Morgunblaðið - 03.05.2004, Blaðsíða 12

Morgunblaðið - 03.05.2004, Blaðsíða 12
Búðardalur | Stærsta bú í Dölum, Lyngbrekka á Fellsströnd, var með opið hús nýlega í tilefni af því að miklar breytingar hafa verið gerðar á fjós- inu en því hefur verið breytt í lausagöngufjós með mjaltabás. Á bænum búa hjónin Sigurður Björgvin Hansson og Bára Sigurðardóttir og stunda búskap ásamt syni sínum, Kristjáni, sem er í búfræðinámi á Hvanneyri. Þau hófu búskap á Lyngbrekku árið 1976 og eru nú á búinu 550 fjár og 50 mjólkandi kýr, sem gerir Lyngbrekkubúið að stærsta innleggjanda í Mjólkursamlagið í Búðardal. Fjósið er allt hið glæsilegasta, með fullkomnum mjaltabás og sjálf- gjafarkerfi, bæði fyrir hey og kjarnfóður. Fjósið er tölvuvætt og er hægt að lesa upplýsingar um gripina, bæði hvað þeir eta og nyt þeirra, í tölvu. Innréttingar, Weelink-fóðurkerfi og búnaður er frá Landstólpa ehf., súrkornabás og ISO- loftræstimænir er frá Vélavali í Varmahlíð, SAC- mjaltabás 2x5 og tveir tölvustýrðir kjarnfóður- básar eru frá Remfló. Sáu þeir feðgar að mestu leyti um að setja inn- réttingarnar upp sjálfir. Mjólkurkvótinn er 260 þús. lítrar og styrkir þetta bú stöðu Dalanna í mjólkurframleiðslu og býður aðstaðan upp á enn meiri stækkun. Framkvæmdin við fjósið hófst í febrúar í fyrra og kostaði alls um 17 miljónir, og breyttist meðal annars hlutverk hlöðu sem var byggð á bænum1979 og er hún nú hluti af fjós- inu. Þau hjónin segja þessar framkvæmdir lið í að bregðast við vaxandi samkeppni á mjólkurmark- aði og vona að mjólkursamningarnir verði bænd- um hagstæðir. Á sumrin rækta þau korn á u.þ.b. 15 hekturum lands og hafa þau keypt korn- þreskivél til kornskurðar fyrir sig og aðra korn- bændur í sveitinni. Ekki er þetta það eina sem þau hafa fyrir stafni, heldur á Bára fullkomið söðlasmíðaverk- stæði og framleiðir vörur undir merkinu Flugu- reiðtygi, sem eru bæði hnakkar, beisli og annað sem viðkemur hestamennsku. Einnig smíðar hún glímubelti, hundaólar o.fl. Þá er hún með umboð fyrir Vélar & þjónustu sem selja rúlluplast, garn, rúllunet, sáðvörur og ýmsar rekstrarvörur fyrir bændur. Þrír nýbornir kálfar, sem komu í heiminn þennan dag, glöddu augu gestanna. Sá er síðast fæddist er hundraðasti nautgripurinn á bænum. Ljósmynd/Helga H. Ágústsdóttir Í fjósinu: Bára Sigurðardóttir, Sigurður Björgvin Hansson og Kristján sonur þeirra í mjaltabásnum. Lausagöngufjós á stærsta búi í Dölum Fjölgun: 100. gripurinn nýkominn í heiminn. Akranes | „Eftir tíu ár ætla ég að vera fram- kvæmdastjóri á einhverjum virtum og stórum golfvelli,“ segir Bjarni Hannesson en hann heldur til Bandaríkjanna á næstu dögum þar sem hann mun dvelja í ár við nám og störf í golfvallafræðum. Bjarni, sem varð nýlega 23 ára gamall, hefur undanfarin þrjú ár stundað nám í golfvallafræðum við Elmwood-háskólann í skoska bænum Cupar, og hefur nú gert samn- ing um að dvelja vestanhafs í ár til þess að fræðast enn frekar um golfvelli og umhirðu þeirra. Bjarni er fæddur og uppalinn á Akra- nesi og hefur undanfarin 9 sumur unnið á golf- velli Leynismanna á Garðavelli en faðir hans Hannes Þorsteinsson, líffræðingur og golf- vallahönnuður, er hugmyndasmiðurinn á bak við skipulag Garðavallar. „Þessi þrjú ár í Skotlandi hafa verið ótrúlega fljót að líða. Ég bjó í bænum St. Andrews þar sem allt snýst um golfið og naut þeirra forrétt- inda sem íbúi bæjarins að fá að leika á völl- unum sem eru í eigu St. Andrews. Vellirnir eru í eigu bæjarins og þeir sem vilja geta keypt sér árskort á rúmar 13 þúsund kr. og til sam- anburðar greiða gestir um 13.000 kr. fyrir að leika einn hring á gamla vellinum á St. Andr- ews. Ég notaði því tækifærið vel og náði rúm- lega 30 hringjum á gamla vellinum, enda er ekki hægt að láta slíkt tækifæri fram hjá sér fara,“ segir Bjarni en hann er með 5 í forgjöf og byrjaði snemma að leika golf. „Annað var ekki hægt, mamma og pabbi eru á kafi í golfinu, afi minn og amma á Akranesi eru í hópi stofnenda Leynis, og þetta er því fjölskylduíþróttin hjá okkur,“ segir Bjarni en móðir hans og eiginkona Hannesar er Þórdís Artursdóttir, en Þorsteinn Þorvaldsson og Elín Hannesdóttir, foreldrar Hannesar, voru í hópi þeirra sem stofnuðu Leyni. Bjarni segir að hann hafi hug á því að nota menntun sína til þess að skoða heiminn og kynnast ólíkum vinnubrögðum við mismunandi aðstæður. „Ég byrja að vinna á velli rétt utan við Boston, en völlurinn er í einkaeigu og að- eins meðlimir Nashawtuc-klúbbsins mega leika á þeim velli. Í haust mun ég fara suður á bóginn í Bandaríkjunum og fer þá á heitara svæði, Flórída eða Texas, en það er ekki komið á hreint hvar ég enda. Það er gríðarlegur munur á vinnubrögðum á golfvöllum, og það er markmiðið hjá mér að nýta tækifærið vel, til þess að kynnast ólíkum vinnubrögðum og áherslum. Vonandi tekst mér að landa góðu starfi á þessu sviði í framtíð- inni en á meðan ég er ungur og ólofaður get ég leyft mér að ferðast um heiminn og vinna við það sem mér finnst skemmtilegast. Og það hjálpar einnig að geta leikið golf af og til við bestu aðstæður.“ Að mati Bjarna hafa íslenskir golfvellir tekið gríðarlegum framförum á undanförnum áratug og þeir bestu á Íslandi gefa völlum á Bret- landseyjum ekkert eftir í gæðum. „Það er óraunhæft að bera saman bestu velli heims og velli á Íslandi. Peningar skipta öllu máli í gæð- um valla, því meira fjármagn því betri vellir. En ég fullyrði að margir vellir í Skotlandi eru svipaðir að gæðum og bestu íslensku vellirnir. Enda hafa þeir sem sjá um vellina á Íslandi menntað sig í golfvallafræðum og náð tökum á þeim vandamálum sem glíma þarf við á hér á landi.“ Bjarni er ekki alltaf með hugann við grasið græna enda er hann meðlimur í hljómsveitinni worm is green, en sú hljómsveit er á samningi hjá útgáfufyrirtækinu Thule á Íslandi og síð- asta afurð sveitarinnar kemur út í Bandaríkj- unum 8. júní. „Ég verð að setja hljómsveitina á ís næsta árið, en ég á svo mikið af tækjunum sem við notum að mér verður ekki sparkað formlega á næstunni. Ef vel gengur mun hljómsveitin leika í Bandaríkjunum á næstu misserum og ég fæ kannski að vera með á ný,“ segir Bjarni en hann titlar sig sem alheims- reddara í hljómsveitinni, sér um tölvuforritun og annað sem fylgir bandi sem leikur raftónlist. Morgunblaðið/Sigurður Elvar Golf er fjölskylduíþrótt hjá Bjarna Hannes- syni og hans fólki og nú stefnir hann á frek- ara nám í golfvallafræðum. Lífið snýst að mestu um golf hjá Skagamanninum Bjarna Hannessyni Miklar framfarir undanfarin ár á íslenskum golfvöllum MINNSTAÐUR | VESTURLAND 12 MÁNUDAGUR 3. MAÍ 2004 MORGUNBLAÐIÐ …með allt á einum stað ÍS LE N SK A A U G L SI N G A ST O FA N /S IA .I S K RI 2 39 07 04 /2 00 4 Kokkabókastatíf Verð 3.990 kr. Klapparstíg 44 Sími 562 3614 Litir: Svart, blátt, grænt, grátt Nýtt! drapplitur

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.