Morgunblaðið - 30.05.2003, Side 19
LISTIR
MORGUNBLAÐIÐ FÖSTUDAGUR 30. MAÍ 2003 19
BÓMULLAREKRUR á Fílabeins-
ströndinni, teppaflákar í Marra-
kesh, naktir sóldýrkendur á
franskri strönd, grænmetismark-
aður í Asíu; – allt í röð og reglu og í
hrópandi andstöðu við ósnortnar
auðnir jarðar. Þar lúta röð og regla
einungis þeim lögmálum sem sjálft
sköpunarverkið setur þeim.
Ljósmyndir hins heimsþekkta
franska ljósmyndara Yann Arthus-
Bertrand verða til sýnis á einstakri
sýningu sem opnuð verður á Aust-
urvelli á laugardaginn kl. 15.00 að
viðstöddum Þórólfi Árnasyni borg-
arstjóra, Louis Bardollet, sendi-
herra Frakklands, og listamann-
inum sjálfum. Sýningin heitir
Jörðin séð frá himni. Það er
Reykjavíkurborg sem hefur for-
göngu um að fá sýninguna til lands-
ins og hefur Anna Margrét Guð-
jónsdóttir haft umsjón með
verkefninu fyrir hönd borgarinnar.
Yann Arthus-Bertrand er sjálf-
menntaður ljósmyndari. Hann er
náttúrufræðingur að mennt, og hóf
ljósmyndun af alvöru um miðjan
áttunda áratuginn þegar hann fór
til Kenýa til að fylgjast með atferli
ljóna. Hann drýgði tekjur sínar
með því að reka loftbelg fyrir
ferðamenn, og þar kynntist hann
því sjónarhorni sem varð síðan
„auga“ vinnu hans í áratug, við
ljósmyndun jarðarinnar. Arthus-
Bertrand fer víða, og myndir hans
sýna bæði fólk við leik og störf, en
einnig heillandi óbyggðasvæði.
Þrjár myndir frá Íslandi verða á
sýningunni. Myndirnar eru ýmist
teknar úr þyrlu eða loftbelg.
Margar borgir á biðlista
Að sögn Önnu Margrétar var
sýningin fyrst sett upp í Lúx-
emborgargarðinum í París árið
1999. Síðan þá hefur hún farið víða.
„Sýningin hefur þegar farið til á
milli 50 og 60 borga, og fer hratt.
Hún verður einnig sett upp í New
York, Sjanghæ, Amsterdam og í
Noregi nú í sumar. Hún hefur þeg-
ar verið sett upp í Kaupmannahöfn,
Ósló og Stokkhólmi, og verður í
Helsinki á næsta ári.“ Listinn yfir
þær stórborgir sem sækjast eftir að
fá að setja sýninguna upp er orðinn
langur, því hvarvetna hefur hún
hlotið mikla athygli og lof.
Talið er að yfir 30 milljónir
manna hafi þegar séð Jörðina séða
frá himni og þar með er hún ein
vinsælasta og mest sótta ljós-
myndasýning allra tíma. Í París sáu
2,5 milljónir manna verkin þar sem
þau héngu á girðingunni umhverfis
Lúxemborgargarðinn. í Stokk-
hólmi og Osló álitu skipuleggj-
endur að yfir 800.000 manns hefðu
séð sýninguna, en á þeim stöðum
var hún á síðasta ári.
Anna Margrét segir að starfsemi
kringum sýningahaldið sé orðin
mjög öflug, en því er stýrt frá Par-
ís. Þar eru línurnar lagðar um allt
það er lýtur að sýningunni í hverju
landi, og hver sýningarstaður verð-
ur að hafa samþykki stjórnenda
þar fyrir útliti sýningarinnar. „Það
kom arkitekt á þeirra vegum hing-
að, til að teikna upp sýninguna á
Austurvelli. Undirbúningurinn hef-
ur staðið í eitt og hálft ár. Við
grandskoðuðum alla möguleika á
sýningarstað í miðborginni, því
skilyrðin eru mjög ströng af hendi
ljósmyndarans; sýningin verður að
vera í miðborg hvers staðar, þar
sem fólk á leið um dags daglega.
Við vorum búin að máta fleiri staði,
Ingólfstorg, höfnina, Austurstræti,
Hljómskálagarðinn, Lækjartorg, en
þegar arkitektinn kom og tók út
þessar tillögur var samþykkt að
vera á Austurvelli, þar sem við vild-
um reyndar upphaflega staðsetja
verkin.“ Anna Margrét segir að
upphaflega hafi staðið til að setja
sýninguna á völlinn sjálfan, en
betra hafi þótt að raða henni kring-
um hann, þar sem fólk vilji njóta
þess að setjast í grasið á góðviðr-
isdögum. Þá sé hægt að gera það,
eða sitja á kaffihúsunum í kring, en
sjá jafnframt verkin.
Myndirnar 120 sem sýndar verða
hér eru aðeins brot af þessari
myndaröð Arthus-Bertrand. „Það
sem við sýnum eru þær myndir sem
sýndar voru á Norðurlöndunum.“
Alls eru myndirnar í röðinni um
100.000.
Framlag í baráttunni
fyrir náttúruvernd
Myndasafnið er tilraun eins
manns til að miðla sýn sinni á
heimsbyggðinni í upphafi hins
þriðja árþúsunds. Út frá þessari
hugmynd endurspeglar sýningin
hrif ljósmyndarans af fegurð jarð-
arinnar jafnt sem áhyggjur hans af
misnotkun og eyðileggingu jarð-
svæða og náttúruauðlinda af
manna höndum undanfarin 50 ár.
Sýningin hvetur með þessu móti
fólk til umhugsunar um ástand
jarðarinnar í dag og þá sérstaklega
í ljósi lýðfræðilegra breytinga og
aukinnar iðnvæðingar. Útskýring-
artextar á íslensku, ensku og
frönsku fylgja öllum myndum sýn-
ingarinnar.
„Það hefur verið mjög gaman að
vinna að þessu verkefni. Borgin
hafði frumkvæði að því og sam-
starfs við ríkið og einkaaðila hefur
einnig verið leitað. Það sem mér
finnst einna skemmtilegast er að
Alþingi lánar gamla Skjaldbreið
undir verslun og upplýsinga-
miðstöð sýningarinnar. Það er
kominn um áratugur síðan almenn-
ingur hafði aðgang að húsinu, en
nú er það orðið mjög fallegt að inn-
an. Það var gott framtak hjá Al-
þingi að vilja leggja þessu verkefni
lið á þennan hátt. Þarna verður
hægt að nálgast upplýsingar um
listamanninn, kaupa póstkort,
veggspjöld og stóra og veglega
ljósmyndabók, og þar verður einn-
ig vídeósýning sem lýsir verkefninu
mjög vel, meðal annars með mynd-
um af ljósmyndaranum í loftinu að
taka myndir.“ Mikill undirbúningur
hefur verið fyrir komu myndanna.
Sérstakir stöplar voru steyptir til
að halda þeim, en Anna Margrét
segir að þeir geti nýst borginni í
framtíðinni við ýmiss konar sýning-
arhald. Hún segir að allt frá því að
Arthus-Bertrand byrjaði að mynda
jörðina hafi UNESCO fylgst með
störfum hans og sýningunum og
standi nú á bak við verkefnið.
Að sögn Önnu Margrétar er hér
ekki eingöngu á ferðinni meist-
araverk í formi ljósmynda, heldur
einnig mikilvægt framlag í barátt-
unni fyrir bættri náttúruvernd.
Áhyggjur ljósmyndarans af mis-
notkun nútímamannsins á nátt-
úruauðlindum jarðar muni líka án
efa skila sér til áhorfandans.
Ljósmyndasýning Yann Arthus-Bertrand, Jörðin séð frá himni, opnuð á morgun, laugardag
Þrjátíu milljónir
sýningargesta – og
Íslendingar að auki
Morgunblaðið/Jim Smart
Jörðin séð frá himni. Á Austurvelli bíða stöplarnir í röðum eftir myndum
franska ljósmyndarans Yann Arthus-Bertrand.