Morgunblaðið - 09.04.2002, Síða 20
VIÐSKIPTI/ATHAFNALÍF
20 ÞRIÐJUDAGUR 9. APRÍL 2002 MORGUNBLAÐIÐ
FULLTRÚAR þrettán fyrirtækja ogstofnana tóku þátt í ferð viðskipta-sendinefndarinnar sem Útflutn-ingsráð Íslands skipulagði í
tengslum við opinbera heimsókn forsætis-
ráðherra til Víetnams. Í samvinnu við sam-
tök viðskiptalífsins í Víetnam var komið á
samskiptum milli fyrirtækja. Hver íslenski
fulltrúinn hitti nokkra hugsanlega viðskipta-
vini frá fyrirtækjum í báðum borgunum, það
er að segja í Hanoi og Ho Chi Minh borg. Þá
skipulagði Útflutningsráð þrjár ráðstefnur;
íslenskar viðskiptaráðstefnur í báðum borg-
unum og sérstaka sjávarútvegsráðstefnu í
HCM-borg. Fulltrúar fyrirtækjanna sem
rætt var við voru ánægðir með viðskipta-
fundina, sögðust hafa komist í samband við
mörg fyrirtæki og í sumum tilvikum var að
heyra að samtölin gætu leitt til viðskipta síð-
ar meir. Fyrirtæki sem ekki sendu fulltrúa í
umrædda ferð hafa einnig verið í tengslum
við Víetnam og sum reynt fyrir sér með
starfsemi þar.
Viðskiptaráðstefnurnar voru vel sóttar.
Yfir 200 manns mættu á ráðstefnuna í Hanoi
og var það fleira fólk en búist hafði verið við
og um 180 komu á viðskiptaráðstefnuna í Ho
Chi Minh-borg.
Opna kerfið fyrir íslensk fyrirtæki
Greinilegt er að það skipti fulltrúa ís-
lenska viðskiptalífsins miklu máli að vera á
ferð í óbeinum tengslum við opinbera heim-
sókn forsætisráðherra til Víetnams. Raunar
tók ráðherra beinan þátt í viðskiptaráð-
stefnunum og var viðstaddur undirritun 10
milljarða króna samstarfssamnings Icecon/
Markviss við samtök sjávarvöruframleið-
enda og útflytjenda í Víetnam og opnun sölu-
skrifstofu Marels. Ekki má gleyma því að
undirrituð var yfirlýsing stjórnvalda land-
anna um að stuðla að auknum viðskiptum og
að viðskiptamálefni bar oft á góma í við-
ræðum opinberu íslensku sendinefndarinnar
við ráðamenn. Jón Ásbergsson, fram-
kvæmdastjóri Útflutningsráðs, segir að sú
mikla athygli sem heimsókn Davíðs Odds-
sonar hafi fengið, hafi opnað kerfið fyrir ís-
lensk fyrirtæki. Jón Ásbjörnsson sem rekur
fiskvinnslu- og útflutningsfyrirtæki undir
sínu nafni sagðist hafa fengið tækifæri til að
hitta æðstu stjórnendur fyrirtækja sem
hefðu áhuga á að eiga samstarf við íslensk
fyrirtæki. Slík tækifæri fengju menn ekki
nema í tengslum við opinberar heimsóknir.
Hörður Arnarson, forstjóri Marels, sagði
að vegna þátttöku forsætisráðherra í opn-
unarathöfn söluskrifstofunnar sem Marel
opnaði undir nafni Carnitech í HCM-borg og
þau góðu orð sem hann lét þar og annars
staðar falla um fyrirtækið svo og þátttaka
aðstoðarsjávarútvegsráðherra Víetnams hafi
hjálpað fyrirtækinu vel af stað. Það hafi
meðal annars leitt til þess að yfirmenn fimm-
tán stærstu sjávarútvegsfyrirtækjanna í Ví-
etnam hafi verið viðstaddir opnunina og set-
ið hádegisverðarboð á eftir.
Gert hátt undir höfði
Ljóst er að íslenska forsætisráðherranum
var hampað í Víetnam. Hann fór meðal ann-
ars til fundar við forsætisráðherra landsins,
sem var gestgjafi hans, forseta þingsins,
sjávarútvegsráðherra og borgarstjóra
stærstu borga landsins. Sá eini af æðstu
ráðamönnum landsins sem hann hitti ekki er
Nong Duc Manh, aðalritari Kommúnista-
flokks Víetnams sem öllu ræður enda er
landið sósíalískt lýðveldi.
Fulltrúar fjölmiðla mættu á flesta atburði
og töluvert var fjallað um heimsóknina í
sjónvarpi og blöðum, því var jafnvel haldið
fram í eyru undirritaðs að jafnmikið hafi ver-
ið fjallað um heimsókn Davíðs og hina sögu-
legu heimsókn Clintons Bandaríkjaforseta
en það hljóta að vera ýkjur. Þess ber að geta
að fjölmiðlar í Víetnam eru ekki frjálsir í
vestrænum skilningi þess orðs, Kommún-
istaflokkurinn hefur stjórnað fjölmiðlun í
landinu og beitt strangri ritskoðun. Í höf-
uðborginni, Hanoi, voru strengdir rauðir
borðar yfir götur í miðborginni þar sem Dav-
íð Oddsson og eiginkona hans voru boðin vel-
komin í opinbera heimsókn. Loks má geta
þess að ekki hafa margir borgarar sem áttu
leið um hinar villtu umferðargötur borganna
tveggja á þessum tíma komist hjá því að tefj-
ast vegna bílalestar Íslendinganna sem fór
um allt í lögreglufylgd og var umferð stöðv-
uð á meðan. Hefur sjálfsagt þurft mörg
hundruð lögreglumenn til að stjórna umferð-
inni, svo ekki sé giskað á hærri tölur.
Sjálfur segist Davíð vera undrandi á því
hvað heimsókninni var gert hátt undir höfði
en tekur þó fram að slíkt megi ekki ofmeta.
Hefur hann ekki skýringar á reiðum hönd-
um. Segist þó hafa orðið var við að Víetnam-
ar líti til þess að Íslendingar hafi brotist til
efna á tiltölulega skömmum tíma og yfirunn-
ið ýmsa erfiðleika á þeirri leið. Þá segir hann
að Vo Van Kiet, fyrrverandi forsætisráð-
herra Víetnams, hafi hrifist mjög af Íslandi
þegar hann kom í opinbera heimsókn hingað
árið 1995 og séð strax að löndin gætu átt
samstarfsmöguleika þrátt fyrir fjarlægðina.
Þess má geta að Van Kiet er enn áhrifamað-
ur í landinu þótt hann hafi látið af embætti.
Óskaði hann sérstaklega eftir að fá að hitta
íslenska forsætisráðherrann og urðu að sögn
Davíðs fagnaðarfundir þegar þeir hittust síð-
asta dag heimsóknarinnar.
Mikil aukning í sjávarútvegi
Fram til þessa hafa Ísland og Víetnam átt
í litlum viðskiptum, samkvæmt opinberum
hagtölum. Útflutningur þangað hefur nánast
enginn verið, sum árin enginn og aðeins fyrir
nokkur hundruð þúsund síðustu tvö árin.
Innflutningur frá Víetnam hefur þó vaxið úr
engu og hefur verið 150-200 milljónir á ári
síðustu þrjú árin. Þessar tölur segja þó ekki
alla söguna því íslensk fyrirtæki eiga í ýms-
um viðskiptum við Víetnam í gegn um erlend
dótturfélög og vörur frá Víetnam hafa verið
fluttar hingað til lands í gegn um heildsala í
Evrópu.
Jón Ásbergsson hjá Útflutningsráði segir
að mestu möguleikarnir á viðskiptum við Ví-
etnam liggi í sjávarútvegi sem hefur farið
mjög vaxandi í landinu. Veiðar og fiskeldi
hafa aukist hröðum skrefum, útflutningur
sjávarafurða jókst um 11% á síðasta ári. Skip
eru byggð og hrísgrjónaakrar teknir undir
fiskeldi. Víetnamar hafa selt vörur sínar í
auknum mæli inn á kröfuharða markaði.
Lengi var Japan helsti kaupandi afurðanna
en eftir að eðlilegt viðskiptasamband komst
aftur á við Bandaríkjamenn hefur sala þang-
að sífellt aukist og eru Bandaríkin nú mik-
ilvægasti útflutningsmarkaður sjávarútvegs
í Víetnam. Eldi á dökkri hlýsjávarrækju hef-
ur aukist mikið og mikil framleiðsla er einnig
á kattgrana (catfish). Jón Ásbergsson nefnir
sem dæmi að nú sé svo komið að Víetnamar
séu að flytja út fisk fyrir tvo milljarða
Bandaríkjadala á ári, eða helmingi hærri
fjárhæð en Íslendingar.
Íslensk fyrirtæki eru að undirbúa ýmis
verkefni í sjávarútvegi í Víetnam, meðal ann-
ars er hugsanlegt samstarf um útgerð. Við
blasir þó þörf sjávarútvegsins fyrir aðstoð
við þróun og uppbyggingu tækni og gæða-
mála. Þar sjá íslensku fyrirtækin ýmis við-
skiptatækifæri. Einnig eru nokkur þeirra að
athuga möguleika á að flytja fisk til Víetnam
og láta vinna þar, eins og gert er nú þegar í
Asíulöndum.
Teitur Gylfason, framkvæmdastjóri SÍF í
Japan, sem var í sinni þriðju viðskiptaferð til
Víetnams, segir að gríðarlegur kraftur sé í
Víetnömum og möguleikar í fiskiðnaði sem
fari vonandi áfram vaxandi. Hann metur það
svo að fleiri viðskiptatækifæri séu á suð-
ursvæðinu. Þar séu fyrirtækin stærri, miðað
við þá menn sem komu til fundar við hann
eru sjávarútvegsfyrirtækin í suðurhlutanum
tvisvar til þrisvar sinnum stærri en á norð-
ursvæðinu. Ho Chi Minh borg sé einnig mun
þróaðri en Hanoi, meiri peningar í umferð og
auðveldara að eiga viðskipti.
Segir Teitur að þótt SÍF hafi sjálft mikla
framleiðslu og vöruúrval vanti ákveðnar teg-
undir inn í sem hugsanlegt væri að kaupa í
Víetnam. Nefnir hann hlýsjávartegundir,
rækju og kattgrana. Þarna sé hins vegar
hætta á ferðum í gæðamálum en SÍF hafi yf-
ir að ráða þekkingu til að yfirvinna slík
vandamál, ef tekið yrði upp samstarf við
víetnömsk fyrirtæki.
Guðbrandur Sigurðsson, framkvæmda-
stjóri Útgerðarfélags Akureyringa, telur að
tækifæri sé til þess að taka upp samvinnu við
víetnömsk sjávarútvegsfyrirtæki um að
vinna þar fisk. Flytja hráefni þangað frá Ís-
landi og öðrum löndum, til dæmis heilfrystan
úthafskarfa og grálúðu, til frekri vinnslu fyr-
ir Japansmarkað þar sem fiskvinnsla sé á
undanhaldi. „Það hlýtur að vera spennandi
að fullvinna vöruna fyrir markaðina og
breikka vöruframboð fyrirtækisins.“ Guð-
brandur telur einnig að áhugavert kunni að
vera að vinna kattgrana sem mikið er fram-
leitt af í Víetnam. Segir hann að ferð sem
þessi sé fyrsta mat á markaðnum. Síðan
þurfi að fara til áhugaverðra samstarfsaðila
og taka starfsemi þeirra út og fyrirtækin
þurfi síðan að vera samkeppnisfær við Kína
og Taíland þar sem slík framleiðsla fari fram
í stórum stíl.
Timbur, grjón og ferðamenn
Þótt samningur Icecon og opnun skrif-
stofu Marels snúist um sjávarútveg og marg-
ir fulltrúanna í viðskiptasendinefndinni haft
áhuga á þeim málum er verið að huga að
fleiri viðskiptatækifærum í Víetnam, aðal-
lega innflutningi á vörum þaðan. Þótt þetta
sé 84 milljón manna markaður er varla við
því að búast að íslensk fyrirtæki geti selt
þangað mikið af vörum og þjónustu, öðru en
tengist þekkingu í sjávarútvegi. Þó eru dæmi
um að íslensk fyrirtæki séu að reyna að selja
þar vörur frá öðrum löndum, til dæmis timb-
ur frá Laos eins og fram kom hjá Eyþóri
Arnalds, framkvæmdastjóra Schandic Timb-
er, á viðskiptaráðstefnunni í HCM-borg.
Sælkeradreifing Nings hefur keypt tölu-
vert af víetnömskum vörum til Íslands, frá
heildsölum í Evrópu. Bjarni Óskarsson, eig-
andi fyrirtækisins, og Ning de Jesus, fram-
kvæmdastjóri Asíuviðskipta, segjast hafa
komist í góð viðskiptasambönd í Víetnam og
hyggi á milliliðalausan innflutning þaðan.
Bjarni nefnir að þeir hafi komist í samband
við stærsta hrísgrjónaframleiðanda landsins
og geti fengið grjónin á lægra verði í Víet-
nam en í Taílandi þar sem fyrirtækið hefur
verslað til þessa. Þeir hafa einnig verið að
huga að ýmsum fleiri spennandi vörum, til
dæmis framandi hitabeltisávöxtum.
Ferðaþjónusta er mjög vaxandi atvinnu-
grein í Víetnam enda má segja að landið sé
að komast í tísku á því sviði. Ferðaskrif-
stofan Embla skipuleggur ferðir þangað. Sú
fyrsta var á síðasta ári og fleiri í bígerð.
Ingiveig Gunnarsdóttir segir að Víetnam sé
spennandi fyrir ferðafólk einmitt núna. Enn
sé hægt að komast í snertingu við nokkuð
ósnortna menningu Asíu á nálægan hátt, auk
þess sem fræðst sé um umbrotamikla sögu
landsins og upplifa náttúruna. Ferðamála-
yfirvöld í landinu eru að auka áherslu á vist-
væna ferðaþjónustu og í viðskiptaferðinni til
Víetnam komst Ingiveig í samband við eig-
endur vistvæns þorps sem hafa áhuga á að
opna búgarð sinn fyrir ferðafólki og leyfa því
að kynnast fólkinu að störfum á hrísgrjóna-
ökrunum. Segir Ingiveig að ýmis önnur
sóknarfæri séu í Víetnam.
Hún nefnir einnig að í ferðinni hafi komið
fram áhugi á viðskiptaferðum til Íslands.
Stjórnendur sjávarútvegsfyrirtækja vilji
koma til að kynna sér starfsemi íslenskra
fyrirtækja. Í ávarpi við opnun söluskrifstofu
Marels sagði aðstoðarsjávarútvegsráðherra
Víetnams frá þessum áformum.
Markaður í stað samyrkju
Eftir sameiningu Norður- og Suður-Víet-
nams um miðjan áttunda áratuginn var tek-
inn upp marxísk-sovéskur áætlanabúskapur
og samyrkjustefna í Suður-Víetnam eins og
verið hafði í norðurhlutanum. Landið átti
einnig í styrjöldum við nágrannalönd og var
nánast útilokað úr alþjóðasamfélaginu. Efna-
hagsstefnan beið algert skipbrot og skildi
þjóðina eftir á köldum klaka, 800% verð-
bólgu, fólk hafði ekki nóg að borða og fjöldi
flúði land. Kommúnistaflokkurinn sneri við
blaðinu 1986 með uppbyggingaráætluninni
Doi Moi þar sem tökin voru linuð á markaðs-
öflunum og erlendar fjárfestingar heimilað-
ar. Hefur þetta leitt til mikils hagvaxtar og
batnandi lífskjara þótt Víetnam sé enn eitt af
fátækustu löndum heims og þar er atvinnu-
leysi verulegt, meðal annars meðal ungs
menntafólks. Í sveitunum mun ástandið vera
enn verra en í borgunum.
Þrátt fyrir umbæturnar hafa íslensk fyr-
irtæki verið hikandi við að fara með starf-
semi inn á markaðinn í Víetnam. Skrifað hef-
ur verið um spillingu í stjórnkerfinu og að
menn þurfi að nota mútur til að fá nauðsyn-
leg leyfi. Hörður Arnarson segir að mútur
viðgangist ekki í þeirri grein sem Marel
starfar í. Þótt svo væri myndi fyrirtækið
ekki taka þátt í slíkri starfsemi.
„Það er mikilvægt að menn kynni sér vel
markaðinn og þær reglur sem á honum
gilda. Eftir að það er fengið er ekki vand-
kvæðum bundið að selja vörur í Víetnam,“
segir Hörður.
Opinber heimsókn forsætisráðherra til Víetnams opnar íslensku fyrirtækjunum ýmsar dyr
Helstu tæki-
færin eru í
útveginum
Bein viðskipti Íslendinga og Víetnama hafa verið sára-
lítil en nú kann að verða breyting þar á. Fulltrúar fyr-
irtækjanna sem voru í Víetnam meðan á opinberri
heimsókn Davíðs Oddssonar forsætisráðherra stóð
komust í mikilvæg sambönd sem gætu leitt til við-
skipta. Helgi Bjarnason var með í Víetnamferðinni.
Morgunblaðið/Helgi Bjarnason
Hluti af viðskiptasendinefndinni sem heimsótti Víetnam stillir sér upp til myndatöku á svölum
32. hæðar Saigon Trade Center í Ho Chi Minh-borg, ánægður með árangur ferðarinnar, f.v.:
Vilhjálmur Guðmundsson, Teitur Gylfason, Jón Ásbergsson, Ning de Jesus, Bjarni Óskarsson,
Jón Ásbjörnsson, Guðbrandur Sigurðsson, Tumi Tómasson og Þorgeir Pálsson.