Morgunblaðið - 25.07.2002, Blaðsíða 48

Morgunblaðið - 25.07.2002, Blaðsíða 48
MINNINGAR 48 FIMMTUDAGUR 25. JÚLÍ 2002 MORGUNBLAÐIÐ verki hvað hún unni ykkur heitt og hvað velgengni ykkar skipti hana miklu máli. Megi góður guð varðveita elsku Hrafnhildi og styrkja ykkur á erfið- um stundum. Bestu kveðjur frá Jens, Þór og Ásbirni. Ykkar Margrét Svavarsdóttir. Hrafnhildur mágkona mín er látin. Eftir að mér barst sú harmafregn fór hugurinn að reika um kynni okkar og samskipti á liðnum árum. Hrafn- hildur var um margt einstök og vel gerð. Hún var afburða vel greind og samviskusemi og dugnaður voru áberandi þættir í fari hennar. Eitt var það þó sem einkenndi hana öðru fremur, hún hafði afskaplega hlýjan og vel gerðan faðm, þar sem allt og allir gátu rúmast. Fjölskylda hennar og vinir fengu þar öruggt skjól og voru umvafðir því öryggi og þeirri hlýju sem hún virtist alltaf eiga nóg af. Aldrei hnjóðaði Hrafnhildur í ann- að fólk, hún talaði vel um alla, þó var alveg ljóst að þeir sem ekki bjuggu yf- ir heiðarleika og drenglyndi gátu ekki orðið hennar vinir. Hún setti skýrar línur milli drengskaparmannsins og þess síngjarna, sem setur sjálfan sig alltaf í fyrsta sæti og fer sínu fram hvernig sem það kann að koma við annað fólk. Fjölskylda mín á eftir að sakna Hrafnhildar og verður ætíð minnug vináttu hennar og frændrækni. Elsku Toni minn, þú og fjölskyldan öll hafið misst mikið, en þið eigið eftir ljúfar minningar, dýrmætt veganesti sem Hrafnhildur eftirlét ykkur, börn- um ykkar og barnabörnum til styrkt- ar og leiðsagnar í lífinu. Þessi mikli missir verður aldrei bættur, en minningin mun styrkja ykkur. Við Ingadís og fjölskylda okkar er- um með ykkur á sorgarstundu, þess fullviss að góður Guð muni umvefja ykkur örmum sínum og styðja ykkur á erfiðum tíma. Halldór Svavarsson. Margs er að minnast, margt er hér að þakka. Guði sér lof fyrir liðna tíð. Margs er að minnast, margs er að sakna. Guð þerri tregatárin stríð. (V. Briem) Hún lagðist til hvíldar að kvöldi og var frísk að best var vitað. Hún vakn- aði ekki að morgni og hafði kvatt þennan heim. Þetta var óvænt og ótímabært. Missir mágkonu og vinar varð mér reiðarslag. Það er erfitt að sætta sig við að hún sé farin. Sorgin læðist að og tekur sér bólfestu í hug og sinni. Minningarnar streyma fram. Hrafnhildar verður helst minnst fyrir hve einlæg hún var, hjartahlý og hve mikla umhyggju hún bar fyrir fjölskyldunni. Sú umhyggja kom fram á ýmsa vegu. Hún átti oft frum- kvæði að fjölskyldu- og vinafundum, að því að fólkið hittist, væri saman og nyti þeirra samvista. Hún var mikil dugnaðarkona og virtist með ótrúleg- um hætti hafa takmarkalaust þrek og ómældan tíma til að sinna sínu fólki. Hún hafði sterkan vilja, sem í raun var það sem knúði hana áfram. Hún var skarpgreind og glaðlynd. Við, sem vorum venslafólk hennar nutum þess hve hún var trygglynd og hve gott var að treysta á það. Hrafnhildur og Toni voru ekki einungis mágkona og bróðir heldur einnig sannir vinir sem við heimsóttum oft á tíðum og buðum heim og vorum í samvistum við. Sam- an fórum við út að borða og í leikhús. Umræðuefnin voru ávallt jákvæð og skemmtileg og stutt í grínið. Það er ómetanlegt að vera jákvæður og geta séð það fyndna í tilverunni. Þessar samverustundir eru nú orðnar perlur í sjóði minninganna og við hjónin er- um þakklát fyrir mjög skemmtilegar samverustundir með þeim báðum. Far þú í friði, friður guðs þig blessi, hafðu þökk fyrir allt og allt. Gekkst þú með Guði, Guð þér nú fylgi, hans dýrðarhnoss þú hljóta skalt. (V. Briem.) Elsku Toni, Inga Rós, Ása Björk, Bragi Þór, Hjörtur, Antoníus Smári, Saga Ýrr, Hrafnhildur María, Inga, Sigurður og fjölskylda. Guð veri með ykkur, varðveiti og styrki í sorginni, sem virðist óbærileg. Við deilum henni með ykkur. Hugurinn er hjá ykkur. Valur og fjölskylda. Elsku Hrabbý frænka. Mér þykir voðalega sárt að sjá á eftir þér til englanna en ég veit að þú ert í góðum höndum og að þér líður vel. Ein af mínum fyrstu minningum um þig er þegar ég og pabbi minn fórum í heim- sókn til þín og Tony til Frankfurt. Þeirri ferð mun ég aldrei gleyma. Ein af mínum síðustu minningum um þig er þegar ég fór í fimmtugsafmælið þitt og fékk að syngja fyrir þig eitt af mínum uppáhaldslögum. Ég var svo stressuð að ég hélt að ég myndi líða út af en þegar ég byrjaði að syngja varð ég aftur róleg. Mér fannst vænt um þegar þú komst og þakkaðir mér fyrir með kossum og knúsi. Elsku Hrabbý, ég á eftir að sakna þín mikið og mun aldrei gleyma þér. Guð blessi þig. Þín litla frænka, Anna Katrín. Það voru þungbærar fréttir sem bárust okkur er við fengum að heyra um andlát Hrafnhildar, kærrar syst- urdóttur og frænku. Það er sárt að horfa á eftir Hrafn- hildi hverfa svo skyndilega á braut og víst, að erfitt er að skilja tilganginn. Dýpsta sæla og sorgin þunga svífa hljóðlaust yfir storð. Þeirra mál ei talar tunga tárin eru beggja orð. (Ólöf Sigurðardóttir.) Við minnumst dýrmætra samveru- stunda. Stunda sem við áttum saman vestur í Dölum og einkenndust af svo mikilli gleði og kátínu. Við getum ennþá heyrt í hugum okkar björtu röddina hennar Hrabbýjar, þegar hún tók lagið í Brautarholti með elstu systrunum. Þá var gleðin við völd. Sérstaklega ber hátt í minningunni hjá okkur Gunnari, er við nutum ein- stakrar gestrisni hennar og fjölskyld- unnar á ferð okkar með foreldrum hennar um Þýskaland. Já, þær eru margar minningarnar sem munu varða veginn fram á við fyrir þá sem eftir sitja. Að leiðarlokum þökkum við Hrafn- hildi fyrir einstaklega góð og ljúf kynni á liðnum árum. Vort líf er svo ríkt af ljóssins þrá, að lokkar oss himins sólarbrá, og húmið hlýtur að dvína, er hrynjandi geislar skína. Vor sál er svo rík af trausti og trú, að trauðla mun bregðast huggun sú, þó ævin sem elding þjóti, Guðs eilífð blasir oss móti. Vort hjarta er svo ríkt af hreinni ást, að hugir í gegnum dauðann sjást. – Vér hverfum og höldum víðar, en hittumst þó aftur – síðar. (Jóhannes úr Kötlum.) Við vottum allri fjölskyldunni dýpstu samúð okkar. Megi algóður Guð veita ykkur styrk. Guð blessi minningu Hrafnhildar Sigurðardótt- ur. Steinunn, Gunnar og börn. Hvar á að byrja? Minningarnar hrannast upp – það er erfitt að hugsa til þess að kona aðeins 50 ára gömul skuli vera tekin frá okkur. Ég var að verða níu ára, þegar Hrafnhildur systurdóttir mín, sem hér er minnst, fæddist. Síðan höfum við verið mikið saman og sögðum raunar oft hvor við aðra að við værum eins og systur. Hún leyfði mér alltaf að vera með á hinum stóru stundum í lífi sínu og fjölskyldu sinnar. Hrafnhildur var fjögurra ára þegar Guðríður Steinunn systir hennar fæddist og þá var hún stolt og glöð að sýna mér litlu systur. Árið 1959 flyst fjölskyldan til Edinborgar, þar sem Guðbrandur fæddist, og síðar til London, þar sem Einar kom í heim- inn. Á báðum þessum stöðum dvaldi ég langtímum saman hjá fjölskyld- unni og varð því vitni að gleði Hrafn- hildar, þegar bræður hennar bættust í hópinn. Árið 1964 flyst fjölskyldan til Hamborgar og síðan heim til Íslands í apríl 1967. Þá er Hrafnhildur 15 ára og byrjar um haustið í Verzlunar- skóla Íslands, þar sem hún lauk stúd- entsprófi vorið 1973. Hún var mikil námsmanneskja, ákveðin í að stunda námið vel og sýndi það sig við út- skriftina, en þá hlaut hún mörg verð- laun fyrir góðan árangur. Eftir stúd- entspróf vann hún hjá Ferðaskrifstofunni Sunnu og síðar hjá Samvinnuferðum. Svo kom að því að Hrafnhildur kynntist mannsefninu sínu, honum Antoníusi, sem í okkar fjölskyldu er alltaf kallaður Tony. Þar mættust tveir einstaklingar, sem gengið hafa lífsveginn saman frá árinu 1977. Þau byrjuðu sinn búskap í lítilli íbúð í Breiðholti og þar eignuðust þau Ingu Rós. Síðan fluttu þau í Goðheimana og þar fæddist Ása Björk. Um þetta leyti ákváðu þau að flytjast búferlum til Kuwait, þar sem Tony hafði boðist góð staða hjá Kuwait Airways. Frænka mín var alltaf mjög áræðin kona og gilti það um allt sem hún tók sér fyrir hendur. Hún tók því eins og sjálfsögðum hlut að flytjast í þetta fjarlæga land með manni sínum og dætrum. Eftir um fimm ára dvöl í Kuwait fluttu þau aftur heim til Ís- lands árið 1984 og bjuggu þá hér í Reykjavík í nokkur ár. Þá fæddist þeim sonurinn Bragi Þór. Árið 1987 er enn flutt til útlanda og í þetta sinn til Þýskalands með börnin þrjú, þar sem Tony starfaði um fimm ára skeið hjá flugfélaginu Lufthansa. Heimili þeirra stóð í nágrenni Frankfurt og varð ég þess aðnjótandi að sækja þau heim og dvelja á heimili þeirra, þar sem þau vildu allt fyrir mig gera. Árið 1992 flytjast þau heim til Ís- lands og nú lætur Hrafnhildur gaml- an draum rætast og setur upp versl- unina „Hjá Hrafnhildi“. Þar naut frænka mín sín vel, veitti góða þjón- ustu og hafði gott fólk sér til aðstoðar, þar á meðal móður sína, sem hún mat mjög mikils. Á þessum árum verður Hrafnhild- ur amma, þegar Inga Rós og Hjörtur eignast soninn Antoníus Smára. Síð- an fæðist þeim Saga Ýrr og nú í apríl dóttir, sem hlaut nafnið Hrafnhildur María strax við fæðingu. Þessi nafn- gift var svo staðfest við hátíðlega skírnarathöfn á heimili Hrafnhildar þremur dögum fyrir andlát hennar og að sjálfsögðu var það Hrafnhildur eldri sem hélt nöfnu sinni undir skírn. Ég vil segja það um hana frænku mína að hún var góð kona. Hún mátti ekkert aumt sjá og vildi öllum vel og fór ég ekki varhluta af þessum góðu eiginleikum hennar. Að leiðarlokum þakka ég henni fyrir alla umhyggj- una, sem hún hefur sýnt mér gegnum árin. Alltaf hafði hún tíma til þess að taka upp símann og hringja til að vita hvernig ég hefði það og ótalin voru þau skipti þegar hún gaf sér tíma til að heimsækja mig, þó að hún væri með fjölskyldu, heimili og rekstur til að annast. Hjá henni var samheldni fjölskyldunnar ofarlega á baugi og voru hún og Tony afar dugleg við að kalla ættingja og vini saman, hvenær sem tilefni gafst til. Í febrúar á þessu ári hélt hún ættingjum, vinum og samstarfsfólki veglega veislu í tilefni af fimmtugsafmæli sínu. Kæra fjölskylda, Tony, Inga Rós, Ása Björk, Bragi Þór, barnabörn og tengdasonur. Ég votta ykkur dýpstu samúð og bið góðan Guð að veita ykk- ur styrk á þessum erfiðu tímamótum. Innilegar samúðarkveðjur sendi ég einnig elskulegri systur minni, Ingu, manni hennar, Sigurði, og börnum þeirra þremur sem eftir lifa. Blessuð sé minning Hrafnhildar Sigurðardóttur. Brynhildur Erna. Það kom sem reiðarslag þegar bróðir minn Sigurður hringdi mánu- daginn 15. júlí og tilkynnti mér að eldri dóttir hans og Ingu mágkonu minnar, Hrafnhildur, hefði látist í svefni þá um nóttina. Kona í blóma lífsins hrifin á brott svo snögglega frá eiginmanni, þrem- ur börnum, barnabörnum, systkinum, foreldrum og okkur öllum sem þótti svo undur vænt um hana. Í febrúar á þessu ári hélt hún upp á 50 ára afmælið sitt. Sú veisla var og verður okkur ógleymanleg og þar naut Hrafnhildur sín vel sem glæsilegur gestgjafi umkringd ætt- ingjum og vinum. Boðskortið í afmæl- ið var sérstakt því þar rakti hún lífs- feril sinn og sást greinilega hvað líf hennar hafði verið viðburðaríkt og hún dvalið víða um heim með fjöl- skyldu sinni. Hvern gat órað fyrir að tæpu hálfu ári síðar yrði hún horfin frá okkur? Ég var sjö ára þegar Hrafnhildur fæddist. Hún var elsta barnabarn móður minnar, Ásu Guðbrandsdóttur (d. 1972). Það var mikil tilhlökkun að fá nýja frænku í fjölskylduna og ég veit að hún var móður minni mjög kær. Ég á góðar minningar frá þeim tíma er ég var barnfóstra á heimili Ingu og Sigurðar bróður míns í Skot- landi árið 1961, en þá vann hann þar hjá sjávarútflutningsdeild Sambands- ins. Ég passaði Guðbrand bróður Hrafnhildar, sem þá var yngstur systkinanna, aðeins nokkurra mán- aða gamall, og dvaldi ég hjá þeim um hálfs árs skeið, kynntist fjölskyldunni vel og sá hvað Hrafnhildur var góð og umhyggjusöm stóra systir. Ég hitti Hrafnhildi frænku mína hressa að vanda aðeins nokkrum dög- um áður en hún lést. Hún var þá að undirbúa skírnarveislu yngsta barna- barns síns sem fékk það fallega nafn Hrafnhildur María. Ég gleymi ekki faðmlaginu sem ég fékk og hamingju- óskirnar þegar ég sagði henni að nú ætti ég von á öðru barnabarni. Ásu Valgerði dóttur minni er minnisstætt að þegar þær frænkur ræddu um barneignir og fjölskyldulíf lagði Hrabbý áherslu á að börnin væru það dýrmætasta sem við ættum og aug- ljóst var hvað móðurhlutverkið var stórt í hennar huga. Þannig viljum við minnast hennar og þannig stendur hún okkur ljóslifandi fyrir hugskots- sjónum. Já, hún Hrafnhildur kunni svo sannarlega að samgleðjast öðrum. Brosið, hlýjan, hugulsemin og glað- værðin voru hennar sérkenni, að ógleymdum dugnaðinum og fram- taksseminni. Ber verslun hennar og fjölskyldunnar Hjá Hrafnhildi við Engjateig þess glöggt merki. Það sem var svo dásamlegt við Hrabbý var að hún framkvæmdi hlutina og lét drauma sína rætast, eitthvað sem hægt er að draga lærdóm af og taka sér til fyrirmyndar. Elsku Hrafnhildur, við viljum þakka þér fyrir að hafa verið okkur svo hlý og góð frænka og kveðjum með eftirfarandi ljóði. ,,Einstakur“ er orð sem notað er þegar lýsa á því sem engu öðru er líkt, faðmlagi eða sólarlagi eða manni sem veitir ástúð með brosi eða vinsemd. ,,Einstakur“ lýsir fólki sem stjórnast af rödd síns hjarta og hefur í huga hjörtu annarra. ,, Einstakur“ á við þá sem eru dáðir og dýrmætir og hverra skarð verður aldrei fyllt. ,, Einstakur“ er orð sem best lýsir þér. (Terri Fernandez.) Okkar innilegustu samúðarkveðjur sendum við Tony, Braga Þór, Ásu Björk, Ingu Rós, Hirti og barnabörn- unum þremur, systkinum Hrafnhild- ar; Guðríði Steinunni, Guðbrandi, Einari, fjölskyldum þeirra og elsku Ingu og Sigurði bróður. Guð veri með ykkur og styrki í sorginni. Margrét Hjálmarsdóttir, Ása Valgerður Sigurðardóttir. Þungt er að skilja. Skapadægur skáru bönd, benjar vöktu. Bliknar rós við reiðarslag. Þraut sár þeim er syrgja. Hug hefjum hæða til. Yljar sólarsýn. Ódáins akurlönd rósar rót hlúir. Mikla stund mikillar sorgar. Moldar til mold hnígur. Mesta stund mestrar gleði ljóshaf ljós heimtir. Hryggðin hjartað sker. Huggun hug friðar. Kærleikur kristins manns gleymir gröf og dauða. (Jör. Gestsson frá Hellu ) Við fjölskyldan í Fornhaga og Bollagörðum biðjum Guð að blessa minningu Hrafnhildar Sigurðardótt- ur og styrkja ástvini hennar í mikilli sorg. Guðrún og Guðlaugur. Elsku besta vinkona, hvernig er þetta hægt? Hún, þessi yndislega, glaðlynda kona í blóma lífsins með þessa ómældu orku til að takast á við hvað eina sem henni kom til hugar. Við hittumst fyrst þegar við vorum að hefja okkar fyrsta skóladag í Versló haustið 1967. Við lentum í sama bekk og strax fyrsta veturinn hófst með okkur vinátta sem varð sterkari og meiri með hverju árinu sem leið. Á þessum tíma var Hrabbý nýflutt til landsins ásamt foreldrum sínum og hafði hún ekki verið í skóla hér á landi frá því hún var sjö ára, hafði ekki lært íslenska málfræði þó svo að hún talaði íslenskuna svo til lýtalaust (smá þýsk- ur hreimur sem okkur fannst mjög skemmtilegur), ekki dönsku, sögu og fleiri af þeim greinum sem við höfðum ákveðinn grunn í en samt var hún með þeim hæstu þegar við útskrifuð- umst sem stúdentar. Þegar hún vann hjá bókabúð Norðra í Hafnarstræti, 16 ára gömul, man ég að þegar hún fékk fregnir um að skemmtiferðaskip væru væntanleg mætti hún í búðina kl. 6 á morgnana til að opna og hafa allt tilbúið og þetta gerði hún óumbeðin. Þegar hún vann hjá Ferðaskrif- stofunni Sunnu vildi svo skemmtilega til að við unnum saman eitt sumar sem fararstjórar á Costa del Sol og var það mjög skemmtileg reynsla og margt skemmtilegt sem við upplifð- um. Við höfðum bíl til umráða sem var nefndur Malli máttlausi. Hann fékk þetta skemmtilega nafn því að í hvert sinn sem við þurftum að nota hann varð að hlaupa með hann til að koma honum í gang, við hlógum oft að þessu. Hrabbý og Tony fluttu til Kúv- eit ásamt tveimur eldri börnunum sínum, þeim Ingu Rós og Ásu Björk. Ekki óx Hrabbý þetta í augum heldur leit hún á það sem lífsreynslu og ekki fannst henni heldur mikið mál þegar hún og Tony fluttu til Þýskalands en þá voru börnin orðin þrjú. Ég og fjölskylda mín vorum svo heppin að fá tækifæri til að heim- sækja þau bæði í Kúveit og Frankfurt og voru það ógleymanlegar ferðir. Minningarnar frá Kúveit eru mér þó sérstaklega minnisstæðar. Í þessu framandi landi er ekki auðvelt að vera útlendingur. Hrabbý hafði það alltaf að leiðarljósi að virða siði þeirrar þjóðar sem hún dvaldist hjá. Á þeim tíma sem við vorum stóð yfir hinn heilagi mánuður múslima – Ramadan. Á daginn mátti enginn neyta matar eða drykkjar, hitinn var orðinn tæp- lega 50 gráður og við vorum að keyra með börnin og voru þau að farast úr þorsta. Ekki dó Hrabbý ráðalaus frekar en fyrri daginn, hún lét börnin leggjast á gólfið í bílnum og þar gátu þau drukkið nægju sína án þess að nokkur yrði var við. Það er líka gam- an að hugsa til þess þegar hún fór með mér í kvenfataverslanir í Frank- furt því hún var svo snögg að sjá hvað passaði fyrir mig og hafði gaman af. HRAFNHILDUR SIGURÐARDÓTTIR
Blaðsíða 1
Blaðsíða 2
Blaðsíða 3
Blaðsíða 4
Blaðsíða 5
Blaðsíða 6
Blaðsíða 7
Blaðsíða 8
Blaðsíða 9
Blaðsíða 10
Blaðsíða 11
Blaðsíða 12
Blaðsíða 13
Blaðsíða 14
Blaðsíða 15
Blaðsíða 16
Blaðsíða 17
Blaðsíða 18
Blaðsíða 19
Blaðsíða 20
Blaðsíða 21
Blaðsíða 22
Blaðsíða 23
Blaðsíða 24
Blaðsíða 25
Blaðsíða 26
Blaðsíða 27
Blaðsíða 28
Blaðsíða 29
Blaðsíða 30
Blaðsíða 31
Blaðsíða 32
Blaðsíða 33
Blaðsíða 34
Blaðsíða 35
Blaðsíða 36
Blaðsíða 37
Blaðsíða 38
Blaðsíða 39
Blaðsíða 40
Blaðsíða 41
Blaðsíða 42
Blaðsíða 43
Blaðsíða 44
Blaðsíða 45
Blaðsíða 46
Blaðsíða 47
Blaðsíða 48
Blaðsíða 49
Blaðsíða 50
Blaðsíða 51
Blaðsíða 52
Blaðsíða 53
Blaðsíða 54
Blaðsíða 55
Blaðsíða 56
Blaðsíða 57
Blaðsíða 58
Blaðsíða 59
Blaðsíða 60
Blaðsíða 61
Blaðsíða 62
Blaðsíða 63
Blaðsíða 64

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.