Pressan - 09.11.1989, Blaðsíða 16

Pressan - 09.11.1989, Blaðsíða 16
16 Fimmtudagur 9: nóv. 1989 sjúkdómar og fólk Heldurdu nokkuð, að ég sé alkóhólisti? Hún Rósa, skólasystir mín úr Laugarnesskólanum, taiaði við mig um daginn út af Páii manninum sín- um. Ég vissi að hún var gift, vann í einhverjum banka og átti 2 eða 3 börn. Maðurinn hennar var hátt- settur á einhverri skrifstofu og ég hafði hitt hann nokkrum sinnum með Rósu. Páll var nokkrum árum eldri en Rósa, feitlaginn og bros- mildur, meðlimur í Lyons og þótti liðtækur við Ijósaperusölu og alls konar safnanir til góðgerðarstarf- semi. Við hittumst einu sinni á mál- verkasýningu og þar virtist hann illa haldinn, rauður og þrútinn með bauga undir augunum. Listamaður- inn veitti freyðivín og Páll drakk mikið. Hann stóð í salnum miðjum svo þjónustustúlkurnar urðu sífellt að fara framhjá honum, þegar þær komu með freyðivínið á bakka. Hann teygði sig þá sífellt í ný glös og var áður en varði orðinn vel kennd- ur og hinn hressasti. Hann talaði hátt og kastaði fram blautlegum stökum eftir afa sinn, Jón hagyrðing bónda í Stóra-Hvammi. Rósa varð þá mjög óróleg og reyndi að láta sem minnst á sér bera meðan mað- ur hennar hafði sem hæst. Nokkru síðar hitti ég þau aftur í boði og sama var upp á teningnum; Páll drakk mikið og varð ölvaður, svo mig var farið að gruna, að hann gæti mögulega átt við áfengis- vandamál að stríða. Hjálparbeiöni — Geturðu talað við hann Pál fyr- ir mig? spurði Rósa þegar hún hringdi. — Af hverju? sagði ég. — Hann er farinn að drekka svo mikið, að ég er alveg að gefast upp. Þetta er farið að hafa áhrif á okkur öll. Hann drekkur um hverja helgi og stund- um í miðri viku og eftir að bjórinn kom er þetta miklu verra en áður. — Heldurðu að hann vilji tala við mig? sagði ég. — Já, hann vill það, sagði Rósa og við ákváðum að hittast dag- inn eftir. Páll kom á tilsettum tíma og var hress að vanda. Hann var þokkalega klæddur fallegum, ljós- teinóttum jakkafötum, blárri, frem- ur slitinni skyrtu og Ijótu, litlausu polyester-slifsi. — Þú vildir tala við mig, sagði hann, en ég get sagt þér fyrirfram, að ég er enginn alkóhól- isti eins og hún Rósa heldur fram. Ég smakka vín, en þetta er ekkert vandamál hjá mér. Ég hef t.d. aldrei misst úr vinnu vegna drykkju en í mínum huga er það aðaleinkenni alkóhólisma. Ég drekk eins og hver annar, bætti hann við. — Jæja, sagði ég, en ertu tilbúinn að svara nokkr- um spurningum á milli okkar tveggja, þar sem þú íhugar eftir bestu samvisku, hvernig drykkjan er? Þú færð stig fyrir svörin og svo metum við ástandið út frá því. — Ég er til í það, sagði Páll. Spurningarnar: 1. Hefurðu einhvern tímann ákveðið að hætta að drekka í að minnsta kosti eina viku og mistekist? Páll hugsaði sig um og sagði svo: — Já, mér hef- ur mistekist það nokkrum sinn- um. — Svo þú hefur reynt að hætta, þó drykkjan sé ekkert vandamál, sagði ég. — Já, ég var orðinn leiður á röflinu heima, lofaði þeim bindindi en mistókst, sagði Páll og brosti. 2. Verðurðu reiður, þegar ein- hver reynir að ræða það við þig, að þú drekkir of mikið og vill ráðleggja þér eitt- hvað í þeim efnum? — Já, sagði Páll, hvort ég geri, ég þoli bara alls ekki þegar Rósa er að gagnrýna drykkjuna hjá mér. 3. Hefurðu einhvern tímann reynt að stjórna drykkjunni með því að skipta um vínteg- undir, farið úr ^sterkum drykkjum yfir í létt vín eða í bjór? — Já, sagði Páll, ekki get ég neitað því, ég hef reynt að stjórna drykkjunni með því að fara yfir í veikari sortirnar og núna síðast í bjórinn. 4. Hefurðu fengið þér afrétt- ara síðasta árið? — Já, sagði Páll, ekki get ég neitað því; þegar við hjónin vorum á Spáni í sumar fékk ég mér allt- af bjór í morgunsárið. Stundum fæ ég mér einn á sunnudags- morgnum, áður en ég fer á fæt- ur. En á að telja einn bjór afrétt- ara? — Já, sagði ég. 5. Öfundarðu þá sem geta drukkið án þess að lenda nokkurn tímann í vandræð- um? — Já, sagði Páll, ég hálföf- unda þá, sem alltaf halda haus og verða aldrei of fullir og muna allt sem gerist. 6. Hefur drykkjan aukist á síð- asta ári? — Nei, sagði Páll, drykkjan er eiginlega alltaf sú Sama. — Annað segir Rósa, sagði ég. Hann svaraði engu, en virtist brugðið. 7. Hefur drykkjan skapað ein- hver vandamál heima fyrir? — Já, sagði Páll, þú veist það. Rósa talaði við þig, við erum alltaf að rífast út af þessu og hún hefur hvaö eftir annað sett mér afarkosti. Svo eru krakk- arnir farnir að agnúast út af þessu líka. 8. Þegar þú ert í veislum, þar sem lítið er að drekka, reyn- irðu þá að verða þér úti um aukadrykk? — Það held ég ekki, sagði Páll — Annað sýnd- ist mér á málverkasýningunni um daginn, þar sem þú sast fyr- ir gengilbeinunum og reyndir til hins ýtrasta að verða þér úti um aukadrykki, sagði ég. 9. Hefur þig vantað í vinnu vegna drykkju á síðasta ári? — Nei, sagði Páll. — Alveg viss? sagði ég. — Já, ég hef kannski mætt of seint eða lengt eitt- hvað matartímann vegna drykkju, en það kemur ekki oft fyrir. Einu sinni tilkynnti ég mig veikan eftir fyllerí. — Svo svarið er já, sagði ég. 10. Hefurðu einhvern tímann fengið óminni eða „blakk- át“ eftir drykkju? — Já, oft sagði Páll. Stundum man ég eiginlega ekki neitt eftir gott fyllerí. 11. Hefur þér einhvern tímann fundist, að líf þitt yrði betra og skemmtilegra ef þú drykkir ekki? — Kannski, sagði Páll, en þó veit ég það ekki, mér finnst gaman að fá mér í glas, verst að geta illa stjórnað því. Ætli svarið sé ekki já. 12. Geturðu hætt að drekka hvenær sem þú vilt eftir kannski 2—3 sjússa? — Nei, sagði Páll, ég á afskaplega erfitt með það. Yfirleitt held ég áfram að drekka meðan eitt- hvað er til. 13. Færðu stundum sektar- kennd eftir drykkju? — Já, oft, sagði Páll, sérstaklega ef eitthvað hefur komið upp á milli okkar Rósu. 14. Hefurðu misst vini vegna drykkjunnar, eða lent í slagsmálum drukkinn? — Já, það hefur komið fyrir, sagði Páll, alvarlegur í bragði. 15. Hefurðu einhvern tímann lent í útistöðum við lögreglu vegna drykkju? — Já, einu sinni, sagði Páll, þegar ég var tekinn fyrir ölvun við akstur. Nidurstaöan — Jæja, sagði ég, þegar þetta er tekið saman, þá svarar þú 13—14 sinnum með jái. Samkvæmt því er þetta talsvert vandamál. Páll sagði hugsi: — En ég hef aldrei misst neitt teljandi úr vinnu vegna drykkju. — Nei, sagði ég, en það er kannski ekki aðalmálið, oftsinnis kemur drykkjan síðast niður á vinnunni. — Ég er ekki tilbúinn að fara í meðferð sagði Páll. — Nei, en við skulum ræða betur næst hvað hægt er að gera, og það er stórt skref fram á við, ef þú áttar þig á vandamálinu. Ef menn svara þessum spurningum oftar en 3svar sinnum með jái er um alvarlegt vandamál að ræða. Við kvöddumst en ákváðum að hittast aftur eftir nokkra daga og ræða að- gerðir. pressupenni Brostin klakabönd Hún er stundum með ólíkindum þessi stjórnmálaumræða hérlendis. Það er annaðhvort í ökkla eða eyra. Sumir mikilvægir málaflokkar fá nákvæmlega enga umræðu á þingi og/eða í fjölmiðlum mánuðum sam- an, en svo skyndilega eins og hendi væri veifað snýst allt á hvolf og eng- inn er maður með mönnum nema hann hafi geislandi áhuga á við- komandi málefni. Þá er eins og hafi brostið klakabönd. Gott dæmi um þetta er yfirstand- andi hávaðasöm og á köflum ákaf- lega grunnhyggin umræða um skipasmíðaiðnaðinn hér á landi. Og það er gamla sagan: fjöldauppsagn- ir í tilteknu fyrirtæki í ákveðnu kjör- dæmi setja þingmenn viðkomandi kjördæmis á haus. Þeir æða út um allar koppagrundir og vilja lausn á málinu á borðið ekki seinna en í gær. Utandagskrárumræður í löng- um bunum og starfsmannafundir, blandaðir sterku fjölmiðlafári, eru þá réttir dagsins. Og „uppleggið" er ákaflega skýrt: það nálgast pólitískt sjálfsmorð í þessu andrúmslofti að leggjast á nokkurn hátt á móti „taf- arlausri lausn málsins og viðeigandi ráðstöfunum til að skapa fyrirtækj- um í skipasmíðaiðnaðinum rekstr- argrundvöll", eins og þetta er gjarn- an orðað. Áður en lengra er haldið í þessum hugleiðingum er rétt að undirstrika, að ég er á engan hátt að gera lítið úr víðtækum og margháttuðum vanda skipasmiðaiðnaðarins. Þvert á móti myndi ég sennilega ekki hegða mér á neinn hátt öðruvísi en þingmenn Norðurlandskjördæmis eystra, þeg- ar Slippstöðin sagði upp fólki, eða þingmenn Reykjaness þegar Stálvík og Skipaión hafa dregið saman segl- in. Það er ekki málið. Hitt geri ég hér að umtalsefni, hversu pólitísk umræða hérlendis er í raun óþrosk- uð og í formi stökkbreytinga, en ekki upplýsinga, málefnaleg stig- vaxandi umræða um vandamál nú- tíðar og framtíðar, hvort heldur það er skipasmíðaiðnaðurinn, sjávarút- vegurinn eða aðrir málaflokkar, sem í hlut eiga. Og þannig mætti rekja dæmin úr íslenskri stjórnmála- og fjölmiðla- umræðu. Nærtækt væri einnig að nefna þá hlífðarlausu og ómálefna- legu umræðu um svonefnd „spill- ingarmál" stjórnmálamanna, sem tröllríða allri þjóðmálaumræðu. Það hvernig þessi hasarumræða blæs út annað veifið og gleypir í raun á sama tíma allar heiðarlegar tilraun- ir manna til að ræða vitræn, mál- efnaleg, mikilvæg framtíðarhags- munamál fólks í þessu landi er auð- vitað fjarri öllu lagi. Af fréttum síð- ustu mánaða mætti ætla að einhver Geir Haarde, sem mun víst hafa set- ið á þingi fyrir Sjálfstæðisflokkinn um skeið, hafi fundið upp spilling- una, þegar honum gafst tækifæri á því að gramsa í nótum og kvittunum inni í ríkisendurskoðun. Það er vit- anlega langur vegur frá því, að sú sé raunin. Meint spilling stjórnmála- manna hefur oftar en ekki verið um- fjöllunarefni stjórnmálamanna sjálfra og fréttahauka og nægir í því sambandi að nefna baráttu Vil- mundar heitins Gylfasonar í þeim efnum á áttunda áratugnum. Það sem hefur ef til vill breyst mest í þessari sjálfsögðu gagnrýnu um- ræðu er hvernig hún er nú miklu meira en áður persónugerð. Það á að vera óumdeilanlegt hlutverk fjöl- miðla, ríkisendurskoðunar og stjórnmálamanna, að fylgjast grannt með hugsanlegri spillingu í samfélagi okkar, jafnt hvort hún er í hinni opinberu stjórnsýslu, hjá hálf- opinberum fyrirtækjum eða einka- fyrirtækjum, sem mörg hver njóta margháttaðrar aðstoðar opinberra sjóða og stofnana, hvernig með fé og hlunnindi er farið. Ekki síður á þetta aðhald að beinast að einka- geiranum, því vissulega byggir hann ekki á loftinu einu, heldur á einn eða annan veg frá almenningi í þessu landi, í formi þjónustugjalda, vöruverðs eða annars. En það er vís- asti vegurinn til að gera þessa um- ræðu ómarkvissa og gagnslitla, þeg- ar einstaklingar eru eltir uppi dög- um og vikum saman og gagnrýn- endakórinn er ekki í rónni fyrr en viðkomandi einstaklingur er hala- klipptur, sviðinn og liggjandi mar- flatur fyrir allra fótum. Og þá gjarn- an snýst stóridómur almennings- álitsins upp í andstæðu sína og við- komandi einstaklingur fær samúð fólks í stórum stíl og gagnrýnis- verða athæfið, sem vafalítið var nauðsynlegt að taka á og koma í veg fyrir að endurtaki sig, er gleymt og grafið. Aðeins beðið eftir næsta máli, næsta fórnarlambi. Hver man lengur eftir ástæðu þess að Albert Guðmundsson, þá- verandi fjármálaráðherra, var knú- inn til afsagnar af núverandi for- manni Sjálfstæðisflokksins. Máls- ástæður í þeim farsa öllum saman- blika sennilega ekki skýrt í hugskoti fólks almennt. Hitt muna allir, að Al- bert Guðmundsson fékk slíka dæmalausa fjölmiðlaumfjöllun í því máli, að það gat ekki endað nema á einn veg. Nefnilega nákvæmlega þann, sem Albert Guðmundsson sagði fyrir um sjálfur, þegar hann sagði hvað eftir annað efnislega eitt- hvað á þessa leið. „Af hverju eru all- ir að ráðast á mig?“ Og eftir gegnd- arlausa umræðu endaði auðvitað málið þannig, að þúsundum saman spurðu landsmenn sig þess sama og svöruðu með samúðina í brjóstinu með því að leiða Albert til stórsigurs í kosningum, sem í hönd fóru. Með þessum almennu vangavelt- um um öfgarnar í pólitískri um- ræðu, og þar með fjölmiðlaumfjöll- un, er ekki verið að leiða einn né neinn til sektar. Spurningin er ein- faldlega sú hvort ekki sé affarasælla að gíra niður hamaganginn á stund- um og hafa umfjöllun einstakra mála og málaflokka lengri og jafn- ari, þannig að menn missi ekki sjón- ar á aðal- og aukaatriðum. Hafa skammtana jafnari og minni á hverj- um tíma. Auðvitað er þetta ekkert einfalt mál og auðveldara „um að tala en í að komast". Það þekki ég sjálfursem fyrrverandi blaðamaður, þegar „sprengimálin" koma upp. En er ekki ástæða til að velta þessu dálítið fyrir sér?

x

Pressan

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Pressan
https://timarit.is/publication/298

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.