Morgunblaðið - 29.12.2002, Síða 39
MINNINGAR
MORGUNBLAÐIÐ SUNNUDAGUR 29. DESEMBER 2002 39
sáum síðan hvar stór hundur hljóp
veinandi heim að sveitabæ. Stuttu
síðar kom Nonni labbandi og var sí-
fellt að spýta út úr sér einhverju.
Þetta voru hár sem hann var að
spýta út úr sér. Þegar gengið var á
Nonna sagði hann að hundur hefði
bitið hann og hann bara bitið hund-
inn til baka.
Það var gaman að alast upp í
stórum systkinahópi í Kópavogi á
þessum árum. Markús bóndi í
Grænuhlíð, fyrir neðan okkur, Sigga
gamla með hænurnar og endurnar,
öðrum megin við okkur, Birgir
skeifusmiður hinum megin og Jón
bóndi á Heiði fyrir ofan okkur. Það
var margt brallað á þessum árum.
Nonni var alltaf jafn áræðinn og
glettinn.
Það lá við að við misstum Nonna
ungan. Við vorum að leika okkur í
nýbyggingu, þar sem steypustyrkt-
arjárn stóðu upp úr steypunni.
Nonni var að klifra í Tarzan-leik og
féll niður og ofan á eitt af steypu-
styrktarjárnunum, sem stakkst und-
ir hökuna á honum og þar dinglaði
hann án þess að fæturnir næðu nið-
ur. Það fór betur en á horfðist og
Nonni fór á Slysavarðstofuna og í
hann voru saumuð nokkur spor.
Nonni hét í höfuðið á móðurafa
okkar og ömmu. Jón Gunnar. Afi
okkar Jón „rosi“ Guðmundsson frá
Seljalandi, vélamaður á línuveiðar-
anum Fróða, sem Þjóðverjar réðust
á í seinni heimsstyrjöldinni, fram-
lengdi „rosa“-nafnið til Nonna og
var hann oft kallaður „rosi“. Nonni
bar nafn með rentu, því einnig
langafi okkar Guðmundur Jónsson
frá Seljalandi, var kallaður „rosi“.
Nonni kvæntist eftirlifandi eigin-
konu sinni Jóhönnu Hannesdóttur,
12. nóvember 1977 og eiga þau þrjá
mannvænlega syni. Nonni lærði til
múrara og varð meistari í iðn sinni,
kröftugur til vinnu, laginn og mjög
hraustur. Nonni tók sér frí frá múr-
verkinu og fór til sjós og var lengi á
togurum útgerðarfélagsins Granda.
Á frívöktunum lærði Nonni að spila
á gítar og nutum við góðs af því í
fjölskylduútilegunum. Þar orti
Nonni sín fegurstu ástarljóð til eig-
inkonu sinnar, Jóhönnu, og flutti
þau síðan á þorrablótum og útileg-
um fjölskyldunnar.
Síðustu árin vann Nonni við iðn
sína og var meistari við barnaspítala
Hringsins í Reykjavík. Hann var við
vinnu þegar kallið kom, hinn 16. des-
ember. Það var kaffitími og sonur
hans, Heimir og bróðursonur hans,
Hörður, voru nærstaddir þegar
hann hné niður og dó síðan á sjúkra-
húsi daginn eftir hinn 17. desember.
Nonni var góður eiginmaður og
faðir. Strákarnir hans, Hannes,
Halldór og Heimir, áttu góða fyr-
irmynd í föður sínum og Jóhanna
ljúfan og ástríkan eiginmann.
Nonna er sárt saknað af öllum sem
til hans þekktu. Hans verður minnst
sem góðs drengs og við hin sem lif-
um hann þökkum algóðum Guði fyr-
ir þær ljúfu stundir sem við áttum
með honum og þær minningar sem
við geymum í hjörtum okkar. For-
eldrum og systkinum okkar, eigin-
konu hans og börnum, vottum við
okkar innilegustu samúð. Við vonum
að þær leiðir sem Nonni hefur nú
lagt út á verði jafn gæfuríkar og þær
sem hann á að baki.
Hann tignar þau lög, sem lífið
með logandi eldi reit.
Hann lærði af styrkleika stálsins
að standa við öll sín heit.
Hann lærði verk sín að vanda
og verða engum til meins.
Þá væri þjóðinni borgið,
ef þúsundir gerðu eins.
(Davíð Stef.)
Ef eitthvert af okkur mannanna
börnum kemst inn um Gullna hliðið,
þá verður það hann Nonni „litli“ sem
beit hundinn í berjamó.
Óskar, Sigurjón og Þórður
Þórmundssynir.
Kæri Nonni. Mánudagurinn 16.
desember líður okkur bræðrum
seint úr minni, þegar pabbi hringdi
og sagði okkur að þú hefðir fengið
hjartaáfall sem síðar kom í ljós að
stafaði af sprungnum æðagúlp í
höfði þínu og þú varst farinn yfir til
feðranna daginn eftir.
Hvar á að byrja þegar þín er
minnst? Minningar hrannast upp
svo margar og skemmtilegar. En
þegar við lítum til baka þá kemur
fyrst og síðast í hugann þakklæti
fyrir laugardaginn 14. desember
þegar við vorum samankomin
mömmu til heiðurs í Gullsmáranum.
Sú gleðistund varð okkar síðasta
saman.
Elsku Nonni, þegar við setjumst
niður og minnumst þín hellist yfir
gríðarlegur söknuður, því það er svo
sárt að vita til þess að sjá þig ekki
framar og það er erfitt að sætta sig
við það. Það er svo margs að minn-
ast; gítartónar, söngur, gleði og já-
kvæðni.
Óteljandi stundir höfum við átt
saman á fjölskyldusamkomum þar
sem þú hefur glatt okkur með gít-
arspili þínu og útgeislun. Eins og
svo oft kom fram hjá okkur systk-
inunum varst þú ekki stærstur af
strákunum, en fáir stóðu þér á
sporði, elsku karlinn minn, þegar
kom að samheldni fjölskyldu þinnar
og Jóhönnu. Strákarnir voru stór
hluti af lífi þínu og skipti þá ekki
máli hvort það var æfing í körfu eða
rall á Höfn, þú varst mættur til að
styðja við bakið á þínum drengjum.
Þú fórst á sjóinn eftir samdrátt í
byggingariðnaðinum og varst á sjó í
nokkur ár sem átti eftir að færa okk-
ur og öllum í kringum í þig mikla
gleði því þú komst spilandi og syngj-
andi í land aftur. Þarna urðu til
margir textar sem við höfum notið
síðan og munum gera um ókomin ár
hvort sem er á þorrablótum eða í
fjölskylduútilegum, textar þínir
munu verða ódauðlegir eins og
minning þín.
Kæri bróðir, við kveðjum þig að
sinni. Sjáumst síðar.
Elsku Jóhanna, Hannes, Dóri og
Heimir, megi guð breiða blessun og
styrk yfir ykkur á erfiðum stundum.
Sigurbjörn og Bjarni Gaukur.
Þriðjudagurinn 17. desember líð-
ur seint úr minni, þetta átti að vera
gleðidagur fyrir hönd vinkonu minn-
ar þar sem hún átti afmæli, en fljótt
skipast veður í lofti, þetta reyndist
vera sorgardagur en mágur minn,
hann Nonni, lést aðeins 46 ára af
völdum heilablóðfalls. Maður kemst
ekki hjá því að spyrja „af hverju“ og
„hvers vegna“ en þegar stórt er
spurt verður fátt um svör.
Ég kynntist Nonna á undan
manninum mínum þegar ég var 17
ára um borð í frystitogaranum
Snorra Sturlusyni. Sigldum við sam-
an tvo túra þetta sumarið. Í byrjun
árs 1994 fastréð ég mig þarna um
borð og kynntist Bjössa bróður hans
Nonna sem síðar varð maðurinn
minn. Skrítið var það, þegar ég og
Bjössi föttuðum að ég þekkti Nonna
frá fornu fari og Bjössi varð ekki
þetta lítið móðgaður þegar ég spurði
hvor þeirra væri eldri, en það mátti
sjá lítinn mun á þeim þótt Nonni
væri níu árum eldri, svo unglegur
þótti mér hann enda fullur af lífs-
gleði og hamingju. En Nonni þakk-
aði mér aftur á móti í bak og fyrir,
fyrir spurninguna og hló bara að
litla bróður sínum.
Það voru ófáar stundirnar þar
sem hist var og trallað saman,
Nonni með gítarinn sinn, í útilegum,
þorrablótum eða öðrum mannfögn-
uðum. Nonni spilaði og söng, iðulega
voru valinkunn lög spiluð en við
höfðum frekar líkan tónlistarsmekk.
Gömlu og góðu lögin að ógleymdum
Megasi og Bubba.
Við eyddum tveimur Verslunar-
mannahelgum saman og verða þær
ógleymanlegar í minningunni, sér-
staklega helgin í Atlavík en ég og
Bjössi keyrðum þangað í einum
rykk til að geta eytt helginni með
þeim hjónunum og strákunum
þeirra. Var okkur tekið opnum örm-
um eftir 700 km akstur og helgin
frábær í sólskini og söng en það var
sungið og spilað á gítar fram eftir
nóttu og þar fór Nonni fremstur í
flokki eins og hans var von og vísa.
Erfitt er að sætta sig við svona
blóðtöku í svona samheldinni fjöl-
skyldu, en kannski vantaði bara fjör-
ugan gítarleikara til Guðs og við
skulum vona að englarnir kunni
textana hans Bubba.
Með þessum fátæklegum orðum
vil ég kveðja Nonna og ég votta fjöl-
skyldu og vinum hans mína samúð.
Guð styrki ykkur og geymi á þess-
um erfiðu tímum.
Anna G.
Minn kæri mágur er dáinn, farinn
fyrirvaralaust. Eftir stöndum við
með engin svör við ótímabæru and-
láti, máttvana af sorg og söknuði og
hvert skref og hver andardráttur er
næstum óbærilegur.
Fyrir 29 árum kynntist ég Jóni
Gunnari Þórmundssyni, traustum,
sterkum og skemmilegum dreng, er
hann kom inn í líf systur minnar.
Nonni eins og hann var alltaf kall-
aður varð fljótt stóra ástin í lífi
hennar. Þau voru ung þegar þau
kynntust, enginn gat vitað þá að
samband þeirra myndi vaxa og
dafna sem raun bar vitni. Þau þrosk-
uðust saman og tókust á við lífið
saman, stofnuðu heimili og eignuð-
ust drengina sína þrjá. Hann var
mikill fjölskyldumaður og hélt vel
utan um fjölskyldu sína. Hann um-
vafði þau öll af allri þeirri ást sem
hægt var að gefa. Hann var þeirra
stoð og stytta, félagi og vinur. Missir
þeirra er ólýsanlega mikill.
Þegar kemur að leiðarlokum er
margs að minnast og margt að
þakka fyrir. Allar minningarnar um
ótal samverustundir fjölskyldna
okkar munu ylja mér og fjölskyldu
minni um ókomin ár og létta okkur
næstu skref.
Elsku Nonni, þakka þér sam-
fylgdina sem varð allt of stutt,
þakka þér vætumþykjuna og virð-
inguna í okkar samskiptum og í garð
minnar fjölskyldu og ekki síst ástina
sem þú gafst systur minni og sonum
þínum. Hvíl í friði, kæri mágur.
Mín kæra systir, Hannes, Berg-
þóra, Dóri, Auður, Heimir og aðrir
aðstandendur og vinir, megi góður
Guð styrkja ykkur og okkur öll á
þessari sorgarstundu.
Þorbjörg og fjölskylda.
Í gegnum móðu og mistur
ég mikil undur sé.
Ég sé þig koma, Kristur,
með krossins þunga tré.
Af enni draggir drjúpa,
og dýrð úr augum skín.
Á klettinn vil ég krjúpa
og kyssa sporin þín
(Davíð Stef.)
Þannig sér skáldið frá Fagraskógi
sýn að landi þess heilaga guðs sem
býður ykkur að borði óendanlegs
kærleika, lausnar og eilífs lífs að lok-
inni göngu jarðvistar. Enginn veit
hvenær það boð berst en kannski
síst þegar undirbúningur jóla er í
hávegum hafður.
Því biðja hljóðar bænir okkar nú
mildar hendur kærleikans að græða
og umvefja söknuð og trega ástvina
Jóns G. Þórmundssonar, eiginkonu
og barna er sárt sakna og hryggjast.
Við viljum einlæglega þakka góðum
vini og samstarfsfélaga nú er leiðir
skilja um sinn þau forréttinda að
hafa fengið tækifæri til að þekkja
hann í lífi og starfi litla stund. Orð
eru um það höfð að þeir fari ungir er
guð elskar. Ekkert fer, ekkert deyr
sem guð hefur gert. En áfangastaðir
eru margir og störf mörg bíða úr-
lausna á leiðum guðsandans. Þá er
oft góðs manns getið og hann til-
kvaddur án tafar. Í ljósadýrð og feg-
urð fæðingarhátíðar frelsarans biðj-
um við huggunar öllum þeim
ástvinum er sárt trega og sakna nú
um þessi jól og biðjum að orð meist-
arans megi færa þeim og fylla hjörtu
þeirra nýrri von og trú: „Minn frið
gef eg yður.“
Valur og Aðalheiður.
Okkur hjónin langar með örfáum
orðum að þakka þér, Nonni minn,
fyrir þann besta vinskap sem við átt-
um með þér og þinni fjölskyldu sem
hægt er að eignast. Nonni, þú varst
einstakt ljúfmenni og betri vin getur
maður ekki eignast. Við kynntumst
Nonna fyrst fyrir um 13 árum þegar
við fórum til sjós á frystitogarann
Snorra Sturluson. Ég fann strax
hvernig mann þú hafðir að geyma.
Alltaf í góðu skapi og með þitt jafn-
aðargeð. Það var svo frábært að sjá
ykkur Jóhönnu saman því það sem
þið tókuð ykkur fyrir hendur var allt
gert í sameiningu. Nonni var besti
pabbi sem hægt er að hugsa sér,
fyrst og fremst fjölskyldumaður.
Nonni var alltaf í uppáhaldi hjá
krökkum því hann gaf þeim góðan
tíma og var þeim skilningsríkur.
Drengirnir hans þrír voru hans gim-
steinar. Alltaf gat maður leitað til
ykkar og fékk hlýjar og góðar mót-
tökur.
Þið hjónin fóruð til Edinborgar í
viku í tilefni 25 ára brúðkaupsaf-
mælis í nóvember og verður það
dýrmæt minning fyrir þig, Jóhanna
mín.
Í afmælum eða öðrum selskap var
Nonni hrókur alls fagnaðar. Við
hjónin héldum afmælisveislu í nóv-
ember sl. og mættu þau Nonni og
Jóhanna með gítarinn og frumsamið
lag til afmælisbarnsins. Það var svo
fallegt að það snart alla afmælis-
gestina. Það verður varðveitt vel.
Allt kvöldið spilaði hann og Jóhanna
hélt á söngtextanum fyrir hann. Þar
sagðir þú okkur að þú elskaðir hana
Jóhönnu svo mikið og þú ætlaðir að
verða gamall með henni. En þá ertu
hrifsaður burt frá þinni elskandi
fjölskyldu. Þín verður sárt saknað.
Við viljum með þessu orðum
þakka þér, Nonni minn, fyrir sam-
fylgdina. Þú hefur unnið þér stóran
sess í hjarta okkar allra í fjölskyld-
unni. Og þér Jóhanna, Hannes, Dóri
og Heimir Snær og öðrum aðstand-
endum viljum við votta okkar
dýpstu samúð. Megi góður Guð gefa
ykkur styrk til að halda áfram.
Heimsins þegar hjaðnar rós
og hjartað klökknar,
Jesú gefðu mér eilíft ljós
sem aldrei slökknar.
Kristinn og Berglind.
Þau válegu tíðindi bárust mér
símleiðis að morgni 17. desember að
einn af vinnufélögunum hefði verið
fluttur á sjúkrahús. Var greint frá
að alvarlegt tilfelli væri á ferðinni og
allt gæti gerst, eins og átti eftir að
verða raunin. Tíminn leið hægt og
óvissan var mikil. Erfið raun fyrir
alla sem fylgdust með, sennilega liðu
stundum ekki nema örfáar mínútur
á milli þess að maður fékk fréttir af
stöðunni. En engin von eða góðar
fréttir komu, fréttirnar sem maður
vildi fá. Það var svo seinnipart hins
18. desember, eða rúmum sólar-
hring seinna, að ég sat og var að
reyna að einbeita mér að prófund-
irbúningi í ríki Margrétar þegar
símtalið kom sem hafði að geyma
fréttirnar, já fréttir sem enginn
hefði getað ímyndað sér tveimur sól-
arhringum áður að bærust, hann
Jón múrari var dáinn.
Jón Gunnar Þórmundsson múr-
arameistari hafði verið meðspilari
okkar feðga og stýrt múraraflokki
ÓGbygg í nokkur ár. Er ekki ofsög-
um sagt að þarna var á ferðinni einn
af okkar traustustu mönnum og til-
heyrði hinum svokallaða kjarna sem
grunnur fyrirtækisins byggist á.
Það gilti einu hvort verið var að
múra, slípa gólf eða skúra, skrúbba
og bóna eins og þarf að gera í verk-
lok við afhendingu verkefna til við-
skiptavina, Jón var alltaf boðinn og
búinn og ávallt í eldlínunni þegar
mest lá við.
Margar skemmtilegar og fjörugar
stundir gaf Jón okkur vinnufélög-
unum sem við munum geyma í
minningunni um ókomna framtíð.
Jón spilaði og söng manna mest er
við gerðum okkur glaðan dag og
skemmtum okkur saman. Jóns er
sárt saknað og skarðið eftir hann
verður ekki einfalt að fylla. Vinnu-
félagarnir hafa styrkt hver annan á
þessum erfiðu stundum. Elsku Jó-
hanna og synir, við sendum ykkur
okkar innilegustu samúðarkveðjur,
megi guð vera stoð og styrkja ykkur
inn í framtíðina.
Ólafur og Gunnar ehf.,
Gunnar Ólafsson.
Þetta er svo ósanngjarnt. Heyrir
maður alls staðar. Maður skilur
þetta bara ekki. Af hverju hann? Af
hverju núna? Þessum spurningum
verður aldrei svarað. Þetta gerðist
allt svo hratt. Enginn bjóst við
þessu. Þegar hugsað er um Nonna
þá er það það fyrsta sem kemur upp
hvað hann var alltaf kátur og alltaf
svo hress.
Það er manni minnisstæðast hvað
hann var söngelskur. Í öllum úti-
legum spilaði hann á gítarinn eins og
hann fengi borgað fyrir það.
Við sitjum öll eftir með tár í aug-
um og brostið hjarta – hann er far-
inn.
Við kveðjum þig Nonni með þess-
um erindum eftir Davíð Stefánsson:
Spurðu mig ekki, hvaðan ég komi
og hvers vegna ég sé einn.
– Sumum fylgja svipir og vofur,
þó sjái þær ekki neinn.
Spurðu mig hvorki um leit mína og löngun
né loforðin sem ég gaf.
– Sumir verðskulda ekkert annað
en útlegð og förustaf.
Spurðu mig ekki um bliknuðu blöðin
sem brotna af lífsins eik.
– Við skiljum lítið og skynjum fátt
og skrifum í vatn og reyk.
Elsku Jóhanna, Hannes, Dóri,
Heimir og amma og afi.
Við biðjum Guð að styrkja ykkur
öll í þessari miklu sorg.
Eygló, Kristinn, Gunnar Arndal,
Rósa, Björn, Þórey og Ómar.
Mig langar til að kveðja þig,
elsku Dísa mín, á afmælisdegi þín-
SIGURDÍS
GUÐJÓNSDÓTTIR
✝ Sigurdís Guð-jónsdóttir fædd-
ist í Reykjavík 29.
desember 1918. Hún
andaðist á elli- og
dvalarheimilinu
Grund 12. nóvember
síðastliðinn. Sigurdís
var dóttir hjónanna
Guðjóns Guðmunds-
sonar og Sigríðar
Bjarnadóttur. Systk-
inahópurinn var
stór, fimm alsystkini,
Sigurdís, Jóhanna
Sigríður, Þorbjörg,
Jóhanna Kristín og
Hafsteinn og þrjú hálfsystkini,
Haflína, Halldóra og Guðmundur.
Sigurdís var Reykjavíkurmær,
uppalin við Barónsstíginn og
Laugaveg. Maður hennar var Pét-
ur Guðmundsson en hann lést
1996. Sigurdísi og Pétri varð ekki
barna auðið en uppeldissonur
þeirra er Benóný Pétursson.
Útför Sigurdísar var gerð í
kyrrþey að ósk hinnar látnu.
um, með fáeinum orð-
um. Ég man þegar ég
var lítill og fór oft í
sund með ömmu út á
Nes, þá passaðir þú
mig alltaf meðan
amma var að synda.
Ég man að þú hélst
mér fljótandi í vatninu
með einum putta til að
ég gæti legið afslapp-
aður á bakinu. Svo
fórum við öll heim til
þín og borðuðum
skonsur sem þú bak-
aðir og töluðum sam-
an. Þú sagðir mér
margar skemmtilegar sögur úr for-
tíðinni, líka seinna þegar ég heim-
sótti þig á Grund. Þú saknaðir Pét-
urs mikið. Enda var hann þér svo
góður.
Þú varst alveg einstök, Dísa, ein
besta manneskja sem ég hef
nokkru sinni kynnst. Ég mun alltaf
muna eftir þér. Hvíl þú í friði í
örmum Péturs hjá Guði.
Ég, systkini mín og foreldrar
sendum aðstandendum samúðar-
kveðjur.
Kristinn R. Gunnarsson.