Morgunblaðið - 30.12.2001, Page 33

Morgunblaðið - 30.12.2001, Page 33
MORGUNBLAÐIÐ SUNNUDAGUR 30. DESEMBER 2001 33 isstjórnin mun ... leggja til að aldraðir fái að velja sjálfir hverjir veiti þeim hjálp í heimahúsum, velja sjálfir vistheimili og hjúkrunarheimili. Og að sjálfsögðu á maður að geta haft maka sinn með. Við skulum skapa meira öryggi. Við þurfum að hætta að svipta aldraða stjórn á eigin lífi en hneigð í þá átt hefur víða laumazt inn á síðari ár- um. Við megum aldrei láta umhyggjuna verða forminu að bráð. Hlusta ber á þá sem daglega vinna við að hlú að öldruðum. Þegar fólk sem annast aðhlynningu í heimahúsum segir að það sé smám saman að verða refsivert að sýna mannlegt viðmót er eitt- hvað að í kerfinu. Þá er kominn tími til að breyta kerfinu og segja: Aldraðir hafi forgang.“ Þetta hyggst ríkisstjórn hægriflokkanna út- færa m.a. með þeim hætti, að afnema einkarétt sveitarfélaga á að veita öldrunarþjónustu og að aldraðir hafi víðtækt valfrelsi um það frá hverjum þeir fái þjónustu; frá sveitarfélagi, einkafyrir- tækjum eða einstaklingum, sem gera samninga við hið opinbera um greiðslur fyrir aðstoð við aldraða. „Aldraðir eiga sjálfir rétt á að ákveða hvar þeir vilja búa, hver á að aðstoða þá og hvern- ig sú aðstoð er innt af hendi,“ segir í stjórnarsátt- mála Venstre og Íhaldsflokksins. Þar kemur auk- inheldur fram að aldraðir, sem eigi rétt á elliheimilisplássi eða þjónustuíbúð, skuli eiga frjálst val um bústað, jafnvel þótt elliheimilið eða íbúðin sé í öðru sveitarfélagi en þeirra eigin. Jafn- framt munu aldraðir fá greiðslur ef heimaþjón- usta, sem þeim hefur verið lofað, fellur niður. Þyngri refsingar Ummæli Fogh Rasm- ussen og ákvæði stjórnarsáttmálans um afbrot og refsingar hafa vakið athygli út fyrir dönsku landsteinana og eru sérstaklega áhugaverð hér á landi í ljósi þeirrar umræðu, sem hér fer fram um þyngd refsinga fyrir ofbeldis- og kynferðisafbrot. Í stefnuræðu sinni sagði forsætisráðherrann: „Ein- staklingurinn gengur fyrir. Þetta á einnig við í réttarkerfinu. Stjórnin vill að réttarkerfið end- urspegli í auknum mæli virðinguna fyrir lífi ein- staklingsins. Þess vegna mun hún leggja fram til- lögur um hærri refsiramma meðal annars vegna ofbeldis og nauðgunar. Stjórnin telur að almennt séu kveðnir upp allt of vægir dómar í nauðgunar- og ofbeldismálum. Sé refsiramminn hækkaður er um að ræða skýrt merki til dómstólanna um að herða refsingarnar. Afbrot gegn einstaklingum eru miklu alvar- legra mál en auðgunarbrot. Sé ráðizt á aðra manneskju – og það á ekki síst við þegar rætt er um óhugnanlegt afbrot eins og nauðgun – er um að ræða brot á grundvallaratriði í samfélagi okk- ar, það er að segja virðingunni fyrir einstaklingn- um. Ríkisstjórnin hefur því hug á að gera umbæt- ur á refsilögunum. Þær munu beinast að því að gera refsirammana almennt nútímalegri. Refs- ingar fyrir hvers kyns brot eiga að endurspegla betur nútímalegan réttarfarsskilning.“ Í stjórnarsáttmálanum er kveðið á um að refs- ingar fyrir ofbeldisbrot skuli vera að minnsta kosti jafnþungar og fyrir auðgunarbrot. Þannig á t.d. að hækka refsirammann í nauðgunarmálum úr sex árum í átta, en úr 10 árum upp í 12 ef um óvenjulega hrottafengna nauðgun er að ræða. Skattastopp og umhverfisgjöld Í skattamálum hefur nýja stjórnin í Dan- mörku sett sér skýr markmið. Hún hyggst ekki hrinda í framkvæmd tillögum stjórnar jafn- aðarmanna um skattahækkanir, sem áttu að taka gildi á næsta ári. Jafnframt setja stjórnarflokk- arnir á „skattastopp“. Það útilokar ekki að til- færsla verði á skattbyrði, en stjórnin lofar að neyðist hún til að hækka einhvern skatt eða gjald, muni tekjurnar, sem skapist við það, renna óskertar til að lækka annan skatt eða gjald. Sama regla á að gilda ef t.d. þarf að leggja á eða hækka skatt eða gjald í þágu umhverfisins. Verði Danir hins vegar að lækka skatta eða gjöld vegna ákvarðana Evrópusambandsins eða annarra al- þjóðlegra skuldbindinga, segist stjórnin ekki úti- loka að hún muni hækka önnur gjöld, en stendur á því fastar en fótunum að skattbyrðin verði alltaf söm. „Það er ætlunin að skattastoppið leiði af sér nýjan þankagang,“ sagði Anders Fogh Rasmus- sen í ræðu sinni. „Við eigum að koma okkur út úr þeim hugsunarhætti, að í hvert sinn sem við stjórnmálamennirnir fáum hugmynd, þá finnum við bara upp nýjan skatt eða herðum ögn á gjaldaskrúfunni. Nú hefur verið bundinn endi á slíkt. Fólk á að njóta meira öryggis. Það á að vera hægt að ráðast í ný umsvif án þess að hafa áhyggjur af skyndilegum skattahækkunum. Í staðinn munum við nota krónurnar í ríkiskass- anum betur og með skilvirkari hætti.“ Ríkisstjórnin lofar lækkun á tekjusköttum – sem eru nú óvíða hærri en í Danmörku – í árs- byrjun 2004. „Danir eru vinnusöm þjóð. En fyrir u.þ.b. 200.000 Dani borgar sig ekki að vera í vinnu,“ sagði Fogh Rasmussen. „Það er ekki hægt að una við. Nokkur hundruð þúsund Dönum hefur verið ýtt út af virkum vinnumarkaði og þeir gerðir að óvirkum þiggjendum. Það er ekki við- unandi. Við eigum að endurnýja samfélagið, þannig að það borgi sig alltaf að vinna. Við eigum að endurnýja samfélagið, þannig að líka þeir, sem höllustum fæti standa, séu þátttakendur og fái tækifæri til að sýna að þeir geti lagt eitthvað af mörkum til þjóðfélagsins.“ Í tengslum við skattastefnu nýju stjórnarinnar fer fram áhugaverð umræða um umhverfisskatta í Danmörku þessa dagana. Á Norðurlöndunum, þó einna sízt hér á landi, hefur á undanförnum árum og áratugum verið tekið upp víðtækt kerfi „grænna“ umhverfisskatta og -gjalda, sem eiga að þjóna því hlutverki að beina neyzlu fólks frá vörum, sem valda umhverfinu skaða eða að spara auðlindir, sem eru af skornum skammti. Ætla má að þessir skattar og gjöld komi til endurskoðunar á næstunni þegar ríkisstjórnir Norðurlandanna gera upp við sig hvernig þær ætla að uppfylla skuldbindingar sínar samkvæmt Kyoto-bók- uninni við loftslagssáttmála Sameinuðu þjóð- anna. Í viðtali í Jyllands-Posten sl. miðvikudag segir Mikael Skou Andersen, rannsóknaprófessor við DMU, Umhverfisrannsóknastofnun Danmerkur, og einn virtasti umhverfismálasérfræðingur Dana, að margir skattar, sem komið hafi verið á undir því yfirskini að þeir væru „grænir“ og hefðu áhrif í þágu umhverfisverndar, séu í rauninni gagnslausir sem slíkir og séu réttnefndir „rauðir“ tekjuöflunarskattar ríkisins. Skou Andersen nefnir bifreiðagjald, gjald á rafmagns- og vatns- notkun og sorphirðugjöld. Hann tekur dæmi af vatnsgjaldinu, sem er fimm danskar krónur á hvern rúmmetra vatns til heimilisnota: „Hvernig er hægt að byggja vatnsgjaldið á umhverfissjón- armiðum, þegar það er bara í nokkrum stórborg- um, sem er skortur á vatni?“ spyr hann. „Ef þetta ætti að vera ekta, grænt gjald, ætti bara að nota það þar sem í raun er skortur á vatni.“ Skou Andersen leggur til að í samræmi við skattastoppið stokki nýja ríkisstjórnin upp í um- hverfisgjöldunum, þannig að tekjur ríkisins auk- ist ekki, en þau hafi raunveruleg áhrif í þágu um- hverfisins. Til dæmis sé fráleitt að leggja umhverfisgjald á raforku, sem framleidd sé með vindmyllum eða vatni. Eins eigi að lækka himinhá föst gjöld á bifreiðar og rukka bíleigendur frekar í samræmi við það hvað þeir nota bílinn mikið og hvað vélin sé umhverfisvæn. Eyvind Vesselbo, talsmaður Venstre í umhverfismálum og nýr for- maður umhverfisnefndar danska þjóðþingsins, fagnar þessum tillögum í Jyllands-Posten. Lík- lega verður ástæða fyrir Íslendinga að fylgjast með gangi þessara mála í Danmörku þegar menn fara að útfæra hvernig á að draga úr notkun jarð- efnaeldsneytis hér á landi til að uppfylla skuld- bindingar samkvæmt Kyoto. Hér er fátt eitt tilgreint af fjöldamörgum nýj- ungum í stjórnarsáttmála nýju stjórnarinnar í Danmörku. Það er hins vegar greinilegt að hug- myndaleg endurnýjun er að eiga sér stað í dönsk- um stjórnmálum og ferskir vindar blása. Það er full ástæða til að fylgjast vel með þróun mála í Danaveldi á nýja árinu og nýta þær hugmyndir, sem vel reynast. Morgunblaðið/Golli Í sleðaferð á Seltjarnarnesi. Ekki ætti að dæma hina nýju stjórn Anders Fogh Rasm- ussen, leiðtoga Venstre og forsætis- ráðherra Danmerk- ur, út frá afstöðunni í innflytjendamálum eingöngu. Þvert á móti bendir ýmis- legt til að út úr stjórnarsamstarfi Venstre og Íhalds- flokksins geti komið ýmsar athyglisverð- ar stefnubreytingar, sem gætu haft áhrif víðar á Norðurlönd- unum ef vel tekst til. Laugardagur 29. desember

x

Morgunblaðið

Direct Links

If you want to link to this newspaper/magazine, please use these links:

Link to this newspaper/magazine: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Link to this issue:

Link to this page:

Link to this article:

Please do not link directly to images or PDFs on Timarit.is as such URLs may change without warning. Please use the URLs provided above for linking to the website.