Morgunblaðið - 03.02.2004, Page 16
ERLENT
16 ÞRIÐJUDAGUR 3. FEBRÚAR 2004 MORGUNBLAÐIÐ
LOFTMYND af rútum og búðum pílagríma í
Arafat, norðaustan við Mekka. Tvær milljónir
múslíma eru nú í pílagrímsför í Mekka og al-
gengt er því að umferðaröngþveiti verði í borg-
inni og nágrenni hennar. Um 250 pílagrímar
tróðust undir eða köfnuðu í miklum troðningi í
Mekka á sunnudag. Atburðurinn varð til þess að
konungur Sádi-Arabíu fyrirskipaði að samin yrði
áætlun um að færa borgina í nútímahorf og bæta
skipulag hennar vegna pílagrímanna, t.a.m. með
því að fjölga bílastæðum, stækka svæði fyrir
gangandi vegfarendur og bæta vegakerfið.
AP
Mekka verði færð í nútímahorf
Í FRUMVARPI George W. Bush
Bandaríkjaforseta til fjárlaga næsta
fjárhagsárs er gert ráð fyrir því að út-
gjöldin til varnarmálaráðuneytisins
verði aukin um 7%, til heimavarna-
ráðuneytisins um 10% og til banda-
rísku alríkislögreglunnar, FBI, um
11% vegna baráttunnar gegn hryðju-
verkastarfsemi.
Bush gerir ennfremur ráð fyrir því
að skattalækkanir, sem þegar hafa
verið samþykktar, verði gerðar var-
anlegar og áætlað er að þær nemi um
1,2 billjónum dollara. Í fjárlagafrum-
varpinu, sem lagt var fram í gær, er
spáð metfjárlagahalla, að andvirði 521
milljarði dollara, á fjárhagsárinu sem
lýkur 30. september nk. Gert er ráð
fyrir því að hallinn minnki í 363 millj-
arða dollara á næsta fjárhagsári.
Demókratar vonast til þess að fjár-
lagahallinn veiki stöðu Bush fyrir for-
setakosningarnar í nóvember. „Hann
lofar billjón dollara skattalækkunum
og ferð til Mars. Og fjárlagahalli hans
nemur hálfri billjón dollara. Hvaðan
halda þessir menn í Washington að
peningarnir komi?“ spurði Howard
Dean, fyrrverandi ríkisstjóri Ver-
mont og einn frambjóðendanna í for-
kosningum demókrata vegna forseta-
kosninganna í nóvember.
Bush vill
auka
útgjöld til
varnarmála
Washington. AP.ARIEL Sharon, forsætisráðherra
Ísraels, hefur fyrirskipað, að hafinn
skuli undirbúningur að því að rýma
17 byggðir landtökumanna á Gaza-
svæðinu. Sharon kveðst gera ráð
fyrir að í framtíðinni verði engar
byggðir gyðinga að finna á Gaza.
Þetta kom fram í viðtali við Sharon
sem birtist í dagblaðinu Haaretz í
gær. Sharon sagði að það væri ætl-
un sín að láta flytja byggðir land-
tökumanna sem vandræðum valda
og tryggja að Ísraelar fari frá
svæðum sem ekki sé ætlunin að
gera tilkall til, líkt og svæðin á
Gaza.
„Við erum að tala um 7.500
manns (í landnemabyggðunum á
Gaza). Þetta er ekki einfalt mál.
Þetta eru þúsundir ferkílómetra af
gróðurhúsum, verksmiðjum og
pökkunarstöðv-
um. Fólk þarna
hefur búið þar í
þrjár kynslóðir.
Við verðum að ná
samkomulagi við
þetta fólk. Það
tekur langan
tíma að flytja
gróðurhús, skóla
og þúsundir öku-
tækja, sérstaklega ef gera þarf það
á sama tíma og árásir eiga sér stað.
Ég geri ráð fyrir því, að í framtíð-
inni verði engir gyðingar á Gaza,“
sagði Sharon.
Ísraelski forsætisráðherrann
hefur áður gefið til kynna að hann
hyggist láta leggja af byggðir land-
tökumanna á Gaza. Engu að síður
komu yfirlýsingar ráðherrans
flokksmönnum hans og fulltrúum
landtökumanna mjög á óvart. Shar-
on hefur ekki áður rætt opinberlega
um heildstæða áætlun í þessa veru.
Í máli hans kom ekki fram tíma-
setning þessa brottflutnings og
hann lagði áherslu á að hann vildi
fyrst ná samkomulagi við fulltrúa
landtökumanna. Byggðirnar 17
taka um fjórðung landrýmis á
Gaza-svæðinu.
Hóta að fella
stjórnina
Áætlun Sharons féll í grýttan
svörð á meðal margra landtöku-
manna sem telja að helgur réttur
tryggi þeim tilkall til þessa land-
svæðis. Hótaði talsmaður landtöku-
manna í gær að fella stjórn for-
sætisráðherrans hyrfi hann ekki frá
áformum þessum. „Vegvísirinn“
svonefndi, friðaráætlun sem Banda-
ríkjamenn, Rússar, Sameinuðu
þjóðirnar
og Evrópusambandið standa að,
gerir ráð fyrir að Ísraelar leysi upp
þær byggðir landtökumanna á
Gaza-svæðinu og Vesturbakkanum
sem komið hefur verið upp í valda-
tíð Sharons. Ísraelski forsætisráð-
herann hefur áður lýst yfir því að
hann vilji framkvæma þennan lið
áætlunarinnar. Hann lagði og
áherslu á það í viðtalinu að hann
reiddi sig áfram á milligöngu og
stuðning Bandaríkjastjórnar. „Við
verðum að gera þetta með sam-
þykki og stuðningi Bandaríkja-
manna. Við þurfum á stuðningi
þeirra að halda,“ sagði ísraelski for-
sætisráðherrann.
Byggðir landtökumanna
rýmdar á Gaza-svæðinu
Jerúsalem. AFP.
Ariel Sharon
JAN Petersen, utanríkisráðherra
Noregs, lýsti því yfir á fréttamanna-
fundi í gærmorgun að hann ætlaði að
hætta sem for-
maður Hægri-
flokksins.
Petersen hefur
verið formaður
flokksins frá
1994. Hann segir
að það fari illa
saman að vera
bæði formaður
flokksins og utan-
ríkisráðherra. Hann sé mikið erlend-
is og það komi niður á flokksstarfinu.
Petersen er 57 ára gamall.
Nýr formaður verður valinn á
flokksþingi í maí. Ekki er ljóst hver
kemur til með að taka við for-
mennskunni í flokknum og búist er
við hörðum slag um embættið. Erna
Solberg, varaformaður flokksins, er
talin líkleg en þeir Per-Kristian Foss
fjármálaráðherra og Börge Brende
umhverfisráðherra eru einnig taldir
hafa áhuga á formannsembættinu.
Petersen
segir af sér
formennsku
Ósló. AFP.
Jan Petersen
FAÐIR pakistönsku kjarnorku-
sprengjunnar, Abdul Qadeer Khan,
hefur viðurkennt að hafa komið ýms-
um kjarnorkuleyndarmálum til Ír-
ans, Norður-Kóreu og Líbýu. Er það
haft eftir pakistönskum embættis-
manni, sem unnið hefur að rannsókn
málsins í tvo mánuði.
Játning Khans kemur fram í skrif-
legri yfirlýsingu frá honum en þar
segir, að hann og fjórir menn aðrir
hafi komið upplýsingunum á fram-
færi við hópa í fyrrnefndum löndum
frá 1986 og fram til 1997.
Segir embættismaðurinn, að
ástæðan hafi fyrst og fremst verið fé-
græðgi.
Khan hefur nú verið sagt upp sem
vísindalegum ráðgjafa Pakistans-
stjórnar en ekki hefur verið ákveðið
hvort hann verði sóttur til saka eða
refsað með öðrum hætti. Telja frétta-
skýrendur, að erfitt geti reynst að
lögsækja Khan, meðal annars vegna
þess, að hann er þjóðhetja í Pakistan,
og vegna þess, að í réttarhöldum væri
hætt við, að ýmis kjarnorkuleyndar-
mál bæri á góma.
Rannsóknin á málinu hófst vegna
upplýsinga, sem Alþjóðakjarnorku-
málastofnunin,
IAEA, fékk frá
Íran og síðan kom
í ljós, að Khan og
félagar hans
höfðu einnig selt
upplýsingar til
Líbýu og N-Kór-
eu. Er Khan sagð-
ur halda því fram,
að hann hafi viljað
deila upplýsing-
unum með öðrum múslímskum ríkj-
um en pakistönsk stjórnvöld vísa
þeirri viðbáru á bug og benda á, að N-
Kórea sé ekki múslímskt ríki. Ekkert
annað en fégræðgi hafi ráðið ferðinni.
Musharraf með ávarp
Embættismenn leggja áherslu á,
að þessi viðskipti hafi ekki átt sér stað
eftir að Pervez Musharraf hershöfð-
ingi og núverandi forseti tók völdin í
sínar hendur 1999 en saka fyrrver-
andi stjórnvöld um að hafa horft
framhjá grunsamlegri auðsöfnun
Khans. Musharraf ætlar að flytja
ávarp til þjóðarinnar um þetta mál að
lokinni hinni íslömsku Eid-hátíð en
henni lýkur á fimmtudag.
Seldi upplýsingar til Írans,
Líbýu og Norður-Kóreu
Faðir pakistönsku kjarnorkusprengjunnar hefur nú játað sök
Islamabad. AP, AFP.
Abdul Qadeer
Khan
TVEIMUR flugferðum frá Frakk-
landi til Bandaríkjanna var frestað í
gær og á sunnudag vegna áhyggna
af yfirvofandi tilraun til hryðju-
verka. Á laugardag var sex ferðum
frá Englandi, Skotlandi og Frakk-
landi frestað af sömu sökum.
Gilles de Robien, samgönguráð-
herra Frakklands, sagði í gær, að
franska leyniþjónustan hefði ekki
haft neinar eigin upplýsingar um yf-
irvofandi hryðjuverkahættu, heldur
aðeins farið eftir viðvörunum banda-
rísku leyniþjónustunnar. Telur hún
sig hafa vitneskju um, að al-Qaeda,
hryðjuverkasamtök Osama bin Lad-
ens, hafi áhuga á að ræna áætlunar-
flugvél á leið til Bandaríkjanna.
Í Bandaríkjunum hefur viðbúnað-
ur í flughöfnum verið aukinn vegna
hryðjuverkahættunnar.
Mörgum flug-
ferðum frestað
París, Washington. AP, AFP.
Hryðjuverkaótti
♦♦♦
♦♦♦