Morgunblaðið - 06.05.2004, Side 26
LISTIR
26 FIMMTUDAGUR 6. MAÍ 2004 MORGUNBLAÐIÐ
BARSELÓNA skipar veigamikinn
sess í þróun nútímalistar, skartar t.d.
listamönnum eins og Salvador Dali,
Juan Miro, Antoni Tápíes og Pablo
Picasso sem m.a. hélt sína fyrstu sýn-
ingu þar árið 1900. Er óhætt að segja
borgina einhverja þá mikilvægustu
fyrir myndlistina í upphafi módern-
ismans, þá auðvitað á eftir París.
Spánn var hlutlaus í fyrri heimsstyrj-
öldinni og sóttu margir listamenn því
hæli í Barselóna, Má þar nefna
Francis Picabia sem kynnti Dada-
stefnuna fyrir borgarbúum og gaf þar
út Dada-tímaritið 391. Hefð hefur svo
skapast hjá listamönnum borgarinnar
fyrir hugmyndalegri nálgun við
listina sem margir vilja meina að sé
helsti styrkur katalónskra listamanna
í dag.
David G. Torres er einmitt þeirrar
skoðunar en hann er sýningarstjóri á
yfirstandandi sýningu sjö listamanna
frá Barselóna í vestursal Kjarval-
staða – Listasafns Reykjavíkur. Með
sýningunni leitast hann við að skil-
greina samband á milli listar og hugs-
unar og velur þar með listamenn sem
á ólíkan hátt sækja í arf hugmynda-
listar eða konseptlistar. Listamenn-
irnir sjö heita Martí Anson, Ignasi
Aballí, Carles Congost, Antonio Ort-
ega, Mabel Palacín, Daniel Chust
Peters og Tere Recarens og hafa þau
verið að skapa sér nafn í heimalandi
sínu og víðar.
Sýningin ber heitið „Litið lengra –
Horft í gegn“ og kemur hingað sem
skiptisýning. Í hennar stað sendi
Listasafn Reykjavíkur sýningu á
verkum nokkurra íslenskra lista-
manna til La Capella í Barselóna.
Skondin skiptisýning
Gamansemi er ríkjandi á sýning-
unni. Leiktími Martí Ansons er t.d.
þrælskoplegt myndband um hvers-
dagsleikann í anda gamalla farsa eða
Warner Bros teiknimynda, skjámynd
Daniels Chust Peters af lítilli eftir-
mynd af vinnustofu sinni kitlar mig
einnig í magann og jafnvel „mistök“
Ignasis Abullís eru á sinn hátt skond-
in útfærsla á mínimal-konseptlist síð-
ustu aldar. Helst er það þó söngleikur
Carles Congost sem mér finnst hitta í
mark. Þetta er stuttur heimatilbúinn
söngleikur í „80́s“ stíl sem fjallar um
ungan og efnilegan knattspyrnumann
sem er ginntur af listagyðjunum og
gerist vídeólistamaður, vinum sínum
og vandamönnum til mikillar niður-
lægingar. Congost er þarna að hnýta í
spænsku þjóðarsálina en knattspyrna
er gríðarlega mikilvæg þar í landi og
þá sérstaklega í Barselóna. Congost
spilar líka vel á söngleikjaformið með
tilheyrandi óperu-innslagi í anda Ro-
gers/Kern og Hammerstein, s.s. So-
uth Pacific eða Show Boat, þegar hinn
þjáði vinnumaður, ýmist bassi eða
mezzosópran, tekur blúsinn sinn. Í
söngleik Congost er það andi hins
þjáða og goðsagnakennda listamanns
sem fussar yfir tískubylgju vídeólist-
ar og minnist dagana þegar hann
drap dýr til að búa sér til striga, mal-
aði litaduft úr villtum blómum og át
skít til að seðja hungrið.
Í heildina er þetta forvitnileg og
skemmtileg sýning þótt ekki sé um
stórviðburð að ræða. Þykir mér því
merkilegt miðað við þá umræðu sem
hér hefur verið um nauðsyn þess að
hafa alþjóðlegar sýningar á Íslandi til
að fá réttan samanburð á íslenska
samtímalist, að sýningin virðist ger-
samlega hverfa í sýningarflóru
Reykjavíkur. Algert áhugaleysi er
um hana, meira að segja af hálfu að-
standenda Listasafns Reykjavíkur,
að mér sýnist, en ekkert er gert til að
kynna eða auglýsa sýninguna né lista-
mennina annars staðar en á heima-
síðu listasafnsins. Mætti því halda að
hér sé ómerkileg skiptisýning á ferð
sem safnið tók við til að geta sent ís-
lenska listamenn til Spánar. Kannski
er það líka viðhorfið sem ríkir. En
raunin er samt önnur. Hér er verið að
bjóða upp á ágætt sýnishorn af því
sem ungir listamenn eru að fást við
sunnan hafs. Carles Congost, sem
dæmi, er myndlistarmaður og popp-
ari og má líkja stöðu hans í spænskum
listheimi við stöðu Egils Sæbjörns-
sonar í þeim íslenska, nema að Spán-
verjar eru jú 48 milljónum fleiri en Ís-
lendingar.
Frá hinu holdlega
til hins guðdómlega
Á ganginum á Kjarvalstöðum sýnir
Erla Þórarinsdóttir 8 málverk undir
heitinu „Corpus lucis sensitivus“ eða
„Hinn ljósnæmi líkami“. Fæst Erla
við málverkið sem áþreifanlegan lík-
ama í sjálfu sér, sem var algengt við-
horf til málverka í upphafi abstrakt
expressjónismans um og eftir síðari
heimsstyrjöldina. Verkin eru unnin
með línolíu, litadufti og silfri. Hefur
efnablöndunin ásamt birtu sólar þau
áhrif að silfrið gulnar og tekur að líkj-
ast gulli. Að þessu leyti er Erla komin
á svið gullgerðarlistar (alchemy) sem
voru vinsæl vísindi á tímum endur-
reisnarinnar. Var þá gull álitið guð-
dómlegt efni og vildu gullgerðarlista-
menn eða alkemistar breyta ódýrum
málmum í gull og færa þannig óhreint
efni á æðra stig. Erla breytir auðvitað
ekki línoliu, litadufti og silfri í gull.
Eðli þessara efna helst óbreytt í
myndunum, en myndlíkingin og sam-
hengið breytir merkingu þeirra og
upplifun okkar á þeim. Að þessu leyti
færir listakonan efnið á annað stig,
hvort sem menn vilja svo kalla það
æðra eða ekki.
Hvað málverkin varðar er hver
mynd sjálfstætt verk en saman skapa
þær samtal á milli hins dýrslega og
hins guðdómlega sem gefur sýning-
unni aukið gildi. Hafði ég talsverða
ánægju af að lesa í og túlka tákn-
myndirnar sem Erla notar til að
skapa þetta samtal. Í fyrsta málverk-
inu í myndröðinni notast listakonan
við blóðrauðan lekandi lit og horn sem
er táknmynd Díonýsíusar eða hins
dýrslega og holdlega. Síðasta mál-
verkið í röðinni er í tærum litum með
auga á miðjum fletinum sem vænt-
anlega táknar hinn alsjáandi guð eða
hreina vitund. Þar á milli á sér svo
stað ferli frá hinu dýrslega til hins
guðdómlega, sem t.d. birtist í tákn-
myndum eins og valentínusarhjarta
(táknmynd ástar manns og konu),
klukkuformi (sem merkir guðdómleg-
an eða tæran hljóm sem fælir frá hið
díonýsíska) og englavængjum, en
englar eru guðdómlegar verur sem
samkvæmt gamla testamentinu
missa vængi sína og guðdómleika ef
þeir hafa mök við jarðneskar konur.
Þetta er semsagt vel hugsuð sýning
hjá Erlu og fer nú hver að verða síð-
astur að sjá hana, eins og sýningu
Börsunganna, en báðum sýningunum
lýkur á sunnudaginn kemur.
MYNDLIST
Listasafn Reykjavíkur –
Kjarvalsstaðir
Safnið er opið alla daga frá 10–17.
Sýningunum lýkur 9. maí.
VESTURSALUR – SJÖ LISTAMENN
FRÁ BARSELÓNA
GANGUR – ERLA ÞÓRARINSDÓTTIR
Jón B. K. Ransu
Vængir Gabríels á sýningu Erlu Þórarinsdóttur, Corpus lucis sensitivus.
Daniel Chust Peters beinir upptökuvél á litla gull-eftirgerð af vinnustofu
sinni og varpar myndinni á vegg.
Knattspyrnumaðurinn efnilegi ákveður að snúa sér að vídeólist í söngleik
Carles Congost, Ákveðin dulúð, sem sýndur er á Kjarvalsstöðum.
Spænsk fyndni,
íslensk alvara
JÓRUKÓRINN á Selfossi heldur
sína árlegu vortónleika í Hvíta hús-
inu við Hrísmýri á Selfossi. Tónleik-
arnir verða tvennir að þessu sinni.
Hinir fyrri verða á morgun, fimmtu-
dag, en hinir síðari á sunnudag.
Hvorir tveggja tónleikarnir verða kl.
20.30.
Að þessu sinni er kórinn með eins
konar þematónleika því meginvið-
fangsefni kórsins í vetur hefur verið
tónlist sem fjallar um hinar ýmsu
hliðar ástarinnar.
Stjórnandi kórsins er Helena
Káradóttir og undirleikari er Þór-
laug Bjarnadóttir. Auk Þórlaugar
leika með kórnum Smári Kristjáns-
son á bassa, Jóhann Stefánsson á
trompet og Petra Sigurðardóttir á
þverflautu.
Jórukórinn
syngur
um ástina
SKAGFIRSKA söngsveitin í Reykja-
vík heldur tvenna tónleika á þessu
vori, að þessu sinni í Langholtskirkju
kl. 20 í kvöld, fimmtudagskvöld, og kl.
17 á laugardag. Í vor eru 20 ár síðan
Björgvin Þ. Valdimarsson stjórnaði
sínum fyrstu tónleikum með Skag-
firsku söngsveitinni, en hann tók við
söngstjórninni af Snæbjörgu Snæ-
bjarnardóttur haustið 1983. Björgvin
og söngsveitin hafa átt farsælt sam-
starf og hefur sveitin frumflutt fjölda
laga hans, sem mörg hver prýða nú
söngskrá annarra kóra.
Söngskráin nú tekur að nokkru
mið af því að kórinn er að fara í söng-
ferð til Kanada í sumar. Á efnis-
skránni eru íslensk þjóðlög, sönglög
eftir íslensk tónskáld auk sönglaga-
syrpu eftir Björgvin Þ. Valdimars-
son. Björgvin hefur í tilefni Kanada-
ferðarinnar samið lag við kvæði
Stephans G. Stephanssonar, Við
verkalok, og verður það frumflutt á
tónleikunum. Af erlendum verkum
ber hæst kafla úr sköpuninni eftir Jo-
seph Haydn. Einsöng með kórnum
syngur Kristín R. Sigurðardóttir og
kórfélagarnir Ragna Bjarnadóttir,
Guðmundur Sigurðsson, Magnús
Sigurjónsson og Baldvin Júlíusson.
Undirleikari er Dagný Björgvins-
dóttir.
Skagfirska
söngsveitin
Mokka, Skólavörðustíg Gunnar
Scheving Thorsteinsson sýnir mál-
verk til 6. júní. Á sýningunni bregð-
ur fyrir ýmsu mektarfólki, leiðtog-
um og stórstjörnum.
Félagsheimilið á Hvammstanga
kl. 20.30 Raddbandafélag Reykja-
víkur á tónleikum á Hvammstanga.
flytur tónlist úr ýmsum áttum, m.a.
íslensk þjóðlög og sönglög, erlend
þjóðlög í ýmsum búningi, barbers-
hop lög og erlend dægurlög. Radd-
bandafélagið var stofnað fyrir rúmu
ári og í því starfa nú fjórtán söng-
menn. Stjórnandi Raddbandafélags
Reykjavíkur er Sigrún Grendal.
Tónleikarnir eru liður í tónleikaröð
Tónlistarfélags Vestur-Húnvetn-
inga.
Í DAG
♦♦♦
Frábærar, fjörugar og fjölbreyttar
ævintýraferðir fyrir útskriftarhópa
og alla sem vilja upplifa ævintýr
Upplýsingar í síma 562-7700
www.travel-2.is
1 4 4 4
w w w. g u l a l i n a n . i s