Morgunblaðið - 20.02.2002, Blaðsíða 23
LISTIR
MORGUNBLAÐIÐ MIÐVIKUDAGUR 20. FEBRÚAR 2002 23
Draumur
kaffiunnenda!
Veitum faglega ráðgjöf um val á kaffivélum.
Fjölbreytt úrval í mörgum litum og gerðum.
SAECO er stærsti framleiðandi
expresso-kaffivéla á Ítalíu.
Expresso-
Cappuccino
kaffivélar
Verð frá kr.
14.915 stgr.
ÞAÐ sem af er ári hefurverið óvenjumikið umtónleika á höfuðborg-arsvæðinu. Eftir anna-
sama aðventu hvað tónleikahald
varðar voru jól og áramót varla að
baki, þegar Myrkir músíkdagar
hófust með fjölbreyttum tónleikum
víðs vegar um borgina. Í kvöld
hefst ný tónleikaröð sameinaðra
krafta tónlistarhópanna tveggja,
Caput og Ferðalaga. Dagsetningin
20.02 2002 kl. 20.02, var valin sér-
staklega fyrir þessa fyrstu tón-
leika, því þema hátíðarinnar er
symmetría, eða samhverfa, og
varla hægt að finna symmetrískari
tónleikatíma en þennan.
Tónleikaröðin er kölluð 15.15, en
allir tónleikar raðarinnar, aðrir en
upphafstónleikarnir í kvöld, verða í
Borgarleikhúsinu á laugardögum
kl. 15.15 fram á vor. Guðni Franz-
son í Caput segir að 15.15 sé beint
framhald af síðustu tónleikaröð
Caput, Malamelódíu, sem haldin
var í desember á síðasta ári, og
önnur tónleikaröð er svo ráðgerð í
haust. Guðni segir að hugmyndin
hafi verið að efna til tónleikaraðar
þar sem flutt yrðu verk, allt frá
einleiksverkum til stærri kamm-
erverka fyrir mismunandi tónleika-
hópa. Symmetrían er þema rað-
arinnar og það er ekki nóg með að
dagsetningin og tími fyrstu tón-
leikanna sé í fullkominni symmetr-
íu, þá eru tónskáldin sjálf bræð-
urnir Haukur Tómasson og Jónas
Tómasson, og mynda því eins kon-
ar symmetríu. Verkin á efnis-
skránni mynda einnig symmetríu
að sögn Guðna, þar sem speglast
einleiksverk og kammerverk af
svipaðri stærð eftir hvorn þeirra
um sig. Veggspjald tónleikarað-
arinnar er líka hannað með þetta
form í huga.
Kammerverk Hauks, Kópía, hef-
ur aðeins einu sinni heyrst áður.
„Caput flutti verkið árið 2000, og
þá var hugmyndin sú að verkið
yrði ekki flutt aftur. Nú er Haukur
búinn að endurskapa Kópíu og við
fáum að flytja það aftur, og mér
finnst þetta satt að segja orðið
mjög sterkt og rosalega flott verk.
Kammerverk Jónasar, Sjö brot úr
sálumessu, var frumflutt vestur á
Ísafirði, en verður nú frumflutt í
Reykjavík. Þetta er magnað stykki
í einfaldleika sínum. Jónas hefur
mjög persónulega rödd og þetta er
alveg í hans stíl.“
Verkið er samið fyrir flautu,
klarinettu, óbó, horn, víólu og
harmónikku, og segir Guðni að
harmónikkuparturinn sé stór, en
það er Tatu Kantooma sem leikur
á nikkuna. „Það er líka stór harm-
ónikkupartur í Kópíunni hans Jón-
asar, og hljóðfæraskipunin í verk-
unum tveimur er nokkuð svipuð. Í
Kópíu eru svo líka stórir partar
fyrir sembal og gítar.“ Jónas
samdi Sjö brot úr sálumessu árið
1990. „Ég samdi upphaflega
stærra verk fyrir hljómsveit. Mér
fannst það of mikið og fannst ég
þurfa að klippa það niður, sem ég
gerði, bæði að lengd og stærð og
umfangi, þar til eftir sátu sjö stutt-
ir kaflar fyrir sex hljóðfæri. Það
stóð þannig á árið 1990 að það
vantaði verk fyrir sex hljóðfæri á
tónleika á Ísafirði og það stóð
þannig á að ég var akkúrat að
ganga frá verkinu þá. Svo dúkkar
það upp á Caput tónleikum núna.“
Einleiksverk þeirra Hauks og
Jónasar eru Sónata XIV fyrir gítar
eftir Jónas, sem Pétur Jónasson
leikur og Spring Chicken fyrir
klarinettu eftir Hauk, en það leik-
ur Guðni. „Þetta er frumflutn-
ingur, verkið er stutt; – stuttur
klarinettukjúklingur,“ segir Guðni,
en einleiksverk Jónasar, samið um
1980, var frumflutt í Hollandi, og
hefur heyrst víða síðan.
Jónas er búsettur á Ísafirði, en
Haukur hefur búið í Hollandi síð-
ustu ár, en er nýfluttur heim.
Guðni segir að hugmyndin að
symmetríuþemanu sé komin frá
verki Hauks, Kópíu. „Kópía hafði
bara þessi áhrif á alla prógram-
gerð seríunnar. Hún er öll samin í
kópíum og speglunum og í symm-
etrísku formi. Haukur var lengi
búinn að horfa á þennan dag sem
kjörinn til flutnings á verkinu og
tíminn, 20.02, spilaði þar líka inní,
og þar með var þetta farið að hafa
ráðandi áhrif á alla hugsun okkar
um þetta.“
Tónleikarnir verða allir í nýja
sal Borgarleikhússins, og segir
Guðni að seinna í tónleikaröðinni
sé hugmyndin að nýta tæknilega
möguleika leikhússins við tónleika-
haldið, sérstaklega í leikhúsverki
eftir færeyska tónskáldið Kristian
Blak, þar sem Guðni segir að sé
„algjört galdraleikhússverk.“
Það eru þeir Sigurður Hall-
dórsson sellóleikari og Daníel Þor-
steinsson píanóleikari sem skipu-
leggja Ferðalög, en þeir hafa
haldið úti tónleikum undir þessu
þema í nokkur ár við mjög góðar
undirtektir. Á ferðalagatónleikum
eru tekin fyrir ákveðin landssvæði
í heiminum og leikin tónlist þaðan.
Þar er ekki endilega um að ræða
ný verk, heldur er ætlunin að gefa
áheyrendum yfirlit í tónum yfir
músíksögu þess staðar sem valinn
er. Sigurður og Daníelhafa báðir
spilað með Caput og segir Guðni
Franzson að þeim hafi öllum þótt
ákjósanlegt að samnýta þessa
krafta. Caput heldur þó á sínum
tónleikum fast í þá reglu sína að
leika eingöngu nýja tónlist.
Á næstu tónleikum tónleikarað-
arinnar, í Borgarleikhúsinu á laug-
ardag kl. 15.15, verða Ferðalög
einmitt á dagskrá, en þeir tón-
leikar bera yfirskriftina Sígauna-
ljóð. Þar leika þeir Sigurður Hall-
dórsson og Daníel Þorsteinsson
verk eftir Tékkana Martinù, Benda
og Dvorák.
Meðal þess athyglisverðasta sem
Guðni Franzson nefnir í tónleika-
röðinni, eru tónleikar með verkum
Færeyinganna Kristians Blaks og
Sunleifs Rasmussens, en Caput er
einmitt um þessar mundir að hljóð-
rita geisladisk með verkum Sun-
leifs. Atli Ingólfsson á nokkur verk
í tónleikaröðinni, einnig Þorsteinn
Hauksson og einnig nefnir Guðni
athyglisvert finnskt tónskáld,
Jukka Koskinen, en einnig verða
flutt verk eftir þekkta löndu hans,
Kaiju Saariaho. Tónleikarnir í
Borgarleikhúsinu kvöld hefjast kl.
20.02 eins og fyrr segir, og Síg-
aunaljóð á laugardag á föstum
tíma tónleikaraðarinnar kl. 15.15.
Klarinettukjúklingur, Kópía, Sálumessubrot og Gítarsónata leikin í Borgarleikhúsinu
Morgunblaðið/Kristinn Ingvarsson
20.02 2002 kl. 20.02. Haukur Tómasson og Jónas Tómasson tónskáld.
Í fullkom-
inni sam-
hverfu
LISTRÁÐ Langholtskirkju
efndi til annarrar Listafléttu á
fimmtugsafmælisári Langholts-
safnaðar á laugardag, þegar bar-
okkhljómlistarmannahópur flutti
ofangreind tvö verk J. S. Bachs,
með hugleiðingum Hauks Inga
Jónassonar um „Kaffi og trú“
inni á milli. Aðsókn var með betra
móti miðað við tíma dags og viku,
enda ekkert skíðafæri í fjöllum.
Miðað við þýðingu tríósónöt-
unnar sem aðalkammergreinar
síðbarokksins er merkilegt hvað
Bach samdi lítið af slíkum verk-
um fyrir tvö raddhljóðfæri og
fylgibassa („basso continuo“, þ.e.
sembal og selló). Að vísu er sú
fræga í Tónafórninni til Friðriks
mikla óefað eitt fremsta slíka
verk 18. aldar, en annars eru
flestar varðveittu sónötur Bachs
aðeins fyrir eitt raddhljóðfæri
með fylgibassa.
Ef marka má Grove verkalist-
ann eru nær allar hinna fjögurra
eiginlegra tríósónatna Bachs
(BWV 1037–40) nú taldar afurðir
sona hans, nemenda eða vina, þ. á
m. sú í G-dúr. Hún var sem
vænta mátti hin ljúffengasta smíð
og ágætlega leikin miðað við tak-
markaða samspilsreynslu flytj-
enda af slíkum verkum, sem afar
sjaldan eru hér á boðstólum, jafn-
vel að sumartónleikum í Skálholti
meðtöldum. Helztu agnúar voru í
styrksamvægi, þar sem sellóið
var oft fullveikt, og þó einkum
treflauta Nardeaus, sem nánast
hvarf á neðra tónsviði.
Tónlistaríðorð í íslenzku eru
því miður stundum tilviljunar-
kennd, ef ekki beinlínis villandi,
og löngu tímabært að hreinsa til.
Má t.d. nefna hið útbreidda fylgi-
rödd fyrir basso continuo, sem
hunzar þungamiðjuhlutverk bass-
ans („fylgibassi“ er ekki fullkom-
ið en þó illskárra) og ætti öllu
frekar að nota um svonefnda
„obbligato“-parta – t.d. flautu-
partinn í Kaffikantötunni, sem
var seinna Bach-verkið á dag-
skrá.
Það er ekki á allra vitorði að
mesta kirkjutónskáld allra tíma
hafi líka verið kaffihúsamúsíkant.
Samt sem áður er það söguleg
staðreynd, að þegar Tómasar-
kantorinn tók 1729 við stjórn
„Collegium Musicum“, hljómsveit
stúdenta og áhugamanna í Leip-
zig, bæði lék hann með og samdi
eða útsetti fyrir sveitina á laug-
ardagstónleikum hennar í kaffi-
húsi Zimmermanns þar í borg um
árabil. Kaffikantatan svonefnda
er talin frá 1735, samin við texta
fastalíbrettista Bachs, „Picand-
ers“, er einnig reit texta Sveita-
kantötunnar (til heiðurs forföður
Dietrichs Fischer-Dieskau), og
geisla bæði verkin af góðlátlegum
jarðneskum húmor. Þó er Kaffi-
kantatan að vonum borgaralegri,
og m.a.s. með ávæningi af hinum
nýja franska „galanta“ stíl, eink-
um í aríu Lieschenar, „Ei, wie
schmeckt der Coffee süße“. Ef að
líkum lætur hefur aukið á kátínu
tónleikagesta við frumuppfærsl-
una, að hin kaffisjúka dóttir
Schlendrians gamla (= „herra
Trassaskapar“) var sungin af
ungum pilti dúðuðum upp í kven-
mannsfötum.
Það sorglegasta við hérum-
rædda uppákomu var vitanlega
hversu óhemjulangt er almennt á
milli kantötuuppfærslna Bachs í
höfuðborginni, andlegra og ekki
síður veraldlegra, og bera báðar
höfuðtónlistarkirkjur svæðisins
þar mesta ábyrgð á. Því kær-
komnara var að fá loks að heyra
þessa gamanperlu eftir jafnvel
áratuga legu í láginni, enda þótt
svolítið hryndaufur samleikur (og
misvel samtaka spil og söngur í
sönglesum) bæri vott um rútínu-
leysi í greininni. Einsöngvararnir
stóðu sig að mestu með prýði.
Þýzkuframburður virtist aftur á
móti í öfugu hlutfalli við radd-
styrk og hlutfallslega slappastur
hjá boldangsbassa Jóhanns
Smára Sævarssonar. Íslenzk
textaþýðing Þorsteins Gylfasonar
var ekki alltaf hárnákvæm, en
lipur og rétt í anda.
Sem eftirkrydd sungu fyrrum
Graduale Nobile félagarnir Arn-
björg Ösp Matthíasdóttir, Lára
Bryndís Eggertsdóttir, Lovísa
Árnadóttir og Sigríður Rafnar
Pétursdóttir í Kvartettnum Djúsí
nettilega gamlan „Java Jive“
smell Bens Oakland við undirleik
ónefnds gítarista og uppskáru
verðskuldaðan fögnuð.
Um kaffifíkn í Leipzig
Ríkarður Ö. Pálsson
TÓNLIST
Langholtskirkja
J. S. Bach: Tríósónata í G BWV 1038.
„Schweigt stille, plaudert nicht“, Kaffi-
kantata BWV 211. Margrét Bóasdóttir
S, Snorri Wium T, Jóhann Smári Sæv-
arsson B; Martial Nardeau, flauta;
Hildigunnur Haldórsdóttir, Lilja Hjalta-
dóttir, fiðlur; Sarah Buckley, víóla; Sig-
urður Halldórsson, selló; Richard Korn,
kontrabassi; Guðrún Óskarsdóttir,
semball. Laugardaginn 16. febrúar kl.
17.
LISTAFLÉTTA II