Morgunblaðið - 13.03.2002, Síða 40

Morgunblaðið - 13.03.2002, Síða 40
MINNINGAR 40 MIÐVIKUDAGUR 13. MARS 2002 MORGUNBLAÐIÐ Elsku afi minn, þá er komið að leiðarlokum. Þú hefur kvatt þennan heim, saddur lífdaga eftir tæp 93 ár. Þessir síðustu dagar voru þér erfiðir, líkaminn var þrotinn kröftum og þurfti sína hvíld. Þetta er víst gangur lísins, öll vitum við fyrir víst að við eigum eftir að yf- irgefa þessa jarðvist og með hækk- andi aldri styttist í kveðjustund. Samt er kveðjustundin alltaf erfið, þrungin söknuði og trega. Það er eðlilegt. Minningaperlur spretta fram í hugann, hver af annarri, perl- ur sem maður á aldrei eftir að gleyma og eiga sinn þátt í að skapa þann persónuleika sem maður hefur yfir að búa. Mig langar til að deila nokkrum slíkum perlum með þeim sem þóttu vænt um afa minn og ömmu og lesa þessi orð. Afi var ákaflega mikil barnagæla og kannski þess vegna tengjast mín- ar allra fyrstu bernskuminningar honum mjög sterkt. Þetta eru eins konar svipmyndir frekar en heild- stæðar minningar: Ég er u.þ.b. 3ja ára á gangi með afa og hann heldur í hönd mína. Ég er á brúnum sand- ölum; við afi erum saman í Jónsbúð- inni, mamma er á þönum um búðina í forláta tréklossum sem ég góni á girndaraugum. Hún kemur til mín og kyssir mig á kinnina; ég sit í vigt- arskúrnum með afa. Vörubílar stoppa fyrir framan skúrinn og afi á orðastað við bílstjórana og skrifar eitthvað hjá sér. Mér finnst tíminn frekar lengi að líða. Seinna sagði mamma mér að á þessum tíma hefði afi verið að passa mig meðan hún var í vinnu. Þessi litlu samhengislausu brot sitja eftir í minningunni. Mér er líka afar minnisstætt þegar afi var að syngja mig í svefn. Ég ligg í rúminu og afi syngur „Nú andar suðrið sæla vindum þýðum…“ aftur og aftur, þar til ég sofna. Ég heyri þetta lag aldrei svo ég hverfi ekki aftur í tímann og heyri röddina hans afa. Þegar kom að því að læra þetta ljóð, „Ég bið að heilsa“ eftir Jónas Hallgrímsson, í skólanum, fannst mér eins og verið væri að ræna því frá afa mínum. Í mínum huga voru þetta ósköp ein- faldlega lagið og ljóðið hans og verða PÁLL STEPHENSEN HANNESSON ✝ Páll StephensenHannesson fædd- ist á Bíldudal 29. júlí 1909. Hann lést á Landspítala, Foss- vogi, 21. febrúar síð- astliðinn og fór útför hans fram frá Ás- kirkju 1. mars. það alltaf. Órjúfanlegur hluti af honum. Ég er orðin svolítið eldri, kannski fimm ára. Afi og amma eru að koma úr einni sigling- unni með Gullfossi. Þau eru með stóra Macin- tosh-dós í farteskinu, tvær frekar en eina. Þvílíkar gersemar! Þetta eru álíka verð- mæti fyrir mig og gull- kistur fyrir sjóræn- ingja í ævintýrunum. Ég fæ líka stóra dúkku sem getur gengið. Mamma skoðar myndir úr blóma- garðinum fræga í Hamborg og dásamar fegurðina. Ég veit ekki hvar Hamborg er, bara einhvers staðar voðalega langt í burtu. Mér finnst afi og amma mikið ævintýrafólk. Það er ekki algengt að almenningur ferðist til útlanda á þessum árum, a.m.k. ekki íbúar lítilla sjávarþorpa úti á landi. Minningar frá Staðarhóli spretta fram í hugann. Skóladegi er lokið, ég stekk yfir Jónsbúðarlækinn, hleyp nokkur skref yfir Tunguna og er mætt til afa og ömmu. Matarlyktina leggur fyrir vitin, amma er að steikja klatta. Hún er búin að smyrja nýbak- að rúgbrauð með þykku lagi af smjöri og rúllupylsu fyrir afa. Með- lætið með síðdegiskaffinu er sum sé tilbúið. Ég er að sjálfsögðu drifin inn í eldhús til að borða. Afi situr við spilaborðið í bókaherberginu og er að leggja kapal. Gufuradíóið er á góðum styrk, það er verið að lesa dánar- fregnir og jarðarfarir. Hann raular lagstúf fyrir munni sér. Annað slagið lítur hann upp úr spilunum og setur væna tóbaksklípu í nefið og snýtir sér með miklum þrumugný stuttu síðar, með rauðum tóbaksklút. Hann grípur kíkinn úr gluggakistunni og horfir yfir voginn. Það er greinilega von á skipi og hann er í viðbragðs- stöðu. Ég fer inn á skrifstofuna hans og sest í skrifborðsstólinn. Ég fæ að leika mér á ritvélinni og reiknivélinni eins og mig lystir. Það er aldrei neitt bannað hjá afa, þótt stássstofan hennar ömmu sé algert bannsvæði. Jóladagur á Staðarhóli. Amma tekur á móti fjölskyldunni í forstof- unni. Hún er eins og skipstjórinn í brúnni, hér ræður hún ríkjum. Hún er glerfín að vanda í dökkbláum blúndujakka með hvítum líningum og í hvítu pilsi. Afi er líka uppá- klæddur eins og dagurinn gefur til- efni til. Hann er í svörtum jakkaföt- um, hvítri skyrtu og með þverslaufu. Amma er á þönum í eldhúsinu og sendir mig niður í kjallara að sækja malt og appelsín. Ég hleyp niður stigann og opna dyrnar en er með hjartað í buxunum af hræðslu. Mér finnst kjallarinn hjá afa og ömmu vera a.m.k. 100 ára og hleyp upp aft- ur og tek tvö þrep í hverju skrefi. Borðstofuborðið svignar undan kræsingum, það er ekkert skorið við nögl á þessu heimili. Afi situr við enda borðs og drekkur pilsner með matnum. Það get ég ekki skilið, jóla- ölið er svo miklu betra á bragðið. Ég fæ að gista hjá ömmu og afa. Ég sef í bókaherberginu eins og venjulega. Ég kemst smám saman til meðvitundar við morgunfréttirnar á Gufunni. Ég heyri kunnuglegt suð og tekst að opna annað augað ofurlítið. Afi situr við spilaborðið og er að raka sig með rafmagnsrakvélinni og horfir yfir verkið úr kringlóttum spegli. Hann er á nærbolnum og axlaböndin hanga niður með buxunum. Lífið er komið í fullan gang á Staðarhóli þótt klukkan sé einungis sjö að morgni og það er helgi! Ég væri örugglega enn þá sofandi ef ég væri heima hjá mér á Dalbrautinni. Það er samt ótrúlega notalegt að vakna svona snemma í þessu umhverfi. Við mér blasa bóka- hillurnar troðfullar af bókum frá lofti og niður á gólf. Handavinnan hennar ömmu liggur óhreyfð í brúna leður- stólnum frá því kvöldið áður. Mér líð- ur eins og unga í hreiðri. Amma kem- ur askvaðandi úr eldhúsinu með morgunmatinn í rúmið, ristað brauð með osti og fullt glas af kaffi með mjólk og sykri. Algerlega forboðinn drykkur heima hjá mér. En ekki á Staðarhóli. Afi hafði ákaflega gaman af að keyra bíl og keyrði jafnan nokkuð greitt um íslensku malarvegina. Hann átti alltaf Volvo frá því ég man eftir mér, fyrst var það rauði Volvo- inn, þá sá græni og loks sá blái. En númrið breyttist ekki, alltaf B-15. Ég á margar minningar tengdar afa og bílferðum. Við systkinin erum á leið í Flóka- lund í sunnudagsbíltúr með afa og ömmu og ekki í fyrsta sinn. Það er fallegt veður, sólskin og logn, eins og alltaf. Amma situr prúðbúin við hlið afa, með púðrið og varalitinn á sínum stað og ilmvatnsangan leggur um all- an bíl. Sá gamli, reffilegur með hatt- inn, brunar í loftköstum um malar- vegina yfir hálsa og heiðar. Ömmu er ekki sérlega skemmt yfir ökulaginu og setur upp ákveðinn svip sem eng- inn getur sett upp nema hún þegar henni er misboðið. Heba og Palli, glæsileg að vanda, taka vel á móti okkur. Við krakkarnir fáum gos í glerflösku með röri og kökusneið. Gos er bara drukkið á hátíðis- og tyllidögum svo það er talsvert eftir- sóknarvert að fá að fara með í þessar ferðir. Umhverfið við Flókalund er alltaf jafnheillandi og engin hætta á að manni leiðist. Ég er á ferðalagi með afa og ömmu. Við erum á leiðinni norður til Húsavíkur, á æskuslóðir ömmu, þangað sem þau fara á hverju sumri að heimsækja bræður hennar og fjöl- skyldur þeirra, Kristjánsættina. Afi keyrir greitt að venju og í einni strik- lotu frá Bíldudal. Það springur alla vega þrisvar á leiðinni, eða þannig er það a.m.k. í minningunni. Afi er snar í snúningum, vindur sér út úr bílnum og er snöggur að skipta um dekk. Hann er alltaf snöggur að öllu. Og enn er það gamla Gufan en þó ekki á fullum styrk. Ég læt mig dreyma um að geta hlustað á Abba og Boney M. Vasadiskó er ekki komið á markað- inn. Það er vel tekið á móti ferðalöng- um í Ásgeirshúsi, fullt hús af fólki og mat. Það er greinilega mjög kært með ömmu og afa og þessu skyldfólki mínu sem ég er að sjá í fyrsta sinn svo ég muni eftir. Ég finn að amma er komin „heim“. Við erum að fylgjast með sveitar- stjórnarkosningum fyrir norðan árið 1978 í sjónvarpinu. Andrúmsloftið er frekar rafmagnað í stofunni í Ás- geirshúsi enda skiptast menn alger- lega í tvö horn í pólitíkinni. Afi gegn- heill sjálfstæðismaður en skyldfólkið allt mjög vinstrisinnað. Ég dáist að afa í huganum fyrir að geta stillt sig. Hann horfir einbeittur en segir ekki margt. En mikið held ég að hann langi til að láta nokkur vel valin orð falla því Sjálfstæðisflokkurinn tapar víða fylgi, m.a. í borginni. Afi getur nefnilega æst sig heil ósköp í póli- tískri umræðu, svo mikið að stundum heldur maður að þakið ætli af húsinu. En ekki þetta kvöld í Ásgeirshúsi. Kannski gefur amma honum oln- bogaskot öðru hvoru án þess að ég verði þess vör eða lætur sér nægja að setja upp svipinn góða. Þessar minningar og svo ótal margar fleiri varðveiti ég í huga mín- um og gleymi aldrei. Þegar amma og afi fluttu suður árið 1984 urðu ákveð- in kaflaskil í lífi þeirra. Þetta fast- mótaða lífsmynstur sem haldist hafði óbreytt í u.þ.b. 45 ár var nú breytt og ekkert var eins og áður. Þó fannst mér afi kunna vel við sig í borginni, hér átti hann systkini sín, dóttur og barnabörn. Amma var hins vegar alltaf með hugann fyrir vestan. Þeg- ar heilsu ömmu tók að hraka fluttu þau í þjónustuíbúð á vegum Hrafn- istu við Jökulgrunn og eftir að amma lést árið 1989, flutti afi á Hrafnistu og bjó þar síðustu 13 ár ævi sinnar. Þar leið honum vel, hafði stórt og gott herbergi og var í alla staði mjög ánægður. Hann bjó alltaf yfir sama kraftinum sem hafði einkennt hans persónuleika alla tíð, fylgdist vel með málefnum líðandi stundar sem og öllu sem við barnabörnin og barna- barnabörnin tókum okkur fyrir hendur. Systkini hans, Jón, Addý, Erla og Dollý, meðan hún lifði, voru duglega að heimsækja hann enda mikill kærleikur með þeim. Við systkinin komum til hans eins oft og færi gafst og þá voru langafabörnin að sjálfsögðu tekin með. Sérstaklega vil ég þó nefna Palla og Hannes sem komu til hans nánast upp á hvern dag þegar þeir áttu frí frá sínum störfum. Eins hugsaði mamma mín einstak- lega vel um hann og var m.a. mjög dugleg við að bjóða systkinunum og mökum þeirra heim til sín við hin ýmsu tækifæri meðan heilsa afa leyfði. Ég veit að afi var henni þakk- látur fyrir allt sem hún gerði fyrir hann, þót hann hafi ekki haft um það mörg orð. Hann horfði gjarnan á um- ræður frá Alþingi í sjónvarpinu en skrúfaði jafnan niður í hljóðinu ef vinstrimaður sté í pontu. Hann tók einnig upp á því á gamalsaldri að fylgjast með íþróttum og var t.d. fljótur að setja sig inn í Formúluna. Schumacher var hans maður, það var ekki spurning. Hann fylgdist vel með Evrópumótinu í handbolta sem fram fór um daginn og býsnaðist mikið yf- ir dómarahneykslinu í leikjunum á móti Spáni og Frakklandi. Hann hafði líka alla tíð ákaflega mikinn áhuga á ættfræði og var heill hafsjór af fróðleik um ættir sínar, Vatns- fjarðarætt og Reykhólaætt, og fékk aldrei nóg af að fletta ættartölunum fram og aftur. Ég hef sennilega feng- ið þennan áhuga frá honum, enda þraut aldrei umræðuefni þegar ég kom í heimsókn. Hann lagði metnað í að þiggja sem minnsta hjálp til að íþyngja starfsstúlkunum ekki um of. Það var t.d. ekki fyrr en allra síðustu dagana sem hann hætti að geta búið um rúmið sitt sjálfur. Hann var alltaf jafn fínn í tauinu, í jakkafötum, helst með bindi og í vesti og með vasaúrið. Og aldrei var farið út úr húsi öðruvísi en með hattinn. Afi var svo lánsamur að búa við góða heilsu mestan hluta ævinnar. Það var ekki fyrr en síðustu þrjú ævi- árin sem ellikerling fór að láta á sér kræla svo nokkru næmi en þá fór hjartað að bila. Fyrir þessa góðu heilsu á langri ævi erum við, hans nánustu aðstandendur, þakklát og ég veit að hann var það líka. Ég vil að lokum þakka starfsfólki Hrafnistu fyrir góða umönnun í gegnum árin. Einnig vil ég þakka Ás- geiri Jónssyni hjartasérfræðingi og öðru starfsfólki á deild B-7 á Borg- arsjúkrahúsinu fyrir einstaklega góða umönnun þessa síðustu ævi- daga afa míns. Afi minn, ég veit að amma hefur tekið vel á móti þér á nýjum áfanga- stað. Trúlega hefur hana verið farið að lengja eftir þér. Ég sé þig fyrir mér sestan við matborðið hjá henni og hún standandi yfir þér með svunt- una, að fylgjast með þér njóta mat- arins. Þið eruð upp á ykkar besta, eins og ég man eftir ykkur. Blessuð sé minning ykkar. Kristín Pétursdóttir. ✝ Páll Ingi SvanurJónsson fæddist á Daðastöðum á Reykjaströnd í Skagafirði 20. mars 1925. Hann lést á hjúkrunarheimilinu Seli aðfaranótt 2. mars síðastliðinn. Foreldrar hans voru hjónin Sigfríður Jó- hannsdóttir og Jón Jónsson sem bjuggu á Daðastöðum og síð- ar á Steini, Reykja- strönd. Systkini Páls eru: Fjóla Valgerður, f. 27. október 1922, látin, Sigur- finnur Jóhann Svanur, f. 11. mars 1930, Friðvin Jóhann Svanur, f. 11. janúar 1932, látinn, og Halldór Maríus Svanur, f. 10. desember ember 1963, sambýlismaður Valur Sæmundsson, börn þeirra eru Andri Yrkill, f. 12. maí 1992, og Snædís Ylva, f. 7. maí 1998. 4) Hlyn- ur Skagfjörð, f. 22. ágúst 1970, sambýliskona Valgerður Anna Jó- hannsdóttir og eiga þau soninn Hallgrím Árna, f. 8. febrúar 2002. Áður átti Valgerður dótturina Benediktu Björgu, f. 10. júlí 1985. Páll fór úr foreldrahúsum tæp- lega tvítugur að aldri og þá inn á Sauðárkrók. Þar var hann í ýmsum störfum, m.a. til sjós, í vegavinnu, keyrði vörubíla og rútur til Siglu- fjarðar meðan leiðin lá um Siglu- fjarðarskarð. Fljótlega eftir stofn- un Rafmagnsveitna ríkisins réðst Páll þar í vinnu og starfaði þar í hartnær fimmtíu ár. Mestan hluta starfstímans var hann línumaður en hin síðari ár vann hann við álest- ur rafmagnsmæla. Páll vann mikið með Ferðafélagi Akureyrar og var þar heiðursfélagi. Útför Páls fer fram frá Akureyr- arkirkju í dag og hefst athöfnin klukkan 13.30. 1934. Hinn 21. júní 1958 kvæntist Páll Þórveigu Hallgríms- dóttur, f. 8. september 1935, og bjuggu þau allan sinn búskap á Akureyri. Foreldrar hennar voru Anna Árnadóttir og Hall- grímur Tryggvason í Pálsgerði í Grýtu- bakkahreppi í S.-Þing. og síðar á Akureyri. Börn Páls og Þórveig- ar eru: 1) Brynja Björk, f. 29. desember 1958, þau Valdimar Gunnarsson eiga synina Gunnar Inga, f. 20. september 1985, og Arnar Loga, f. 26. desember 1991. 2) Hreinn Skagfjörð, f. 12. apríl 1960. 3) Hafdís Guðrún, f. 24. des- Páll Ingi Svanur Jónsson frá Daðastöðum á Reykjaströnd lést laugardaginn 2. mars síðastliðinn tæplega 77 ára. Páll hóf störf hjá Rafmagnsveitum ríkisins (RARIK) árið 1950. Hann hafði þá áður starfað við ýmis störf, meðal annars í vega- vinnu og á síld. Fyrstu árin hjá RARIK starfaði hann víða um land og var meðal annars í línuvinnu í Skagafirði 1953. Hann fluttist til Ak- ureyrar 1954 og starfaði á Norður- landi eystra að mestu síðan, allt til starfsloka um sjötugt. Hann hætti störfum hjá RARIK í árslok 1995. Páll var einstaklega ósérhlífinn og hjálpsamur hvort sem það var í störfum hjá RARIK eða utan þeirra. Hann tók virkan þátt í þeirri miklu uppbyggingu raforkukerfisins sem átti sér stað upp úr miðri síðustu öld, en aðaluppbyggingatími raforku- kerfisins á Eyjafjarðarsvæðinu og í S-Þingeyjarsýslu var á árunum frá 1954 til 1960 og síðan fram undir 1970 í N-Þingeyjarsýslu. Þá voru tæki og tól til línuvinnu önnur en nú eru og oft var erfiður og langur vinnutími. Það þurfti því eldhuga til að endast í slíkum störfum. En starfið var einnig gefandi því hann naut, eins og aðrir sem unnu við þessi störf, þess þakklætis sem kom fram hjá nýjum raforkunotend- um, gleði og jákvæðs viðhorfs til starfsmanna RARIK þegar þeir við erfiðar aðstæður tengdu rafmagnið um sveitir. Fljótlega þróaðist verkaskipting þannig að Páll verkstýrði uppsetn- ingu spennistöðva og tengingu heim- tauga, en starfaði einnig við almenna línuvinnu. Þá var á þessu tíma, auk uppbyggingar, alltaf talsvert mikið um bilanir og langa útivist starfs- manna RARIK við erfiðar aðstæður og var Páll þar með öðrum alltaf í fremstu röð. Hann var alltaf tilbúinn til starfa á hverju sem gekk og sýndi þá oft ótrúlega atorku í baráttu við ófærð, óblíða veðráttu og erfitt starf. Verkstjórastarfinu gegndi Páll allt fram til 1977 að hann tók við starfi fulltrúa og sinnti álestrum og inn- heimtu í Eyjafirði. Fulltrúastarfinu gegndi hann til starfsloka. Páll hafði sterkar skoðanir á öllum hlutum og var ófeiminn við að láta þær í ljós. Hann var mikill áhuga- maður um allar nýjungar og hafði gaman af að gera ýmsar tilraunir, sem ekki var alltaf ljóst að myndu endilega heppnast. Ef þær tókust ekki eins og til var ætlast var þó alla- vega búið að sannprófa það. Ýmsar skemmtilegar sögur eru til af Páli og hafði hann alltaf mjög gaman af að segja þær sjálfur. Var þá ekkert dregið undan og af nógu að taka. Áhugamál Páls utan starfsins voru fjölmörg, en það sem stóð þó upp úr voru fjallaferðir og ferðalög, enda var hann virkur félagi í Ferðafélagi Akureyrar í fjöldamörg ár og mikið náttúrubarn. Þá hafði hann mikinn áhuga á ljósmyndun og veiðum ým- iskonar. Hann var atorkusamur í öllu sem hann tók sér fyrir hendur. Nú, þegar við, fyrrverandi sam- starfsmenn hjá RARIK, kveðjum Pál félaga okkar eftir langt og strangt ævistarf, erum við viss um að hann er hvíldinni feginn. Síðustu ár- in átti hann við heilsubrest að stríða, en nú er því stríði lokið. Við þökkum Páli fyrir þá vináttu og trúnað sem hann sýndi okkur og þeim störfum sem hann tók að sér og kveðjum góð- an vin. Við vottum Þórveigu og öðr- um aðstandendum okkar dýpstu samúð. Fyrrverandi samstarfs- félagar hjá RARIK. PÁLL JÓNSSON

x

Morgunblaðið

Beinleiðis leinki

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.