON Myndlist Margir ungir íslenskir listamenn hafa fyrst vakið athygli á verkum sínum á haustsýningum FÍM. Sumir þeirra hafa þroskast og dafnað en aðrir hafa horfið af sjónarsviðinu eins skyndilega og þeir birtust. Fáir ungir listamenn hafa vakið eins mikla athygli á eins skömmum tíma og Gunnar örn Gunnarsson gerði með kröftugum fígúratífum málverkum sínum á haustsýningunni 1971. Gunnar Örn lagði ekki árar í bát við það lof sem verk hans vöktu heldur tvíefldist hann, hélt einkasýningu 1972 í Norræna húsinu og hefur síðan sýnt tvisvar við ágætan orðstír í Kaupmannahöfn þar sem hann hefur búið að undanförnu. Gunnar Örn opnar fimmtu einka- sýningu sína í Norræna húsinu 14. þ.m. A.I.: Nú ert þú sjálflærður málari og því hefur myndast sú þjóðsaga að þú hafir skroppið af sjónum og slegið í gegn á haustsýningunni 1971. Hvað er hæft í þessu? G.Ö.: Jú, það vita allir að ég er sjálflærður. En ég var búinn að vera málandi frá því 1967-8. Ég sýndi meira að segja í Unuhúsi 1970. Það var léleg sýning og Bragi Ásgeirsson tók mig þá í gegn fyrir útvatnaðan Bacon-isma. Sama haust sendi ég mynd á haustsýningu og var henni hafnað, en svo var loks tekin inn mynd eftir mig á sýninguna 1971. Aðdragandinn er því lengri en fólk heldur. A.I.:* Hvcrnig leiddist þú út í málaralist? G.Ö.: Þetta þróaðist einhvern veg- inn úr tónlist. Ég vildi verða músíkant en áður en ég áttaði mig var ég búinn að vinna svo lengi, á sjónum o.s.frv., að mér fannst ég vera orðinn of gamall til að læra tónlist. Þá fór ég að mála og teikna í tóm- stundum. Þetta hel’ui verið tóm- stundaiðja hjá mér alveg fram til þessa. En góð tónlist hefur alltaf tilfinningaleg áhrif á mig og hlýtur að koma inn í málverkið. A.I.: Finnst þér þú hafa tapað eða grætt eitthvað á því að hafa skapað þér þína undirstöðu sjálfur en ekki í listaskóla?'. G.Ö.: Aðstæðurnar voru þannig að ég hafði hreinlega ekki tækifæri til undirstöðunáms. *En ég mundi ekki ráðleggja neinum að mennta sig sjálfur í myndlist, alveg frá grunni. Efasemdirnar eru nagandi mann að innan, maður er sífellt með áhyggjur út af því hvort verkin séu góð eða slæm. Þarna gæti góður kennari gert eitthvað fyrir mann. En kannski hef ég einnig grætt á þessari baráttu, — málverk mín eru e.t.v. tilfinningalega sterkari fyrir vikið. A.I.: Nú er athyglisvert á þessum tímum afstraktlistar; að þín málverk eru af fígúratífum toga alveg frá upphafi. G.Ö.: Ég gerði það upp við mig fyrir löngu að fígúratífa leiðin var mín leið og þess vegna settist ég gagngert niður og stúderaði lík- amann í ein þrjú ár. A.I.: Hvaða list eða listamenn örvuðu þig á því stigi málsins? G.Ö.: Það er ekkert hernaðar- leyndarmál að Francis Bacon og Píkassó hafa lengi verið mér leiðar- ljós. Mér finnst alltaf fáránlegt þegar listamenn eru aó reyna að fela það hvaðan þeir sækja innblástur sinn. Einhvers staðar verða ungir lista- menn að finna sinn útgangspunkt. Að sjálfsögðu varð ég að stúdera verk þessara meistara úr bókum lengi vel, eins og margir landar mínir. Píkassó er mér eins konar allsherjar uppörv- un, kraftur og margbreytileiki hans gefur manni þol og kjark. A.I.: En hvaða þýðingu hafði Bacon fyrir þig? G.Ö.: Ég hafði ekki séð nema tvær svarthvítar ljósmyndir af verkum hans þegar ég hreifst af honum á árunum fyrir 1970. En ég hef stúder- að hann miklu nánar síðan. Hann var einmitt sá útgangspunktur sem ég þarfnaðist. Það sem hrífur mig við málverk hans er hugarfar þeirra. Þau hafa næstum áþreifanlega innri hugsun og spennu. Þau eru full af angist og ofbeldi, „ljótleika,” en með hugsun sinni gefur Bacon þeim ein- kennilega volduga, næstum helga fegurð. Á bak við þessa angist Bacons er svo húmanismi, krafa um mann- eskjulegri heim þar sem virðing er borin fyrir tilfinningum og innri þörf. Því Finnst mér Bacon sígildur. A.I.: Hvaða íslenzkir málarar höfða til þín? G.Ö.: Ég hef alltaf dáð Svavar Guðnason. Ég hef líka miklar mætur á Kjarval, Engilberts og Þorvaldi, — þetta eru allt skapmiklir málarar. A.I.: Hvað hafðist þú svo að eftir einkasýninguna 1972? G.Ö.: Mig vantaði einhverja frekariörvun.Hér virtist ekkert gerast sem kom manni á óvart. Ég fór til Kaupmannahafnar þar sem ég sýndi og síðan ferðaðist ég um nokkur lönd, Holland og Svíþjóð, til að skoða list.Þetta ferðalag hafði góð áhrif á mig, þroskaði mig og stælti. Það er lífSnauðsyn fyrir listamann að skipta um umhverfi öðru hvoru. Síðan dvaldi ég í Kaupmannahöfn, málaði og hafði ofan af fyrir mér með húsamálun þangað til ég kom heim nú í haust. A.I.: Sem málari hefur þú tekið þér ýmis bessaleyfi með líkamsform, stýft þau, tætt og krufið. Sumir hafa haft orð á því að þér þætti ekkert vænt um holdið og líkamann. G.Ö.: Langt því frá. öll mín mál- verk eru að hluta óður til holds- ins. En margir virðast fá einkenni- legar hugmyndir um myndir mínar. í Kaupmannahöfn fékk stofnun ein lánuð 24 málverk eftir mig til að hengja í matsal og einn starfsmaður þar neitaði að borða, — sagði að ég væri viðbjóðslegur kvenhatari. Svo var það líkbrennslan... Fyrir ofan galleríið sem ég sýndi í í Kaup- mannahöfn var skrifstofa lík- brennslufyrirtækis, — og þeir kvört- uðu undan myndum mínum, sem voru úti í glugga gallerísins fyrir neðan, og sögðu að þær fældu við- skiptavini frá... Mannslíkamann nota ég einfaldlega sem efnivið, eins og myndhöggvari notar leir eða málm, vegna þess að hann er sterkasta og magnaðasta myndefni sem ég veit um. Til þess að vera trúrþeirri mynd- heild, sem ég er að vinna við hverju sinni, verð ég^að ráðast á líkamann þangað til hann hlýðir mér og mynd- inni. A.I.: Vandamálið er líklega það að hér hefur fólk lifað svo lengi með afstraktverkum að þegar það sér fígúratíft málverk freistast það til þess að sjá það með eigin líkömum, ef svo má segja, — og í þínum málverkum finnst því ofbeldi beitt gegn sér. G.Ö.: Kannski. En ég má ekki hugsa um það hvort fólk sjái sjálft sig í þessum kroppum mínum. Heild og styrkur málverksins er það sem skiptir máli. En ég mála ekki hold holdsins vegna heldur til þess að skapa sálarlega spennu með því og öðru tilheyrandi. Þá spennu vil ég að áhorfandi finni og að hún örvi undir- 7 N vitund hans. Þarna kemur dálítill súrrealismi einnig inn í spilið. Holdið er okkur svo nákomið að myndrænt ofbeldi gegn því ætti að kveikja neista í huga áhorfanda. A.I.: Það sem hefur einkennt mál- verk þín frá byrjun er sérlega skyn- ræn, næstum munaðarleg tilfinning fyrir lit. Ertu aldrei hræddur við að þetta glóandi litasamræmi dragi spennuna eða frumkraftinn úr mál- verkinu og geri úr því ofur „fallega” komposisjón? G.Ö.: Ég veit það ekki. Ég get ekki skilgreint hv^rs vegna ég vel þennan eða hinn litinn. Þetta er mér óútskýr- anlegt tilfinningamál. Kannski ætti maður ekki einu sinni að reyna að útskýra vinnubrögð sín, vera of rök- fræðilegur. Maður má heldur ekki vinna of rökrænt. A.I.: Hvernig byrjar þú málverk? G.Ö.: Ég vann til skamms tíma al- gjörlega frjálst, í hita augnabliksins. Nú geri ég meir af því að vinna eftir skissum. Ég er alltaf með einhverja hugmynd í kollinum sem venjulega kemur fram í einhvers konar sam- bandi eða spennu milli líkamsforma, — og síðan improvisera ég þangað til ég kem tilfinningunni til skila. A.I.: Hvaða verkfæri notar þú helst? G.Ö.: Pensla að sjálfsögðu, — einnig sköfu, hnífa, gúmmíbúta og tuskur, allt mögulegt reyndar. A.I.: Getur þú lýst athöfninni nánar? G.Ö.: Ég legg strigann á gólfið og þar vinn ég aðaláherslur málverksins. Þannig er maður bókstaflega inni í málverkinu, hluti af því. Oft birtist einhver snertir af líkama fyrst, síðan ræður liturinn oftast ferðinni. Ég teikna aldrei útlínur til að fylla upp í, heldur vinn formið allt frá byrjun. Einn litur krefst annars á öðrum stað — og liturinn ræðst þá af því hvar maður er staddur. Þegar ég kom til Kaupmannahafnar fann ég mig til- neyddan til að hugsa um liti upp á nýtt. Nú, ef hugurinn er svo ekki frjór þ.* byrja ég gjarnan á því að leggjá hrauka af lit á strigann, hræri svo og skef þangað til hugmynd opinberar sig. A.I.: í þessi fáu ár sem þú hefur málað hefur málverk þitt ekki breyst stórkostlega, enda ekki við því að búast á svo stuttum tíma. En þú virðist fást meira við andlitsform en þú gerðir fyrir þrem árum eða svo. G.Ö.: Já. Fæst þeirra eru samt „port- rett” myndir, nema þá óviljandi. Ég hef nefnilega orðið var við að fólk sem ég þekki eða hef hitt birtist allt í einu á striganum hjá mér. í þessum andlitsmyndum er ég enn á höttum eftir sálarlegri spennu. Þar verð ég líka að þurrka út hluta þeirra, auga eða nef, ef mér Fmnst það skapa spennu í myndina. A.I.: Nú eru til afstraktverk eftir þig. Hvernig verða þau til? G.Ö.: Þau byrja alltaf fígúratíft að einhverju leyti og verða svo afstrakt, — oft áður en ég verð þess var. Ég hugsa aðeins um það að gera gott málverk með miklum sprengikrafti, verk sem útlista einhvern persónuleg- an og tilíinningalegan sannleika. En ég held að alltaf megi finna Ieifar hins fígúratífa í þeim fáu afstrakt- verkum sem ég hef gert. A.I.: Er fólki heimilt að túlka þau verk eins og það vill? G.Ö.: Að sjálfsögðu. Ég veit ekki hvers vegna þau koma út á þann hátt sem þau gfcra og öðrum er því frjálst að spá í þau. En fólk verður að finna fyrir þeim, einhvern veginn. Annars er eitthvað að, í málverkinu eða áhorfanda. A.I.: Nú opnar þú þína fimmtu einkasýningu á fimm árum í næstu viku. Finnst þér að með henni sértu að stíga nýtt skref í málverkinu? G.Ö.: Ég hef alltaf unnið skref frá skrefi, ekki í stökkum. Samt finnst mér mikið hafa skeð í málverki mínu undanfarið ár. Þetta er allt að koma, hægt og sígandi.

x

Dagblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Dagblaðið
https://timarit.is/publication/260

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.