Lesbók Morgunblaðsins - 21.06.1997, Blaðsíða 13

Lesbók Morgunblaðsins - 21.06.1997, Blaðsíða 13
FRELSI SMÁSAGA EFTIR PÁL HERSTEINSSON ÓRÐUR hellti í bollann úr kaffikönnunni og lokaði henni. Hann sneri tappanum þangað til hann þóttist örugg- ur um að heitt loftið í henni slyppi ekki út. Hann þoldi ekki þegar kannan andvarp- aði með jöfnu millibili. Svo sat hann, beið og leit í kringum sig. Hún mundi bráðum koma og setjast á tappann. Húsflug- an treysti honum fullkomlega og var búin að vera gestur hans í nokkra daga. Honum þótti vænt um hana; hún var eina lifandi veran sem hann umgekkst allan liðlangan daginn. Síðan hann losnaði af endurhæfingar- deildinni lamaður fyrir neðan mitti fyrir sex mánuðum hafði hann sveiflast milli þess að vera einmana og alvarlega þunglyndur. Minn- ingin um það þegar hann lá kraminn undir bílflakinu og vissi að hann væri lamaður yf- irgaf hann ekki. Honum fannst einhver hugg- un í að hafa einhveija lifandi veru hjá sér. Jafnvel flugu. Hún dreifði huganum. Konan hans vann mikið. Það var full þörf á því núna, þegar hún var eina fyrirvinnan. Hún var farin út úr dyrunum snemma morg- uns og kom sjaldnast heim fyrr en um kvöld- matarleytið. Stundum þurfti hún að vinna á kvöldin og um helgar. Henni var að jafnaði meinilla við flugur en Þórðar vegna lét hún þessa í friði. Einu sinni á dag setti hann nokkur korn af sykri á tappann á kaffikönnunni og flugan kunni að meta það. Það var svo skrýtið með þessa flugu. Hann sá hana aldrei nema þegar hún sat á tappanum. En þar sat hún líka allt- af nema eitthvað truflaði. Þegar hann hellti úr könnunni flaug hún upp og fór eitthvað aftur fyrir hann. Hann var aldrei nógu snögg- ur að snúa sér við til þess að sjá hvert hún færi. Svo var hún komin aftur fyrr en varði. Hann grunaði að hún vildi sitja á tappanum af því að hann var nánast eini svarti hluturinn í íbúðinni og þar var hún næstum ósýnileg. Honum þótti vænt um þessa flugu en hann skildi hana ekki. Hún gat flogið um og farið hvert sem henni sýndist. Samt vildi hún bara sitja á þessum tappa. Hún var fijáls ferða sinna en samt fór hún ekki. Ef hann væri í hennar sporum léti hann ýmislegt eftir sér sem hann gæti ekki núna, bundinn við hjóla- stól það sem eftir væri ævinnar. Hvernig skildi heimurinn annars líta út frá þessu sjónarhorni, af tappanum? Þórður hallaði sér fram þangað til nefið snerti kaffikönnuna. Hann lokaði öðru auganu og reyndi að imynda sér að hann væri flugan á tappanum. Hann horfði í kringum sig af tappanum. Þarna var stofuglugginn. Svo ógnarlangt í burtu. Til vinstri var langveggurinn með bókaskápnum. Og enn lengra til vinstri var... Hvað var nú þetta? Risastórt nef! Og ofan við það? Auga! Stórt, blágrátt auga. Og annað auga, lokað, við hliðina. Þórður hrökk upp með andfælum. Flugan flaug upp af tappanum, hringsólaði einu sinni, tvisvar, yfir könnunni, og settist aftur. Þórð- ur sat sem í leiðslu góða stund. Svei mér þá. Hann hafði raunverulega horft á sjálfan sig af tappanum. Hann hafði séð sjálfan sig eins og flugan sá hann. Samt ekki alveg eins. Einhvers staðar hafði hann lesið að augu flug- unnar væru samsett úr mörg hundruð augum sem hvert um sig sæi mynd af umheiminum. Hann hafði ekki séð sig svoleiðis. Nei, frekar eins og allan í smáum doppum, líkt og ljós- mynd tekin með grófri filmu, næstum eins og málverk eftir Van Gogh. Þetta var einkennileg lífsreynsla. Þórður varð andvaka um nóttina af að hugsa um þetta. Það var ekki fyrr en hann var búinn að ákveða að endurtaka tilraunina daginn eftir sem hann loksins sofnaði. Um leið og eiginkonan var farin til vinnu rúllaði hann stólnum yfir að borðinu þar sem kaffikannan stóð enn frá því í gær. Flugan var á sínum stað eins og ævinlega. Þórður hallaði sér ofurvarlega í áttina að henni uns nefbroddurinn nam við könnuna. Hann lokaði öðru auganu og horfði á umhverfið af tappan- um. Hann sá stofugluggann. Svo leit hann til vinstri, á bókaskápinn. Hann var allur doppóttur. Hann leit enn lengra til vinstri. Þarna var hann! Hann horfði á sjálfan sig ofan af kaffikönnunni. Mikið skelfilega var hann ljótur frá þessu sjónarhorni. Allir þess- ir gömlu fílapenslar á nefinu. Hann hag- ræddi vængjunum með afturfótunum og strauk sér svo um höfuð og fálmara með hægri framfæti. Hann gekk nokkur skref út að brún tapp- ans. Þótt hann væri búinn að vera lamaður mánuðum saman reyndist það ekkert mál að ganga. Það var furðu auðvelt að stjórna fótunum þótt þeir væru sex talsins. Allt í einu var hann floginn af stað. Hann hafði ekki einu sinni ætlað að fljúga. Hann hafði bara sagt við sjálfan sig: „Gaman væri að gá hvort skallinn á mér hefur stækkað,“ og þá var hann kominn á loft, sló vængjunum inörg hundruð sinnum á sekúndu án nokk- urra vandkvæða og sveif yfir höfðinu á sjálf- um sér. Skallinn hafði heldur betur stækkað. Hann flaug um allt herbergið. Hann flaug um alla íbúðina. Svo settist hann aftur á tappann. Hann horfði á augað á sjálfum sér og var að velta fyrir sér hvort það yrði erfítt að verða hann sjálfur á ný og þá, skyndilega var hann aftur orðinn lamaður maður í hjóla- stól. En hann var dauðþreyttur. Aðallega í bakinu. Hann var næstum þvi búinn að segja „í vængjunum" þegar hann útskýrði það fyr- ir konu sinni um kvöldið hvers vegna hann vildi fara snemma að sofa. Næstu daga breytti Þórður sér í flugu á hveijum degi. Hann lét sér ekki nægja að fljúga innanhúss heldur skellti sér út um litla rifu á eldhúsglugganum og flaug um allt hverfið. Hann naut þessa nýfengna frelsis til fullnustu. Skemmtilegast var að setjast í grennd við fólk og hlusta á samtölin án þess að það grunaði nokkurn skapaðan hlut. Stundum flaug hann hátt í loft upp, sérstak- lega í góðu veðri þegar sólin náði að verma kroppinn vel, og horfði á umhverfið frá allt öðru sjónarhorni en hann var vanur. En það fylgdu þessu líka hættur. í tvígang gat hann með naumindum vikið sér undan árásum ill- kvittinna skógarþrasta. Þegar hann varð svangur átti hann ekki í neinum erfiðleikum með að finna sér mat. Hann þurfti yfirleitt ekki að leita lengi í eða við öskutunnur eða sjoppur til þess að finna eitthvað ætilegt. Smám saman var hann farinn að vera í burtu allan daginn. Hann breytti sér í flugu um leið og konan hans fór en passaði sig bara á að vera kominn heim í tæka tíð áður en hún kæmi heim. Konan hans hafði áhyggj- ur af því að hann borðaði ekkert. Allan dag- inn snerti hann ekki matinn sem hún skildi eftir handa honum. Aftur á móti var hann alveg hættur að kvarta yfir fötlun sinni sem var mikil framför. Þórður hafði ekki áhyggj- ur af því þótt hann borðaði lítið. Hann var svo matgrannur á daginn. Örlítill sykur eða blaut brauðmylsna var nóg fyrir hann. Hann var venjulega saddur þegar konan bar fram kvöldverðinn en reyndi að neyða nokkrum bitum ofan í sig til þess að hún hefði ekki eins miklar áhyggjur. Svo var það einn daginn þegar hann flaug óvenjuseint inn um rifuna á eldhúsglugganum að hann heyrði mannamál í stofunni. Hann flýtti sér þangað. Konan hans sat í sófanum og grúfði andlitið í höndum sér. Systir henn- ar sat hjá henni og hélt utan um hana. Þórð- ur tók stefnuna á kaffikönnuna og settist á tappann. En það var eitthvað að. Það var ekkert nef upp við könnuna. Ekkert blágrátt auga sem nam við brún tappans. Hann var rétt að átta sig á þessu þegar hann heyrði konuna sína tala: „Ég hef aldrei séð neitt eins óhugnanlegt. Þarna sat hann, hafði hall- að sér í áttina að kaffikönnunni og dregið annað augað í pung en hitt augað var upp- glennt. Það var svo skrýtinn glampi í því. Eg ætlaði ekki að trúa því að hann væri > dáinn en það var ekki um að villast. Hann var alveg stirðnaður og kaldur. En mikið var hann léttur. Næstum eins og fluga. Ég held að hann hafi svelt sig til bana.“ Þórður flaug um alla íbúðina en fann sjálf- an sig hvergi. Hann hafði verið fjarlægður. „Ég er ekki dáinn, ég er ekki dáinn,“ reyndi hann að kalla og flaug allt í kringum systurn- ar. Hann reyndi að vekja á sér athygli og kalla en það virtist í'fyrstu vera alveg árang- urslaust. Svo leit konan hans upp. Hún horfði á hann eins og hún þekkti hann. Hafði hún heyrt köllin? Hann settist á öxlina á henni og reyndi að kalla enn hærra. „Þessi helvítis s fluga,“ sagði konan, slæmdi hendinni á öxlina á sér og kramdi fluguna. Flugan datt í gólfið. Hún reyndi að skríða í burtu með framfótunum því hún var lömuð í vængjum og afturfótum. LESBÓK MORGUNBLAÐSINS ~ MENNING/LISTIR 21. JÚNÍ 1997 1 3

x

Lesbók Morgunblaðsins

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lesbók Morgunblaðsins
https://timarit.is/publication/288

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.