Morgunblaðið - 13.08.2003, Side 6
FRÉTTIR
6 MIÐVIKUDAGUR 13. ÁGÚST 2003 MORGUNBLAÐIÐ
STARF framhaldsskóla hefst síð-
ar í þessum mánuði og eru nem-
endur þegar farnir að viða að sér
skólabókum og öðru efni til
námsins. Þegar ljósmyndara og
blaðamann Morgunblaðsins bar
að nokkrum verslunum í gær
mátti sjá að enn væri allt með
kyrrum kjörum og nóg til af bók-
um til kaupa.
Að sögn starfsmanna í bóka-
búðum hefur verið nokkur
straumur af nemendum í búð-
irnar til þess að selja eldri bæk-
ur, enda vænlegt að koma
snemma til þess að koma bók-
unum í verð. Áttu starfsmenn von
á að álagið ykist nú dag frá degi
og næði hámarki í kringum
næstu helgi.
Margir nýir titlar eru á bóka-
listum skólanna í ár sem endra-
nær og sömuleiðis nýrri útgáfur
af sömu bókum. Sömuleiðis eru
búðirnar vel birgar af notuðum
bókum, sem reynt er að selja eins
og kostur er.
Gott að mæta snemma
Kaupendur skólabókanna voru
frá nokkrum framhaldsskólum á
höfuðborgarsvæðinu, til dæmis
bekkjaskólunum MR, Verzlunar-
skólanum og MS. Bókalistar hafa
verið birtir á Netinu nemendum
og foreldrum til hagræðis og með
þeim hætti ná nemendur að vera
vel undirbúnir þegar skólinn
hefst. Mátti heyra á nemendum
að það borgaði sig að koma
snemma á markaðina til þess að
hreppa best með förnu bæk-
urnar.
Jóhanna Bettý Durhuus var
nýbúin að skila inn bókum þegar
blaðamaður náði tali af henni.
„Ég sit nú enn uppi með sex bæk-
ur,“ sagði hún. Hún er að fara á
fjórða ár í Menntaskólanum við
Sund. Hún segir færri fög vera
hjá sér á fjórða árinu og af þeim
sökum muni hún ekki þurfa að
kaupa jafnmargar bækur og fyrri
árin. „Í fyrra eyddi ég um 30 þús-
und krónum í bókakaup og nú
get ég ekki losað mig við þær all-
ar. Ég reikna samt með að eyða
minna í bækur í ár,“ bætti hún
við.
Hún vann í sumar hjá Reykja-
víkurborg og var með aukavinnu
á pizzastað. Segir hún útgjöldin
vegna skólans vera þónokkur,
„en samt er gott að geta að
minnsta kosti fengið nokkra þús-
undkalla fyrir einhverjar bækur,
þótt ég hafi ekki getað losnað við
þær allar,“ sagði hún.
Vegna breytinga á námsskrá
skólanna eru nokkrar bækur
ekki lengur til kennslu og þar af
leiðandi ekki teknar inn á skipti-
bókamarkaðinn. Finna nemendur
framhaldsskólanna fyrir því að
nýjar bækur eru teknar inn
vegna breyttra áherslna í
kennslu. Björn Björnsson er nem-
andi við Menntaskólann á Laug-
arvatni. Hann stóð uppi með tvo
fulla poka af bókum eftir að hafa
selt það sem tekið var við.
„Ég fékk nú tíu þúsund kall
fyrir þær bækur sem ég fékk
skilað,“ sagði hann. Honum leist
vel á úrvalið á markaðinum og
vonaðist til að geta fundið þar
einhverjar af þeim bókum sem
hann ætti að nota næsta vetur.
„Samt sem áður eru ýmsar breyt-
ingar á bókalistunum vegna nýju
námsskrárinnar og þess vegna
get ég ekki selt bækurnar hérna í
pokunum,“ bætti hann við.
„Margar bækur sem ég var með í
fyrra voru ekki teknar gildar
núna þar sem ekki á að kenna
eftir þeim í haust.“
Útgjöldin verða nokkur vegna
skólans. „Ég sé fyrir mér að eyða
um 20 þúsund krónum í bækur og
þess háttar núna og það er þó
gott að helmingurinn af því kem-
ur frá bókunum sem ég náði að
selja,“ sagði Björn. Hann vann í
álverinu í Straumsvík í sumar og
sagðist vonast til að sumarhýran
dygði fyrir útgjöldunum og gott
betur.
Verslað með skólabækurnar
Morgunblaðið/Jim Smart
Úrvalið er mikið og eins gott að skoða vel hvort rétta bókin sé til á skiptibókamarkaðnum.
Björn Björnsson Jóhanna Bettý Durhuus
GERA má ráð fyrir að yfir 67 þúsund
nemendur frá fimm og sex ára aldri setj-
ist á skólabekk í grunn- og framhalds-
skólum landsins í lok ágúst og byrjun
september. Þar af er talið að um 49.000
nemendur verði við nám í grunnskólum
landsins, að meðtöldum sérskólum, og ná-
lægt 18 þúsund nemendur verði við nám á
framhaldsskólastigi.
Auk þessa munu þúsundir nemenda
stunda háskólanám í vetur. T.d. stefnir
allt í að nær 8.000 nemendur muni stunda
nám við Háskóla Íslands í vetur.
Aldrei fleiri nemendur
við Háskóla Íslands
Aldrei áður hafa fleiri nemendur stund-
að nám við HÍ, en til samanburðar var
nemendafjöldinn nálægt sjö þúsundum í
fyrra. Þá munu um 1.400 nemendur
stunda nám við Háskólann í Reykjavík,
svo annað dæmi sé tekið, en þar fjölgar
nemendum um 130 milli ára.
Að sögn Aðalsteins Eiríkssonar, verk-
efnisstjóra hjá menntamálaráðuneytinu,
hefur einnig orðið nokkur fjölgun meðal
nemenda á framhaldsskólastigi. Þar hefur
nemendum fjölgað um þúsund á síðustu
tveimur árum.
Aukin samkeppni milli
skóla um nemendur
Hann segir tvær meginskýringar á
þessari fjölgun. Í fyrsta lagi hafi áhugi á
framhaldsnámi almennt aukist, ekki síst
vegna aukinnar samkeppni milli skóla um
nemendur. En í öðru lagi megi rekja
aukninguna til atvinnuástandsins. Minna
framboð af atvinnu leiði til þess að fleiri
leiti í nám.
Misjafnt er hvenær skólarnir hefja
skólaárið, en grunnskólarnir byrja í
kringum 25. ágúst og framhaldsskólarnir
upp úr 20. ágúst. Þá hefst skólaárið í HÍ
síðustu vikuna í ágúst og í byrjun sept-
ember.
Tugir
þúsunda
setjast á
skólabekk
MANNRÉTTINDANEFND Sam-
einuðu þjóðanna í Genf hefur vísað
frá kæru Björns Kristjánssonar, áð-
ur skipstjóra á Vatneyri, á hendur
íslenska ríkinu að því er kom fram
hjá Birni Bjarnasyni dómsmálaráð-
herra á ríkisstjórnarfundi í gær.
Björn Kristjánsson taldi í kæru
sinni að Ísland hefði brotið gegn al-
þjóðasamningi um borgaraleg og
stjórnmálaleg réttindi þegar Hæsti-
réttur sakfelldi hann í svonefndu
Vatneyrarmáli.
Mannréttindanefndin starfar
samkvæmt samningi Sameinuðu
þjóðanna um borgaraleg og stjórn-
málaleg réttindi frá 1966 sem Ísland
er aðili að. Samkvæmt sérstakri
bókun við samninginn sem Ísland
hefur fullgilt getur Mannréttinda-
nefndin tekið til meðferðar og rann-
sakað kærur frá einstaklingum um
að aðildarríki hafi brotið gegn rétt-
indum þeirra sem vernduð eru af
samningnum.
Björn Kristjánsson var skipstjóri
á Vatneyrinni þegar skipinu var
haldið til veiða í febrúar 1999 án
nægjanlegs kvóta. Hann var ásamt
útgerðarmanni skipsins ákærður
fyrir brot á lögum um fiskveiði-
stjórn. Vörn hans byggðist á að þau
lög stæðust ekki 65. og 75. gr.
stjórnarskrárinnar, og væri því ekki
unnt að sakfella hann á grundvelli
þeirra. Héraðsdómur Vestfjarða tók
þau rök til greina, en meirihluti
Hæstaréttar ekki.
Björn taldi að sakfellingin bryti
gegn rétti hans samkvæmt 26. gr.
samnings Sameinuðu þjóðanna um
borgaraleg og stjórnmálaleg rétt-
indi sem kveður á um að allir skuli
vera jafnir fyrir lögunum og eigi
rétt á sömu lagavernd án nokkurrar
mismununar. Hélt Björn því fram
að sú skipan sem leiddi af reglum ís-
lenska fiskveiðistjórnunarkerfisins
um úthlutun aflaheimilda þar sem
einvörðungu litlum hluta lands-
manna væri veittur aðgangur að
fiskimiðum þjóðarinnar fæli í sér
mismunun sem væri andstæð jafn-
ræðisreglu 26. gr. samningsins.
Í ákvörðun sinni frá 16. júlí sl.
tekur Mannréttindanefndin fram að
kærandi hafi starfað sem skipstjóri
á skipi sem hélt til veiða þegar afla-
heimildir þess voru uppurnar. Hann
hafi hvorki átt togarann né heldur
hafi hann nokkurn tíma sótt um
veiðileyfi samkvæmt ákvæðum laga,
sem sé forsenda fyrir úthlutun afla-
heimilda. Kærandi hafi haldið til
veiða með þann ásetning að fremja
refsivert brot á ákvæðum fiskveiði-
stjórnunarlaganna. Við þessar að-
stæður taldi nefndin ekki sýnt fram
á að sakfellingin hefði falið í sér mis-
munun. Þar sem kærandi hefði ekki
sýnt fram á að hann hefði orðið fyrir
skerðingu réttinda sem samningur-
inn verndar hefði ekki verið uppfyllt
skilyrði þess að kæran væri tæk til
efnislegrar meðferðar hjá nefndinni.
Mannréttindanefnd Sameinuðu þjóðanna í Genf
Vísar frá kæru úr
Vatneyrarmálinu DAVÍÐ Oddsson forsætisráðherratelur að rannsókn á máli olíufélag-anna sé hjá Samkeppnisstofnun.
Haft var eftir honum í Ríkisút-
varpinu í gærkvöld að stofnunin
yrði að leggja fram afmörkuð
álitaefni áður en lögreglu væri
heimilt að taka málið til skoðunar.
Lögin væru skýr hvað þetta varð-
aði.
Sagði Davíð að það ætti eftir að
koma í ljós hvort meira fjármagni
yrði veitt til Samkeppnisstofnunar.
Búið væri að efla hana mikið og
fjármagn til hennar hefði verið
aukið.
Forsætisráðherra í samtali við RÚV
Samkeppnisstofnun leggi
fram afmörkuð álitaefni
STJÓRN Landsvirkjunar veitti
Friðriki Sophussyni forstjóra heim-
ild í gær til að ganga frá samningum
við lægstbjóðendur í útboðum vegna
byggingar stöðvarhúss Kárahnjúka-
virkjunar og eftirlits með þeim fram-
kvæmdum.
Annars vegar er um að ræða
samninga við Fosskraft JV er átti
lægsta boð í smíði stöðvarhússins. Sá
hópur verktaka er myndaður af
þýska fyrirtækinu Hochtief, danska
fyrirtækinu Pihl & Søn og íslensku
verktökunum Ístaki og Íslenskum
aðalverktökum. Þá fékk Friðrik
heimild til að ganga frá samningum
við þann hóp fyrirtækja sem bauð
lægst í eftirlit með byggingu
stöðvarhússins. Þar fer þýska verk-
fræðifyrirtækið Lahmeyer Internat-
onal fremst í flokki ásamt íslensku
fyrirtækjunum Almennu verkfræði-
stofunni, Hönnun, Rafhönnun og
VSÓ ráðgjöf.
Að sögn Friðriks er reiknað með
að skrifað verði undir þessa samn-
inga á næstunni ef ekkert óvænt
kemur upp á.
Heimild gefin til samn-
inga við lægstbjóðendur
NOKKRAR björgunarsveitir Slysa-
varnarfélagsins Landsbjargar á Norð-
urlandi, ásamt fiskibátum, leituðu í
gærkvöld að trillu með einum manni
um borð sem saknað var á Grímseyjar-
sundi. Trillan fannst um hálftíuleytið
skammt norðvestur af Gjögurtá.
Maður á trillu
fannst eftir leit