Morgunblaðið - 08.02.2001, Side 45
MINNINGAR
MORGUNBLAÐIÐ FIMMTUDAGUR 8. FEBRÚAR 2001 45
✝ Snjólaug fæddistá Knappsstöðum í
Stíflu 1. september
1911. Hún lést á
Fjórðungssjúkrahús-
inu á Akureyri 26.
janúar síðastliðinn.
Foreldrar hennar
voru þau Hjörleifur
Baldvin Jóhannsson,
bóndi þar, síðast í
Gullbringu í Svarfað-
ardal, f. 22. október
1870, á Ingvörum, d.
26. maí á Karlsá
1949, og Jóhanna
Rósa Jóhannsdóttir,
f. 18. október 1871 á Þverá í
Skíðadal, d. 3. janúar 1944 á Dal-
vík. Systkini Snjólaugar voru:
Stefanía Sigurbjörg, f. 10. mars
1898; Jóhanna Sesselja, f. 19. nóv-
ember 1902; Anna Kristín, f. 12.
maí 1904; Hjörleifur Friðvin, f. 21.
ágúst 1905; Freyja, f. 18. október
1906; Gestur, f. 21. nóvember
1908; Sigurjón Hólm, f. 13. maí
1910; Baldvina Guðlaug, f. 15.
mars 1915. Öll eru þau látin.
Foreldrar Snjólaugar misstu
fyrstu fimm börn sín ung og síðar
tvö er þau voru komin á legg.
Snjólaug giftist 7.
október 1933 Birni
Júlíussyni frá Syðra-
Garðshorni í Svarf-
aðardal, f. 14. apríl
1903, d. 26. febrúar
1985. Börn Snjó-
laugar og Björns
eru: Jóhanna María,
f. 5.10. 1934, giftist
Jóni Birni Vilhjálms-
syni, þau skildu;
Hjörleifur Baldvin,
f. 28.6. 1937, eigin-
kona Björk Guð-
mundsdóttir; Rósa,
f. 11.10. 1938, eigin-
maður Ármann Sigurjónsson; Sig-
rún, f. 23.8. 1940, eiginmaður Val-
geir Þ. Stefánsson; Júlíus Jón, f.
19.6. 1942, eiginkona Lisbeth
Grönvald; Jófríður Kristín, f.
29.10. 1944, eiginmaður Kristinn
Helgason; Daníel Björn, f. 25.7.
1946, eiginkona Guðný Guðlaugs-
dóttir; Árni, f. 5.12. 1951, eigin-
kona Þórey Agnarsdóttir, og
Ólafur Örn, f. 5.7. 1953, eiginkona
Lilja Gunnarsdóttir.
Útför Snjólaugar fer fram frá
Akureyrarkirkju í dag og hefst at-
höfnin klukkan 13.30.
Eitt það besta sem nokkur getur
átt í lífinu er góð móðir. Við systkinin
vorum svo lánsöm að eiga afbragðs-
góða móður sem við kveðjum í dag,
full þakklætis fyrir allt það sem hún
gaf okkur.
Mamma fæddist á Knappsstöðum í
Fljótum í Skagafirði og ólst upp í
stórum systkinahópi. Þau nutu ástar
og umhyggju góðra foreldra, sem
bjuggu þar góðu búi og var afi með-
hjálpari í kirkjunni á Knappsstöðum.
Örlögin höguðu því þó þannig að þeg-
ar hún var átta ára gömul varð hún að
fara til vandalausra í Svarfaðardal
vegna veikinda í fjölskyldunni. Í
fyrstu leið henni ekki vel, en ári síðar
tóku hjónin á Tjörn, þau Þórarinn
Eldjárn og Sigrún Sigurhjartardótt-
ir, hana til sín og hjá þeim bjó hún
fram yfir tvítugt. Á Tjörn undi hún
hag sínum vel og átti mjög góðar
minningar þaðan. Um tvítugsaldur
fór mamma á húsmæðraskólann á
Ísafirði. Þau pabbi voru þá trúlofuð
og sendu hvort öðru „ástarkort“. Það
voru bleik eða blálituð kort með mynd
af ungu pari. Þessi kort fannst okkur
krökkunum mjög spennandi að stel-
ast til að skoða í kistlinum hans
pabba.
Minningarnar streyma fram þegar
við sitjum saman og hugsum til
mömmu. Aldrei hækkaði hún röddina
til að skamma okkur. Hins vegar gat
hún horft á okkur þannig að ekki fór á
milli mála að henni mislíkaði – og það
var slæmt. Hún hafði mikla unun af
söng. Meðal annars söng hún frá
þrettán ára aldri í kirkjukórnum á
Tjörn. Oft þegar hún var heima og
dittaði að flíkum, hafði hún okkur í
kringum sig og lét okkur syngja sam-
an, alltaf tvíraddað Hún kenndi okkur
jafnframt textana. Stundum veitti
hún verðlaun; Kremkex ef við lærðum
fljótt, annars mjólkurkex. Á heimili
okkar í Helgamagrastræti 3 á Akur-
eyri var alltaf nóg pláss þótt börnin
yrðu níu. Við vorum öll meira og
minna með leikfélagana í heimsókn
daginn út og inn. Ættingjar og vinir
úr Dalnum komu í mat og kaffi og
gistu gjarnan líka. Þarna átti vel við
að þar sem er hjartarúm, þar er hús-
rúm. Okkur fannst alltaf að við vær-
um rík, því mamma sagði að þeir sem
ættu mörg börn væru ríkir.
Árið 1958 fluttu foreldrar okkar í
Laugahlíð í Svarfaðardal með fimm
yngstu börnin. Mamma var þá orðin
heilsutæp og gat frá upphafi lítið
sinnt útistörfum. Hún naut þó ver-
unnar þar vel að mörgu leyti. Hún
eignaðist nýja vini og endurnýjaði
kunningsskap við aðra. Oft var hún þó
rúmföst og þá las hún yfirleitt ljóð sér
til dægrastyttingar. Ósjaldan sat ég á
gólfinu fyrir framan rúmið hennar og
las fyrir hana eða hún fyrir mig. Aftur
fluttu mamma og pabbi til Akureyrar
1968 og voru þá bæði orðin heilsuveil
og því varð það að þau fluttu á dval-
arheimilið Hlíð árið 1975 er hún var
aðeins 64 ára gömul. Þar áttu þau
pabbi þó nokkur góð ár saman, en
hann lést 1985. Heilsu mömmu hrak-
aði hratt eftir það svo það eru orðin
mörg árin sem hún er búin að vera á
sjúkradeildinni á Hlíð. Lán foreldra
okkar var hve gott starfsfólk hefur
löngum verið á þessu heimili. Við öll
fjölskyldan þökkum því góða fólki af
heilum hug fyrir hlýju og vin-
gjarnlegheit í þeirra garð og okkar
líka.
Mamma er farin til pabba, löngu
tilbúin til brottfarar. Við sem eftir er-
um eigum sjóð af yndislegum minn-
ingum um góða foreldra og munum
ylja okkur við þær minningar um
ókomna tíð.
Fyrir hönd systkinanna,
Jófríður Björnsdóttir.
Það er komið að því að kveðja hana
Snjóku ömmu mína. Þótt lengi hafi
verið vitað að það færi að koma að
þeirri stund er það samt áfall þegar
það gerist. Maður hefur svo sem kvatt
hana ömmu nokkrum sinnum. Í hvert
sinn er ég hef komið norður á Ak-
ureyri að heimsækja ættingjana hef
ég farið á hverjum degi til ömmu suð-
ur á Elló eins og við köllum dvalar-
heimilið Hlíð á Akureyri. Það hefur
verið heimilið hennar ömmu í aldar-
fjórðung, en hún og Björn afi fóru
þangað saman. Afi lést árið 1985. Og
daginn sem ég fór aftur suður var hún
oft kvödd eins og þetta væri í síðasta
sinn er ég sæi hana. Það eru nú orðin
nokkuð mörg ár síðan við gátum talað
og hlegið saman. Það hefur stundum
verið erfitt að vera hjá henni og hafa
ekki þetta samband sem áður var.
Lífið var henni ekki auðvelt, hún fékk
Akureyrarveikina þegar hún var 36
ára gömul. Þá átti hún sjö börn og átti
eftir að eignast tvö í viðbót.
Amma var mikið fyrir handavinnu,
hún prjónaði sokka og vettlinga og
saumaði út margar listafallegar
myndir. Ég er mjög ánægð með að
eiga nokkur verk eftir hana.
Ég minnist hennar helst eins og
hún var þegar ég var lítil hjá henni og
afa í Laugahlíð í Svarfaðardalnum.
Síðast í dag, daginn sem hún dó, var
ég að segja frá því hve hamingjusöm
ég var þar hjá henni.
Ég bý enn að þessum góða tíma
sem við áttum saman þar. Meðal ann-
ars suður í skógarlundi, sem þá var
fyrir mér eins og frumskógur og ég
hélt að þar væru tígrisdýr. Við tvær
fórum þangað í skógarferð með nesti
og hún sagði mér sögur og ævintýri.
Amma var mikið fyrir tónlist og söng
oft fyrir mig. Ég var fyrsta barna-
barnið hennar og naut þess innilega.
Það var ekki alltaf auðvelt fyrir tvo
yngstu syni hennar, sem voru aðeins
eldri en ég. Ég sprangaði um eins og
prinsessa en þeir þurftu að vinna
verkin á bænum með honum afa.
Þetta voru góðir tímar fyrir mig og
ég minnist þeirra með þakklæti og
hlýhug.
Ásta Björnsdóttir.
Hún Snjólaug amma er dáin. Södd
lífdaga enda á 90. aldursári.
Maðurinn hennar, Björn Júlíusson,
pípulagningameistari, dó fyrir tæpum
16 árum síðan.
Eignuðust þau níu börn sem þau
komu upp með miklum myndarskap
og skilst mér að það hafi nú ekki verið
alveg fyrirhafnarlaust!
Er þau hættu nokkura ára búskap
að Laugahlíð í Svarfaðardal fluttu
þau aftur til Akureyrar, þar sem þau
bjuggu áður.
Í Aðalstrætinu var stórkostlegt að
vera og mikið fjör að gista hjá afa og
ömmu. Bak við hús voru holt og hæðir
sem í augum barna voru hin mestu
ævintýrafjöll.
Skúrar, sem í minningunni voru
lengst uppi í fjalli, hafa þó sennilega
verið örstutt frá húsinu. Þar léku
barnabörnin sér og fóru í „hættuleg-
ar“ fjallgöngur upp og niður hólana.
Þetta voru yndislegar stundir þó
amma og afi væru svolítið mikið gefin
fyrir hafragraut sem átti að vera allra
meina bót.
Hún Snjólaug amma var svona
„ekta“ amma. Þægileg og hlý, ekki
ströng enda þurfti hún þess ekki.
Börn voru bara ekkert með mikinn
galsagang hjá henni, það var svona
rólegt og notalegt yfirbragð á öllu.
Maður átti að bera virðingu fyrir hlut-
unum, allt lifnaði við hjá henni. T.d.
átti ekki að henda fötunum í einn bing
þegar maður fór að hátta, því „ekki
gat fötunum liðið vel, svona í keng alla
nóttina“. Upp frá því voru fötin brotin
fallega saman á hverju kvöldi.
Síðar fluttu þau hjónin í Kotárgerði
og þaðan komu ullarsokkar og -vett-
lingar á færibandi ásamt útsaums-
myndum. Amma var listakona við út-
saum og mikil smekkmanneskja í
þeim efnum. Milli þess sem saumað
var út og flíkur prjónaðar á barna-
börnin spilaði hún á orgelið sitt, lista-
vel eins og annað sem hún gerði. Er
heilsu afa hrakaði fluttust þau á elli-
heimilið, eða Dvalarheimilið Hlíð, þar
sem amma hafði nú búið til margra
ára.
Með þakklæti og virðingu kveð ég
Snjólaugu ömmu sem alla tíð lét hag
okkar barnabarna – og okkar barna
einnig – sig varða.
Ég trúi að endurfundir þeirra afa
hafi verið hamingjustund og í samein-
ingu muni þau halda verndarvæng yf-
ir okkur afkomendum sínum.
Arnar.
Amma mín og nafna, Snjólaug
Hjörleifsdóttir, er látin. Hún hafði
lengi mátt stríða við veikindi og verið
við rúmið um alllangt skeið.
Margar og góðar bernskuminning-
ar á ég um ömmu, þær fyrstu frá því í
Laugahlíð. Amma stóð við eldavélina,
bakaraofninn var opinn og nýfætt
lamb lá á teppi í ofninum. Lambið var
líflítið en braggaðist fljótt eftir að
amma var búin að hafa það smástund
í ofninum og fara um það hlýjum
höndum. Amma var umhyggjusöm,
mátti ekkert aumt sjá og hugsaði allt-
af fallega til allra.
Frá sjö ára aldri fór ég reglulega til
ömmu og afa og var hjá þeim í nokkra
daga. Mér er það minnisstætt, þegar
ég heimsótti ömmu og afa eftir að þau
fluttu til Akureyrar. Ég svaf þá í
sama herbergi og þau og rúmið sem
ég svaf í var við hliðina á rúmi ömmu,
svo við gátum haldist í hendur á með-
an hún sagði mér sögur frá uppvexti
sínum í Svarfaðardal og skemmtileg
ævintýri. Oft hefur mér orðið hugsað
til þess í seinni tíð að ég hefði þurft að
skrifa niður sögurnar frá uppvexti
ömmu og afa, t.d. söguna af því þegar
hún lærði að synda í ískaldri svarð-
argröf og öll ævintýrin og vísurnar
sem þau sögðu mér.
Amma var góð hannyrðakona. Þeg-
ar börnin hennar voru ung og ennþá í
foreldrahúsum sneið hún á þau föt á
vorin áður en þau fóru í sveitina og
þegar þau komu aftur heim á haustin
voru jólafötin tilbúin til mátunar.
Seinna fékkst hún mikið við útsaum,
þar sem listrænt auga hennar naut
sín. Á ég fallegar myndir sem hún
saumaði og bera handbragði hennar
gott vitni. Einhverju sinni í heimsókn
minni til ömmu og afa lærði ég að
prjóna. Amma hafði verið að segja
mér til og næst þegar ég kallaði eftir
aðstoð var hún upptekin en bað afa að
hjálpa mér. Hvað ég varð undrandi á
að afi skyldi kunna að prjóna. Leið-
sögn ömmu minnar við prjónaskapinn
tók ég af mun meiri alvöru en leiðsögn
kennara.
Amma hafði mikla unun af ljóða-
lestri. Þegar hún var farin að missa
minnið lærði hún t.d. ljóðin í Andvök-
um Stephans G. Stephanssonar, sem
var í miklu uppáhaldi hjá henni, til
þess að halda í minnið sem lengst,
eins og hún sagði.
Amma veiktist af Akureyrarveik-
inni 1948 og átti við vanheilsu að
stríða alla tíð eftir það. Oft hlýtur það
að hafa verið erfitt fyrir hana með
stóran barnahóp að starfsorkan var
skert og lítil þekking og skilningur
fyrir hendi á afleiðingum Akureyrar-
veikinnar.
Ég minnist ömmu minnar með hlý-
hug, hvað hún var alltaf falleg, augun
hlýleg og glettin. Hún skilur eftir fal-
legar og góðar minningar hjá öllum
sem kynntust henni.
Snjólaug Ármannsdóttir.
Vorið 1932 hélt ungmennafélagið í
Svarfaðardal íþróttamót á Hólmun-
um neðan við Ytra-Garðshorn, þar
sem nú er golfvöllurinn. Áhorfendur
stóðu á barðinu ofan við og fylgdust
með því sem fram fór. Nú sást til ríð-
andi manns sem kom á harða spretti
norðan Hólmana. Þegar nær dró kom
í ljós að hér var á ferð Snjóka á Tjörn
á Bjössa-Rauð, reiðhesti unnusta
síns, og reið berbakt. Hún nam staðar
við síkið neðan við barðið og fól ein-
hverjum nærstöddum klárinn til
varðveislu. Þetta var fjallmyndarleg
ung stúlka en föt hennar voru öll leir-
ug að neðan. Hún hafði engar sveiflur
á því en fer úr yfirfötum og leggst til
sunds í hylinn sem þar er og syndir
þar fram og aftur um stund.
Sá sem þessar línur ritar var þarna
viðstaddur, þá mjög ungur að árum,
en minnist þess þó enn hvað það var
nýstárlegt að horfa á þessa ljós-
klæddu sundkonu líða eins og hafgúa
um tæran hylinn. Og víst var að ekki
vöktu aðrir viðburðir á íþróttasvæð-
inu meiri athygli þá stundina.
Löngu seinna rifjaði ég upp þennan
atburð við Snjólaugu og sagði hún þá:
„Ég hafði verið að eltast við hann
Bjössa-Rauð úti á Grundarmýrum;
hann átti það til að vera svifóttur í
haga. Ég var bæði sveitt og subbuleg
og það kom eins og af sjálfu sér að fá
sér sundsprett þarna í svölum hyln-
um.“ Þremur árum síðar, þegar við
bræður tveir komum í okkar fyrstu
reisu til Akureyrar, lá leiðin inn
Brekkugötuna. Við vorum í fylgd og
umsjá Fríðu föðursystur og ferðuð-
umst með mjólkurbíl Svarfdæla sem
Gestur, bróðir Snjólaugar, ók þá.
Þegar bíllinn ók fram hjá húsi þar í
götunni sem Björn og Snjólaug áttu
þá heima vildi svo skemmtilega til að
Snjólaug sat fyrir opnum glugga með
Hönnu Maju, frumburð þeirra
hjónanna; hún var þá á fyrsta ári.
Snjólaug veifaði til okkar þegar við
fórum hjá. Ég hugsa að hún hafi verið
að fylgjast með bíl bróður síns; bíla-
umferð fyrir 66 árum var þá enn mjög
strjál. Þetta var upphafið að löngum
og ánægjulegum kynnum við konuna
hans Bjössa frænda.
Þegar foreldrar Snjólaugar fluttu
búferlum frá Knappsstöðum í Gull-
bringu fór Snjólaug í fóstur níu ára
gömul til öndvegishjónanna Sigrúnar
Sigurhjartardóttur og Þórarins Kr.
Eldjárns á Tjörn og ólst þar upp til
fullorðinsára. Hún stundaði nám við
hússtjórnarskólann á Ísafirði. Þá
voru þau Björn trúlofuð.
Ungu hjónin stofnuðu heimili á Ak-
ureyri. Þar hafði Björn lært pípulagn-
ingar og varð meistari í þeirri grein,
en áður hafði hann ungur lokið bú-
fræðiprófi.
Björn og Snjólaug reistu sér mynd-
arlegt einbýlishús við Helgamagra-
stræti 3 og áttu þar heimili til 1958 er
þau fluttu út í Svarfaðardal og fóru að
búa í Laugahlíð. Börnin þeirra níu
fæddust öll á Akureyri. Öll eru þau
dugleg og myndarleg.
Snjólaug var fríð kona, hæglát og
hlý, greind vel og myndarleg húsmóð-
ir. Hún var listhneigð eins og fleiri í
þeim frændgarði, einkum var handa-
vinna hennar falleg og listræn. Hún
las mikið þegar tími gafst til, einkum
ljóð.
Stephan G., Einar Benediktsson og
Davíð voru hennar menn. Hún fékk
hina illræmdu Akureyrarveiki 1948
og náði sér aldrei eftir það. Afleiðing-
arnar lýstu sér m.a. í síþreytu.
Einhver kynni að halda að hún hafi
haft ærið starf við að ala upp níu heil-
brigð og kraftmikil börn, og vissulega
var það svo. En galdurinn lá í því að
hún kunni vel að stjórna og skipu-
leggja. Hún var lagin við börn; hún
hækkaði aldrei röddina og brúkaði
ekki styggðaryrði. Krakkarnir henn-
ar hafa sagt mér að þeim hafi ekki tjó-
að að blóta í návist hennar. Þá leit hún
á þau sérstöku augnaráði og svo var
ekki meira um það. Hún var tónelsk
og söng vel. Börnin sín lét hún syngja
og kenndi þeim að syngja tvíraddað.
Oft var húsið fullt af aðkomubörnum
á daginn, en hún lét þau ævinlega fara
út áður en Björn bóndi hennar kom
heim úr vinnunni, þreyttur eftir erfiði
dagsins.
Hjónaband þeirra Björns var gott
og ástríkt. Bæði voru þau sérstaklega
gestrisin, og fyrir kom að þau tóku
heim til sín fólk sem var í nauðum
statt. Sá sem þessar línur ritar minn-
ist þess með þakklæti að á skólaárum
hans á Akureyri var heimilið í Helga-
magra-stræti 3 honum ætíð opinn
griðastaður og sem fastur punktur í
tilverunni.
Björn og Snjólaug voru bændur í
Laugahlíð í Svarfaðardal 1958–1968.
Ég held að þau hafi notið þess að
verja þessum tíma í heimasveit sinni
og þó voru þessi ár þeim að sumu leiti
öndverð, heilsan var ekki upp á það
besta.
Síðustu æviárin voru þau á Dval-
arheimilinu Hlíð á Akureyri og var
það þeim góður tími. Snjólaug lifði
mann sinn í tæp 16 ár. Minningin lifir
um þessa góðu konu.
Ég kveð hana með virðingu og
þökk.
Júlíus J. Daníelsson.
SNJÓLAUG
HJÖRLEIFSDÓTTIR
Erfisdrykkjur
50-300 manna
Glæsilegir salir
Bræðraminni ehf., Kíwanishúsinu,
Engjateigi 11, sími 588 4460.
ÚTFARARSTOFA ÍSLANDS
Sími 581 3300
Allan sólarhringinn — www.utforin.is
Suðurhlíð 35, Fossvogi
Sverrir
Olsen
útfararstjóri
Sverrir
Einarsson
útfararstjóri
Sjáum einnig um
útfararþjónustu á
allri landsbyggðinni.
Áratuga reynsla.