Lesbók Morgunblaðsins - 19.12.1998, Síða 20
Wahnfried, og komast að því að það opnast best
á öftustu síðunum, þar sem íslenska orðasafnið
er að fínna. Það segir ótvíræða sögu.
Áhrif Simrocks - stwðlar og stíll
Wagner hafði samið textann að Siegfrieds
Tod veturinn 1848-9. Síðan lá verkið í salti þar
til sumarið 1851. Þá tók Wagner það skyndilega
til frekari úrvinnslu, gerði efnisútdrátt að nýrri
óperu og um sumarið semur hann textann að
Der junge Siegfried, og fyrstu drög að Rínar-
gullinu og Valkyrjunni um haustið. Næsta árið
lýkur hann síðan textanum að verkinu.
Hvað skyldi hafa komið honum að verki og
teymt hann að fyrri þáttum sagnarinnar? Eitt
er öllu öðru líklegra. Snemma árs 1851 kom út
hin mikla Edduþýðing Karls Simrock, bæði
Eddukvæðin og Snorra-Edda, á einni bók, með
umtalsverðu efni sem ekki hafði legið á lausu
áður, svo sem Svipdagsmálum og Lokasennu.
Það er ekki síst Lokasenna sem virðist hafa
lokið upp ýmsum dyrum. Ekki er unnt að hugsa
sér persónu Loka í Rínargullinu nema í ljósi
þess kvæðis, en áhrifin ná víðar og dýpra. Af-
staðan til goðanna breytist mjög frá því sem
var í Siegfrieds Tod. Viðhorfið er gagnrýnna og
neikvæðara, og brestir þeirra eru dregnir skýr-
ar fram. Afstaða goðanna til Loka er líka
greinilega mótuð af Lokasennu.
Utgáfa Simrocks gerði líka mörg Eddu-
kvæðin aðgengilegri, enda eru áhrif þeirra
mun rækilegri í þeim texta, sem síðan var sam-
inn, heldur en var í frumgerðinni að Siegfrieds
Tod. Það gerist á margan veg. Ekki síst mun-
aði hér um það að kvæðaþýðing Simrocks er á
góðu og kjarnyrtu máli og þýðingin á sumum
mikilvægustu kvæðunum er mjög þokkalega
stuðluð.
Það er nú á síðustu árum að augu fræði-
manna hafa beinst að áhrifum Simrocks á Nifl-
ungahringinn. Það er skammt um liðið síðan
mikilvægar upplýsingar fengust um bókakost
Wagners og lesefni í Dresden, og enn er ekki
fullunnið úr þeim upplýsingum. Því miður hefur
víst enginn náð enn að rannsaka stílræn áhrif
Simrocks á texta Hringsins. Við fljóta yfirsýn
virðast þau vera umtalsverð. Tungutak verður
markvissara og knappara, braglínur styttri og
ótvíræð áhrif fornyrðislags og fleiri bragar-
hátta. Ekki síst verður stuðlasetningin ekki
lengur skraut, heldur hluti af hrynjandi textans
og þar með hluti af tónlistinni sem við hann var
samin. Það er reyndar auðvelt að sjá með nokk-
urri nákvæmni hvað af textanum í Ragnarökum
er úr frumgerðinni, Siegfrieds Tod, og hvað er
yngra, bara með því að leggja mat á stuðlasetn-
inguna og bragvísi höfundarins.
I Zurich kynntist Wagner líka einum helsta
Eddufræðingi þeirra tíma, Ludwig Ettmuller,
sem meðal annars hafði gefið út Völuspá með
skýringum, þýðingu og orðalykli, eins og fyrr
getur, og einnig fyrstu góðu þýðinguna á seinni
hetjukvæðum Eddu. Wagner kallaði hann
„Eddamiiiler", og þarf því ekki að efa að sam-
ræður þeirra hafa verið mjög á því sviði. Það
hefur verið háttur sumra eldri fræðimanna, að
gera mikið úr áhrifum hans á smíði Hringsins,
en iíklegt er að lesefni Wagners hafi valdið enn
meiru. En ekki hefur honum komið illa að mega
á ráð þess manns leita.
Það var fyrst ætlun Wagners sumarið 1851
að prjóna gamanóperu um æsku Sigurðar
Fáfnisbana framan við Siegfrieds Tod. Hún átti
að heita „Der junge Siegfried", og heitið sniðið
eftir Þiðrekssögu, þar sem hann er nefndur
Sigurður sveinn.
Wagner leit á frumgerð verksins, Der junge
Siegfried, sem hetjulega gamanóperu. Síðan
bættist við meira efni framan við, harmleikur
Valkyrjunnar og goðamál Rínargullsins. Þar
með jókst alvaran í málum.
Harmleilcur Óðins
Sú persóna sem flytur alvöruna inn í verkið
er Óðinn sjálfur. Wagner hugðist láta Óðin í
dulargervi ýta fram málum á tveimur s„öðum í
óperunni, og þó fyrst og fremst leggja á ráðin
um smíði sverðsins. Þar með tók hann fljótlega
að teygja sig Iengra í að skýra tilvist Óðins og
áhuga hans á Sigurði. Hann samdi textann að
Der junge Siegfried í júní 1851 og gat þó ekki
rifið sig frá efninu. Um haustið skrifar hann
vini sínum í Dresden, Theodor Uhlig, og biður
hann um að útvega sér Völsungasögu. Þá hafði
hann þegar, í fyrra bréfi til Uhligs, greint frá
hugmynd sinni um að stækka verkið í þrjár full-
burða óperur og inngangsverk að auki. Nú
snerist áhugi hans allur að Óðni, kvöl hans og
vanda, bölvun hringsins og örlögum heims.
Gamanóperan varð kveikja að myrku örlaga-
verki.
Upphaflega verkið er hugsað sem harmleikur
Sigurðar. Hann er andlag þess harmleiks, ef
svo má að orði komast. Það er hins vegar Bryn-
hildur sem er fremjandi harmleiksins og það er
hún áfram, þegar skiptir um harmsögu. En val-
kyrjan Brynhildur sem við þekkjum úr Nifl-
ungahringnum er allt önnur en sú hefðbundna
persóna sem lýst er í textanum að Siegfrieds
Tod. Nú var orðið meira í húfi, grundvallarátök
ástar og valds, örlög alls heims. Fyrri óperum-
ar voru ekki bara prjónaðar framan við. Þetta
var orðið nýtt verk með nýjum áherslum.
í hinu nýja verki er það harmleikur Óðins
SVIÐSETNINGAR á Wagner-hátíðinni í Bayreuth hafa á seinni áratugum oft verið nýstárlegar og umdeildar. Þetta er sviðsmyndin í lok Val-
kyrjunnar í nýjustu uppfærslunni, sem oftast er kennd við hönnuðinn Rosalie.
MÁLARINN Julius Schnorr von Carolsfeld gerði flokk mál-
verka og myndskreytinga við Niflungaljóðin þýsku, og það er
sérkennilegt að þessar myndir virðast hafa haft meiri áhrif á
Wagner en texti Ijóðanna. Þessi mynd sýnir þann atburð er
Hagen vegur Siegfried í veiðiför
sem er aðalatriðið, harmleikur stjórnmála-
mannsins, sem reynir að ráða ráðum veraldar,
en dregur að lokum allt niður með sér. Gegn
þeirri tvöfeldni rís Brynhildur, dóttir hans, og
öllum þremur meginhlutum Hringsins lýkur
með sigri hennar á mismunandi vegu. I þessu
felst um leið endanlegur ósigur Óðins og þeirr-
ar heimsmyndar sem hann reyndi að byggja
upp. I Valkyrjunni og Sigurði snúast öll ráð
hans og ætlan um að sjá til að fram komi sú
hetja sem leysi goðin og veröldina undan álög-
um hringsins og komi gullinu aftur í hendur
Rínarmeyjum. Hið sérkennilega er að þegar
hetjan kemur að lokum fram reynist hún önnur
en ætluð var, bæði af röngum stofni og af röngu
kynferði. Það er eins og Wagner hafi sjálfur
ekki áttað sig á að það er Brynhildur sem reyn-
ist hin frjálsa hetja sem Óðinn leitar að til að
færa aftur hringinn og frelsa heiminn.
Sumir hafa talið Óðinsmynd Niflungahrings-
ins vera undir áhrifum frá kenningum Arthurs
Schopenhauers, en það fær ekki staðist.
Wagner kynntist verkum Schopenhauers fyrst
1854, meir en ári eftir að hann lauk við að
semja textann að Hringnum. Það er hins vegar
ekki að sjá að hann hafi þurft að endurskoða
persónuna eftir þennan lestur. Þar stendur allt
áfram sem áður. Því er nærtækara að halda að
viðhorfin sem þegar voru komin fram í Hringn-
um, og reyndar öðrum verkum, hafi gert hann
móttækilegri fyrir hugmyndum Schopen-
hauers. Það er full ástæða til að taka til vitnis
orð Wagners sjálfs í þessu efni. Hann segir svo
um lestur sinn á Die Welt als Wille und Ver-
stellung eftir Schopenhauer: „Ég fann, mér til
undrunar, að það sem hreif mig í kenningu
Schopenhauers hafði fyrir löngu verið mér
meðvitað í skáldskap mínum. Nú loksins skildi
ég Óðinsmynd mína.‘‘ Kenning Schopenhauers
var honum með öðrum orðum eins og fram-
setning á því sem hann hafði sjálfur skynjað og
tjáð fyrr.
Strákurinn sem kunni
ekki að hræðast
Það er full þörf að ítreka hér að texti verks-
ins var saminn aftur á bak, ef svo má að orði
komast, fyrst Siegfrieds Tod, sem er frumgerð-
in að Ragnarökum, næst Sig-
urður, þá Valkyrjan og loksins
inngangsverkið, Rínargullið.
Að lokum var texti Ragnaraka
endurskoðaður og samhæfður.
Efnisdrættir þeir í Sigurði
er varða uppvöxt hans fara í
flestu eftir Þiðrekssögu. Hann
elst upp hjá Mími smið og er
hinn ódælasti. - Hér fær
Wagner eina snjöllustu hug-
mynd sína. Hann dregur inn í
mynd Sigurðar drætti úr þjóð-
sögunni um strákinn sem
kunni ekki að hræðast, og eins
og í þeirri sögu er það kona
sem nær að valda honum ótta í
lokin, þegar hann vekur Bryn-
hildi á fjallinu.
I heimildum Wagners segir
á næsta mismunandi veg frá
ýmsum efnisþáttum, og þær
gefa okkur harla ólíka mynd af
eðli persónanna. I óperunni er
farið næst frásögu Þiðreks-
sögu af uppvexti Sigurðar.
Wagner leitar hins vegar
fanga víðar í Þiðrekssögu og
t.d. dregur sverðssmíðin í óp-
erunni í vissum atriðum mjög
dám af sögunni um það er Velent smíðaði
sverðið Mímung.
Þrátt fyrir þessi aðföng úr Þiðreksssögu er
Siegfried mesta Eddukvæðaverkið í Hringnum.
Gátuleikurinn í fyrsta þætti er fyrst og fremst
sniðinn eftir Vafþrúðnismálum, og Óðinn vinn-
ur leikinn með því að spyrja að lokum þess sem
andstæðingurinn á ekkert svar við. Þarna má
reyndar þekkja minni úr fleiri Eddukvæðum,
ekki síst Alvísmálum, en sumar spurningarnar
eru reyndar beinlínis úr þeim komnar. Frá-
sögnin um Gestumblinda og gátur hans í
Hervararsögu og Heiðreks er auðvitað af sama
tagi.
Seinni hluti annars þáttar fylgir í mörgum
efnum Fáfnismálum, bæði um orðræður Sig-
urðar og Fáfnis, og eins um það sem Sigurður
nemur af máli fuglanna. Og eins og í Fáfnismál-
um lýkur þættinum með því að fuglinn vísar
Sigurði á valkyrjuna sem sefur álagasvefni á
fjallinu. Upphaf þriðja þáttar, þegar Óðinn vek-
ur upp völuna, er síðan spunnið saman úr Veg-
tamskviðu (Baldurs draumum) og sjálfri Völu-
spá. Þannig fer bæði upphaf atriðisins, þegar
völvan vaknar, og lokin, þegar hún þekkir Óðin,
mjög nærri fyrirmyndinni í Vegtamskviðu. Og
þá er síðasta og glæsilegasta tilvísunin í Eddu-
kvæðin eftir, upphaf Sigurdrífumála í þriðja
þætti, þegar valkyrjan er vakin og fagnar sól-
björtum degi.
Vera má að sumum þyki tónlistin í Sigurði,
einkum framan af, Iakari en í Valkyrjunni. Þá
má að vísu kenna efninu að nokkru um. Atburð-
irnir eru hér óneitanlega á lægra tilfinninga-
sviði. En allt um það var Wagner sjálfur ekki
ánægður með framvindu mála, þegar hér var
komið. Því lagði hann verkið til hliðar um ára-
fjöld, að loknum öðrum þætti, og sneri sér að
öðru. Þegar hann tók til við það aftur hafði
hann bæði lokið Tristan og Isold og Meistara-
söngvurunum. Að auki hafði hann endurskoðað
Tannhauser og að baki var óperuhneykslið
mikla við frumflutning endurskoðuðu gerðar-
innar í París árið 1861.
Því þarf engum að koma á óvart að hann
kemur tvíefldur til verka er hann semur þriðja
þáttinn, átta árum síðar. Þegar í forspilinu er
ljóst að tónmál Wagners er orðið viðameira,
samofnara og flóknara en áður. í atriðinu milli
Óðins og völvunnar, sem næst kemur á eftir,
nær verkið á margan veg dramatískum hátindi
sínum. Að minnsta kosti rís hér hæst harmleik-
urinn um Óðin og um bölvun guðanna. Eftir
þetta hefur Óðinn það eitt hlutverk eftir að
prófa hugdirfð Sigurðar og vita hvort hann sé
þess verðugur að vaða eldinn á fjallinu. Óðinn
er fulltrúi fortíðar og fyrri misgerða. Hann
verður að víkja til hliðar og vona að hin nýja
kynslóð, Sigurður og Brynhildur, séu þess um-
komin að leysa veröldina undan bölvun hrings-
ins.
Hið einkennilega er að það eru fávísi Sigurð-
ar og sakleysi sem veita honum sjálfum nokkra
vernd fyrir bölvun hringsins. En við alla aðra
leikur hringurinn hinn myrka leik sinn og inn í
þann hrunadans dregst Sigurður með fyrir
þeirra verk.
Það er ýmislegt sem breytist í tónlistinni eft-
ir átta ára hlé. Sumt af því á sér rætur í tilurð-
arsögu textans og þeim viðhorfsbreytingum
sem urðu með Wagner á þeim árum. Eins og
áður getur, hafði Wagner öðlast sífellt meira
vald yfir stuðlasetningu og annarri braglist, eft-
ir því sem fram leið samningu textans. Þannig
er stuðlasetning mun skárri í fyrri óperunum.
Þar ofstuðlar Wagner að vísu, og margt fleira
kann að særa brageyra sumra Islendinga, en þó
leysir hann sumar bragþrautir mjög skemmti-
lega. Tónlistin er síðan samin með fullu tilliti til
stuðlasetningar. Stuðlarnir, og áherslur textans
sem þeim fylgja, eru augljóslega hluti af hrynj-
andi verksins. Því miður er þessi þáttur lokuð
bók fyrir marga flytjendur Hringsins, bæði
söngvara og stjórnendur, og mætti í því sam-
hengi nefna stór nöfn og fræg.
Það væri hægt að fylla í stærstu eyðuna í
Wagner-fræðum, ef íslenskur tónlistarmaður
með gott brageyra tæki að sér að greina
bragliði og rétta stuðlasetningu textans, með
tilliti til laglínu söngsins og tónlistarinnar í
heild. Þarna er að mörgu að gá, því Wagner
beitir mörgum brögðum. Sums staðar, ekki síst
í Valkyrjunni, er t.d. að finna aukastuðlun, sem
gengur þvert á meginstuðlunina, en á samt sinn
þátt í laglínu og hrynjandi.
Þegar kemur fram í þriðja þátt Sigurðar, er
víða komið í eldri gerð textans með ófullkomn-
ari stuðlun. Því tekur Wagner að draga úr vægi
stuðlasetningar í tónlistinni, og þó enn frekar í
lokaverki Hringsins, Ragnarökum eða Götter-
dammerung.
Okkur er tamt að líta á Richard Wagner sem
fulltrúa hinna stóru forma í tónlist, en það er þó
ekki alls kostar rétt. Að vísu eru óperur hans
með þeim lengstu og viðamestu sem samdar
hafa verið, en framan af mega þær heita sam-
settar úr frekar smáu brotasilfri. Notkun
Wagners á leiðsögustefjum, og kunnátta hans í
að raða þeim saman og spyrða, nær hámarki í
fyrri hluta Hringsins, og ekki Iaust við að hann
sé kominn í þrot með nýja og frjóa túlkun þeg-
ar kemur fram í óperuna um Sigurð. Hléið
langa var honum því vafalaust nauðsyn. Þegar
hann hefst handa á ný, átta árum síðar, er það i
nýr og reyndari maður sem sest að verki. Hann 1
hafði á þeim árum lært að vinna tónlistina sam-
an í stærri heildir, ekki síst þegar hann fékkst
við Tristan og Isold. Það kveður því við nýjan
tón í forspilinu að þriðja þætti, sem myndar
eina og sterka sinfóníska heild, en um leið er
stefjunum sem áður höfðu birst, fléttað saman í
flókinn vef, þar sem sagan er nú sögð með dýpt
sem orð ein fá varla náð, því tónlistin nær að
kalla fram minnis- og hugrenningatengsl hrað-
ar og víðar en gerist í orðum texta einum sam-
an.
20 LESBÓK MORGUNBLAÐSINS ~ MENNING/LISTIR 19. DESEMBER 1998