Morgunblaðið - 14.08.2001, Blaðsíða 43
HESTAR
MORGUNBLAÐIÐ ÞRIÐJUDAGUR 14. ÁGÚST 2001 43
Reiðfatnaður í
miklu úrvali frá
FREMSTIR FYRIR GÆÐI
ALLIR hestar íslenska landsliðsins
voru í góðu formi á æfingu í gær
sem er sú þriðja síðan hrossin
komu á mótsstað í Stad Paura í
Austurríki. Mótið hefst í dag og
ríkir hér talsverð spenna og eft-
irvænting og ljóst að margir ætla
sér stóra hluti. Vignir Jónasson og
Klakkur frá Búlandi komu manna
og hesta best út úr æfingunni og
dregur það ekki úr sigurvonum Ís-
lendinga sem hafa hingað til viljað
bóka sigur þeirra í fimmgangi. Sig-
urður Sæmundsson landsliðsþjálfari
stóð íbygginn á svip inni í hringn-
um og fylgdist með æfingunni
ásamt aðstoðarmönnum sínum Ein-
ari Öder Magnússyni og Olil
Amble. Var þar farið yfir ýmis still-
ingaratriði hrossanna, hvaða hraði
hentaði hverjum best á hinum mis-
munandi gangtegundum.
Skeiðsprettur
Gordons létti á mönnum
Mest spenna var í gær í kringum
Gordon frá Stóru-Ásgeirsá hjá Sig-
urbirni Bárðarsyni en nú eins og
fyrir tveimur árum hittir hann klár-
inn fyrir mótið með stuttum fyr-
irvara og þarf að laga ýmsa hluti
því illa hefur gengið að fá hann til
að liggja heilan sprett á skeiði á
mótum. Fyrir æfinguna hafði Sig-
urbirni ekki tekist að láta hann
liggja en látið var á það reyna í
gær. Í fyrstu tilraun hafði Sigur-
björn dyr rásbásanna opnar og
hleypti honum nokkuð rólega út en
ekki tókst að ná honum almenni-
lega niður og varð því niðurstaðan
ein roka völlinn á enda. Sigurbjörn
lét þetta ekki á sig fá og sagði að
það hefði verið rosalegur kraftur í
honum. Í seinni tilrauninni lét hann
loka básnum og var klárinn nokkuð
ókyrr, krafsaði og frýsaði en Sig-
urbjörn náði að róa hann. Og þegar
Sigurbjörn hafði náð að stilla fætur
hans rétt var básinn opnaður og út
komu þeir af miklum krafti og viti
menn, niður fór sá rauði og lá
sprettinn á enda og þar með var
þungu fargi af mönnum létt þótt
langt sé frá að dæmið sé klárað hjá
þeim félögum og víst er að ekki er
mikið hugsað um heimsmet meðal
Íslendinga að svo komnu máli.
Fyrir æfinguna á skeiðbrautinni
höfðu þeir tekið létt fimmgangs-
verkefni inni á hringvellinum og
þótt vissulega vanti nokkuð á að
Gordon sé einhver glæsigripur var
klárinn í góðu jafnvægi, fór stökk-
hringinn þokkalega yfirvegað og
má gera ráð fyrir að þeir eigi eftir
að hala inn dýrmæt stig í keppni
um stigahæsta keppanda mótsins.
Það er aftur skeiðið sem spurningin
stendur um og þótt vel hafi gengið í
dag er ekkert öruggt í þeim efnum
og alveg opinn sá möguleiki að
Gordon rjúki alla fjóra sprettina
sem myndi rýra mjög möguleika
þeirra félaga á að sigra í sam-
anlögðu. Virðast möguleikarnir
helst liggja í að þeir nái tíma undir
22 sekúndum í 250 metra skeiðinu
því annars verða þeir að treysta á
gæðingaskeiðið og það þykir ekki
vænlegt til stórra afreka í keppn-
inni um samanlagðan sigurvegara.
„Knapinn á hestbaki
er kóngur um stund“
Styrmir Árnason sýndi Farsæl
frá Arnarhóli með ágætum í gær
þótt ekki væri þetta alveg hnökra-
laust enda er það sjaldnast svo á
æfingum. Farsæll virðist í feikna
góðu formi, prýðilega stilling á hon-
um hjá Styrmi og þeir mjög heitir í
baráttunni um titilinn í fjórgangi.
Kvaðst Styrmir vera ágætlega sátt-
ur við stöðuna á klárnum og taldi
sig eiga góða möguleika á að end-
urheimta titilinn í fjórgangi en
hann sigraði sem kunnugt er öllum
á óvart á Boða frá Gerðum í Noregi
1997. Þá var hann eitt af leynivopn-
um Sigurðar einvalds en nú er
trompið í ermi hans Þórarinn Hlyn-
ur Arnarsson á Braga frá Allen-
bach og víst er að margir Íslend-
inganna sem komnir eru á svæðið
voru að sjá hann í fyrsta sinn og
óhætt er að segja að ekki olli hann
vonbrigðum. Þarna er á ferðinni af-
ar athyglisverður hestur sem minn-
ir um margt á föður sinn Hjörvar
frá Reykjavík sem var mikill vilja-
og mýktar-hestur. Hvort hér er á
ferðinni sigurkandídat í tölti skal
ósagt látið því Hafliði Halldórsson
fór mikinn nokkrum mínútum áður
en Þórarinn og Bragi komu inn á
völlinn og ef þeir Hafliði og Valíant
verða í slíkum ham á föstudag í for-
keppni töltsins skyldi enginn telja
sig öruggan um sigur. Sagði Sig-
urður einvaldur að þar hefði Hafliði
riðið eins og sá sem valdið hafði.
Sagði hann að þar hefði vel átt við
hendingin úr Fákum Einars Ben.
þar sem segir; „Knapinn á hestbaki
er kóngur um stund/ kórónulaus á
hann ríki og álfur.“
Þjóðverjar sem lengst af hafa
hreppt tölthornið eftirsótta en hafa
þurft að horfa á eftir því til Íslend-
inga á síðustu tveimur mótum og
eru því vafalaust orðnir æði hungr-
aðir í það. Einkum eru það tveir af
liðsmönnum þeirra sem þykja lík-
legir til að gera þeim Hafliða og
Þórarni lífið leitt og er þar fyrst að
nefna Karly Zingsheim sem keppir
á stóðhestinum Dökkva frá Mosfelli
sem eru undan þeim Orra frá Þúfu
og Dimmu frá Gunnarsholti. En
öllu líklegri er þó Jolly Schrenk
sem er ekki alveg ókunn horninu
fræga en hún keppir á hesti sem
heitir Laxnes og þykir um margt
góður en eins og Sigurður einvald-
ur sagði má gera ráð fyrir að hann
falli ekki öllum eins vel í geð og
verði þá kannski helst fundið að
hæga töltinu. En hvað sem öllum
vangaveltum líður þá er það ljóst að
þarna verður hart barist.
Krakkarnir okkar
Það ríkir góður andi í íslenska
liðinu sem ekki er hægt að kalla
strákana okkar eins og gert er í
handboltanum eftir að Hugrún Jó-
hannsdóttir hlaut náð fyrir augum
Sigurðar á elleftu stundu og fékk
aðgang að karlaveldinu með Súlu
sína frá Bjarnastöðum. Það fer því
best á því að kalla þau „krakkana
okkar“ sem virðast ætla að standa
sig með mikilli prýði. Það var fróð-
legt að fylgjast með þeim á æfing-
unni í gær og sér í lagi á skeið-
brautinni þar sem rásbásarnir voru
mátaðir. Allt gert mjög fumlaust
enda samankominn mjög reynslu-
mikill hópur sem kann sitt fag og
allir tilbúnir að leggjast á eitt; að
ná sem bestum árangri. Í dag hefj-
ast dómar kynbótahrossa og var
hrossum Íslands rennt í gegnum
létt verkefni í gær á skeiðbrautinni
þar sem dómar fara fram. Þá munu
íþróttadómarar halda fund í dag og
sömuleiðis tímaverðir þar sem lagð-
ar verða línur um hvernig skuli
standa að verki.
Í kvöld verður síðan haldið það
sem kallað er „Get to together
party“ þar sem hver þjóð býður
væntanlega upp á ýmsa þjóðlega
rétti og menn blanda saman geði,
bæði keppendur starfsmenn og
mótsgestir. Það hefur þótt gott að
létta örlítið andrúmsloftið svona
rétt áður rimman þjóða í milli hefst
fyrir alvöru. Á morgun, miðviku-
dag, hefst svo forkeppni í fjórgangi
og síðar um daginn í fimmgangi.
Heimsmeistaramót íslenska hestsins hefst í Stad Paura í Austurríki í dag
Vonir glæðast í töltinu og
sigurvissa í fimmgangi
HÚN var býsna brött aðkoma
Reynis Aðalsteinssonar að heims-
metinu í 250 metra skeiði sem
hann og Sprengi-Hvellur frá
Efstadal settu fyrr í sumar. Hann
ásamt fleirum keypti klárinn af
Ule Reber í Þýskalandi sem átt
hafði erfiðleikum með hestinn og
ekki náð á hann neinum umtals-
verðum tímum í skeiðinu. Til-
gangurinn með kaupunum var að
koma honum í íslenska liðið á
HM. En tíminn var naumur og því
góð ráð dýr. Ekki gátu þeir tekið
þátt í þýska meistaramótinu eins
og best hefði hentað þar sem þeir
höfðu aldrei keppt saman og þar
þurfti lágmarkstíma til þátttöku.
Var því brunað til Austurríkis í
hvelli og Reynir lagði klárinn í
fyrsta skipti í fyrsta sprettinum
þar í keppninni. Eins og Reynir
orðar það þá tókst það ekki nógu
vel því klárinn er orðinn snarvit-
laus í rásbásum en þeir „döml-
uðu“ á tíma eitthvað innan við 23
sekúndur.
„Þá fann ég hvað hann gat og
lagði allt undir í næsta spretti og
viti menn, dæmið gekk upp, met-
ið orðið staðreynd, 21,10 sek. og
ég kominn í liðið skömmu síðar,“
segir Reynir í góðu formi í Stad
Paura.
„Síðan þetta gerðist hef ég
ekki lagt hann á skeið. Ég þjálfa
hann mikið á reiðhjóli, teymi
hann þá með mér allt upp í 20
kílómetra túra. Núna hef ég verið
að lauma honum inn í rásbásana í
rólegheitum, út aftur jafn rólega
og reyni bara að hafa hann slak-
an og sáttan og svo sjáum við
hvað hann gerir,“ segir Reynir
fullviss þess að vel muni takast til
þegar á hólminn kemur.
Heims-
methafinn
teymdur á
reiðhjóli
Morgunblaðið/Valdimar
Nýbakaðir heimsmethafar mæta yfirvegaðir og slakir en eigi að síður tilbúnir að láta sverfa til stálsins þegar til
leiksins er komið. Fróðlegt verður að sjá hvernig til tekst eftir nokkurra vikna sálfræðimeðferð.
Reynir Aðalsteinsson
yngri mættur með
Sprengi-Hvell á HM
„HANN lá en ég er þó ekki alveg
sáttur við hann ennþá,“ sagði Sig-
urbjörn Bárðarson að lokinni æf-
ingu með Gordon frá Stóru-Ás-
geirsá í Stad Paura í gær. „Hann er
ekki alveg smollinn í þann gír sem
ég þarf til að hafa hann sæmilega
öruggan og ég fái hann til að beita
sér á fullu á skeiði.“ Sigurður
Sæmundsson skaut inn í til enn
frekari áherslu að þetta sé á góðum
vegi en ekki tryggt.
Landsliðseinvaldur sagðist
ánægður með stöðuna á liðinu. „Það
hefur þurft að fara aðeins í gegnum
þetta með hrossin og eins og gengur
erum við ekki með hundrað prósent
útfærslur á æfingum en ég óttast
ekkert, sagði Sigurður með sínum
óræða kímnisvip eftir æfinguna.
Aðspurður um hverjir væru nú
efstir á blaði sem helstu andstæð-
ingarnir sagði hann að eins og
venjulega væru Þjóðverjar með
feikna sterkt lið en einnig sýndist að
Svíar gætu orðið okkur skeinuhætt-
ir og þá sérstaklega á fimmgangs-
vængnum. Þeir gætu sýnt okkur
klærnar þar, en Vignir er með
Klakk í feiknasiglingu þessa dagana
og við höfum styrkst enn í trúnni
um að hann muni sigra.
Morgunblaðið/Valdimar
Það létti mörgum þegar Sigurbirni tókst að leggja Gordon á skeið og
halda út heilan sprett án þess að enda í roku. Sjást þeir félagar hér í
niðurtökunni skömmu eftir að rásbásarnir voru opnaðir.
Glíman við Gordon
„Á góðum vegi en ekki tryggt“
Betri fætur
betri líðan
á góðum skóm
Miðbæ Háaleitisbraut 58-60 Sími 553 2300
Ráðgjöf á fimmtud. kl. 14-18 og laugard. kl. 10-14.
Skóbúðin