Morgunblaðið - 29.11.2002, Side 42
UMRÆÐAN
42 FÖSTUDAGUR 29. NÓVEMBER 2002 MORGUNBLAÐIÐ
HINN 29. nóvember 1947 var
samþykkt á Allsherjarþingi Samein-
uðu þjóðanna tillaga um skiptingu
Palestínu sem fól í sér að gyðingum
voru ætluð 56% af landinu en upp-
runalegum íbúum landsins voru eft-
irlátin 44%. Þessari landtöku var
ekki tekið með þegjandi þögninni af
Palestínumönnum og nágrönnum
þeirra en mótmælin breyttu engu.
Tæplega hálfu ári síðar var Ísr-
aelsríki stofnað og skilgreint sem
ríki gyðinga og hefur þannig frá
fyrstu tíð verið grundvallað á að-
skilnaðarstefnu. Tilurð þess hafði í
för með sér hryðjuverk og stríð sem
leiddi til landflótta 914 þúsund Pal-
estínumanna. Þjóðin taldist þá öll 1,4
milljónir og varð þetta að stærsta
flóttmannavandamáli sögunnar og
er enn óleyst. Vopnahlé komst á árið
1949 og þá hafði gyðingaríkið verið
stækkað að mun frá því sem SÞ ætl-
uðust til og náði nú til 77% landsins.
Niðurstaða stríðsins um Palestínu
var því sú að Palestínumenn héldu
aðeins um fimmtungi síns uppruna-
lega landsvæðis. Í sex daga stríðinu
1967 bætti Ísrael við því sem eftir
var og að auki stórum landsvæðum í
nágrannalöndum.
Afstaða Sameinuðu þjóðanna
Sameinuðu þjóðunum rennur
blóðið til skyldunnar gagnvart Pal-
estínumönnum. Árið 1950 var sett á
laggirnar sérstök stofnun vegna pal-
estínsks flóttafólks, UNRWA, sem
enn starfar í flóttamannabúðum í og
utan Palestínu með ekki færri en 3,5
milljónir íbúa. UNRWA ber m.a.
ábyrgð á rekstri heilsugæslu og
skóla, en fær til þess ákaflega tak-
markaða fjármuni. Allsherjarþing
SÞ og Öryggisráðið hafa samþykkt
ótal ályktanir allt frá árinu 1948 um
rétt flóttamanna til að snúa heim aft-
ur og til eigna sinna, um að Ísrael
skili herteknum svæðum, Gaza og
Vesturbakkanum, þar með talinni
Austur-Jerúsalem, um sjálfsákvörð-
unarrétt Palestestínumanna og rétt
þeirra til sjálfstæðs ríkis. Ísraelsríki
hefur skellt skollaeyrum við öllum
þessum ályktunum og notið til þess
stuðnings Bandaríkjanna, sem beitt
hafa neitunarvaldi hvað eftir annað
til að koma í veg fyrir aðgerðir sem
stuðlað gætu að framkvæmd álykt-
ana og réttlátum friði á grundvelli al-
þjóðalaga.
Afstaða Íslands og framlag
Alþingi Íslendinga var samhljóða
er það mótaði árið 1989 stefnu í mál-
efnum Palestínu og Ísraels sem er í
samræmi við stefnu Sameinuðu
þjóðanna og var þessi stefna áréttuð
síðastliðið vor. Haustið 1993 ákvað
íslenska ríkisstjórnin að verja um 90
milljónum til endurreisnarstarfs á
herteknu svæðunum í kjölfar Oslóar-
samkomulagsins. Undirrituðum er
ekki kunnugt um að neinn frekari
stuðningur af því tagi hafi borist frá
Íslandi, þótt ljóst megi vera að hörm-
ungar fólksins hafa aldrei verið meiri
en nú. Rauði kross Íslands hafði í
kjölfar árása Ísraelshers á borgir og
flóttamannabúðir síðastliðið vor og
ógnvænlegs ástands sem skapast
hafði vegna útgöngubanna og inni-
lokunar, boðað söfnun nú í haust til
stuðnings Palestínumönnum. Við
hana var hætt án nokkurra skýringa!
Neyðarsöfnun FÍP
og sjálfboðaliðar
Félaginu Íslandi-Palestínu hefur
frá haustinu 2000 tekist að safna
rúmum þremur milljónum króna
sem runnið hafa til hjálparstarfa,
einkum á vegum Læknishjálpar-
nefndanna (UPMRC) sem standa
fyrir neyðarhjálp og heilsugæslu
víðsvegar á herteknu svæðunum og
njóta alþjóðlegrar viðurkenningar
fyrir starf sitt. Þá hafa 12 sjálfboða-
liðar héðan verið að störfum í mis-
langan tíma í Ramallah, Nablus,
Jenin, Gaza og víðar, þar á meðal í
nokkrum flóttamannabúðum. Litið
er á ferðir þessara sjálfboðaliða og
veru þeirra á átakasvæðunum sem
eina brýnustu og mikilvægustu
hjálpina sem hægt er að veita. Með
nærveru sinni freista þeir þess að
veita fólkinu vernd fyrir árásum
hersins á heimili þess, hafa hjálpað
til og verndað bændur við ólífuupp-
skeru, fylgt börnum í skóla þar sem
þess er nokkur kostur og verið í
sjúkrabílum til að auka möguleika á
að ísraelsku hermennirnir hleypi
þeim í gegnum vegatálma hersins.
Samstöðufundur
Ár hvert fær Félagið Ísland-Pal-
estína áskorun frá Sameinuðu þjóð-
unum, þar sem minnt er á 29. nóv-
ember og hvatt til að dagsins sé
minnst sem alþjóðlegs samstöðu-
dags til stuðnings við baráttu palest-
ínsku þjóðarinnar fyrir ævarandi
réttindum hennar. Félagið er aðili að
samstarfi frjálsra félagssamtaka
(NGO) á vettvangi SÞ og samtök um
allan heim og ríkisstjórnir hlíta
þessu kalli.
Nú er boðað til opins fundar undir
yfirskriftinni SAMSTAÐA Í VERKI
laugardag 30. nóvember og hefst
hann á Kornhlöðuloftinu hjá Lækj-
arbrekku kl. 15. Þar munu sjálfboða-
liðar greina frá reynslu sinni og lagt
verður á ráðin um hvernig efla megi
stuðninginn við þá þjóð sem orðið
hefur að þola hernám lengur en
nokkur önnur í manna minnum. Vel-
flestum er löngu ljóst að þessu her-
námi verður að ljúka og þá fyrst er
von til þess að raunhæfur friður
komist á og þjáningum Palestínu-
manna og Ísraela fari að linna.
Samstaða í verki
Eftir Svein Rúnar
Hauksson
„Velflestum
er löngu
ljóst að
þessu her-
námi verður
að ljúka og þá fyrst er
von til þess að raunhæf-
ur friður komist á.“
Höfundur er læknir og formaður fé-
lagsins Íslands-Palestínu.
Á MÍNU æskuheimili voru fjall-
ferðir algengt umræðuefni og þá
auðvitað afrétturinn. Ég heyrði
margar sögur sem gerst höfðu í
haustleitum og virðing manna fyrir
öræfunum var sönn, þeir fengu
glampa í augun og röddin breyttist
þegar þeir sögðu sögur úr þessum
ævintýraferðum. Þegar faðir minn
var unglingur var það æðsta tak-
mark ungra manna í Gnúpverja-
hreppi að komast í Lönguleitina eða
inn yfir Sand. Það er að segja að
komast í Þjórsárver. Svæðið fyrir
innan Fjórðungssand þótti mönnum
heillandi ævintýraheimur. Þeir
gerðu sér líka grein fyrir hversu
stórbrotin og dýrmæt vin í eyði-
mörkinni Þjórsárver hafa alla tíð
verið og náttúrufegurðin engu lík.
Gnúpverjar hafa um aldir verið
„gæslumenn“ Þjórsárvera, vestan
Þjórsár. Í yfir 30 ár höfum við átt á
hættu að þessari náttúruperlu væri
spillt og nú árið 2002 liggur máttur
mannlegrar eyðileggingar handan
við hornið. Ég ætla í þessu grein-
arkorni að rifja ofurlítið upp baráttu
Gnúpverja fyrir verndun Þjórsár-
vera en um 1970 voru uppi áætlanir
um að sökkva stórum hluta þeirra og
þá stóðu heimamenn upp og and-
mæltu gerð uppistöðulóns í Þjórsár-
verum.
17. mars 1972 var haldinn fjöl-
mennur sveitarfundur í Árnesi um
Þjórsárver, að frumkvæði land-
græðslunefndar Ungmennafélags
Gnúpverja. Í fundargerð þessa fund-
ar má finna ýmsa athyglisverða
punkta. Framsögumaður fundarins
benti fundarmönnum á hversu
merkilegur þessi fundur væri, þar
sem þetta sé ekki bara innansveit-
armálefni sem rædd eru, heldur nái
málefnið til landsmanna allra. Hann
sagði fundarboðendur ekki vera á
móti virkjunum, en það gæti kostað
of mikið ef fórna þyrfti jafneinstæð-
um hluta landsins og Þjórsárver
væru. Annar fundarmaður áleit að
Þjórsárver gætu orðið áhugaverð
fyrir ferðamenn í framtíðinni og það
væri ekki síður mikilvægt en stór-
virkjanir. Á fundinum var vakin at-
hygli á nokkrum mikilvægum atrið-
um varðandi Þjórsárver:
„a) Þjórsárver eru geysistór og
einstæð vin á miðhálendi Íslands.
Þau eru umlukin auðnum á alla vegu
og eiga ekki sinn líka hvað varðar
fjölbreytilegan gróður og fuglalíf.
b) Gróðureyðing í aldaraðir er al-
varlegasta vandamál náttúruvernd-
ar á Íslandi. Verði Þjórsárver sett
undir vatn, er gróðri og gróðurfari
landsins unnið óbætanlegt tjón. Auk
þess eru miklar líkur á því að mis-
munandi hæð yfirborðs vatnsins í
fyrirhuguðu lóni í Þjórsárverum or-
saki uppblástur.
c) Þjórsárver eru verðmætt beiti-
land.
d) Talið er að 3⁄4 hlutar alls heiða-
gæsastofnsins í heiminum verpi í
Þjórsárverum. Margar fuglategund-
ir í heiminum eiga nú á hættu að vera
útrýmt. Röskun í Þjórsárverum
stofnar varplöndum heiðagæsarinn-
ar í hættu.
Að ofangreindum ástæðum and-
mælir fundurinn hvers konar röskun
á náttúru Þjórsárvera og skorar á al-
menning í landinu um að sameinast
um að varðveita þessa einstæðu
perlu íslenska öræfa.“ Rúm 30 ár eru
liðin frá fundi þessum en röksemdir
Gnúpverja fyrir verndun Þjórsár-
vera eru enn í fullu gildi. Þó ber að
geta þess að sauðfjárbeit á svæðinu
er úr sögunni. Rannsóknir náttúru-
vísindamanna hafa sýnt og sannað að
þetta var ekki tilfinningasemi eða
draumórar heimamanna. Þeir vissu
um hvað þeir voru að tala. Síðustu
þrjá áratugi hafa verið miklar fram-
kvæmdir á Þjórsársvæðinu, engri
framkvæmd hefur verið mótmælt
nema þessari. Við erum ekki alltaf að
mótmæla, eins og sumir hafa haldið
fram. Og það er víðs fjarri að við sem
stöndum að áhugahópi um verndun
Þjórsárvera viljum draga Ísland af
braut velmegunar niður á steinald-
arstig. Það erum einmitt við sem
hugsum til framtíðar og látum ekki
stundargróða blekkja okkur. Lands-
virkjun hefur alla tíð vitað um and-
stöðu heimamanna við gerð lóns í
Þjórsárverum eins og fundurinn fyr-
ir 30 árum sýnir. Það er ekki okkar
vandamál þótt stjórnvöld hafi lofað
upp í ermina á sér. Með uppistöðu-
lóni við Norðlingaöldu verður Þjórs-
árverum spillt. En það eru ekki bara
Þjórsárver sem eru í hættu, heldur
nokkrir afar fagrir fossar í Þjórsá,
Kjálkaversfoss, Dynkur og Gljúfur-
leitarfoss (Hvanngiljafoss). Og hvað
er foss án vatns? Að fara í þessar
framkvæmdir við Norðingaöldu væri
lítilsvirðing við gengnar kynslóðir,
við náttúru Íslands og svik við fram-
tíðina. Slíkt má ekki gerast. Látum
ekki aðrar þjóðir hlæja að náttúru-
vernd á Íslandi. Það hefur líka alltaf
þótt betra að standa við orð sín. Því
skulum við líka taka mark á friðýs-
ingunni frá 1981. Þetta er ósköp ein-
falt mál. Þjórsárver eru friðlýst og
slíkt svæði má ekki skemma af
mannavöldum.
Það kostar
of mikið …
Eftir Árdísi
Jónsdóttur
Höfundur er kennari, búsettur í
Eystra-Geldingaholti.
„Það er ekki
okkar
vandamál
þótt stjórn-
völd hafi lof-
að upp í ermina á sér.“
RANNSÓKNIR sýna að börn og
unglingar í vestrænum heimi eru í
dag um tíu sinnum líklegri til þess
að verða þunglynd en langömmur
þeirra og -afar. Þetta telst vera far-
aldur. Þunglyndi er kremjandi
þjáningarástand og oft undanfari
annars vanda, s.s. hegðunartruflana
hjá börnum, sundrunar fjölskyldna,
fíkniefnaneyslu og sjálfsvíga. Það
er freistandi að hugsa sér að far-
aldur þess stafi bara af því að það
sé betur greint í dag en áður var.
En svo er ekki.
Einhliða skýringar hafa verið
gefnar á þunglyndi, það sé aðallega
líkamlegs eðlis. Um erfðagalla eða
taugaboðefnatruflanir sé að ræða.
Þetta er þröng sýn á manneskjur.
Einfaldað er allt of mikið hvað veld-
ur þunglyndi. Einföldunin afvega-
leiðir okkur frá mörgu sem hjálpar
gegn því. Horft er framhjá annarri
mikilvægri þekkingu sem til er.
Hugum aðeins að því hvort það
geti verið satt að líkamlegir ágallar
ungs fólks í dag séu aðalorsök
þunglyndisfaraldurs. Getur verið að
faraldurinn stafi af því að tauga-
kerfi þess sé miklu veikara en
taugakerfi fyrri kynslóða? Var
flæði taugaboðefna mun betra í
fólki fyrir nokkrum áratugum? Ef
svo var, af hverju hefur taugakerfi
fólks hrakað svona mikið? Geta gen
eða litningar hafa veikst svo mikið
á innan við einni öld að það leiði af
sér erfðan þunglyndisfaraldur?
Varla.
Viðbrögð samfélagsins við þung-
lyndi hafa einskorðast mjög við
lyfjagjöf. Þetta hefur m.a. leitt til
þess að margra ára vinna fyrir
þeim mikilvægu réttindum almenn-
ings að fá samtalsmeðferð niður-
greidda af almannatryggingum hef-
ur ekki skilað árangri. Þrátt fyrir
að rannsóknir sanni góðan árangur
af samtalsmeðferð við þunglyndi,
kvíða og fleiri geðröskunum, þá
hefur verið litið framhjá því. Úr-
skurður samkeppnisstofnunar á þá
leið að fólk eigi rétt á niðurgreiddri
þjónustu klínískra sálfræðinga, rétt
eins og á þjónustu geðlækna, hefur
ekki verið tekinn til greina. Málið
hefur hlotið góðlátlegan skilning
ráðamanna en engar fjárveitingar.
Undantekning er þó að félagsþjón-
ustur sveitarfélaga hafa eftir mætti
styrkt skjólstæðinga sína í viðtöl,
en þar er um mjög takmörkuð rétt-
indi að ræða. Athuganir sýna að
samtalsmeðferð borgar sig vel fyrir
samfélagið í heild, jafnt sem þung-
lynda einstaklinga og fjölskyldur
þeirra. Þrátt fyrir það hefur því
verið haldið fram að hún sé of dýr.
Hið rétta er að samtalsmeðferð er í
mörgum tilfellum ódýrari kostur en
lyfjameðferð. Tíð bakföll hjá þung-
lyndum eftir að lyfjatöku er hætt
gerir það að verkum að hún getur
dregist mjög á langinn með tilheyr-
andi kostnaði. Samtalsmeðferð
heldur betur til lengdar og borgar
sig fljótt, t.d. í minni lyfjakostnaði,
fyrirbyggjandi áhrifum, færri veik-
indadögum og meiri vinnuafköstum
ánægðara fólks. Lyfjameðferð get-
ur verið ódýrari rétt til að byrja
með en samtalsmeðferð borgar sig
betur þegar til lengdar lætur. Bæði
samtöl og lyf geta virkað vel á fólk
innan fárra vikna en hvorug aðferð-
in virkar alltaf. Sumum nægir sam-
talsmeðferð, öðrum nægir að taka
lyf. Oft virka viðtöl og lyf vel sam-
an, en þá er ekki nóg að bara annar
kosturinn standi fólki til boða.
Við þurfum að skoða þunglyndi í
líkamlegu, sálrænu og félagslegu
samhengi. Með einhliða áherslum
er hætta á því að fólk haldi að lyfin
ein leysi vandann. Þunglyndir lenda
þá í óvirkri bið eftir því að lyf virki.
Slík biðstaða vinnur á móti á bata.
Horfur eru mun betri ef þunglyndir
vinna að bata sínum en treysta ekki
bara á lyf. Ef það er rétt að erfða-
gallar og taugaboðefnatruflanir séu
aðalorsakir þunglyndis, hvernig
stendur þá á því að samtalsmeðferð
virkar til lækningar á því?
Samtalsmeðferð hefur það fram-
yfir lyfjagjöf að hafa engar auka-
verkanir og minni líkur eru á bak-
föllum. Í viðtölum lærir fólk að fást
við þunglyndi sitt upp á eigin spýt-
ur. Það heldur gjarnan áfram
sjálfsuppbyggingu eftir að meðferð
lýkur og miðlar þekkingu sinni til
annarra, m.a. til barna sinna. Þann-
ig virkar samtalsmeðferð fyrir-
byggjandi gagnvart þunglyndi og
fleiri mannlegum vandamálum.
Sú samtalsmeðferð sem mest
hefur verið rannsökuð nefnist hug-
ræn atferlismeðferð. Niðurstöður
sýna að hún er oft vænsti kosturinn
við þunglyndi og fleiru, s.s. kvíða,
fælni og felmtri. Fólk lærir að nota
uppbyggilegt hugarfar og hegðun
sem virkar gegn þunglyndi. Rann-
sóknir sýna að börn geta lært að
nota hjálplega hugsun sem minnkar
líkur á þunglyndi þeirra og eykur
árangur í námi og íþróttum. Fleiri
gerðir samtalsmeðferðar geta líka
virkað vel á þunglyndi og fleira.
Þunglyndisfaraldur lagast ekki af
sjálfu sér. Á honum þarf að taka af
festu. Þetta eru hin hörðu mál sam-
félagsins, sem við verðum að horf-
ast í augu við. Þó að lyf og viðtöl
virki vel á þunglyndi nægir hvorugt
til að stöðva faraldurinn. Það eru
engar töfralausnir til og undralyf
mun ekki finnast. Vinna þarf að
lausnum með fjölþættum hætti og
margir að leggjast á eitt. Þekking
um það hvernig megi varast þung-
lyndi þarf að verða mun almennari
en nú er. Tími er til kominn að við
förum að taka á þessum málum af
alvöru.
Viðbrögð samfélags-
ins við þunglyndi
Eftir Gunnar Hrafn
Birgisson
„Þekking
um það
hvernig
megi varast
þunglyndi
þarf að verða mun al-
mennari en nú er.“
Höfundur er sérfræðingur í klínískri
sálfræði.