Ársrit Ræktunarfélags Norðurlands - 01.01.1972, Page 3
jurta í ræktunarlöndum okkar. Að vísu hafa að undan-
förnu verið gerðar nokkrar tilraunir með smára, einkum
með samanburð á smáraafbrigðum á tilraunastöðinni að
Korpu í Mosfellssveit og vera má, að á Sámsstöðum séu
einhverjar smáratilraunir ennþá gerðar, en um það er mér
ókunnugt.
Áður en ég hverf að því að ræða um belgjurtir alhliða,
vil ég víkja nokkuð að einu afbrigði af rauðsmára og ferli
þess. Veit þó ekki hvort það er þess virði, en það hefur þó
nokkra sérstöðu og ekki ófróðlegt að kynnast sögu þess og
því, sem fyrir því hefur verið haft. Verð ég þó að viður-
kenna, að dagsetningar og ártöl eru mér ekki fyllilega til-
tæk lengur svo treysta megi.
ÍSLENZKI RAUÐSMÁRINN.
Ef við hnýsumst í tilraunaskýrslurnar frá Korpu, rekumst
við þar á rauðsmárastofn einn, sem venjulega er aðeins
nefndur „íslenzkur rauðsmári," en þó stundum með skýr-
ingunni „frá Akureyri.“ Ekki minnist ég þess að hafa séð
þar neina greinargerð um smára þennan, sem varla er von,
því skýrslurnar eru mjög fáorðar, mest tölulegar niðurstöð-
ur, en með því að mér mun kunnari uppruni og ferill
þessa smára en flestum öðrum, þykir mér rétt að rekja
hann hér nokkuð. Þó vil ég fyrst aðeins víkja að því hvaða
gildi rauðsmári gæti haft fyrir ræktun okkar.
Rauðsmárinn er miklu stórvaxnari jurt en hvítsmárinn,
þar af leiðandi á hann auðveldara með að keppa við grasið,
gefur meiri uppskeru og er afkastameiri við köfnunarefnis-
öflunina. Hins vegar er hann ekki eins varanlegur og hvít-
smárinn, er erlendis ekki talinn endast meira en 3—4 ár í
slægjulandi og hentar því bezt í sáðskiptum, þar sem gras-
lendið er endurnýjað á fárra ára fresti. Fyrir okkar ræktun
væri það mikill ávinningur ef hægt væri að fá rauðsmára til
íblöndunar í grasslétturnar, er enzt gæti lengur en þetta.
Rauðsmárinn er viðkvæmur fyrir slætti á vissu vaxtarskeiði,