Lesbók Morgunblaðsins - 07.04.2001, Síða 20
20 LESBÓK MORGUNBLAÐSINS ˜ MENNING/LISTIR 7. APRÍL 2001
O
g nú var nær hádegi og
myrkur varð um allt
land til nóns, því sólin
missti birtu sinnar.
(Lúkas 23, 44–45a.)
Dymbilvika stendur
fyrir dyrum. Enn á ný
minnist kirkjan síð-
ustu daga Jesú Krists, vikuna fyrir upp-
risuhátíðina miklu, frá pálmasunnudegi til að-
fangadags páska. Allt frá fimmtu öld hefur
óttusöngur þriggja síðustu daga dymbilviku
verið með sérstöku sniði innan kaþólsku
kirkjunnar. Hið heilaga þrídægur (Triduum
Sacrum) er hápunktur yfirbótatíma föstunn-
ar og á þessum dögum hafa menn frá upphafi
kristni hugleitt krossfestingu og dauða frels-
arans. Það lá því beint við að vissar kirkju-
athafnir á þessum tíma fengju yfirbragð út-
farar. Þrátt fyrir nafnið fór óttusöngurinn,
hin fyrsta af sjö tíðum tíðagerðarinnar, upp-
haflega fram um miðnæturbil. Úti fyrir var
því niðamyrkur. Einhvers staðar fæddist sú
hugmynd að slökkva á kertum kirkjunnar,
einu af öðru, á meðan á athöfninni á föstudag-
inn langa stóð til að tákna örvæntingu hins
kristna safnaðar vegna andláts Krists. Að
lokum logaði aðeins á einu kerti, en það var
falið bakvið altarið, á sama hátt og ljós heims-
ins hvíldi í myrkri gröf. Áhrifamáttur myrkv-
unarinnar var enn meiri fyrir þær sakir að á
skírdeginum var kirkjan vel upplýst, en á
laugardeginum var hinsvegar aðeins kveikt á
litlu ljósi við lektarann svo sæist til að lesa.
Það er engin furða þótt þessar athafnir hafi
síðar meir fengið nafnið Tenebrae (lat. myrk-
ur).
Enn við lýði
Þessar sérstöku guðsþjónustur eru enn við
lýði, lítið breyttar, og orka sterkt á þá sem
sækja þær, þótt þær séu ekki lengur haldnar
í miðnæturmyrkri. Mörg tónskáld hins kaþ-
ólska heims hafa í gegnum tíðina samið tón-
list til flutnings í þeim, sér í lagi á öldum end-
urreisnar og barokks. Það heyrir til
undantekninga að Íslendingum gefist kostur
á að hlýða á slík verk á tónleikum, en nú ber
svo við í Hallgrímskirkju að kvöldi föstudags-
ins langa kl. 21 að kammerkór kirkjunnar,
Schola cantorum, mun flytja sex responsóríur
fyrir aðfangadag páska eftir endurreisnar-
meistarann Carlo Gesualdo, fursta af Venosa
(u.þ.b. 1561–1613). Tónleikagestum verður
boðið í flakk í tíma milli upphafs sautjándu
aldar og síðustu ára þeirrar tuttugustu, og í
rúmi milli Ítalíu og Noregs, því efnisskráin
inniheldur einnig verk eftir tvo af fremstu
höfundum kirkjutónlistar á Norðurlöndum,
þá Knut Nystedt og Kjell Mørk Karlsen.
Þegar responsóríur Gesualdos komu út ár-
ið 1611 var hann löngu orðinn frægur víða um
jarðir, eða alræmdur öllu heldur, fyrir glæp
sem enn er í minnum hafður, ekki síður en
tónlist hans, og hefur orðið yrkisefni ófárra
skálda. Þann 16. október 1590 skipaði Gesu-
aldo fyrir um morð á eiginkonu sinni Maríu
d’Avalos og elskhuga hennar Fabrizio Ca-
rafa, hertoga af Andria, eftir að hafa komið að
þeim í örmum hvort annars. Þótt okkur nú-
tímamönnum kunni að reynast erfitt að skilja
það, þá þurfti Gesualdo ekki að óttast refs-
andi arm laganna í kjölfar þessa ástríðu-
glæps. Hinsvegar átti hann yfir höfði sér
hefnd aðalsættanna tveggja sem syrgðu hið
myrta par. Hann dró sig því að mestu í hlé í
eignum sínum í bænum Gesualdo, nálægt
Napolí. 1594 kvæntist hann á ný og tengdist
nú hertoganum af Ferrara. Sennilegt er að
líflegt tónlistarlíf þeirrar borgar og valdapóli-
tískar ástæður hafi ráðið meiru um val á eig-
inkonu en hiti tilfinninganna í garð hennar.
Gesualdo gekk ekki af Leonoru d’Este
dauðri, en gerði henni lífið svo leitt að hún
reyndi hvað eftir annað að losna úr hjóna-
bandinu. Sálarástand furstans var vægast
sagt óstöðugt og með árunum varð þunglyndi
hans illviðráðanlegt. Eina huggun hans gegn
þessum harmi var tónlistin og hún átti hug
hans allan.
Hæfileikaríkur áhugamaður
Í fyrstu álitu samtímamenn Gesualdos
hann ekki vera mikið meira en hæfileikaríkan
áhugamann á sviði tónlistar, en fjórar bækur
með fimm radda madrígölum eftir hann, sem
komu út á árunum 1594–1596, vöktu hrifn-
ingu manna og upp frá því var Gesualdo í
miklum metum sem tónskáld. Það eru einmitt
madrígalarnir sem halda nafni hans hæst á
lofti í heimi tónlistarinnar. Þessir veraldlegu
ástarsöngvar eru svo tjáningarfullir að undr-
um sætir. Um þá blása sviptivindar öfgafullra
tilfinninga jafn frísklega nú og þegar þeir
voru fyrst sungnir af tónlistarmönnum furst-
ans. Gesualdo fór að mörgu leyti ótroðnar
slóðir í tónlist sinni og átti ekki marga eft-
irfylgjendur. Stíll hans er einhver sá per-
sónulegasti í tónlistarsögunni, uppfullur af
ómstríðum og krómatík og óvæntum bugðum
og hlykkjum. Tónskáld tuttugustu aldarinnar
höfðu mörg hver mikið dálæti á framúr-
stefnulegri tónlist Gesualdos og nægir þar að
nefna Ígor Stravinskí, sem útsetti nokkra af
madrígölunum fyrir hljómsveit.
Trúarleg tónlist Gesualdos hefur að
nokkru leyti fallið í skugga hinnar veraldlegu,
en er þó ekki síður aðdáunarverð eða sérstök.
Responsóríurnar (víxlsöngvar; af lat. respon-
dere: svara) sem fluttar verða á tónleikunum
í Hallgrímskirkju eru samdar fyrir sex raddir
og voru sungnar á eftir ritningarlestrum
(m.a. úr Harmljóðunum) í myrkurstundunum
sem áður var lýst. Eins og í madrígölunum
gengur Gesualdo út frá textanum og málar
hann sterkum litum. Í einstaklega áhrifa-
miklum hljóðmyndum eru hlustendur hvattir
til að íhuga pínu og dauða frelsarans: Deduc
quasi torrentem lacrimas (Lát tár þín renna
eins og flóð).
Gesualdo hafði hóp tónlistarmanna á sínum
snærum eins og aðrir málsmetandi aðals-
menn fyrr á öldum og tónlistarflutningur var
sú iðja sem hæst var skrifuð við hirð hans.
Trúlega hafa hirðsöngvararnir oft verið á nál-
um þegar þeir túlkuðu hugarfóstur fursta
síns í sölum kastalans í Gesualdo, enda var
skaphöfn hans óútreiknanleg, eins og áður
var sagt.
Nestor í norsku
tónlistarlífi
Schola cantorum fékk alþjóðlega viður-
kenningu haustið 1998, þegar hann hreppti
fyrsta sætið í kirkjukórakeppni í Picardie í
Frakklandi. Tveimur árum síðar vakti kórinn
einnig athygli á kirkjutónlistarþinginu Jub-
ilemus í Helsinki.
Meðal annarra tónlistarmanna sem lögðu
leið sína til Helsinki í fyrrahaust og tóku þátt
í Jubilemus var norska tónskáldið og kór-
stjórinn Knut Nystedt. Hann var þá nýlega
orðinn hálfníræður, en lét það ekki aftra sér
frá að ferðast vítt og breitt um heiminn til að
stjórna verkum sínum. Nystedt er sannkall-
aður nestor í norsku tónlistarlífi og nýtur
óskoraðrar virðingar heima fyrir, en tónlist
hans, og þá sér í lagi kórtónlistin, er í háveg-
um höfð víða um lönd, ekki síst í Bandaríkj-
unum. Nystedt stofnaði og stjórnaði hinum
virta Norska einsöngvarakór frá 1950 til 1990
og 1964 setti hann á fót kammerkór við tón-
listardeild Háskólans í Osló og nefndi hann
Schola Cantorum. Íslenskur nafni þess kórs
mun flytja tvö verk eftir Nystedt á tónleikum
sínum á föstudaginn langa.
Miserere, op. 140, er samið árið 1993 fyrir
sextán raddir. Textinn er 51. sálmur Davíðs,
saminn „þá er Natan spámaður kom inn til
hans, eftir að hann hafði gengið inn til Bats-
ebu“. Þessi iðrunarsálmur tengist dymbilviku
og við hann eru til ótal tónsetningar. Frægust
er án efa níu radda útgáfa Gregorios Allegris,
sem Mozart heyrði unglingur að aldri í Sixt-
insku kapellunni og skrifaði upp eftir minni.
Nystedt hefur vafalaust að nokkru leyti haft
þessa þekktu tónsmíð til hliðsjónar þegar
hann samdi verk sitt. Fyrstu orðin eru sungin
við gregorsstef, sem gengur aftur hvað eftir
annað í verkinu, jafnt í upphaflegri mynd sem
í ótal öðrum útfærslum. Nystedt byggir upp
gríðarlega tjáningarfulla tónaklasa með því
að láta söngvarana koma inn hvern á fætur
öðrum í hermiröddun. Þessi tónsmíð nær
fyrst fullum áhrifum þegar á hana er hlýtt í
kirkju með mikilli enduróman, þar sem
söngvararnir hafa raðað sér upp í einfalda
bogadregna röð.
Seinna verkið eftir Nystedt var samið árið
1977 við ljóðið O Crux splendidior eftir ítalskt
sjöttu aldar skáld sem bar hið hljómfagra
nafn Venantius Honorius Clementianus Fort-
unatus. Þetta er tignun hins heilaga og bless-
aða kross, sem sagður er skína skærar en
stjörnurnar. Tónmál Nystedts er sannarlega
ljómandi. Hér sýnir hann eins og víðar fram á
einstakan hæfileika sinn til að móta persónu-
legan stíl úr góðum og gildum aðferðum lið-
inna alda og nýstárlegri stílbrögðum síðustu
áratuga.
Einbeitir sér að
gamalli tónlist
Kjell Mørk Karlsen er annar athyglisverð-
ur fulltrúi norskrar tónlistar. Hann er fædd-
ur árið 1947 og á að baki afar fjölbreyttan fer-
il. Hann hefur leikið á óbó í hljómsveitum í
Svíþjóð og Noregi, stjórnað og leikið á blokk-
flautu með hópi sem einbeitti sér að gamalli
tónlist og starfað sem organisti og kórstjóri
m.a. við dómkirkjurnar í Tønsberg og Staf-
angri. Þekktastur er hann þó fyrir tónsmíðar
sínar, sem eru margar og margvíslegar og
víða fluttar, ekki síst orgelverk hans, mót-
ettur og óratóríur. Stíll Karlsens er byggður
á klassískum grunni, en eins og Nystedt nýtir
hann sér hugmyndir seinni tíma af kostgæfni.
Þess má geta að ein af orgelsinfóníum hans,
Sinfonia arctandriae, var tileinkuð Herði Ás-
kelssyni. Fyrir stuttu sendi Karlsen Herði
fimm nýsamda latneska söngva. Þetta reynd-
ust vera hin athyglisverðustu stykki og tvö
þeirra, Tantum ergo og Ave verum corpus,
verða því flutt á tónleikunum í næstu viku.
Hinn margtónsetti texti Tantum ergo er í
raun síðasti hluti altarisgöngusálmsins
Pange lingua gloriosi eftir Tómas frá Aquino
(1225?–1274) og er sunginn við blessun kvöld-
máltíðarsakramentisins. Ave verum corpus
er annar altarisgönguhymni og hefur verið
eignaður Innosentíusi páfa sjötta, sem lést
1362. Textinn á vel við á langafrjádegi: líkami
Krists, blóðugur á krossinum, er ávarpaður
af miklum innileik.
Morgunblaðið/Jim Smart
Hörður Áskelsson stjórnandi laðar sönginn fram á æfingu.
Hluti kórfélaga á æfingu í Hallgrímskirkju.Schola Cantorum, kammerkór Hallgrímskirkju.
MYRKUR
IÐRUNAR
Að kvöldi föstudagsins langa kl. 21 flytur Schola cant-
orum sex responsóríur fyrir aðfangadag páska eftir
endurreisnarmeistarann Carlo Gesualdo, fursta af Ve-
nosa (u.þ.b. 1561–1613), í Hallgrímskirkju. HALL-
DÓR HAUKSSON fjallar um Gesualdo sem skipaði
meðal annars fyrir um morð á eiginkonu sinni.
Höfundur er útvarpsmaður.