Ársrit Ræktunarfélags Norðurlands - 01.01.1986, Page 112
eða héraðsráðunautar heimsótt nær alla bæi á svæðinu til að
safna gögnum í þessa úttekt, sem á að reynast haldgóður
grunnur til að beina búskap á Norðurlandi í réttan farveg.
Jón Viðar mun skýra frá þessari úttekt hér á fundinum.
Fundir, ferðalög, ritstörf.
Vegna anna á rannsóknastofu hef ég lítið komist á fundi
hérlendis, fór t.d. ekki á aðalfund hjá neinu búnaðarsam-
bandi. Hins vegar fór ég þrívegis til Norðurlanda á vegum
norrænna samtaka á fundi tengda kalskemmdum. I október
fór ég til Bodö í N-Noregi á fund Norðurkollumanna um
grænfóðurrækt og endurræktun kalskemmdra túna. Flutti
ég þar erindi um niðurstöður tilrauna hér á Norðurlandi en
fundarmenn skoðuðu síðan þau vandamál sem við er að etja í
grasræktinni þarna en þau eru afar áþekk okkar vandamál-
um. Athygli mína vakti vél sem notuð er til að sá grasfræi í
svörð án endurræktunar og sáum við vel heppnaðar endur-
bætur túna með þessu tæki.
í mars fór ég síðan til fundar við norræna kalsérfræðinga í
Uppsölum í Svíþjóð, en við unnum að skipulagningu á ráð-
stefnu um kalskemmdir og kalrannsóknir sem haldin var í
júníbyrjun í Finnlandi. Flutti ég tvö erindi á þeirri ráðstefnu,
annað um svellkal, hitt um aðferðir til mælinga á svellþoli.
Ég sótti að venju ráðunautafund Bl og RALA í febrúar og
fór á fund núna í ágúst á Hvanneyri um leiðbeiningar i
jarðrækt og nautgriparækt.
Rannsóknastörf.
Heldur lítill tími hefur verið til rannsóknastarfa vegna
manneklunnar hjá Ræktunarfélaginu. Ég hef unnið við til-
raunaslátt með Jóhannesi Sigvaldasyni tilraunastjóra eftir
því sem hægt hefur verið. Ég hef nýtt þá aðstöðu sem upp er
komin á Möðruvöllum til þolprófunar á grösum og mældi
bæði vallarfoxgras, vallarsveifgras og vetrarkorn. Hef ég
einnig borið saman niðurstöður á vallarsveifgrasi sem annars
vegar hefur harðnað úti og er þolprófað í moldinni og hins
vegar harðnað inni og þolprófað í svellklumpi. Þá má geta
114