Morgunblaðið - 30.12.2001, Blaðsíða 14

Morgunblaðið - 30.12.2001, Blaðsíða 14
14 SUNNUDAGUR 30. DESEMBER 2001 MORGUNBLAÐIÐ T ÍSKA og lífsstíll eru orð sem hljóma eitthvað svo yfirborðsleg og innantóm. Sýndarmennsku- leg og sjálfhverf. Sérstaklega ef veður eru óvenjulega válynd í henni veröld. Samt hefur tískan um aldir verið mörgum til ánægju, gleði og upplyftingar í friði og stríði. Og verður eflaust um ókomna tíð, þótt birtingarmyndir hennar séu oft um- deildar. Sumir gefa henni tæpast gaum og aðrir hafa einungis ama af lögmálum hennar, þessum óumbreytanlega sí- breytileika, sem endalaust kætir ímyndarhönnuði, kaupahéðna og þá sem ekki þurfa að horfa í aurana. En tíska einskorðast ekki bara við flíkur, húsbúnað og aðra áþreif- anlega hluti, sem tengjast lífs- stílnum hverju sinni. Um tísku í bókmenntum og öðrum listgreinum er fjallað á allt öðrum nótum. Með virðingu því þar lýtur tískan oft þeim mótsagnakenndu lögmálum að verða sígild með tímanum. Vandi að vera smart Fyrir þá sem vilja tolla í tískunni í snyrtingu og klæðaburði; vera smart, er aftur á móti lykilatriðið að vera sveigjanlegir. Jafnvel umbreyt- anlegir, því tískan er kröfuhörð og tilætlunarsöm. Vaxtarlag sem þorra manns er áskapað virðist aldrei vera í tísku og þá getur verið þrautinni þyngri að vera smart. Líka þegar ótrúlega támjóir skór með háum pinnahælum eru í tísku eins og núna. Stórhættulegir. Jafnvel bráð- greindar konur falla kylliflatar. Gagnstætt því sem oft er haldið fram er tískan afar útreiknanleg. Hún er einfaldlega mótsögn við raunveruleika meirihlutans. Þegar almúginn svalt og aðallinn lifði við allsnægtir þótti smart að vera vel í holdum. Boð tískunnar í efnahags- uppsveiflunni á síðasta áratug lið- innar aldar voru þau sömu en með öfugum formerkjum. Naumhyggja var hið listræna nafn yfir sultarlegt útlit og einfaldan fatnað án alls prjáls og skrauts. Eina sem ekki var í samræmi við stefnu þessa var verðið. Tískan selur sig alltaf dýrt, sama hvernig hún birtist. Nið- ursveiflan undanfarið er svo farin að geta af sér íburð og glamúr og ef marka má útlensk tískublöð virðist þrýstið vaxtarlag vera í sjónmáli. Marilyn Monroe var flott segja ímyndarhönnuðir og tískukóngar. Kaupahéðnar bergmála og fáir geta andmælt. Umbreytingin verður ekki umflúin. Í líkamsrækt og megrun- arkúrum af öllu tagi, brjósta- stækkun, fitusogi og blöðkunuddi svo dæmi séu tekin. Landinn opnar sig Láti umbreytingin á sér standa má styðjast við fjölbreytt úrval af sjálfshjálparbókum til að efla sjálfs- myndina og sjálfstraustið. Auðga þannig og fegra sitt líf, þótt kropp- urinn óhlýðnist viljanum. Sjálfsmyndin og sjálfstraustið virðist nefnilega ekki vera af skorn- um skammti hjá fólki sem er í tísku. Það opnar sig. Stundum í beinni. Sýnir smekklegu fínu fötin sín, segir frá ástamálum og tilfinningaflækj- um og öðru sem áður þótti einkamál. Líka frá brjóstastækkuninni og fitu- soginu. Hvers vegna Jói athafna- maður hætti með Siggu og byrjaði með Gunnu og hvar Sigga leitar sér huggunar eftir skipbrotið eru mál sem æ fleiri láta sig varða. Í við- tölum segjast þau iðulega vera þakklát fyrir að fá þetta frábæra tækifæri til að tjá sig. Að opna sig er í tísku hjá þeim sem eru í tísku. Meira að segja þeir sem áður agnú- uðust út í smáborgaraskap og töldu sig hetjur alþýðunnar opna sig. Þetta er partur af „trendinu“ í lífs- stílnum. Ritstjóri íslensks kynlífstímarits sagði nýverið að framboð fyrirsætna væri meiri en eftirspurn. Þykir trú- lega frábært tækifæri til að koma sér á framfæri. Fá skýra sjálfsmynd í allri sinni nekt. „Allt frá því ég var lítil stelpa hef- ur mig dreymt um að vera metin að verðleikum vegna skoðana minna, hugsjóna og persónuleika,“ mælti ungfrú heimur við krýninguna árið 1999. Býsna góður vitnisburður um árangur fegurðarsamkeppna, en samkvæmt forsvarsmönnum þeirra er markmiðið fyrst og fremst að bæta sjálfstraust og sjálfsmynd stúlkna. Og gera lýðnum ljóst að þátttakendur hafa svo margt annað til brunns að bera en bara fegurð. Sjálfir hafa þátttakendur tekið í sama streng og margsagt að þær séu gáfaðar, með mikinn persónu- leika og hafi athyglisverðar skoðanir og háleitar hugsjónir. Einhvern veginn virðast þær aldrei hafa komist almennilega til skila. Kannski eru fegurðarsam- keppnir ekki heppilegasti vettvang- urinn til að láta ljós sitt skína, þótt vissulega sé minnistætt að ein sló rækilega í gegn þegar hún lýsti því yfir að Shakespeare væri eftirlæt- isrithöfundurinn sinn. Mér dettur í hug hvort Bríeti, félagi femínista, eða Kvenréttindafélaginu yrði ekki akkur í fleiri ungum stúlkum með sjálfsmyndina og sjálfstraustið í lagi. Þær gætu skoðað svona ýmis mál, eins og launamisrétti kynjanna og þvíumlíkt með þeim hinum. Þyrftu ekkert að dubba sig upp í staðlað form áður en þær tækju til máls og mættu ábyggilega borða eins mikið sælgæti og þær vildu. Ekki bara ein heldur tvær Alvarlegt áhyggjuefni er að þörf ungra stúlkna til að bæta sjálfs- mynd sína og sjálfstraust virðist mun meiri hér á landi en annars staðar. Til að koma til móts við þennan vanda er jafnan efnt til tveggja fegurðarsamkeppna árlega. Eðli málsins samkvæmt er fegurð þátttökuskilyrði, en vel mætti ímynda sér að mikill persónuleiki réði í einhverjum tilfellum úrslitum. Þótt ummál þáttakenda séu ekki op- inberuð, dylst fáum að þau eru enn í anda naumhyggjunnar. Kannski fá þybbnu stúlkurnar þetta frábæra tækifæri til að bæta sjálfsmynd sína og sjálfstraust þegar tískan breyt- ist. Þær hljóta líka að hafa skoðanir, hugsjónir og persónuleika; eiginleik- ana sem eru svo þungir á metunum í slíkum keppnum. Marilyn Monroe var pínu þybbin. Ég veit ekki hvort hún las Shakespeare. Rauðsokk- urnar á sjöunda og áttunda áratugn- um hafa efalítið átt þátt í að breyta ímynd fegurðarsamkeppna í þá veru að nú eru gerðar meiri kröfur til annarra eiginleika þátttakenda en bara fegurðar. Fegurðarsam- keppnir, sem haldnar voru í Tívolí í gamla daga, gáfu sig í það minnsta ekki út fyrir að ganga út á annað en fegurð. Smástelpur og kynþokki Þeir sem heima sitja horfa mis- jafnlega andaktugir á afrakstur ímyndar- og tískuiðnaðarins. Börnin líka. Einkum á PoppTíví og MTV þar sem átrúnaðargoðin eru með ólíkindum mjó og kynþokkafull og syngja þar af leiðandi mörg hver helst ekki öðruvísi en fremur klæða- lítil. Enda frábært tækifæri til að sýna sig almennilega. Markaðurinn hefur áttað sig á að slíkt hið sama vilja litlu aðdáendurnir, smástelp- urnar. Því býðst úrval ögrandi kven- fatnaðar í smækkaðri mynd; nafla- bolir með spaghettíhlýrum, oft með áletrunum, sem gefa fyrirheit um fjörugt kynlíf, þröngar svartar bux- ur og pínupils úr leðurlíki og áþekk- ar flíkur. Í Bretlandi hafa tímarit fyrir níu til fjórtán ára stelpur hasl- að sér völl og fjalla þau einkum um stráka og klæðaburð í anda diskó- dísa að ógleymdu daðrinu við fræga fólkið og lífsstíl þess. Margir hafa eflaust áhyggjur af þessari þróun og þykir tískan fara að þessu leytinu út fyrir öll velsæm- ismörk. Jafnvel storka hættulegum mönnum, sem víða eru á kreiki sam- kvæmt fjölmiðlafregnum. Samt eru það líkast til foreldrar sem kaupa fatnað af þessu tagi á börnin sín. Svo að þau fái tækifæri til að vera smart. Hvað skyldu þeir segja um skólabúninga, sem komið hefur til tals að innleiða hér á landi? Þótt tískan sé í eðli sínu yf- irborðsleg er hún áhugaverð. Út af fyrir sig er athyglisvert hve yfir- borðið skiptir fólk miklu máli, en upp úr stendur að tískan hefur ótví- rætt afþreyingargildi í daglegu lífi. Auk þess má horfa á og fjalla um hana út frá listrænu sjónarmiði. Stundum er affarasælast að hafa slíkt sjónarhorn, vera gagnrýnin og kaupa ekki hvað sem er, til dæmis skóna, sem hafa orðið mörgum að falli, og því síður kynþokkafull föt á börnin sín. Ólíkar sögupersónur Opinberunarsögur einkalífsins eru svo allt annar handleggur. Í sjálfu sér saklausar, en þó væri ósk- andi að sýniþörf og sjálfhverfni sögupersóna smitaði ekki frekar út frá sér. Þjóðin hefur þegar eignast nokkrar framhaldssögupersónur á þessu sviði og eiga þær í mesta basli við að bæta engu við ekkert sem þær sögðu í síðasta viðtali. Af allt öðrum meiði er fólkið, sem stundum kemur fram á sjónarsviðið með sitthvað skemmtilegt sem teng- ist vinnu þess eða tómstundaiðju. Einu gildir hvort það kallast hand- verksfólk, hönnuðir eða listamenn. Einnig hversdagshetjurnar, sem gera sér grein fyrir að eigin reynsla og upplifun, góð eða slæm, getur verið þarft innleg í umræðuna, eflt skilning almennings og slegið á for- dóma. Mögulega leitt til þjóðfélags- legra umbóta og bættra kjara þeirra sem ekki fleyta rjómann af velferð- arkökunni. Þeirra sem af ýmsum ástæðum eiga ekki kost á flottum lífsstíl. Svokölluð dægurmál eða af- þreying, að tískunni meðtalinni, eru vandmeðfarin rétt eins og „alvöru- málin“, en hafa engu að síður þýð- ingarmiklu hlutverki að gegna. Líka á viðsjálum tímum og kannski ein- mitt þá. Þau eru tilbreyting við al- varleikann í tilverunni. Síbreytileiki þess óumbreytanlega Reuters Sjálfsmyndin og sjálfstraustið virðist nefnilega ekki vera af skornum skammti hjá fólki sem er í tísku. Það opnar sig. Stundum í beinni. Sýnir smekklegu fínu fötin sín, segir frá ástamálum og tilfinningaflækjum og öðru sem áður þótti einkamál. Líka frá brjóstastækkuninni og fitusoginu. vjon@mbl.is Daglegt líf Valgerður Þ. Jónsdóttir umsjónarmaður
Blaðsíða 1
Blaðsíða 2
Blaðsíða 3
Blaðsíða 4
Blaðsíða 5
Blaðsíða 6
Blaðsíða 7
Blaðsíða 8
Blaðsíða 9
Blaðsíða 10
Blaðsíða 11
Blaðsíða 12
Blaðsíða 13
Blaðsíða 14
Blaðsíða 15
Blaðsíða 16
Blaðsíða 17
Blaðsíða 18
Blaðsíða 19
Blaðsíða 20
Blaðsíða 21
Blaðsíða 22
Blaðsíða 23
Blaðsíða 24
Blaðsíða 25
Blaðsíða 26
Blaðsíða 27
Blaðsíða 28
Blaðsíða 29
Blaðsíða 30
Blaðsíða 31
Blaðsíða 32
Blaðsíða 33
Blaðsíða 34
Blaðsíða 35
Blaðsíða 36
Blaðsíða 37
Blaðsíða 38
Blaðsíða 39
Blaðsíða 40
Blaðsíða 41
Blaðsíða 42
Blaðsíða 43
Blaðsíða 44
Blaðsíða 45
Blaðsíða 46
Blaðsíða 47
Blaðsíða 48
Blaðsíða 49
Blaðsíða 50
Blaðsíða 51
Blaðsíða 52
Blaðsíða 53
Blaðsíða 54
Blaðsíða 55
Blaðsíða 56
Blaðsíða 57
Blaðsíða 58
Blaðsíða 59
Blaðsíða 60
Blaðsíða 61
Blaðsíða 62
Blaðsíða 63
Blaðsíða 64

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.