Morgunblaðið - 30.11.2001, Page 41
LISTIR
MORGUNBLAÐIÐ FÖSTUDAGUR 30. NÓVEMBER 2001 41
MARGRÉT Jóelsdóttir og Steph-
en Fairbairn hafa í að minnsta kosti
þrjá áratugi unnið saman verk sem
fjalla um sértæk sjónræn og hug-
myndlæg gildi í myndlist. Með sjón-
rænt er hér átt við það sem eitt sinn
var nefnt optískt, eða list sem verkaði
beint á sjóntaugarnar og lét þær ekki
í friði meðan horft var. Æðstipáfinn í
optískri tilraunastarfsemi á sjötta og
sjöunda áratugnum var ungverski
listmálarinn Victor Vasarely, en fast á
hæla honum sem unga og efnilega
blóðið í þessari augntruflandi stefnu
kom breska listakonan Bridget Riley.
Margrét og Stephen eru einmitt
sprottin úr þessum farvegi tilrauna
og vídda. Þau nýttu sér einfaldar
lausnir til að komast að athyglisverðri
niðurstöðu um sjónina, litina og
mynsturkennd áhrif þeirra. Síðan er
mikið vatn runnið til sjávar og enn
eru hjónin mætt til leiks með hvers
kyns verk, sem snúast nú ekki síður
um tímann og víddirnar en optískar
myndlausnir.
Flest verk þeirra hjóna byggjast á
skemmtilegum og næsta heimspeki-
legum vangaveltum í bland við ljóð-
ræna framsetningu. En það sem mað-
ur saknar eilítið frá fyrri tíð er
einfaldleikinn í úrlausnunum. Flest
verkin í Listasafni Kópavogs eru
óþarflega flókin og fáguð – í merking-
unni smáfríð – svo að hugmyndin
gengur oft nærri látlausu grunnhug-
mynd myndmálsins.
Hér er ef til vill við óholl áhrif graf-
ískrar hönnunar að sakast, þar sem
aðaláherslan er fólgin í ríkulegri upp-
lýsingu og fræðslu, svo sem á kynn-
ingarsýningum hvers konar og kaup-
stefnum. Þar þarf upplýsingaflæðið
að vera óheft, skýrt og óháð inntaki
myndbirtingarinnar. Munurinn á
myndlist og grafískri hönnun er sá að
síðarnefndu iðjunni er ekki ætlað að
bregða ljósi á sjálfa sig heldur hitt
sem auglýsa og skýra þarf; veiðafæri;
vélar; hugbúnað eða innréttingar.
Þetta er ástæðan fyrir því að kaup-
stefnur og listsýningar lúta aldrei
sömu lögmálum.
Það er auðvelt að bæta úr þessum
augljósu göllum á annars mjög svo
áhugaverðum hugmyndum. Hið eina
sem hjónin Margrét Jóelsdóttir og
Stephen Fairbairn þurfa að gera er
að leita aftur til einföldu lausnanna
sem einkenndu verk þeirra forðum
daga og fjölluðu um myndlist og
myndrænar lausnir.
MYNDLIST
Listasafn Kópavogs
Til 2. desember. Opið þriðjudaga til
sunnudaga frá kl. 11–17.
BLÖNDUÐ TÆKNI
MARGRÉT JÓELSDÓTTIR &
STEPHEN FAIRBAIRN
Hugmyndir
og hönnun
Halldór Björn Runólfsson
AÐALHEIÐUR Valgeirsdóttir
sýnir röð mynda í Listasafni Kópa-
vogs sem hún nefnir Lífsmynstur.
Um er að ræða olíumálverk byggð á
smásæjum heimi örvera, vefja og
agna sem Aðalheiður lýsir sem
margvíslegu mynstri sem teygir sig
yfir allan myndflötinn líkt og vegg-
fóður. Þótt allt liggi nær yfirborðinu
eru þau verk ófá þar sem fleiri en eitt
mynstur gægist gegnum efsta lagið.
Það er einmitt þessi síendurtekna
mynsturgerð sem gefur verkum Að-
alheiðar léttleikandi yfirbragð, laust
við allar meiriháttar flækjur og til-
gerð. Ef eitthvað er ónauðsynlegt og
orðum aukið er það nafngiftin og
áherslan á tengslin við náttúruna.
Sannleikurinn er sá að mynstrin og
endurtekningin fara allfjarri þeirri
mynd sem við höfum af náttúrunni í
smásærri gerð sinni.
Það er miklu fremur hið gervilega
í mynsturgerð Aðalheiðar – staðlað-
ar endurtekningarnar – sem virkar
heillandi. En eins og reyndar sann-
ast á velheppnuðum tilraunum til að
ljósmynda atóm og aðrar míkró-
kosmískar formgerðir sem liggja til
grundvallar náttúrunni, þá er lífið í
sinni smæstu mynd ansi staðlað og
gervilegt. Það skortir alla sértæka
útúrdúra sem við sjáum jafnan með
berum augum og eru forsendan fyrir
því að við greinum svæði frá svæðum
eftir ákveðnum kennileitum.
Skorturinn á slíkum kennileitum í
list Aðalheiðar gera náttúrumyndir
hennar gjörólíkar venjulegum lands-
lagsmyndum. Það sem augað ekki
sér öðruvísi en um smásjá, eða örsjá,
er á mörkum þess að geta talist
mynd af náttúrunni þótt reyndar sé
sú mynd langtum raunsærri en
nokkuð það sem sýnist með berum
augum. Með áleitnum spurningum
um það sem við, hugsunarlaust, köll-
um raunsæi, og tjáningartækni sem
liggur á mörkum frelsis og stöðlun-
ar, nær Aðalheiður að setja saman
býsna athyglisverða sýningu.
Til 2. desember. Opið þriðjudaga til
sunnudaga frá kl. 11–17.
MÁLVERK
AÐALHEIÐUR VALGEIRSDÓTTIR
Halldór Björn Runólfsson
Frá sýningu Aðalheiðar Valgeirsdóttur í Listasafni Kópavogs.
Frá sýningunni Sjónarhorn, eftir Margréti Jóelsdóttur og Stephen
Fairbairn, í Listasafni Kópavogs.